Hoppa yfir valmynd
9. júní 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ástand og þróun umhverfismála á Íslandi á árinu 1997

Skýrsla um ástand
og þróun umhverfismála
á Íslandi á árinu

1997


Gefin út skv. 9. gr. laga nr. 21/1993
Efnisyfirlit

1. Ný lög um umhverfismál 1997
1.1. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997
1.2. Lög nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð
1.3. Lög nr. 81/1997 um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar
1.4. Lög nr. 49/1997 um snjóflóð og skriðuföll
1.5 Reglugerðir

2. Breytingar á stofnunum og málaflokkum ráðuneytisins
2.1. Brunamál til umhverfisráðuneytis
2.2. Breytingar á skipulagi náttúruverndarmála

3. Af starfi ráðuneytisins
3.1. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi - framkvæmdaáætlun
3.2.Umhverfisstefna í ríkisrekstri
3.3. Ráðstefna um umhverfisstefnu sveitarfélaga
3.4. Tillaga að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands
3.5.Framkvæmdaáætlun um ofanflóðavarnir
3.6. Nefnd um mat á umhverfisáhrifum
3.7. Nefnd um friðun Geysis
3.8. Störf spilliefnanefndar
3.9. Strand Víkartinds
3.10. Kirkjubæjarstofa opnuð
3.11. Ráðgjafarnefnd vegna stóriðju í Hvalfirði
3.12. GLOBE-verkefni á Íslandi
3.13. Útgáfur á vegum ráðuneytisins

4 Alþjóðasamstarf
4.1. Kyoto-bókun um loftslagsbreytingar
4.2. Samningur um verndun NA-Atlantshafs fullgiltur
4.3. Samningur um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun fullgiltur
4.4. Fundur umhverfisnefndar S.þ.: Ávarp umhverfisráðherra
4.5. Tímamót á fundi CITES

5. Ísland og eyðing ósonlagsins
5.1. Þynning ósonlagsins
5.2. Ósoneyðing yfir Íslandi
5.3. Vínar-samningurinn og Montreal-bókunin
5.4. Framkvæmd Montreal-bókunarinnar á Íslandi
5.5. Ósoneyðandi efni og valkostir í stað þeirra


1. Ný lög um umhverfismál 1997

1.1. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997

Hinn 15. maí 1997 samþykkti Alþingi ný skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, sem taka við af skipulagslögum nr. 19/1964 og byggingarlögum nr. 54/1978. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 1998.

Skipulags- og byggingarmál eru svo samtengd að ástæðulaust var talið að greina þau að í tvennum lögum, en sameining þeirra í einum lögum horfir til einföldunar í meðferð skipulags- og byggingarmála. Meðal annarra helstu breytinga frá fyrri lögum má nefna að frumkvæði sveitarfélaga er aukið mjög. Þá eru skilgreind mismunandi stig skipulagsáætlana: Landsskipulag, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Frumkvæði skipulags (aðal- og deiliskipulags) er flutt til sveitarfélaga frá skipulagsstjórn ríkisins. Hér eftir verður aðalskipulag og deiliskipulag skylda hvers sveitarfélags og er frestur til 2007 til að ganga frá aðalskipulagi.

Með lögunum er embætti skipulagsstjóra ríkisins lagt niður, en þess í stað kemur ný stofnun, Skipulagsstofnun. Hlutverk hennar felst m.a. í eftirliti með framkvæmd laganna, ráðgjöf til sveitarstjórna og ríkisvaldsins um skipulags- og byggingarmál og að láta í té umsagnir um ágreiningsmál. Þá var skipulagsstjórn ríkisins lögð niður og verkefni og hlutverk hennar flutt til sveitarfélaganna og að hluta til Skipulagsstofnunar. Sérstakri úrskurðarnefnd er ætlað að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum og kærum í stað umhverfisráðherra. Engar undanþágur eru heimilaðar í lögunum.

1.2. Lög nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð

Hinn 13. maí 1997 samþykkti Alþingi lög um landmælingar og kortagerð nr. 95/1997, sem öðluðust gildi 1. júlí 1997. Lögin kveða m.a. á um yfirstjórn umhverfisráðuneytisins yfir málaflokknum og um hlutverk Landmælinga Íslands sem stjórnsýslustofnunar. Verkefni Landmælinga eru skilgreind með ítarlegri hætti en áður og heimilað að gerðir verði samningar við aðra aðila um framkvæmd einstakra verkþátta og verkefna.

Þá er í lögunum kveðið á um höfunda-, afnota- og útgáfurétt ríkisins á því sem Landmælingar Íslands vinna. Heimild er til að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði kortagerðar og fjármögnun og gjaldskrárákvæði eru gerð skýrari.

Stjórn Landmælinga Íslands

Í samræmi við ákvæði nýrra laga um landmælingar og kortagerð skipaði Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra stjórn Landmælinga Íslands í nóvember 1997. Skipunartími stjórnarinnar var fram yfir næstu alþingiskosningar.

Formaður stjórnarinnar var skipaður Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu. Varamaður hans og varaformaður stjórnar er Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra. Auk þeirra eiga sæti í stjórninni:
Eyjólfur Árni Rafnsson, verkfræðingur,
til vara Orri Hauksson, aðstoðarmaður forsætisráðherra og
Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi,
til vara Guðný Rún Sigurðardóttir, rekstrarfræðingur, Akranesi.

Hlutverk stjórnarinnar er að móta stefnu stofnunarinnar og hafa eftirlit með því að hún gegni hlutverki sínu í samræmi við markmið laga. Stjórninni var að auki falið að annast undirbúning að flutningi Landmælinga Íslands frá Reykjavík til Akraness.

1.3. Lög nr. 81/1997 um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Hinn 13. maí 1997 samþykkti Alþingi lög um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar nr. 81/1997, en samkvæmt þeim er stofnunin ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra og samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða hér á landi. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er ætlað að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á því sviði. Stofnunin hefur aðsetur á Akureyri.

Sérstök samvinnunefnd um málefni norðurslóða á samkvæmt lögunum að leitast við að treysta og efla samstarf hlutaðeigandi aðila um rannsóknir á norðurslóðum og málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Formaður samvinnunefndarinnar er að auki formaður stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

Samvinnunefnd um málefni norðurslóða

Í kjölfar samþykktar laganna skipaði Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra Ólaf Halldórsson framkvæmdastjóra formann samvinnunefndar um málefni norðurslóða. Skipunartími nefndarinnnar er til 1. nóvember 2001.

Auk Ólafs eiga sæti í samvinnunefnd um málefni norðurslóða:

Elsa B. Friðfinnsdóttir, MS hjúkrunarfræðingur, sem jafnframt er varaformaður, skipuð án tilnefningar,
Kristín Aðalsteinsdóttir, uppeldisfræðingur, skipuð án tilnefningar,
Kristján Kristjánsson, sviðsstjóri, tilnefndur af Rannsóknarráði Íslands,
Steingrímur Jónsson, útibússtjóri, tilnefndur af Hafrannsóknastofnun,
Þorsteinn Gunnarsson, rektor, tilnefndur af Háskólanum á Akureyri,
Haraldur Ólafsson, prófessor, tilnefndur af Háskóla Íslands,
Davíð Egilson, forstöðumaður, tilnefndur af Hollustuvernd ríkisins,
Hörður Kristinsson, forstöðumaður, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands,
Þorsteinn Tómasson, forstjóri, tilnefndur af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og
Þór Jakobsson, veðurfræðingur, tilnefndur af Veðurstofu Íslands.

1.4. Lög nr. 49/1997 um snjóflóð og skriðuföll

Ný lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum voru samþykkt á Alþingi 23. maí 1997. Helstu nýmæli laganna eru að reglum um hættumat er nokkuð breytt þannig að skilgreint er hvað felast eigi í hættumati. Er gengið út frá því að ákveðin verði sú hætta af völdum ofanflóða sem ásættanlegt getur talist að fólk á byggðum svæðum búi við, með hliðsjón af annarri almannahættu sem fyrir hendi er í nútímaþjóðfélagi.

Áfram er byggt á þeirri tilhögun að Veðurstofan skuli gefa út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsa yfir hættuástandi sem lögreglustjóra og almannavarnanefnd er skylt að bregðast við með því að rýma hús á ákveðnum svæðum. Jafnframt er hnykkt á því að lögreglustjóri geti hvenær sem er, í samráði við almannavarnanefnd, ákveðið að rýma húsnæði þótt hættuástandi hafi ekki verið lýst yfir af hálfu Veðurstofunnar, auk þess sem heimilt er að fyrirskipa rýmingu á öðrum og stærri svæðum en fram koma á rýmingaruppdráttum. Ofanflóðasjóður færðist frá Viðlagatryggingu Íslands til umhverfisráðuneytisins og starfar sem sérstakur sjóður.

1.5 Reglugerðir

Hér verður ekki fjallað um allar þær reglugerðir, eða breytingar á eldri reglugerðum, sem settar voru í umhverfisráðuneytinu árið 1997, heldur einungis staldrað við efni nokkurra reglugerða, sem fela í sér nýmæli og ekki er fjallað um í öðrum köflum þessa rits.


Reglugerðir um erfðabreyttar lífverur

Umhverfisráðherra setti tvær reglugerðir um erfðabreyttar lífverur á árinu á grundvelli laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur. Annars vegar var um að ræða reglugerð nr. 330/1997 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, m.a. á rannsóknastofum, en hins vegar reglugerð nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera.

Síðari reglugerðin tekur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera út í umhverfið í þágu rannsókna og þróunar. Ennfremur gildir hún um markaðssetningu og innflutning erfðabreyttra lífvera að undangengnum rannsóknum og þróun, svo og vöru sem er að hluta eða öllu leyti úr erfðabreyttum lífverum og um eftirlit með ofangreindri starfsemi.

Hollustuvernd ríkisins fjallar um umsóknir og veitir leyfi til sleppingar og markaðssetningar erfðabreyttra lífvera og stjórnar eftirliti með starfsemi sem stofnunin hefur veitt leyfi fyrir. Óheimilt er að sleppa eða markaðssetja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda erfðabreyttar lífverur nema að fengnu skriflegu leyfi Hollustuverndar. Þeir sem hyggjast sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið skulu vinna áhættumat vegna sleppingarinnar og leggja það fram með umsókn um leyfi fyrir sleppingu.

Telji Hollustuvernd ríkisins að nægileg reynsla hafi fengist af því að sleppa erfðabreyttum lífverum, er stofnuninni heimilt að leggja fyrir fastanefnd og eftirlitsstofnun EFTA beiðni um einfaldari verklagsreglur við sleppingu á þeim lífverum. Einnig er hægt að sækja um einfaldari verklagsreglur við sleppingu erfðabreyttra fræplantna.

Ef fyrirhugað er að markaðssetja á Íslandi, í fyrsta sinn á Evrópska efnahagssvæðinu, erfðabreytta lífveru eða vöru sem inniheldur erfðabreyttar lífverur skal senda umsókn þess efnis til Hollustuverndar ríkisins. Ekki má hefja markaðssetningu án skriflegs leyfis Hollustuverndar. Sérstök ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur fjallar um umsóknir um markaðssetningu hér á landi og um aðrar umsóknir eins og ástæða þykir til hverju sinni. Þegar leyfi hefur verið veitt á Evrópska efnahagssvæðinu til markaðssetningar vöru sem inniheldur erfðabreytta lífveru má nota vöruna á öllu svæðinu án frekari umsókna að því tilskyldu að sérstökum skilyrðum um notkun hennar sé fylgt.

Reglugerð nr. 392/1997 um mjólk og mjólkurvörur

Í reglugerð nr. 392/1997 um mjólk og mjólkurvörur, eru fest í sessi ákvæði sem banna dreifingu á ógerilsneyddri mjólk og tilgreindar aðgerðir til þess að ná fram lækkun frumutölu í hrámjólk (frumutala er talning á hvítum blóðkornum í hrámjólk og há frumutala er vísbendingu um júgurbólgu). Því skal náð fram með auknum rannsóknum og breyttum reglum um flokkun mjólkur vegna frumutölu.

Með lækkaðri frumutölu opnast möguleikar á útflutningi á mjólkurvörum. Viðmiðunarreglur um gerlafjölda í hrámjólk eru hertar nokkuð og með reglugerðinni eru einnig lögfest ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði varðandi niðursneyddar og þurrkaðar mjólkurvörur. Eftirlit með framleiðslu og dreifingu verður skv. reglugerðinni í höndum færri aðila en verið hefur, þ.e.a.s. í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins.

Reglugerð nr. 499/1997 um dýrahald í atvinnuskyni

Samkvæmt reglugerð um dýrahald í atvinnuskyni, annað en búfjárhald, sem sett er á grundvelli laga nr. 15/1994 um dýrsavernd, þarf leyfi lögreglustjóra til hvers konar dýrahalds í atvinnuskyni, s.s. dýraverslunar, dýraleigu (hestaleigu), dýragæslu, ræktunar, dýrasýninga og reksturs dýraspítala. Undir ákvæði reglugerðarinnar fellur einnig starfsemi á borð við keppnismót, tamningastöðvar, einangrunarstöðvar, þjálfunarskóla, snyrtistofur fyrir dýr, dýraflutninga o.fl.

Í ákvæðum reglugerðarinnar er tilgreint hvernig aðbúnaði dýra, sem haldin eru í atvinnuskyni og ekki falla undir lög um búfjárhald, skuli háttað. Eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar er í höndum lögreglustjóra.

Reglugerð nr. 571/1997 um rafhlöður og rafgeyma

Umhverfisráðuneytið gaf út á árinu reglugerð um rafhlöður og rafgeyma, sem á m.a. að hvetja neytendur til að nota rafhlöður án hættulegra efna. Reglugerðin nær til rafhlaðna og rafgeyma sem í eru þungmálmarnir kadmíum (Cd), kvikasilfur (Hg) og blý (Pb) og hefur að geyma ákvæði um takmarkanir á sölu, um merkingar, meðferð, endurvinnslu og förgun. Einnig er fjallað um tæki og búnað sem í eru rafhlöður.

Markmið reglugerðarinnar er m.a.: að draga úr magni þungmálma í rafhlöðum og rafgeymum og minnka þannig hættu sem stafar af þeim fyrir menn og umhverfi, að koma í veg fyrir að rafhlöður með hættulegum þungmálmum lendi í húsasorpi og hvetja til notkunar efna sem menga minna. Hingað til hafa ekki verið í gildi nein sérstök reglugerðarákvæði um merkingar og meðferð rafhlaðna og rafgeyma hér á landi.

Merkingar rafhlaðna og rafgeyma eiga að upplýsa almenning um innihald þeirra og förgun. Annars vegar er um að ræða merkingar með efnafræðitákni viðkomandi þungmálms og hins vegar merki sem sýnir að rafhlöðum eða rafgeymum eigi ekki að farga með húsasorpi. Slík ákvæði hafa verið í gildi í ríkjum Evrópusambandsins frá því í byrjun árs 1996.

Rafhlöður og rafgeymar með þungmálmum flokkast sem spilliefni eftir notkun og skal farga þeim í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar um förgun spilliefna. Almenningi ber að koma þeim til söfnunarstaða, t.d. bensínstöðva, ýmsra verslana og gámastöðva. Þeim er síðan skilað áfram til viðurkenndrar spilliefnamóttöku eða í endurvinnslu.


2. Breytingar á stofnunum og málaflokkum umhverfisráðuneytisins

2.1. Brunamál til umhverfisráðuneytis

Með breytingum á á lögum um brunavarnir og brunamál, sem samþykkt voru á Alþingi 1997, sbr. lög nr. 15/1997, var ákveðið að flytja yfirstjórn brunamála og málefni Brunamálastofnunar til umhverfisráðuneytisins, en þessi málaflokkur hafði verið á könnu félagsmálaráðuneytisins. Með þessum breytingum var yfirstjórn skipulags- og byggingarmála og brunamála færð á eina hendi.

2.2. Breytingar á skipulagi náttúruverndarmála

Ný stofnun, Náttúruvernd ríkisins, tók til starfa 1. janúar 1997. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra skipaði Aðalheiði Jóhannsdóttur, lögfræðing, forstjóra Náttúruverndar ríkisins til fimm ára að fengnum tillögum stjórnar hinnar nýju stofnunar. Hún hafði starfað sem framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs frá janúar 1994.

Á árinu 1996 samþykkti Alþingi ný lög um náttúruvernd, sem fólu einkum í sér breytingar á stjórnskipunarþætti fyrri náttúruverndarlaga frá 1971. Á grundvelli laganna tók Náttúruvernd ríkisins við flestum verkefnum Náttúruverndarráðs og daglegum rekstri, s.s. umsjón með þjóðgörðum og öðrum friðuðum svæðum. Náttúruverndarráð verður áfram starfandi, með breyttu hlutverki.

Í stjórn Náttúruverndar ríkisins eiga eftirfarandi sæti:

Sigmundur Guðbjarnason, prófessor, formaður, skipaður án tilnefningar.
Varamaður: Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.
Ása Lovísa Aradóttir, náttúrufræðingur, skipuð án tilnefningar.
Varamaður: Drífa Hjartardóttir, bóndi, Keldum.
Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri, skipuð án tilnefningar.
Varamaður: Helga Björk Eiríksdóttir, háskólanemi, Dalvík.
Arnþór Garðarsson, prófessor, skipaður skv. tilnefningu Náttúruverndarráðs.
Varamaður: Jóhanna B. Magnúsdóttir, ferðamálafulltrúi Skaftárhrepps.
Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, skipaður skv. tilnefningu samgönguráðherra.
Varamaður: Helga Haraldsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri.

Nýtt Náttúruverndarráð

Með nýjum náttúruverndarlögum urðu breytingar á hlutverki og skipan Náttúruverndarráðs. Ráðið var samkvæmt eldri lögum skipað sjö mönnum, sex kosnum á náttúruverndarþingi og formanni skipuðum án tilnefningar. Samkvæmt hinum nýju lögum er ráðið stjórnvöldum til ráðgjafar um náttúruverndarmál, en fer ekki með stjórnsýslu á vegum ríkisins. Er ráðinu ætlað að stuðla að almennri náttúruvernd og gangast fyrir ráðstefnum og opinni umræðu um þau mál. Ráðið skal nú skipað níu mönnum, þremur kosnum á náttúruverndarþingi, fimm samkvæmt tilnefningum og formanni án tilnefningar.

Á 9. náttúruverndarþingi voru eftirtaldir kosnir til setu sem aðalmenn í Náttúruverndarráði:

Guðmundur Páll Ólafsson, rithöfundur,
María Hildur Maack, líffræðingur og
Kári Kristjánsson, eftirlitsmaður.

Varamenn voru kosnir:

Gerður Stefánsdóttir, líffræðingur,
Þórhallur Þorsteinsson og
Þóranna Pálsdóttir, veðurfræðingur.

Aðrir í Náttúruverndarráði eru:

Ólöf Guðrún Valdimarsdóttir, arkitekt, formaður, skipuð án tilnefningar.
Varamaður: Páll Magnússon, nemi.
Eyþór Einarsson, grasafræðingur, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands. Varamaður: Erling Ólafsson, dýrafræðingur.
Gísli Már Gíslason, prófessor, tilnefndur af Háskóla Íslands.
Varamaður: Bryndís Brandsdóttir, jarðfræðingur.
Þóroddur F. Þóroddsson, náttúrufræðingur, tilnefndur af skipulagsstjóra ríkisins.
Varamaður: Hólmfríður Sigurðardóttir, náttúrufræðingur.
Jóhann D. Jónsson, ferðamálafulltrúi, Höfnum, tilnefndur af Ferðamálaráði Íslands.
Varamaður: Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi, Akureyri.
Hrafnkell Karlsson, bóndi, Hrauni, Ölfusi, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands.
Varamaður: Lilja Guðrún Eyþórsdóttir, ráðunautur, Vestra-Reyni.

3. Af starfi ráðuneytisins

3.1. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi - framkvæmdaáætlun

Ríkisstjórnin samþykkti á árinu að tillögu umhverfisráðherra framkvæmdaáætlun sem miðar að því að koma á sjálfbærri þróun í íslensku atvinnulífi og samfélagi á næstu árum. Áætluninni var dreift í prentuðu formi í ritinu "Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi - Framkvæmdaáætlun til aldamóta", en hún er einnig aðgengileg á heimasíðu umhverfisráðuneytisins.

Fjallað var um drög að áætluninni á umhverfisþingi, hinu fyrsta, sem umhverfisráðherra boðaði til og haldin var í nóvember 1996 og gerði þingið ýmsar breytingar á texta draganna. Ríkisstjórnin fjallaði síðan um drögin að framkvæmdaáætlunni að teknu tilliti til athugasemda umhverfisþings og samþykkti þau. Í framkvæmdaáætluninni er að finna yfir 200 ákvæði um aðgerðir sem eiga að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í mörgum helstu atvinnuvegum Íslendinga, auk byggðaþróunar og í fræðslu. Sumar tillögurnar snúa að umhverfisráðuneytinu, en aðrar að öðrum ráðuneytum og stofnunum, sveitarfélögum o.fl. Ætla má að víðtæk sátt ríki um tillögurnar í áætluninni, þar sem að smíði þeirra komu fulltrúar tuga stofnana og samtaka úr fjölmörgum geirum þjóðfélagsins og síðan var fjallað um þær af um 200 fulltrúum á umhverfisþingi.

Þar sem fjölmargir aðilar koma að framkvæmd tillagnanna mun umhverfisráðuneytið fylgjast með framkvæmd áætlunarinnar. Framkvæmdaáætlunin verður endurskoðuð af sérstakri nefnd sem mun fara yfir tillögurnar og meta hvernig miðað hefur með framkvæmdina og eftir atvikum verða gerðar tillögur um frekari aðgerðir til umhverfisráðherra.

Framkvæmdaáætlunin tekur mið af samþykktum Ríó-ráðstefnunnar um umhverfi og þróun árið 1992, þar sem þjóðir heims samþykktu að aðlaga þróun efnahagslífsins og samfélagsins sjónarmiðum umhverfisverndar undir merkjum sjálfbærrar þróunar. Margt hefur áunnist á Íslandi í umhverfismálum síðan Ríó-ráðstefnan var haldin, m.a. hefur orðið mikil breyting til batnaðar í sorphirðumálum og endurvinnsla úrgangs hefur aukist hröðum skrefum. Þá er sjálfbær nýting er lögð til grundvallar við stjórn veiða á þorski og fleiri nytjastofnum. Mikið starf er þó óunnið við að koma á sjálfbærri þróun á öllum sviðum íslensks samfélags. Framkvæmdaáætlunni er ætlað að vera leiðarvísir um hvernig hægt er vinna að því að innleiða sjálfbæra þróun á sem flestum sviðum á komandi árum.



3.2. Umhverfisstefna í ríkisrekstri

Ríkisstjórnin samþykkti á árinu, að tillögu Guðmundar Bjarnasonar, umhverfisráðherra, umhverfisstefnu í ríkisrekstri. Stefnan var gefin út og dreift í formi bæklings, auk þess sem texti hennar var birtur á heimasíðu umhverfisráðuneytisins á Veraldarvefnum.

Ástæðan fyrir gerð umhverfisstefnu í ríkisrekstri var fyrst og fremst samþykkt fundar umhverfisráðherra OECD þar að lútandi árið 1996. Helsta röksemdin fyrir umhverfisstefnu í ríkisrekstri er sú að talið var nauðsynlegt að ríkisvaldið reyni að hafa sömu sjónarmið til grundvallar í rekstri sínum og það hefur reynt að innleiða í samfélaginu, s.s. með stofnun umhverfisráðuneytis og margvíslegri löggjöf hin síðari ár.

Í umhverfisstefnunni er tæpt á mörgum atriðum, s.s. pappírsnotkun, orkunotkun, samgöngum o.fl. M.a. er hvatt til þess að stofnanir ríkisins reyni eftir megni að kaupa vörur sem eru merktar með viðurkenndum umhverfismerkjum, eins og norræna umhverfismerkinu, sem Íslendingar eru aðilar að.

Víðast er áhugi fyrir hendi að gera rekstur ríkisstofnana umhverfisvænni, sem sést m.a. á því að sumar stofnanir hafa þegar sett sér umhverfisstefnu af einhverju tagi, s.s. Fiskistofa, Landmælingar Íslands og Ríkiskaup. Vonast er til þess að samþykkt umhverfisstefnu í ríkisrekstri verði til að virkja þann áhuga sem er þegar fyrir hendi.
3.3. Umhverfisstefna sveitarfélaga

Ráðstefna um umhverfismál í sveitarfélögum var haldin á Egilsstöðum dagana 9. og 10. júní. Að ráðstefnunni stóðu umhverfisráðuneytið, Norræna ráðherranefndin og Samband íslenskra sveitarfélaga, ásamt Egilsstaðabæ. Tilgangur ráðstefnunnar var að meta hvar íslensk sveitarfélög eru á vegi stödd í umhverfismálum og hvert þau stefna. Kynnt var norrænt verkefni um umhverfisáætlanir í sveitarfélögum, en Egilstaðabær tók þátt í því fyrir Íslands hönd. Afrakstur verkefnisins var handbók um umhverfisáætlanir fyrir sveitarfélög. Fjallað var sérstaklega um nokkra málaflokka í umræðuhópum, s.s. sorphirðumál, fráveitur og neysluvatn, ferðaþjónustu og umhverfismál, umhverfismál í stjórnskipulagi sveitarfélaga og Staðardagskrá 21 í íslenskum sveitarfélögum. Um 70 þátttakendur voru á ráðstefnunni, bæði starfsmenn sveitarfélaga og kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum.



Á ráðstefnunni var samþykkt eftirfarandi ályktun:

"Ráðstefna um umhverfismál í sveitarfélögum haldin á Egilsstöðum 9.-10. júní 1997, hvetur Samband íslenskra sveitarfélaga til að hefja skipulega vinnu að áætlunum um sjálfbæra þróun sveitarfélaga, Staðardagskrá 21, og setja sér tímasett markmið í þeirri vinnu. Mikilvægt er að tryggt verði bæði fjármagn og mannafli til að standa að henni.

Jafnframt eru sveitarfélög sem ekki hafa þegar byrjað slíka vinnu hvött til að hefja nú þegar undirbúning að mótun Staðardagskrár 21. Einnig eru þau hvött til að að standa fyrir kynningu meðal almennings og inni á uppeldis- og fræðslustofnunum á Staðardagskrá 21 og GAP.

Mikilvægt er að kynna meðal sveitarstjórna hvernig staðið hefur verið að verki í þeim sveitarfélögum sem þegar eru komin af stað með mótun Staðardagskrár 21. Vakin verði sérstök athygli á fordæmi þeirra.

Til að hvetja sveitarfélög til að hefja vinnu að Staðardagskrá 21 er lagt til að stjórnvöld veiti tímabundna styrki til stöðumats.

Þörf er fyrir aðgengilegt kynningarefni á einfaldri íslensku um Dagskrá 21, Staðardagskrá 21 og GAP, og er Samband íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við umhverfisráðuneytið hvatt til að láta útbúa og staðfæra leiðbeiningar um gerð umhverfisáætlana og GAP-handbókar hið allra fyrsta."

Í framhaldi af ráðstefnunni og ályktuninni hófu umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga undirbúning að gerð handbókar um umhverfisáætlanir sveitarfélaga og verkefnis til að hrinda slíkum áætlunum af stað.

3.4. Tillaga að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands

Tillaga að svæðisskipulagi miðhálendisins var lögð fram til kynningar á árinu, en hún er afrakstur vinnu Samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands, sem unnið hefur að mótun landnotkunaráætlunar fyrir svæðið frá árinu 1994.

Svæðisskipulagstillagan tekur til allra helstu umsvifa mannsins í landnotkun á svæðinu öllu til næstu tuttugu ára. Grunnhugmyndin er að deila miðhálendinu niður í stórar samfelldar landslagsheildir og belti eftir mannvirkjastigi og verndargildi. Annars vegar verði öll meiriháttar mannvirkjagerð þ.e. byggingar, vegir, línur og uppistöðulón í afmörkuðum beltum en hins vegar verði skilgreind sem stærst og samfelldust svæði, verndarheildir, þar sem allri mannvirkjagerð verði haldið í lágmarki. Fjallað er um þætti eins og verndun, orkuvinnslu, hefðbundnar nytjar, samgöngur, ferðamál, byggingar- og heilbrigðismál.

Til þess að sem flestir landsmenn ættu þess kost að kynna sér innihald svæðisskipulagstillögunnar var hún til sýnis víðs vegar um landið s.s. í Þjóðarbókhlöðunni, hjá Skipulagi ríkisins og á skrifstofum héraðsnefnda. Tillagan var einnig gefin út og birt á veraldarvefnum.

Öllum landsmönnum var gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við þau atriði tillögunnar sem betur mættu fara að þeirra mati. Frestur til að gera athugasemdir var 18 vikur frá birtingu opinberrar auglýsingar eða til 10. október 1997. Framkvæmdanefnd samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins ákvað síðan að framlengja frest til að skila athugasemdum við tillöguna til 10. desember.

Starfshópur um stjórnsýslumörk á hálendinu

Sérstakur starfshópur umhverfis-, dómsmála-, og félagsmálaráðuneyta um stjórnsýslumörk á hálendinu var skipaður árið 1996 og skilaði niðurstöðum sínum árið 1997 um það við hvaða stjórnsýslumörk skyldi miðað inn til miðhálendisins. Hlutverk hópsins var að aðstoða Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands og leiðbeina um málsmeðferð í tengslum við skilgreiningar á stjórnsýslumörkum á svæðinu. Starfshópurinn var skipaður þeim Ingimar Sigurðssyni, umhverfisráðuneytinu, Sesselju Árnadóttur, félagsmálaráðuneytinu og Friðjóni Guðröðarsyni frá dómsmálaráðuneytinu.

Starfshópnum tókst að greiða fyrir lausn mála í fjölmörgum tilvikum, þar sem stjórnsýslumörk voru óljós eða ágreiningur um hvar þau lægju. Fyrir tilstuðlan nefndarinnar komst á samkomulag fjölda sveitarfélaga um stjórnsýslumörk á hálendinu. Lagt var til að ágreiningur um stjórnsýslumörk sem enn kynni að vera til staðar og ekki yrði leystur með samkomulagi yrði vísað til sérstakrar úrskurðarnefndar, sem sett gert var ráð fyrir að sett yrði á fót samkvæmt frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga.

3.5. Framkvæmdaáætlun um ofanflóðavarnir
Ríkisstjórnin samþykkti á árinu að tilhlutan Guðmundar Bjarnasonar, umhverfisráðherra, áætlun um forgangsröðun og tímaáætlun framkvæmda varðandi uppbyggingu brýnustu varna gegn ofanflóðum. Áætlunin er byggð á skýrslu um þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi, sem unnin var fyrir umhverfisráðuneytið og sveitarfélög af nefnd innlendra og erlendra sérfræðinga, auk þess sem tekið var mið af niðurstöðum viðræðna við viðkomandi sveitarstjórnir. Heildarkostnaður við fyrirhugaðar framkvæmdir gæti numið allt að 7.500 milljónum króna.

Eftir að skýrsla Veðurstofunnar, "Þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi", var kynnt í október 1996 áttu fulltrúar umhverfisráðuneytis og Veðurstofu fundi með sveitarstjórnum og almannavarnarnefndum í þeim sjö sveitarfélögum sem teljast búa við hvað mesta vá vegna ofanflóða. Í áætluninni er eftir megni reynt að taka tillit til vilja og ábendinga sveitarstjórna. Formlegar óskir um framkvæmdir við snjóflóðavarnarvirki lágu fyrir frá Neskaupstað, Siglufirði, Seyðisfirði, Snæfellsbæ, Ísafjarðarbæ og Bolungarvík. Frumathugun vegna snjóflóðavarna hófst á árinu á Siglufirði, í Neskaupstað og Vesturbyggð og undirbúningur að slíkri athugun hófst á Seyðisfirði. Í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir mótaði umhverfisráðuneytið síðan verklagsreglur um stuðning Ofanflóðasjóðs við framkvæmdir sveitarfélaga sem tryggja eiga öryggi fólks.

Takmörkuð reynsla er fyrir hendi um hönnun og uppsetningu snjóflóðavarnarvirkja á Íslandi, miðað við mörg nálæg lönd sem glíma við snjóflóðavanda, s.s. Noreg, Frakkland og Sviss. Fyrst um sinn a.m.k. er því talið nauðsynlegt að leita til erlendra ráðgjafa, en þau verkefni sem ráðist verður í á næstu árum munu auka þekkingu íslenskra sérfræðinga á snjóflóðavörnum. Vegna þess ríkir nokkur óvissa um ýmis atriði áætlunarinnar, s.s. hönnunarforsendur, niðurstöður tilrauna og rannsókna sem nú eru á gangi og framgang einstakra verkefna og af þeim sökum er gert ráð fyrir að nauðsynlegt verði að endurskoða áætlunina síðari hluta árs 1998. Þau verkefni sem ráðist verður í fyrst er gerð varnarvirkja í grennd við byggð, þar sem þau henta, en svonefnd stoðvirki á upptakasvæðum snjóflóða eru áætluð síðar á framkvæmdatímanum þegar fyrir liggja niðurstöður úr rannsóknum á virkni slíkra stoðvirkja.

Miklar breytingar urðu á skipulagi og framkvæmd snjóflóðavarna í kjölfar snjóflóðanna á Súðavík og Flateyri. Snjóflóðamál og verkefni Ofanflóðasjóðs voru færð undir yfirstjórn umhverfisráðuneytisins og stjórn Veðurstofunnar. Vöktun snjóflóða var efld til muna og rýmingaráætlanir gerðar fyrir öll sveitarfélög sem búa við snjóflóðavá, sem eiga að auka öryggi íbúa þeirra á meðan unnið er að því að koma upp viðeigandi varnarvirkjum. Rannsóknir á upptökum, eðli og tíðni snjóflóða hafa verið efldar. Ráðnir hafa verið sérstakir starfsmenn Veðurstofu Íslands til snjóflóðavöktunar í þeim sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu.

Á þessarri öld hafa 164 Íslendingar farist í snjóflóðum svo vitað sé, þar af 107 í þéttbýli eða við byggð. Markmið framkvæmdaáætlunar um varnir gegn ofanflóðum er að búa svo í haginn að Íslendingar verði eftir því sem kostur er öruggir fyrir snjóflóðum á heimilum sínum á 21. öldinni.

3.6. Nefnd um mat á umhverfisáhrifum

Umhverfisráðherra skipaði í október 1997 nefnd, sem falið er það hlutverk að endurskoða lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum, með hliðsjón af fenginni reynslu og að fella breytingar á tilskipun Evrópu-sambandsins um mat á umhverfisáhrifum að lögunum, en þær öðlast gildi 14. mars 1999.

Formaður nefndarinnar er Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneyti, en auk hans eiga sæti í nefndinni:
Ísólfur Gylfi Pálmason, alþingismaður,
Tómas Ingi Olrich, alþingismaður,
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, sviðsstjóri, tilnefnd af skipulagsstjóra ríkisins,
Hjörleifur Kvaran, borgarlögmaður, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga og
Gísli Már Gíslason, prófessor, tilnefndur af Náttúruverndarráði.

Ritari og starfsmaður nefndarinnar er Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu.

3.7. Nefnd um friðun Geysis

Umhverfisráðherra skipaði í september 1997 nefnd, sem fengið var það hlutverk að gera tillögu um friðun Geysis og Geysissvæðisins með hliðsjón af ákvæðum náttúruverndarlaga nr. 93/1996 er lúta að friðun landsvæða. Nefndinni er ætlað að gera tillögu til ráðuneytisins um það með hvaða hætti sé æskilegt að friða Geysi og næsta nágrenni, s.s. til hvaða landsvæðis friðunin skuli taka, hvernig gengið skuli frá málum gagnvart eigendum og hvaða skilyrðum starfræksla á svæðinu skuli bundin. Enn fremur er nefndinni ætlað að gera tillögur um vernd svæðisins þannig að það verði fyrir sem minnstum átroðningi og raski en þó þannig að aðgangur almennings að svæðinu verði tryggður og nauðsynleg starfræksla er því fylgir.

Formaður nefndarinnar var skipaður Guðjón Bragason, lögfræðingur á Hvolsvelli. Auk hans voru skipuð í nefndina:
Aðalheiður Jóhannsdóttir, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, tilnefnd af Náttúruvernd ríkisins;
Níels Árni Lund, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, tilnefndur af landbúnaðarráðuneytinu;
Gísli Einarsson, bóndi, oddviti Biskupstungnahrepps, tilnefndur af Biskupstungnahreppi;
Ísólfur Gylfi Pálmason, alþingismaður,
Árni Johnsen, alþingismaður og
Sigmundur Einarsson, deildarsérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.

3.8. Störf spilliefnanefndar

Álagning spilliefnagjalds hófst 1. mars 1997, að tillögu spilliefnanefndar. Samkvæmt lögum nr. 56/1996 um spilliefnagjald, á að koma innheimtu gjaldsins á í áföngum á tímabilinu frá 1. janúar 1997 til 1. janúar 2001.

Markmið laganna um spilliefnagjald er að koma í veg fyrir mengun af völdum spilliefna með því að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, meðhöndlun og viðunandi eyðingu þeirra eða endurnýtingu. Gjaldið er lagt á vörur sem geta orðið að spilliefnum til að standa straum af meðhöndlun þeirra. Gjaldið er ákvarðað af spilliefnanefnd, sem umhverfisráðherra hefur skipað til fjögurra ára og tók hún til starfa haustið 1996. Þeir vöruflokkar sem falla undir lögin eru m.a. olíuvörur, málning og litarefni, lífræn leysiefni, ósoneyðandi efni, framköllunarvökvi og fleiri ljósmyndunarvörur og rafhlöður og rafgeymar.

Í reglugerð um álagningu spilliefnagjalds var kveðið á um að gjald skuli lagt á alla blýsýrurafgeyma til að standa straum af kostnaði við móttöku og förgun þeirra. Rafgeymar voru fyrsti vöruflokkurinn sem spilliefnagjald var lagt á, en einnig var lagt á spilliefnagjald á framköllunarvökva, fixera og aðra vökva við ljósmyndun á árinu.

3.9. Strand Víkartinds

Hinn 5. mars 1997 strandaði flutningaskipið Víkartindur í Háfsfjöru í Rangárvallasýslu og hefur aldrei strandað stærra skip við Íslandsstrendur. Skipsstrandið kom til kasta umhverfisyfirvalda, þar sem í skipinu var nokkuð af hættulegum varningi, þ.e. olíu og eiturefnum, auk ýmislegs góss, sem taldist hættuminna fyrir umhverfið, þó af því væri veruleg sjónmengun þar sem það dreifðist víða um fjörur.

Umhverfisráðuneytið vann að því ásamt Hollustuvernd ríkisins og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og í samvinnu við önnur stjórnvöld að koma í veg fyrir mengunarslys vegna strandsins og að vinna að hreinsun á hættulausu góssi og fjarlægingu flaksins sjálfs. Strax að lokinni vettvangsskoðun var sett upp áætlun, þar sem aðgerðum var forgangsraðað: Fyrst yrði reynt að fjarlægja olíu úr skipinu, þá farminn og síðast skipið sjálft. Fulltrúi tryggingafélags skipsins bar áætlun sína undir yfirvöld umhverfismála og var það mat þeirra að hún væri ásættanleg.

Í viljayfirlýsingu sem eigandi skipsins lét umhverfisráðuneytinu í té 10. mars segir að eigendur muni: a. Fjarlægja allan hættulegan farm af strandstað, b. Fjarlægja olíu í samræmi við fyrirmæli yfirvalda á staðnum, c. Í sjálfboðavinnu hefja og stjórna hreinsun hættulauss góss á strandstað og d. Sinna skyldu til að fjarlægja flak skipsins í samræmi við íslensk lög.

Með því að krefjast slíkrar viljayfirlýsingar vildi ráðuneytið tryggja að eigendur sinntu skyldu sinni skv. íslenskum lögum og mengunarbótareglunni. Strax eftir strand Víkartinds fóru fulltrúar Hollustuverndar ríkisins og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á strandstað og höfðu eftirlit með aðgerðum eigenda skipsins og verktaka á vettvangi í samráði við lögreglustjóra Rangárvallasýslu.

Íslensk stjórnvöld lögðu áherslu á það við eigendur og tryggingafélag Víkartinds að hreinsun á strandstað gengi eins hratt fyrir sig og unnt væri. Björgun á olíu og farmi voru nánast óframkvæmanlegar fyrstu þrjár vikurnar eftir strandið vegna veðurs og sjógangs. Þrátt fyrir það gekk tiltölulega vel að dæla smurolíu og díselolíu úr skipinu. Verr gekk að ná svartolíu úr skipinu, en hita þurfti hana upp til þess að hægt væri að dæla henni og dróst að finna réttan búnað til þess verks, en dælingin tókst á endanum. Merkt eiturefni sem voru í farmi Vikartinds voru í það litlu magni að litið var á þau fyrst og fremst sem atvinnuöryggismál þeirra sem unnu við björgunaraðgerðir, en ekki sem vandamál er sneru að mengun umhverfis.

Þrátt fyrir óhagstætt veður eftir strandið tókst að afstýra mengunarslysi, þar sem langstærstur hluti olíu í skipsflakinu náðist. Hreinsun á hættulausu góssi gekk hins vegar hægar. Á fundi sem haldinn var í umhverfisráðuneytinu með fulltrúum yfirvalda dómsmála og umhverfismála og eigenda skipsins 18. mars létu íslensk yfirvöld það álit í ljós að hægt gengi varðandi aðgerðir á strandstað og lögðu áherslu á björgunaraðilar nýttu tímann vel á meðan smástreymt væri. Vegna dráttar á að ganga frá samningum við verktaka kröfðust íslensk stjórnvöld þess að eigendur skipsins legðu fram 50 milljóna króna tryggingu vegna hreinsunarkostnaðar á rusli og var það gert. Ekki var hins vegar talin næg ástæða til að grípa inn í og hugsanlega firra þar með eigendur ábyrgð á framkvæmd og kostnaði við hreinsunina.

Í greinargerð sem umhverfisráðuneytið sendi til fjölmiðla var að finna eftirfarandi mat á því tjóni sem varð á umhverfinu vegna strands Víkartinds:

"a. Olía. Talið er að svartolía hafi lekið úr Víkartindi þegar við strandið, en olíugeymir á stjórnborða, sem eigendur töldu að væri fullur, reyndist tómur. Afganginum af svartolíunni, um 370 tonn, hefur tekist að bjarga að mestu leyti úr flakinu. Þá tókst að bjarga meginhluta díselolíu og smurolíu úr skipinu, eða tæplega 50 tonnum. Á þessarri stundu er talið að alls hafi ekki meira en 20 tonn af olíu lekið niður í lestar skipsins eða út í umhverfið. Megnið af þeirri olíu sem lak úr skipinu hefur brotnað niður fljótlega í brimrótinu, en lítilsháttar olíumengunar hefur þó orðið vart í fjörum í nágrenninu. Það er þó ljóst að sú mengun er aðeins lítið brot af því sem gæti hafa gerst við strand af þessarri stærðargráðu, sem sést á því að nú er talið að 5% eða minna af olíu um borð í Víkartindi hafi sloppið út í umhverfið, en langmestum hluta hennar hefur verið dælt í land.

b. Spilliefni önnur en olía. Skv. farmskýrslum voru um borð í Víkartindi lyf og eiturefni, en talið er að tekist hafi að safna saman stærstum hluta þeirra undir umsjón Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Heilbrigðiseftirlitið hefur þó beðið fólk að sýna aðgát við hluti sem berast á land, en ef einhver eiturefni hafa farið út í umhverfið er það ekki í meira mæli en svo að erfitt eða ómögulegt er að finna þau í mælanlegu magni í umhverfinu.

c. Hættulaust góss. Stærstur hluti farms Víkartinds var góss, sem telst ekki hættulegt heilsu manna eða lífríkinu. Engu að síður er mikil sjónmengun af rusli úr farminum, sem nauðsynlegt er að hreinsa og farga á viðunandi hátt. Talið er að af um 300 gámum sem voru um borð í skipinu hafi um 100 farið útbyrðis. Um helmingur þeirra hefur rekið á fjöru, en helmingur er í hafi. Ljóst er að mikið verk er framundan við að hreinsa fjörur og farga þeim hluta farmsins sem telst ónýtur. Hið sama gildir um flakið sjálft, það verður gífurlegt verk að ná því af strandstað, en eigendur hafa skuldbundið sig til þess að fjarlægja það, enda ber þeim það skv. lögum."

Í maí undirrituðu fulltrúar íslenskra stjórnvalda og eigenda Víkartinds samning um framkvæmd björgunar vegna strands skipsins, þar sem m.a. er fjallað um fjarlægingu á flaki þesss og frágang á strandstað.

Í samningnum var það einkum tvennt sem sneri að yfirvöldum umhverfismála. Eigendur skipsins lýstu því yfir að þeir myndu sjá til þess að flak skipsins yrði hlutað sundur og fjarlægt úr Háfsfjöru að því marki sem það er tæknilega mögulegt. Allur kostnaður við að fjarlægja flakið var borinn af eigendum skipsins og var því verki lokið í lok sumars 1997. Varðandi skemmdir á gróðri og annað rask sem hlotist hefur af hreinsunaraðgerðum, þá lýstu eigendur skipsins því yfir að þeir myndu bæta það tjón sem orðið hefur á gróðri og vegum af völdum umferðar vegna aðgerða á strandstað. Í ljósi aðstæðna má telja að vel hafi tekist til um aðgerðir og mikilvæg reynsla fengist í slíku starfi, sem ætti að nýtast í framtíðinni.

3.10. Kirkjubæjarstofa opnuð

Stofnfundur Kirkjubæjarstofu var haldinn 12. febrúar 1997 og hún var formlega opnuð 4. september. Kirkjubæjarstofa er fræðslu- og rannsóknasetur á Kirkjubæjarklaustri, en fyrsti áfangi starfsemi hennar er þriggja ára tilraunaverkefni um þróun ferðaþjónustu og rannsókna í Skaftárhreppi. Undirbúningur að opnun stofunnar hafði staðið síðan árið 1995, en þá var Skaftárhreppur tilnefndur af Íslands hálfu til evrópskra umhverfisverðlauna ferðaþjónustunnar á vegum Evrópusambandsins. Í framhaldi af þessu veittu umhverfisráðuneytið og samgönguráðuneytið Skaftárhreppi styrk til að vinna sér sess sem vistvænn áfangastaður fyrir ferðamenn.

Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra, hélt ræðu við opnun Kirkjubæjarstofu og sagði þá m.a.: "Það hefur löngum viljað brenna við að umhverfisvernd hafi verið talin vera kvöð á samfélaginu, í besta falli óhjákvæmilegur kostnaðarliður. Slíkt þarf þó alls ekki að vera tilfellið. Gott dæmi er hin svokallaða græna ferðamennska, sem mun vera sú tegund ferðaþjónustu, sem er í örustum vexti, samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegum samtökum hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Það er vaxandi eftirspurn eftir því meðal fólks í iðnvæddum löndum að komast í snertingu við óspillta náttúru og þar sem tekst að sameina náttúruvernd og aðgengi ferðamanna munu skapast vinsælir áfangastaðir fyrir vaxandi markað. Með stefnumótun sinni á sviði umhverfis- og ferðamála og markvissri stefnu í átt til sjálfbærrar ferðaþjónustu hefur fámennt sveitarfélag sýnt mikilvægt frumkvæði og tekið afgerandi forystu á þessu sviði hér á landi."

3.11. Ráðgjafarnefnd um umhverfisrannsóknir og vöktun umhverfis vegna stóriðju í Hvalfirði

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra skipaði á árinu Ráðgjafarnefnd um umhverfisrannsóknir og vöktun umhverfis vegna stóriðju í Hvalfirði. Nefndin var skipuð í samræmi við samkomulag umhverfisráðherra og Samtakanna óspillt land í Hvalfirði (SÓL í Hvalfirði) 16. maí 1997.

Hlutverk nefndarinnar er að vera umhverfisráðherra og Hollustuvernd ríkisins til ráðgjafar um framkvæmd umhverfisrannsókna og vöktunar umhverfis vegna stóriðju í Hvalfirði. Nefndin skal fjalla um fyrirliggjandi rannsóknaáætlanir og gera tillögur um rannsóknir og atriði þeim tengd, s.s. um mæli- og sýnatökustaði og hvað skuli mælt á hverjum stað.

Þá á nefndin m.a. að fjalla um áætlanir um samfelldar mælingar á styrk flúoríðs í andrúmslofti og árlegar mælingar á flúoríði í vatni, gróðri og í beinum grasbíta í nágrenni Grundartanga áður en Hollustuvernd ríkisins samþykkir þær. Sama gildir um reglubundnar mælingar á SO2, ryki í andrúmslofti og SO42- og sýrustigi í úrkomu, vatni og jarðvegi. Ráðgjafarnefndin skal gera tillögur um bakgrunnsrannsóknir, sem framkvæma skal áður en rekstur stóriðju í Hvalfirði hefst og vera aðili að formlegum kynningarfundum þar sem farið verður yfir mengunarvarnir og mengunarmælingar.

Ráðgjafarnefndin skal gera tillögur til ráðherra eða Hollustuverndar ríkisins um úrbætur og auknar mengunarvarnir, ef ástæða þykir til.

Formaður ráðgjafarnefndarinnar er Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, en auk hans eiga sæti í nefndinni:
Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarnadeildar Hollustuverndar ríkisins, tilnefndur af Hollustuvernd ríkisins;
Trausti Baldursson, líffræðingur, tilnefndur af Náttúruvernd ríkisins;
Anna J. Geirsdóttir, bóndi, tilnefnd af SÓL í Hvalfirði,
Varamaður: Reynir Ásgeirsson, bóndi;
Ólafur M. Magnússon, rekstrarfræðingur, tilnefndur af SÓL í Hvalfirði, Varamaður: Ólafur Oddsson, kynningarfulltrúi.

3.12. GLOBE-verkefni á Íslandi

Í maí 1997 gerðust íslensk stjórnvöld aðilar að alþjóðlegu umhverfisverkefni, GLOBE, sem Al Gore varaforseti Bandaríkjanna átti stóran þátt í að komið var á fót fyrir nokkrum árum. Undirbúningur að þátttöku Íslands í verkefninu hafði staðið yfir frá 1995 og skrifuðu menntamálaráðherra og umhverfisráðherra undir samstarfssamning hinn 30. maí. Verkefnið byggist á samstarfi skólanemenda um allan heim þannig að nemendur framkvæma mælingar í sínu nánasta umhverfi og senda niðurstöður til skrifstofu GLOBE sem setur niðurstöður á veraldarvefinn þar sem nemendur geta fylgst með eigin mælingum og annarra. Menntamála-ráðuneytið og umhverfisráðuneytið eru ábyrg fyrir þátttöku Íslands í verkefninu og völdust tveir skólar, Álftamýrarskóli og Fjölbrautarskóli Suðurnesja, til þátttöku af Íslands hálfu til að byrja með.

3.13. Útgáfur á vegum ráðuneytisins á árinu 1997

Nokkrar nýjar útgáfur komu út á vegum umhverfisráðuneytisins á árinu:

- Ísland og loftslagsbreytingar af mannavöldum er skýrsla á vegum umhverfisráðuneytisins, þar sem er að finna yfirlit yfir útstreymi gróðurhúsategunda af mannavöldum á Íslandi og aðgerðum til að draga úr útstreymi og auka bindingu kolefnis í gróðri. Þá er einnig að finna í skýrslunni texta Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til að framfylgja ákvæðum Rammasamningsins o.fl.

- Second Status Report of Iceland Pursuant to the United Nations Framework Convention on Climate Change, er að mestu efnislega samhljóða ofannefndri skýrslu, en texti hennar er á ensku. Gerð skýrslunnar er liður í upplýsingagjöf Íslendinga til skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

- Hagkvæm umhverfisvernd heitir skýrsla sem Brynhildur Davíðsdóttir, hagfræðingur, vann fyrir umhverfisráðuneytið. Í skýrslunni er fjallað um helstu tegundir hagrænna stjórntækja í umhverfismálum - umhverfisgjöld, skilagjöld, skattaívilnanir, mengunarleyfi og kvóta - markmið þeirra og hvers vegna slík stjórntæki hafa rutt sér til rúms í vaxandi mæli á síðustu árum. Í skýrslunni eru nefnd dæmi af reynslu annarra þjóða á innleiðingu hagstjórnartækja við lausn umhverfisvandamála og fjallað um möguleika Íslendinga á að beita hagrænum aðgerðum við lausn umhverfisvandamála sinna.

- Landupplýsingatækni er heiti á skýrslu sem endurskoðunarnefnd umhverfisráðherra um LÍSU, samtök um samræmd landfræðileg upplýsingakerfi, tók saman um niðurstöður sínar.

- Viðbúnaður við bráðum mengunaróhöppum á sjóheitir skýrsla Bráðamengunarnefndar, sem lauk fyrsta áfanga í starfi sínu og skilaði inn niðurstöðum sínum í formi skýrslu. Í henni er að finna safn gagna um ýmsa þá þætti sem lúta að mengunaróhöppum í sjó við Ísland, þar með talin verðmæti, sem kunna að vera í húfi, áhættuþættir og viðbúnaður.


4 Alþjóðasamstarf

4.1. Kyoto-bókunin um loftslagsbreytingar

Í desember 1997 var haldið þriðja þing aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Kyoto í Japan. Af hálfu Íslands sótti Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra, þingið, en aðrir í sendinefndinni voru:
Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra,
Tryggvi Felixson, deildarstjóri alþjóðadeildar umhverfisráðuneytisins,
Jón Ingimarsson, skrifstofustjóri, iðnaðarráðuneytinu,
Tómas H. Heiðar, sendiráðunautur, utanríkisráðuneytinu,
Halldór Þorgeirsson, deildarstjóri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og
Ari Edwald, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra.

Á þinginu var samþykkt bókun við loftslagssamninginn, sem fól í sér bindandi skuldbindingar um að draga úr útstreymi koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda snemma á næstu öld. Í þessarri úttekt er fjallað um aðdraganda Kyoto-fundarins og þátttöku Íslands í, auk þess sem stuttlega er farið yfir helstu efnisatriði Kyoto-bókunarinnar.

4.1.1. Aðdragandi Kyoto-fundarins

Á fyrsta þingi aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldið var í Berlín 1995, var niðurstaðan sú að núverandi ákvæði samningsins væru ekki fullnægjandi ef ná ætti markmiðum hans og var því samþykkt að hefja samningaviðræður um ráðstafanir til að styrkja ákvæði samningsins og efla framkvæmd hans eftir árið 2000. Í ákvörðun þingsins sagði að stefnt væri að því að samningaviðræðurnar leiddu til niðurstöðu þar sem skuldbindingar til handa aðildarríkjum sem skráð væru í Viðauka I við samninginn (þ.e. OECD-ríkin og ríki Austur-Evrópu) yrðu auknar, m.a. með ákvæðum um mælanlegar takmarkanir eða samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og bindingu gróðurhúsalofttegunda, miðað við tilgreind ártöl, s.s. árin 2005, 2010 og 2020.

Í ákvörðuninni sagði að m.a. skuli taka mið af mismunandi upphafsstöðu aðila, tækni sem tiltæk er og öðrum kringumstæðum sem og þörfinni á sanngjörnu og viðeigandi framlagi frá hverju og einu aðildarríkjanna. Þar sagði ennfremur að samningaviðræðurnar skuli ekki fela í sér auknar skuldbindingar þróunarríkja.

Með ákvörðuninni var stofnuð sérstök samninganefnd (Ad-hoc Group on the Berlin Mandate - AGBM) sem kom saman í fyrsta sinn í ágúst 1995. Áttundi og síðasti fundur nefndarinnar var haldinn í október 1997. Þar bar helst til tíðinda að Bandaríkjamenn lögðu fram tillögur sínar, sem lengi hafði verið beðið eftir. Þeir lögðu til að útstreymi gróðurhúsalofttegunda yrði óbreytt á bilinu 2008-2012 miðað við árið 1990, en áður hafði Evrópusambandið lagt til að iðnvædd ríki drægju úr útstreymi um 15% á þessu tímabili og Japanir höfðu lagt til 0-5% samdrátt í útstreymi.

4.1.2. Þátttaka og áhersluatriði íslenskra stjórnvalda í samningaviðræðunum

Íslensk stjórnvöld skrifuðu undir Rammasaminginn þegar hann var lagður fram til undirritunar í Ríó de Janeiro í júní 1992. Tillaga um fullgildingu samningsins var lögð fyrir 116. löggjafaþing og var hún samþykkt og Ísland varð 26. aðildarríki samningsins á árinu 1994.

Þátttaka Íslands í samningaviðræðunum eftir fyrsta fund aðildarríkjanna kom til sérstakrar umfjöllunar í ríkisstjórninni um mitt ár 1995 og var þá ákveðið að taka virkan þátt í viðræðunum með áherslu á eftirfarandi atriði:
- að nýjar skuldbindingar taki til allra gróðurhúsategunda og aðgerðir til að binda kolefni í jörðu og gróðri verði metnar jafngildar aðgerðum til að draga úr losun,
- að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja, sérstaklega ríkja sem mæta orkuþörf sinni að verulegu leyti með endurnýjanlegum orkugjöfum,
- að nýjar skuldbindingar takmarki ekki möguleika aðildarríkja til að auka endurnýjanlega orkugjafa vegna iðnframleiðslu jafnvel þó framleiðsluferlin ykju losun staðbundið.

Við upphaf samningaviðræðnanna ákvað ríkisstjórnin að skipa sérstakan samráðshóp undir stjórn umhverfisráðuneytis til að fylgjast með og undirbúa þátttöku Íslands í samningaviðræðunum. Frá upphafi áttu landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskipta-, samgöngu- og utanríkisráðuneyti aðild að þessu samráði. Árið 1997 tóku embættismenn úr forsætis- og fjármálaráðuneyti einnig þátt í undirbúningi samningaviðræðnanna.

4.1.3. Kyoto-bókunin

Mikilvægasta niðurstaða Kyoto-bókunarinnar var sú að bindandi losunarmörk fyrir koltvíoxíð og aðrar svokallaðar gróðurhúsalofttegundir voru samþykkt fyrir einstök ríki. Losunarmörk eru á bilinu -8% til +10%, en fyrir Ísland eru þau +10%. Þetta þýðir að losun frá Íslandi má ekki aukast meira en um 10% fram að tímabilinu 2008-2012, miðað við árið 1990. Heildarlosun ríkja sem skráð eru í viðauka I í Rammasamningnum, þ.e. OECD-ríkin og ríki Austur-Evrópu mun, ef þetta gengur eftir, dragast saman um liðlega 5% miðað við árið 1990.

Samningurinn nær til 6 gróðurhúsalofttegunda (GHL): CO2, CH4, N2O, PFC, HFC og SF6, sem vegnar eru saman sem koldíoxíðsígildi. Ríki geta valið á milli áranna 1990 og 1995 sem viðmiðunarár fyrir þrjár síðastnefndu lofttegundirnar.

Breytingar á losun eða bindingu vegna beinna aðgerða frá 1990 verða metnar inn í losunarskuldbindingar. Fyrst í stað er þetta bundið við skógrækt. Síðar verður fjallað frekar um aðrar aðgerðir, þ.m.t. landgræðslu. Ef aðildarríkjaþingið ákveður að slíkar aðgerðir skuli teknar inn, og fáist sú niðurstaða staðfest á fyrsta aðildarríkjaþingi eftir að bókunin hefur gengið í gildi, þá gilda þær fyrir fyrsta losunarskuldbindingatímabilið.

Tekið er fram að ríki þurfa að skila inn upplýsingum um kolefnisforða þannig að meta megi breytingar á síðari tímabilum.

Aðildarríki geta náð markmiðum sínum sameiginlega eða með samstarfi á ýmsan hátt:

Í fyrsta lagi með sérstökum samningi á milli tveggja eða fleiri ríkja, ef skrifstofunni er tilkynnt um þetta um leið og viðkomandi ríki leggja fram staðfestingarskjöl. Sem dæmi má nefna að öll ríki ESB hafa gengist undir skuldbindingu um að draga úr losun um 8%. Þegar ESB-ríkin staðfesta samninginn munu þau væntanlega jafnframt tilkynna hvernig losunarskuldbindingarnar munu í raun skiptast á einstök ríki. Í þeirri tilkynningu mun væntanlega koma fram að einhver ríki ESB hafi heimild til að auka losun verulega og að önnur dragi meira úr losun en sem nemur 8%. Önnur ríki geta haft með sér samstarf með svipuðum hætti og ESB.

Í öðru lagi með almennum kvótaviðskiptum á milli iðnríkja (ríki sem skráð eru viðauki B í bókuninni), en fyrst þarf að setja nánari reglur um þessi viðskipti.

Í þriðja lagi með sameiginlegri framkvæmd (joint implementation) ríkja sem skráð eru í viðauka B í bókuninni á einstökum verkefnum sem leiða til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Sem dæmi má nefna að ef ríki A tekur þátt í að fjármagna aðgerðir í ríki B sem leiða til minni losunar, þá hafa viðkomandi ríki heimild til að gera með sér samkomulag um að hluti af þeim ávinningi sem þetta verkefni skapar geti flust yfir á ríki A.

Í fjórða lagi sameiginleg framkvæmd með þróunarríkjum í tengslum við svokallaðan samstarfsvettvang um mengunarminni þróun. Bókunin opnar fyrir að ávinningur af slíkum verkefnum geti nýst allt frá árinu 2000. Sem dæmi má nefna að ef ríki A, sem skráð er í viðauka B í bókuninni, tæki þátt í að fjármagna aðgerðir í ríki B, sem er þróunarríki, og ef verkefni leiðir til þess að losun gróðurhúsalofttegunda í ríki B minnkar, þá gæti slíkur ávinningur komið ríki A til góða.

Þá verður heimilað að flytja ónotaða losunarheimild á milli losunar- skuldbindingatímabila.

Í bókuninni eru engar skuldbindingar um til hvaða aðgerða skuli gripið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en hins vegar eru tilteknar aðgerðir sem mælst er til að ríki í viðauka I framkvæmi. Þar er m.a. er fjallað um umhverfisgjöld, meðferð úrgangs, orkunýtni og rannsóknir.

Samningurinn liggur frammi til undirskriftar frá 15. mars 1998 til 15. mars 1999 og gengur í gildi þegar ekki færri en 55 ríki hafa staðfest hann, enda séu þar á meðal iðnríki sem losuðu a.m.k. 55% af koldíoxíði frá iðnríkjum árið 1990. Þess skal getið að undirskrift á tilteknum tíma er ekki forsenda aðildar.

Við samþykkt Kyoto-bókuninnar voru einnig samþykkt ákvæði sem varða nánari útfærslu á einstökum efnisatriðum hennar. M.a. var samþykkt að skoða sérstaklega stöðu lítilla ríkja þar sem einstök verkefni geta haft mjög afgerandi áhrif á heildarlosun. Í ákvörðuninni segir að fjórða aðildarríkjaþing Rammasamningsins skuli skoða og gera viðeigandi ráðstafanir, vegna tilhlýðilegra aðferða til að meta stöðu ríkja í viðauka B þar sem einstök verkefni geta haft mjög afgerandi áhrif á heildarlosun. Þessi ákvörðun skapar möguleika til að taka aðstæður Íslands til sérstakrar umfjöllunar.

4.1.4. Skýrsla S.þ. um útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi

Árið 1997 kom út skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem hafði að geyma niðurstöður nefndar sem gerði úttekt á framkvæmd Íslands á Rammasamningi S.þ. um loftslagsbreytingar. Nefndin kom hingað til lands í september 1996 og kynnti sér aðstæður og stefnu stjórnvalda í málum sem lúta að framfylgd samningsins. Þar studdist nefndin einkum við áætlun ríkisstjórnarinnar varðandi framkvæmd samningsins, sem samþykkt var í október 1995.



Helstu atriðin sem nefndin tók fram varðandi útstreymi gróðurhúsa-lofttegunda á Íslandi voru eftirfarandi:

• Útstreymi koltvíoxíðs (CO2) á Íslandi er um 8,5 tonn á íbúa, sem er lægra en meðaltal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem er um 12 tonn á íbúa.

• Tveir þriðju hlutar orkunotkunar á Íslandi byggja á hreinum orkulindum, jarðhita og fallorku, sem veldur því að útstreymi gróðurhúsalofttegunda er mun minna en búast mætti við miðað við heildarorkunotkun.

• Helstu orsakavaldar CO2-útstreymis á Íslandi eru fiskiskipaflotinn og innanlandssamgöngur, sem hvort um sig valda um þriðjungi útstreymisins.

• CO2 veldur um 67% gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum á Íslandi. Aðrar helstu gróðurhúsalofttegundir sem skipta máli eru metan (18%), flúorsambönd (9%) og tvíköfnunarefnisoxíð (6%).

Meðal þeirra atriða sem nefndin tók fram varðandi viðleitni stjórnvalda og atvinnulífsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda voru eftirfarandi:

• Útstreymi koltvíoxíðs hefur aukist um 6% milli áranna 1990 og 1995 (til samanburðar má nefna að það jókst á sama tíma um 4% í ríkjum OECD og u.þ.b. 12% í heiminum, skv. tölum frá Alþjóðlega orkuráðinu) og gæti aukist um 14% til 2000 að óbreyttu.

• Ný stóriðja kann að valda mun meiri aukningu en sem þessu nemur. Stefna íslenskra stjórnvalda sé hins vegar að undanskilja nýja stóriðju frá markmiði samningsins, vegna þess að þar sé ekki um innanlandsneyslu að ræða, auk þess sem staðsetning nýrrar stóriðju á Íslandi frekar en annars staðar kunni að draga úr gróðurhúsaáhrifum en ekki auka þau, þar sem hún fái hér orku frá hreinum orkulindum en ekki brennslu jarðefnaeldsneytis, sem er helsti orkugjafinn víða í öðrum löndum.

• Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að verja auknu fé til skógræktar og landgræðslu, sem á að binda 100.000 tonn af CO2. Meðal annarra aðgerða sem verið er að íhuga eru lagning rafmagns til skipa í höfnum, stuðningur við almenningssamgöngur og upptaka kolefnisskatta.

• Útstreymi flúorsambanda vegna álbræðslu hefur minnkað um 80% síðan 1990 og metanútstreymi hefur einnig minnkað, m.a. vegna aðgerða Sorpu, sem safnar metangasi úr urðuðu sorpi í Álfsnesi.

4.2 Samningur um verndun NA-Atlantshafs fullgiltur

Alþingi samþykkti í maí þingsályktunartillögu sem heimilar ríkisstjórninni að fullgilda Samninginn um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, sem nefndur hefur verið OSPAR-samningurinn. Samningi þessum er ætlað að koma í stað tveggja alþjóðasamninga, Óslóarsamningsins frá 15. febrúar 1972, um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum, og Parísarsamnings frá 4. júní 1974, um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum. Ísland er aðili að báðum þessum samningum. Með OSPAR-samningnum er m.a. stefnt að því að koma í veg fyrir varp eiturefna í hafið og hann hefur að geyma ákvæði um beitingu ýmissa grundvallarreglna umhverfisréttar, svo sem varúðarreglunnar, mengunarbótareglunnar og reglunnar um bestu tiltæku tækni og bestu umhverfisvenjur. Uppbygging samningsins miðast við að hann sé sveigjanlegur og geti rúmað ný svið sem ekki voru fyrirsjáanleg þegar samningurinn var gerður. Í raun má segja að öll ákvæði OSPAR-samningsins hafi þegar verið tekin inn í íslenska löggjöf. Hér á landi eru í gildi lög nr. 20/1972, um bann við losun hættulegra efna í sjó, og lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Síðarnefndu lögunum var breytt með lögum nr. 61/1996 m.a. í tilefni af væntanlegri fullgildingu á OSPAR-samningnum.

4.3 Samningur um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun fullgiltur

Hinn 7. maí samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að heimila ríkisstjórn Íslands að fullgilda Samning um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun í löndum, sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar. Samningurinn var gerður í París 17. júní 1994, en hann á rætur að rekja til heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó árið 1992. Hann skiptist í meginmál og fjóra viðauka sem fjalla um svæðisbundnar aðgerðir í Afríku, í Asíu, í Rómönsku Ameríku og á Karíbahafssvæðinu og við norðanvert Miðjarðarhaf. Markmið samningsins er eins og nafnið bendir til að vinna gegn eyðimerkurmyndun og draga úr skaðlegum afleiðingum þurrka í löndum sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka. Í samningnum er eyðimerkurmyndun skilgreind sem hnignun lands á þurrum eða úrkomulitlum svæðum og á úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða af völdum ýmissa þátta, þar á meðal veðurfarsbreytinga og mannlegra athafna. Samkvæmt skilgreiningu samningsins á þessu falla heimskautasvæði og svæði sem næst þeim liggja, þar með talið Ísland, utan við samninginn. Ekki er þörf á breytingum í íslenskri löggjöf vegna skuldbindinga sem felast í samningnum en kostnaður vegna hans gæti orðið allt að einni milljón kr. á ári. Jafnframt felur samningurinn í sér kvaðir um þróunaraðstoð en hverju ríki er í sjálfsvald sett hversu miklu fjármagni það beinir í þann farveg.

Alþjóðleg ráðstefna um eyðimerkurmyndun

Alþjóðleg ráðstefna um eyðimerkurmyndun í beitarhögum var haldin hér á landi dagana 16.-19. september 1997. Ráðstefnan var haldin í samvinnu umhverfisráðuneytisins, landbúnaðarráðuneytisins, Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins. Ráðstefnan var haldin í Reykjavík og á Kirkjubæjarklaustri og héldu fjölmargir þekktir vísindamenn á sviði beitarvistfræði og eyðimerkurmyndunar fyrirlestra, m.a. frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Kína, Marokkó, Svíþjóð og frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þátttakendur heimsóttu höfuðstöðvar Landgræðslunnar í Gunnarsholti í Rangárvallasýslu og sáu ummerki landeyðingar og landgræðslu á Íslandi í skoðunarferð.

4.4. UNGASS/Fundur CSD: Ávarp umhverfisráðherra

Sérstakur fundur Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna var haldinn í júní 1997, þar sem haldið var á upp á fimm ára afmæli Ríó-ráðstefnunnar um umhverfi og þróun og reynt að meta hvað áunnist hefði í umhverfismálum í heiminum síðan þá og hvar þurfi helst að taka til hendinni. Á fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (Commission for Sustainable Development - CSD) í apríl var undirbúningur ráðstefnunnar ræddur. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra sat fund nefndarinnar og sagði þá m.a. í ræðu sinni:

"Sjálfbær þróun krefst þess að allir geirar samfélagsins taki virkan þátt. Atvinnuvegir á borð við iðnað, sjávarútveg, orkuvinnslu og ferðaþjónustu verða að axla ábyrgð á áhrifum sínum á umhverfið. Á Íslandi var nýlega samþykkt framkvæmdaáætlun sem kveður á um aðgerðir til þess að koma á sjónarmiðum sjálfbærrar þróunar í einstökum atvinnuvegum. Við teljum að slíkar áætlanir séu nauðsynlegar til að koma á sjálfbærri þróun.

Mengunarbótareglan á að vera okkur leiðarljós í ákvarðanatöku okkar. Notkun hagrænna stjórntækja til þess að "innbyrða ytri kostnað" hefur verið notuð með góðum árangri í mörgum löndum og frekari notkun slíkra stjórntækja er æskileg.

Matarþörf vaxandi fólksfjölda heimsins verður ekki mætt nema við nýtum allar fæðuuppsprettur á sjálfbæran hátt, þar á meðal lifandi auðlindir hafsins. Ástand vistkerfa hafsins er mikið áhyggjuefni og málefni hafsins þurfa að njóta forgangs í stofnunum innan vébanda S.þ. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til til þessa hafa ekki dugað til þess að snúa við þeirri þróun að sífellt er gengið á auðlindir hafsins og mengun þess fer vaxandi. Nauðsynlegt er að efla hinn vísindalega grunn undir vinnu á þessu sviði. Verndun hafsins gegn mengun þarf að njóta sama forgangs og vernd ósonlagsins og baráttan gegn gróðurhúsaáhrifum. Íslendingar vilja að málefni hafsins verði sérstaklega rædd í ályktun fundar Allsherjarþingsins.

Síðan á Ríó-ráðstefnunni 1992 hafa mikilvægir áfangar náðst í baráttunni fyrir verndun hafsins, þ. á m. gerð úthafsveiðisáttmála S.þ. og Washington-samningsins um mengun hafs frá landstöðvum. Tryggja þarf að þessir alþjóðasamningar nái því marki sem að er stefnt.

Ofveiði er alvarlegt vandamál um heim allan. Niðurgreiðslur í sjávarútvegi ýta undir ofveiði fiskveiðiflota heimsins. Raunhæf markmið í þá átt að draga úr slíkum niðurgreiðslum eru að minnka þær um helming á næstu fimm árum.

Ríkisstjórn Íslands hefur í mörg ár lagt til að gerður verði alþjóðlegur lagalega bindandi samningur til þess að draga úr mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna. Þessi efni eru alvarleg ógnun við vistkerfi jarðar og heilbrigði fólks. Mikilvægt skref í baráttunni gegn þrávirkum lífrænum efnum var stigið þegar Umhverfisstofnun S.þ. (UNEP) ákvað í janúar á þessu ári að hefja alþjóðlegar samningaviðræður með það fyrir augum að ljúka gerð alþjóðlegs lagalega bindandi samnings fyrir árið 2000. Í ályktun fundar Allsherjarþingsins í júní ætti að ítreka þann yfirlýsta vilja okkar að leysa þetta vandamál innan þeirra tímamarka sem ákveðin voru í Nairobi.

Skynsamleg nýting orkulinda er lykilatriði ef takast á að koma á sjálfbærri þróun. Í því samhengi er nauðsynlegt að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í orkuvinnslu heimsbyggðarinnar. Við teljum að umhverfisnefndin geti ýtt undir framfarir á þessu sviði með því að helga einn fund sinn því að búa til áætlun í þessu skyni."

4.5 Tímamót á fundi CITES

Nokkur tímamót urðu á tíunda fundi aðildarríkja Samnings um verslun með dýr og plöntur í útrýmingarhættu (CITES), sem haldinn var fyrri hluta júní-mánaðar í Harare í Zimbabwe. Þar var m.a. samþykkt að veita þremur Afríkuríkjum undanþágu frá alþjóðlegu banni við verslun með fílabein, vegna þess að í þessum ríkjum er fylgst vandlega með veiði á fílunum og þess gætt að nýting þeirra sé sjálfbær, þ.e. að ekki séu drepin fleiri dýr en stofninn þolir auðveldlega. Þetta þykir benda til þess að talsmenn strangrar friðunar séu á undanhaldi, en sjónarmið sjálfbærrar nýtingar lífvera séu að ryðja sér til rúms.

Ísland á ekki aðild að CITES, en sendi áheyrnarfulltrúa á fundinn frá umhverfis-, utanríkis- og sjávarútvegsráðuneytum. Ástæðan var fyrst og fremst sú að á dagskrá fundarins voru tillögur um að leyfa alþjóðlega verslun með hvalaafurðir. Á fundinum lögðu Japanir og Norðmenn fram fimm tillögur þess efnis að slaka á banni um verslun með hvalaafurðir, en engin þeirra náði tilskyldum 2/3 meirihluta atkvæða.

Engu að síður kann fundurinn í Harare að marka ákveðin tímamót hvað sjónarmið Íslendinga og fleiri um nauðsyn sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda varðar. Deilurnar um sölu á fílabeini snerust um ólík grundvallarsjónarmið um hvernig best er að vernda tegundir í útrýmingarhættu. Sjónarmið strangrar friðunar hafa lengst af ráðið ríkjum í CITES frá undirritun samningsins árið 1973 og þau urðu ofan á árið 1989, þegar öll verslun með fílabein og aðrar afurðir úr fílum var bönnuð. Bannið hafði samt takmörkuð áhrif. Fílum hélt áfram að fækka í flestum ríkjum Afríku, að hluta vegna ásóknar veiðiþjófa og ólöglegrar verslunar með fílabein. Þó fjölgaði fílum m.a. í Namibíu, Botswana og Zimbabwe. Í þessum löndum var ákveðið að hverfa frá strangri friðun og þess í stað reynt að koma á skipulagðri veiði á fílum. Veiðimenn borga allt að einni milljón íslenskra króna fyrir að fá að skjóta fíl og tekjurnar af takmarkaðri veiði renna til samfélaga á fílaslóðum og skapa áhuga fólks þar á að viðhalda fílastofninum og þeim tekjum sem af honum fást; en oft hefur í þessum löndum verið litið á fíla fyrst og fremst sem meindýr, þar sem þeir valda oft miklum skaða á trjám og beitilöndum. Allt bendir til þess að veiðistjórnun af þessu tagi nái að tryggja það betur að fílastofninum sé haldið við heldur en algjör friðun, auk þess sem afraksturinn af fílunum rennur til innfæddra, en ekki einungis til veiðiþjófa og kaupahéðna.

Margir telja að með þessarri ákvörðun um takmarkaða verslun með fílabein hafi sjónarmið sjálfbærrar nýtingar fest sig í sessi sem hornsteinn CITES og að í framtíðinni muni aðildarríki reyna að vernda lífverur í útrýmingarhættu með því að beita ákvæðum samningsins um leyfilega verslun, sem bundin er ákveðnum skilyrðum, fremur en að nýta ákvæði um algjört bann við verslun.



5. Ísland og eyðing ósonlagsins

Hinn 16. sept. 1997, á alþjóðlega ósondeginum, var þess minnst að 10 ár eru liðin frá Montreal-bókuninni um takmörkun ósoneyðandi efna, sem olli þáttaskilum í baráttunni gegn eyðingu ósonlagsins. Almennt er talið að vel hafi tekist til varðandi framkvæmd Montreal-bókunarinnar og að á grundvelli hennar hafi þjóðum heims tekist að komast fyrir rót vandans, jafnvel þó að það taki ósonlagið líklega nokkra áratugi, jafnvel fram yfir miðja 21. öld, að komast í fyrra horf. Á Íslandi dróst notkun ósoneyðandi efna saman um 97% á áratugnum frá árinu 1986. Af þessu tilefni er rétt að rifja upp í stuttu máli baráttuna gegn eyðingu ósonlagsins á alþjóðavettvangi og hér á Íslandi.

5.1. Þynning ósonlagsins

Nú eru liðnir rúmir þrír áratugir frá því að aðvaranir heyrðust um að athafnir manna hefðu áhrif á ósonlagið í háloftunum. Ósonlagið samanstendur af ósonsameindum í 10-50 km hæð yfir jörðu, sem myndu einungis mynda nokkurra millimetra samfellt lag við loftþrýsting á yfirborði jarðar. Engu að síður ver ósonlagið jörðina fyrir skaðlegri útfjólublárri geislun frá sólinni og þynning þess veldur aukinni geislun, sem hefur verið talin orsaka aukna tíðni húðkrabbameins, auk augnskaða og veikingu ónæmiskerfis í mönnum og dýrum. Þá er aukin útfjólublá geislun talin hafa ýmis skaðleg áhrif á lífríki og fæðuframleiðslu, auk þess sem hún getur haft óbein áhrif á veðurfar. Þynning ósonlagsins hefur einkum komið fram í sk. ósongati yfir Suðurskautinu á vorin þar, en einnig hefur orðið vart við þynningu ósonlagsins og aukna geislun á norðurhveli.

5.2. Ósoneyðing yfir Íslandi

Reglubundnar mælingar á heildarmagni ósons í andrúmslofti hafa farið fram á Veðurstofu Íslands frá árinu 1957. Þetta er með lengri mælingaröðum sem til eru í heiminum á ósoni í andrúmslofti og hefur því mikla þýðingu í rannsóknum á þynningu ósonlagsins. Meginniðurstöður þessarra mælinga eru þær að ósonlagið hefur þynnst um 0,5% á ári að meðaltali sumarmánuðina á árunum 1977-90. Á öðrum tímum árs gætti ekki þynningar á sama árabili. Veruleg árstíðasveifla er í ósonmagni; það er að jafnaði lægst fyrri hluta vetrar (október-nóvember) en hæst nálægt vorjafndægrum.

5.3. Vínar-samningurinn og Montreal-bókunin

Ríki heims gerðu með sér alþjóðlegt samkomulag um verndun ósonlagsins í Vín árið 1985. Vínar-samningurinn er fyrst og fremst viljayfirlýsing, en felur einnig í sér ákvæði um samstarf við rannsóknir og upplýsingamiðlun. Það var fyrst með Montreal-bókuninni tveimur árum síðar að 24 lönd tóku á sig bindandi skuldbindingar um að draga úr notkun klórflúorkolefna og halóna. Bókunin var tímamótasamkomulag á sviði umhverfismála: Með henni bundust stjórnvöld iðnríkja og þróunarríkja, í náinni samvinnu við iðnfyrirtæki og umhverfissinna, samkomulagi um að takmarka notkun ósoneyðandi efna, þrátt fyrir að ýmsir höfðu dregið skaðsemi slíkra efna í efa og ekki lágu í öllum tilvikum fyrir ný efni, sem komið gátu í stað þeirra sem samkomulag var um að takmarka. Um 162 ríki höfðu staðfest bókunina árið 1997.

Montreal-bókunin er endurskoðuð reglulega á grundvelli vísindalegs mats og hún hefur þróast í takt við nýjar vísindalegar uppgötvanir og tækniframfarir. Ákvæði bókunarinnar hafa smám saman verið hert, einkum með breytingum á henni sem gerðar voru árin 1990, 1992 og 1997. Fundur aðildarríkja er haldinn á hverju ári.

Óhætt er að segja að Montreal-bókunin hafi skipt sköpum í baráttunni gegn eyðingu ósonlagsins og í dag er litið á hana sem fyrirmynd annarra alþjóðasamninga á sviði umhverfismála, s.s. um loftslagsbreytingar af manna völdum. Verulega hefur dregið úr notkun ósoneyðandi efna undanfarin ár. Styrkur þeirra í andrúmsloftinu virðist hafa náð hámarki og fer væntanlega minnkandi á næstu árum og má því segja að komist hafi verið fyrir rót vandans, þrátt fyrir að nokkur tími muni líða áður en ósonlagið kemst í samt lag aftur. Það mun líklega ekki gerast fyrr en um miðja næstu öld, ef ríki heims standa við skuldbindingar sínar.

Á fundi samningsaðila að Montrealbókuninni árið 1990 var stofnaður til bráðabirgða svokallaður ósonsjóður að upphæð 240 milljónir dollara, til þess að auðvelda þróunarríkjum að mæta kostnaði sem fylgir því að draga úr og hætta notkun ósoneyðandi efna. Þessi sjóður varð fastasjóður árið 1992 og er nefndur Marghliða sjóðurinn (The Multilateral Fund).

Tímamörk Montrealbókunarinnar.
Efni/Efnaflokkar Iðnríki Þróunarlönd
halón 1994 2010
CFC 1996 2010
tetraklórmetan 1996 2010
1,1,1-tríklóretan 1996 2015
HBFC 1996 1996
HCFC 2030 2040
metýlbrómíð 2005 2015

5.4. Framkvæmd Montreal-bókunarinnar á Íslandi

Íslendingar hafa takmarkað notkun ósoneyðandi efna meira en ákvæði Montreal-bókunarinnar segja til um. Innflutningur og sala halóna var bönnuð árið 1993 og metýlbrómíðs árið 1994. Innflutningur og sala annarra ósoneyðandi efna var takmörkuð á árunum 1995-1996, að undanskildum vetnisklórflúorkolefnum. Notkun þeirra er takmörkuð nú og verður endanlega bönnuð árið 2015. Talsvert er enn af ósoneyðandi efnum, s.s. klórflúorkolefnum (CFC) og halónum í eldri búnaði, s.s. slökkvi- og kælitækjum og er mikilvægt fyrir þá sem nota slíkan búnað að skipta yfir í notkun efna sem eru síður skaðleg umhverfinu.

Árið 1997 voru í gildi tvær reglugerðir er varða ósoneyðandi efni sem umhverfisráðuneytið hafði gefið út: Reglugerð nr. 533/1993 um kæli- og varmadælukerfi með ósoneyðandi kælimiðlum, breytt með reglug. nr. 384/1997 og reglugerð nr. 656/1997 um varnir gegn mengun af völdum ósoneyðandi efna.

Takmarkanir á innflutningi skv. íslenskum reglugerðum.
Efni/Efnaflokkar Innflutningur bannaður frá og með:
halón ágúst 1993
CFC janúar 1995
tetraklórmetan janúar1995
1,1,1-tríklóretan janúar1996
HBFC nóvember 1994
HCFC janúar 2015
metýlbrómíð nóvember 1994

5.5. Ósoneyðandi efni og valkostir í stað þeirra

Efni sem eyða ósonlaginu innihalda klór (Cl) og/eða bróm (Br). Þetta eru rokgjörn og mjög stöðug efni og berast því með tímanum upp í heiðhvolfið. Eyðandi áhrif efnanna á ósonlagið eru mjög breytileg og eru skilgreind sem ósoneyðingarmáttur þeirra, ODP-gildi (Ozone Depletion Potential). ODP-gildi CFC-11 (CCl3F) er ákvarðað sem 1 og er ODP-gildi annara efna skilgreint sem hlutfall af því.

Ósoneyðandi efni hafa mikið verið notuð vegna eðliseiginleika þeirra og efnafræðilegs stöðugleika. Í þeirra stað eru nú í notkun, eða er verið að taka í notkun, efni sem eru ekki eins skaðleg.



Ósoneyðandi efni og ODP-gildi þeirra.
Efni ODP-gildi
halónar 3-10
klórflúorkolefni (CFC) 0,6-1,0
tetraklórmetan 1,1
1,1,1-tríklóretan 0,1
metýlbrómíð 0,6
vetnisbrómflúorkolefni (HBFC) 0,02-7,5
vetnisklórflúorkolefni (HCFC) 0,001-0,52


Halónar

Halónar hafa einkum verið notaðir í slökkvikerfum og handslökkvitækjum. Halón 1311 (CF3Br), sem notað hefur verið í slökkvikerfi er með ODP-gildi 10,0 og er það efni sem hefur mestan ósoneyðingarmátt. Samkvæmt Montrealbókuninni bar öllum iðnríkjum að hætta framleiðslu og innflutningi nýframleiddra halóna árið 1994. Innflutningur nýframleiddra halóna hefur verið bannaður á Íslandi frá 1993 og innflutningur endurunninna halóna frá því í nóvember 1997 með reglugerð nr. 656/97. Halóna er enn að finna í eldri handslökkvitækjum og slökkvikerfum. Ráðgert er að halónum í slökkvikerfum í landi og á stærri skipum verði skipt út eigi síðar en 1. október 2000.

Halón 1301 hefur verið notað til eldvarna í flugvélum, hernaðarmannvirkjum og - tækjum, í tölvumiðstöðvum, söfnum og víðar. Halón er enn þá í mörgum eldri slökkvikerfum. Ný kerfi byggjast á stöðugum lofttegundum eða blöndu af slíkum lofttegundum (argon, köfnunarefni og CO2), eða á annarri tækni eins og ofurnæmri eldvaratækni.

Klórflúorkolefni (CFC)

CFC hafa verið notuð í úðabrúsa sem drifefni, sem kæliefni, til framleiðslu frauðplasts, við þurrhreinsun, fituhreinsun og við efnagreiningu. Samkvæmt Montrealbókuninni bar öllum iðnríkjum að hætta framleiðslu og innflutningi nýframleiddra CFC árið 1996. Innflutningur nýframleiddra CFC hefur verið bannaður frá því í janúar 1995 og innflutningur endurunninna CFC frá því í nóvember 1997 með reglugerð nr. 656/97. Veitt hefur verið undanþága fyrir notkun CFC sem drifefni í lyfjum til innöndunar. Þessi notkun fer þó minnkandi. CFC er enn til staðar hér á landi í eldri búnaði, t.d. í ísskápum.

Vetnisklórflúorkolefni (HCFC) eru notuð í stað CFC til bráðabirgða, en ósoneyðingarmáttur þeirra er mun minni. Vetnisflúorkolefni (HFC) eru einnig notuð í stað CFC. HFC innihalda hvorki klór né bróm og hafa ekki ósoneyðandi áhrif en þau hafa hins vegar þann galla að vera gróðurhúsalofttegundir. Þess vegna er líklegt að notkun þeirra verði takmörkuð í framtíðinni og að hluta til er notkun þeirra þegar takmörkuð hér á landi, þar sem einungis er heimilt að nota þau í kæliiðnaði og sem drifefni í lyfjum, en ekki er heimilt að nota þau til annarra hluta, t.d. sem slökkviefni. Kolvetnissambönd (HC) eru framtíðarvalkostir í stað CFC þrátt fyrir að þau séu eldfim.

Þegar notkun CFC á Íslandi var könnuð árin 1986-87 var um fjórðungur af því CFC sem notað var í úðabrúsum. Algengustu efnin sem komið hafa í stað CFC sem leysiefni og drifefni í úðabrúsum, eru kolvetnissambönd og dímetýl/vatn. Unnið er að því að finna efni sem komið geti í stað CFC sem drifefni í ofnæmislyfjum. Framleidd eru tæki til innöndunar þar sem notað er duft (án þrýstiefnis) og einnig hefur HFC verið notað sem drifefni.

CFC, tetróklórmetan og 1,1,1-tríklóretan voru áður notuð sem leysiefni í margháttuðum tilgangi. Við þurrhreinsun er nú notað tetraklóretýlen (perklóretýlen), vatn eða vetniskolefni. Til þess að fjarlægja fitu af ýmiss komar málmhlutum eru nú notuð vatnsleysanleg efni eða vetniskolefni. Við hreinsun rafeindatækja eru notaðar ýmsar upplausnir, þ.á m. vatnsleysanleg efni eða vínandi. Þá hefur nýframleiðslutækni gert hreinsun óþarfa í vissum tilvikum.

Í stað CFC til kælingar er notað ammoníak, kolvetnissambönd, HFC og HCFC (tímabundið). Náttúrulegir kælimiðlar (t.d. ammoníak, HC) eru sífellt meira að ryðja sér til rúms. Hönnuð hafa verið kælikerfi sem nota vatn og koldíoxíð sem kæliefni og er búist við að þau verði fáanleg á markaði á næstu árum.

Í stað CFC til framleiðslu frauðplasts eru nú notuð kolvetnissambönd, HCFC, HFC eða CO2. Til dæmis er nú farið að þenja einangrun á hitaveiturörum hér á landi með cyklópentan, nema á samskeytum þar sem HCFC er notað.

Tetraklórmetan

Tetraklórmetan (koltetraklóríð) hefur efnaformúluna CCl4 og ODP-gildi 1.1. Tetraklórmetan hefur verið notað sem leysiefni og við efnagreiningu. Innflutningur tetraklórmetan hefur verið óheimill frá 1. janúar 1995.

1,1,1-tríklóretan

1,1,1-tríklóretan (metýlklóroform) hefur verið notað sem leysiefni og við efnagreiningu. Innflutningur 1,1,1-tríklóretan hefur verið óheimill frá 1. janúar 1996. Hér á landi var efni notað m.a. í böðum til að leysa upp fitu og hreinsa óhreinindi af málmhlutum fyrir málningu.

Metýlbrómíð

Metýlbrómíð er eitruð lofttegund og er notað sem meindýra- og illgresiseyðir, m.a. við sótthreinsun jarðvegs og uppskeru. Einnig er það notað við svælingu safngripa og sögulegra bygginga, svælingu skipa og fæðutegunda eins og hnetna og þurrkaðra ávaxta. Metýlbrómíð hefur nánast ekkert verið notað hérlendis og innflutningur þess verið bannaður frá nóvember 1994.

Í stað metýlbrómíðs má nota aðra tækni. Fyrir jarðveg er t.d. notuð hitameðferð eða skipt yfir í notkun óvirkra ræktunarefna í gróðurhúsum.

Vetnisbrómflúorkolefni (HBFC)

Vetnisbrómflúorkolefni hafa ekki verið notuð hér á landi. Innflutningur þeirra hefur verið óheimill frá því í nóvember 1994.

Vetnisklórflúorkolefni(HCFC)

Hér á landi er enn heimilt að flytja inn vetnisklórflúorkolefni til notkunar við framleiðslu frauðplasts og sem kælimiðil í kæli- og varmadælukerfi. HCFC-141b en notað til að þenja frauðplast. HCFC-22 er notað sem kælimiðill, eitt sér eða í blöndu með vetnisflúorkolefnum. Áður var HCFC heimilað til annarra nota, m.a. sem drifefni í úðabrúsa. Innflutningur nýframleiddra HCFC er takmarkaður og verður hætt í áföngum til ársins 2015.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum