Hoppa yfir valmynd
16. mars 2001 Matvælaráðuneytið

Áform-átaksverkefni, ársskýrsla 2000

Áform-Átaksverkefni

Ársskýrsla 2000

1. Inngangur

1.1. Skipan og starf stjórnar
Á árinu 2000 hélt stjórn Áforms-átaksverkefnis 10 bókaða fundi en auk þess sinntu stjórnarmenn ýmsum verkefnum utan stjórnarfunda. Árið l999 var hið síðasta af þeim fimm árum sem fé var tryggt til verkefnisins skv. ákvæðum laga um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, nr. 27/l995. Skipunartími stjórnar verkefnisins er tvö ár og rann skipunartími þáverandi stjórnar út í maí l999. Þar sem aðeins voru sjö mánuðir eftir af þeim tíma, sem verkefninu var tryggt starfsfé með lögum, ákvað þáverandi landbúnaðarráðherra að framlengja skipunartíma stjórnarinnar til 1. mars árið 2000, með það í huga að stjórninni gæfist svigrúm til þess að ganga frá málum verkefnisins ef ekki yrði um frekara starf að ræða. Með lögum nr. 79/2000 var tryggt fé til áframhaldandi starfs verkefnisins til ársloka 2002. Hinn 20. mars 2000 var verkefninu skipuð stjórn til tveggja ára. Hana skipa: Haukur Halldórsson, bóndi, Þórsmörk, skipaður af landbúnaðarráðherra án tilnefningar, Guðmundur Elíasson, Pétursey, tilnefndur af samtökunum VOR-verndun og ræktun, Gísli S. Einarsson, alþm., tilnefndur af umhverfisráðuneytinu og Örn Bergsson, bóndi á Hofi, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands. Verkefnisstjóri Áforms er sem fyrr Baldvin Jónsson.
    1.2. Lagasetning
    Með lögum nr. 27/l995 var Áformi-átaksverkefni tryggt starfsfé til ársloka 1999. Í október l999 lagði landbúnaðarráðherra fram frumvarp til laga um að verkefninu yrði tryggt áframhaldandi starfsfé árin 2000 – 2003. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a:

    "Með lögum nr. 27/l995 var stofnað til átaksverkefnis um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Í lögunum er kveðið á um að stjórn þess skuli stuðla að verkefnum á sviði fræðslu um vistvæna og lífræna framleiðslu, gæðastjórnunar, áætlanagerðar, vöruþróunar og markaðssetningar íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að ríkissjóður leggi átaksverkefninu til 25 millj. kr. árlega á fjárlögum árin 1995 - 1999.

    Á þeim tæplega fimm árum, sem verkefnið hefur starfað, hefur stjórn þess lagt áherslu á kynningu meðal bænda, söluaðila og almennt í þjóðfélaginu á gildi vistvænnar og lífrænnar gæðastýringar í landbúnaði. Veittir hafa verið fjölmargir styrkir til rannsókna á þessu sviði, einkum rannsókna, sem til þess eru fallnar að draga fram sérstöðu íslenskra afurða hvað gæði og hreinleika snertir, svo og styrkir til rannsókna vegna lífrænnar ræktunar við íslenskar aðstæður. Þá hafa verið veittir styrkir til markaðskannana hér á landi og erlendis fyrir íslenskar afurðir undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða og hafinn er útflutningur á vistvænum og lífrænum afurðum.

    Af hálfu landbúnaðarráðuneytisins hefur á þessum tíma verið lögð áhersla á að treysta lagalega umgjörð lífrænnar framleiðslu og samræma hana stöðlum Evrópusambandsins og alþjóðlegum stöðlum IFOAM - Alþjóðasamtaka lífrænna ræktenda. Sama á við um lagalegan grunn vistvænnar framleiðslu. Bæði reglugerðin um lífræna framleiðslu og reglugerð um vistvæna framleiðslu komu út í endurskoðaðri gerð á árinu 1998.

    Árangur af því starfi sem að framan er lýst kemur m.a. fram í því :

    · að Alþingi samþykkti í mars árið1999 ályktun um að stefna beri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla á Íslandi skuli vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar. Jafnframt skuli stefnt að því að auka hlut landbúnaðarafurða sem vottaðar eru sem lífrænar.

    · að í nýjum samningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands, skv. búnaðarlögum, nr. 70/1998, er í fyrsta sinn gert ráð fyrir framlögum vegna aðlögunar að lífrænni og vistvænni framleiðslu.

    · að starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra leggur til að stefnt verði að því að allar íslenskar búvörur verði vottaðar vistvænar eða lífrænar.

    · að landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að unnið skuli að framgangi þessara tillagna starfshópsins á næstu fimm árum.

    · að búnaðarþing l999 fól stjórn Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir því að gerð verði framkvæmdaáætlun með markvissri stefnumótun um stuðning við lífrænan búskap og aðlögun að honum.

    · að í ályktun aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda l998 er hvatt til þess að sem flestir sauðfjárbændur og sláturleyfishafar útvegi sér vistvæna vottun á framleiðslu sína sem allra fyrst og að þeir bændur, sem hafi aðstöðu til, hefji lífræna framleiðslu.
      · að umræður eru hafnar um vottun íslenskra sjávarafurða sem vistvænna á grundvelli þeirrar verndarstefnu sem fólgin er í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.
        Þrátt fyrir það sem áunnist hefur er mikið verk framundan við að fylgja þeim árangri eftir sem þegar hefur náðst. Þar sem magn innlendra lífrænna og vistvænna afurða er enn sem komið er mjög takmarkað hefur til þessa ekki verið unnt að greina viðbrögð markaðarins nægilega vel enda þótt erlend markaðsreynsla gefi mikilvægar vísbendingar í jákvæða átt. Meðal bænda hefur því af eðlilegum ástæðum enn sem komið er gætt nokkurrar varfærni gagnvart þessum hugmyndum og er brýnt að kynna þær á markvissan hátt meðal bænda og innan afurðastöðvanna. Á hinn bóginn eru vaxtarmöguleikar íslenskrar búvöruframleiðslu (matvæla) að flestra dómi bundnir því að takast megi að vinna þeim markað erlendis sem vottaðrar hágæðavöru. Jafnframt eru gæði innlendra búvara helsta vörn bænda gagnvart innfluttum vörum í baráttunni um innlenda markaðinn. Á grundvelli þeirra rannsóknaniðurstaðna, sem fengist hafa, er nú lag að hefja markvisst kynningar- og sölustarf á erlendum og innlendum markaði.

        Ekki verður séð að neinn aðili á vegum hins opinbera eða innan landbúnaðarins hafi til þess fjármuni né sé að öðru leyti til þess fær að fylgja eftir því frumkvöðulsstarfi sem Áform-átaksverkefni hefur unnið og því er hætt við að verulegur afturkippur komi í alla þróun á þessu sviði. Því er lagt til að ákvæði 4. gr. laga nr. 27/l995, þar sem kveðið er á um framlög til átaksverkefnisins á fjárlögum, verði framlengd og kveðið á um að fé verði veitt til verkefnisins á fjárlögum árin 2000-2003".

        Frumvarp þetta hlaut ekki afgreiðslu Alþingis fyrr en í maí 2000. Í nefndaráliti landbúnaðarnefndar Alþingis, dags. 8. maí 2000, segir m.a. "Nefndin telur mikilvægt að styrkja og styðja við framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða og lítur svo á að það starf sem unnið hefur verið á vegum verkefnisins hafi verið til bóta hvað það varðar. Nefndin bendir á að setja þarf skýrar vinnureglur um starfsemi verkefnisins og notkun þess fjár sem það fær til umráða".

        Niðurstaðan varð sú að í fjárlögum fyrir árið 2000 var veitt 25 millj. kr. framlag til verkefnisins og í lögunum sem samþykkt voru í mai 2000 var kveðið á um hliðstætt framlag árin 2001 og 2002.

        1.3 . Stjórnsýsluúttekt
        Í tengslum við umræðu um áframhaldandi fjárveitingar til verkefnisins ákvað Ríkisendurskoðun í október 1999 að láta fara fram stjórnsýsluendurskoðun á verkefninu. Í inngangi að skýrslu Ríkisendurskoðunar segir m.a:

        "Þegar kom að lokum verkefnisins ákvað Ríkisendurskoðun, með vísan til 9. gr. laga nr. 86/l997 um stofnunina, að láta fara fram stjórnsýsluendurskoðun á verkefninu. Markmiðið var að kanna hvernig staðið hefði verið að verkefninu og hver árangur af því hefði orðið. Þessi ákvörðun var tilkynnt landbúnaðarráðuneytinu með bréfi, dags. 15. október l999. Með ofangreindu bréfi var þess farið á leit við landbúnaðarráðuneytið að það afhenti öll þau gögn sem ráðuneytið hefði undir höndum og að notum kynnu að koma við úttekt á verkefninu. Stuttu síðar bárust Ríkisendurskoðun frá ráðuneytinu ársskýrslur stjórnar átaksverkefnisins, ársreikningar, fundargerðir og fleiri gögn. Þá var óskað eftir viðbótargögnum frá forsvarsmönnum verkefnisins og brugðust þeir skjótt við beiðninni. Auk þess var aflað munnlegra upplýsinga frá forsvarsmönnum verkefnisins og veittu þeir greið og góð svör. Að lokum fengu Landbúnaðarráðuneytið og forsvarsmenn Áforms drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar til yfirlestrar".

        Um helstu niðurstöður segir m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar: Fram kemur að á þeim tíma sem stjórn Áforms-taksverkefnis hafi starfað samkvæmt lögum nr. 27/1995, um átaksverkefnið, hafi verið stuðlað að ýmsum verkefnum á sviði fræðslu um vistvæna og lífræna framleiðslu, gæðastjórnunar, áætlanagerðar, vöruþróunar og markaðssetningar íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða. Stjórn verkefnisins hafi gefið út ársskýrslur þar sem gerð sé grein fyrir þeim verkefnum sem ráðist hafi verið í og árangri af þeim. Hafi verkefnaval átaksverkefnisins spannað mjög vítt svið og í megin atriðum verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 27/1995. Verkefnunum hafi einnig að jafnaði verið fylgt eftir. Hafa verði í huga í þessu sambandi að orðalag laganna og markmið þeirra, svo sem þau eru tilgreind í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu, sé mjög rúmt. Fram kemur það mat Ríkisendurskoðunar að æskilegt hefði verið að löggjafinn hefði afmarkað verkefnið með skýrari hætti í lögunum, ekki síst vegna þess hve takmörkuðu fjármagni var ætlað að veita til verkefnisins.
        Þá segir að af ársskýrslum stjórnar Áforms og öðrum gögnum málsins sé ljóst að stjórn átaksverkefnisins hafi náð nokkrum árangri með starfi sínu. Með átaksverkefninu hafi verið stuðlað að viðhorfsbreytingum og aukinni þekkingu á þessu sviði sem nýtast muni við vöruþróun og sölu íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og sjálfbærrar þróunar á innlendum og erlendum mörkuðum. Árangur verkefnisins verði hins vegar ekki mældur í tölulegum upplýsingum um atvinnusköpun, magn seldra afurða og verðmæti þeirra svo að dæmi séu tekin. Einu tölulegu upplýsingarnar, sem Ríkisendurskoðun hafi getað aflað, séu frá landbúnaðarráðuneytinu en það haldi skrá yfir framleiðendur sem hlotið hafi vistvæna og lífræna vottun. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hafi 37 framleiðendur fengið viðurkenningu sem framleiðendur á lífrænum landbúnaðarafurðum. Þar af séu framleiðendur 30 en afurðastöðvar 7. Listar yfir vistvænt vottaða framleiðendur séu ónákvæmir en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu séu vistvænar vottanir 52 á árinu 1996, 125 á árinu 1997 og 205 á árinu 1998. Af þessum upplýsingum megi ráða að mun meira sé um vistvænar vottanir en lífrænar. Ástæða þess hve þróun lífrænna framleiðsluhátta hefur verið hæg hér á landi hafi meðal annars verið sú að rannsóknaniðurstöður um möguleika á lífrænni fóðuröflun voru ekki fyrir hendi, auk þess sem sölumöguleikar og verðlag afurða hafi ekki verið þekkt. Vegna aðlögunartíma að breyttum framleiðsluháttum og kostnaðar við breytingarnar hafi menn hingað til ekki verið reiðubúnir að sækjast eftir lífrænni vottun.

        Þá segir að samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum Áforms hafa nokkrir bændur skilað vottuðum afurðum á markað á árunum 1999 og 2000. Hafi allir þessir bændur fengið hærra verð fyrir afurðir sínar en hefðbundnir bændur fái. Þannig hafi skilaverð til sauðfjárbænda verið 75 kr. hærra á kg. en greitt var fyrir hefðbundið kjöt en auk þess hafi ylræktarbóndi fengið hærra verð svo og mjólkurframleiðendur.

        Fram kemur það mat Ríkisendurskoðunar að verkefnaval átaksverkefnisins spanni of vítt svið miðað við þá fjármuni sem verkefnið hafi til ráðstöfunar og sé það ekki sýst af þeirri ástæðu sem árangur, sem mælanlegur er eftir tölulegum mælikvörðum, hafi ekki náðst. Þannig sé þónokkuð um að veittar væru lágar fjárhæðir til ýmiss konar verkefna sem voru ekki líkleg til að skila mælanlegum árangri. Þó verði að hafa í huga að í upphafi verkefnisins var gert ráð fyrir að árleg framlög til þess yrðu 50 millj. kr. en ekki 25 millj. kr. Líklegt sé að ná hefði mátt fram mælanlegri árangri með því að leggja áherslu á nánar afmörkuð svið hverju sinni og með því að leggja fjármuni í færri en stærri verkefni.

        Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ennfremur bent á að við framkvæmd verkefnisins hafi forsvarsmenn þess ekki haft við önnur fyrirmæli að styðjast en þau sem fram koma í lögunum og greinargerð með frumvarpi laganna. Þannig hafi landbúnaðarráðherra ekki sett reglugerð eða gert athugasemdir við framkvæmd verkefnisins. Nokkuð hafi, að mati Ríkisendurskoðunar, skort á að landbúnaðarráðneytið sinnti því forustuhlutverki sem því bar að gegna í þessu máli. Stjórn verkefnisins hafi skilið ákvæði laganna svo, að henni bæri ekki einungis að veita styrki til einstakra verkefna heldur vera virkur aðili og hafa frumkvæði að aðgerðum á því sviði sem hér um ræðir. Stjórnin líti svo á að átaksverkefnið sé verkefni en ekki sjóður og beri henni því ekki að hlíta sömu reglum og gilda um slíka starfsemi. Bent er á nauðsyn þess að stjórn verkefnisins setji sér ákveðnar skriflegar verklagsreglur þar sem ákveðið er til hvernig verkefna styrkir skuli veittir og hvernig staðið skuli að styrkveitingum.

        Fram kemur sú skoðun Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt sé að styrkir séu auglýstir þannig að allir hafi jafna möguleika á að sækja um og fá þá, uppfylli þeir skilyrði stjórnarinnar. Tekið er fram að í þessu sambandi hafi stjórnin í athugasemdum við efni skýrslunnar bent á að Áform sé frumkvöðulsverkefni og hafi stjórn þess frá upphafi þurft að leita uppi aðila sem hefðu áhuga og getu til að reyna fyrir sér með nýjungar á verksviði átaksins. Sem dæmi er bent á að þegar hafist hafi verið handa við markaðskannanir fyrir dilkakjöt í Bandaríkjunum árið 1995 hafi staðan verið sú að einungis eitt íslenskt sláturhús hafi haft leyfi til þess að selja kindakjöt á Bandaríkjamarkaði og einn aðili hafi ráðið yfir öllu kjöti sem verkað hafi verið fyrir þann markað. Af þeim sökum hafi verið tilgangslaust að auglýsa styrki til tilrauna með útflutning dilkakjöts á Bandaríkjamarkað. Sama telji stjórnin að hafi átt við um meirihluta styrkveitinga, þ.e. að tilgangslaust hafi verið að auglýsa styrkina þar sem aðeins einn aðili hafi verið hæfur til að taka að sér viðkomandi verkefni auk þess sem hvetja hafi þurft menn til að taka verkefnin að sér.

        Í niðurlagi skýrslu Ríkisendurskðunar kemur fram að fjármagn það sem átaksverkefnið hafi haft til ráðstöfunar í þágu verkefnisins sé ekki mikið og því ekki raunhæft að gera ráð fyrir miklum árangri af því. Verkefni þau, sem átaksverkefnið hafi hvatt til, séu tilrauna- og þróunarverkefni og eðli málsins samkvæmt taki langan tíma að ná árangri sem mælanlegur sé með tölulegum upplýsingum, auk þess sem ekki sé víst að árangur verði. Því sé unnt að fallast á það með stjórn átaksverkefnisins að það fjármagn, sem veitt er til verkefnisins, sé í eðli sínu áhættufjármagn. Það liggi fyrir að allt sem snýr að lífrænni ræktun taki langan tíma þar sem aðlaga þarf jarðveg og annað til þess að uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Af lestri fundargerða átaksverkefnisins, ársskýrslna og viðtölum við stjórnendur verkefnisins megi greina að ýmislegt hafi áunnist. Hafi stjórnendur verkefnisins bent á að árangurinn felist fyrst og fremst í því að tekist hafi að koma inn viðhorfsbreytingu hjá mönnum til gæðastýringar í landbúnaði. Þannig hafi skilningur og þekking aukist á þeim kröfum, sem gerðar séu til vara á hágæðamörkuðum, og hvernig unnt sé að mæta þeim kröfum. Þá hafi niðurstöður fengist í rannsóknum sem nýtist sem þekking við lífræna ræktun og við notkun á tækjum og jurtum við lífræna og vistvæna framleiðslu. Þannig hafi fengist mikil þekking varðandi framleiðslu en einnig hafi náðst sambönd og kunnátta á mörkuðum erlendis sem nýtast muni í framtíðinni. Mönnum sé einnig orðið ljóst að unnt sé að standa að slíkri framleiðslu hér á landi. Helsta vandamálið, sem átaksverkefnið standi frammi fyrir, sé að fá menn til þess að hefja lífræna framleiðslu. Þannig telji forsvarsmenn átaksverkefnisins að ríkið þurfi að veita aðlögunarstyrki til þess að menn fáist til þess að ráðast í breytingar á búskaparháttum sínum.

        Í niðurlagi skýrslunnar kemur ennfremur fram sú skoðun Ríkisendurskoðunar að þar sem um hafi verið að ræða takmarkað ráðstöfunarfé hefði mátt ná fram meiri árangri með því að beina kröftunum að tilteknum afmörkuðum sviðum hverju sinni. Markmið og áherslur þurfi að móta á skýrari hátt og nauðsyn sé að setja verkefninu skriflegar verklagsreglur.

        1.4. Verklagsreglur stjórnar
        Í framhaldi af þeirri ákvörðun Alþingis að framlengja starfstíma verkefnisins til ársloka 2002 og með tilliti til þeirra ábendinga sem fram komu í stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar, svo og í framhaldi af viðtölum stjórnar og verkefnisstjóra Áforms við landbúnaðarráðherra ákvað ráðherra eftirfarandi megináherslur í starfi verkefnisins það sem eftir lifir starfstíma þess:
          · Uppbygging lífrænnar deildar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri sem verði miðstöð fræðslu og rannsókna á sviði lífrænnar framleiðslu hér á landi. Þar verði jafnframt safnað saman niðurstöðum rannsókna og tilrauna í lífrænni ræktun og efni sem tengist lífrænum búskap á Íslandi og í nálægum löndum sem Áform hefur aflað á starfstíma sínum.
            · Menntun á sviði lífræns landbúnaðar fyrir bændur og leiðbeinendur í landbúnaði.
              · Athugun á hagrænum forsendum lífræns landbúnaðar.
                · Stuðningur við rannsóknir og tilraunir vegna fóðuröflunar fyrir lífræna búfjárrækt með sérstakri áherslu á tilraunir með ræktun belgjurta, öflun lífrænna áburðarefna og nýtingu flæðiengja og annarra náttúrlegra slægna.
                  · Stuðningur við rannsóknir og tilraunir vegna lífrænnar garðyrkju og ylræktar.
                    · Verkefni sem lúta að framleiðslu lífræns eldisfisks.
                      · Stuðningur við markaðssetningu lífrænna og vistvænna afurða innanlands og erlendis.
                        Við styrkveitingar skal taka mið af framangreindum megináherslum í starfi verkefnisins.
                          II. Verkefni ársins 2000
                          Í samræmi við þær verklagsreglur sem landbúnaðarráðherra hefur sett stjórn verkefnisins hefur starfi þess í aukum mæli verið beint að færri og stærri verkefnum og þá einkum verkefnum sem lúta að eflingu lífrænnar framleiðslu hér á landi og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu verkefnum átaksins á árinu 2000.

                          2.1. Lífræn miðstöð á Hvanneyri
                          Á 62. fundi stjórnar, 10. ágúst 2000, lagði verkefnisstjóri fram minnisblað um stofnun lífrænnar miðstöðvar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Í minnisblaðinu var gert ráð fyrir að í miðstöð þessari verði safnað saman niðurstöum allra rannsókna og tilrauna í lífrænni ræktun og efni sem tengist lífrænum búskap á Íslandi og í öðrum löndum. Þessi miðstöð verði með svipuðu sniði og sambærilegar stofnanir í Noregi og Danmörku. Gert var ráð fyrir að öllum gögnum, sem Áform hefur aflað á starfstíma sínum og tengjast hinum faglega þætti lífrænnar ræktunar, verði komið fyrir í þessari miðstöð. Með þessu móti yrði tryggt að framhald verði á þróun lífræns landbúnaðar á Íslandi á komandi árum. Lagt var til að Áform ynni mjög náið næstu tvö árin með lífrænu miðstöðinni og verði fjármunum til undirbúnings og reksturs hennar til ársloka 2002. Stjórn Áforms samþykkti að leita eftir því við landbúnaðarráðuneytið og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri að sett verði á fót lífræn miðstöð á Hvanneyri á grundvelli þess sem að framan greinir. Einnig var samþykkt að hafa samráð við Bændasamtök Íslands og samtökin VOR-verndun og ræktun um þetta mál. Þá var samþykkt, til undirbúnings þessu máli, að gefa landbúnaðarháskólanum kost á að Áform greiddi kostnað við ferð starfsmanns skólans á ráðstefnu IFOAM um lífræna framleiðslu sem haldin var í Basel í Sviss 24. - 31. ágúst 2000. Hugmyndir þessar fengu mjög jákvæðar undirtektir hjá öllum þeim aðilum sem haft var samráð við, sbr. framanritað, og leiddu viðræður við landbúnaðarháskólann til þess að hinn 14. desember 2000 samþykkti stjórn Áforms drög að samningi um lífræna miðstöð á Hvanneyri og jafnframt að leggja miðstöðinni til 4 millj. kr. á ári árin 2001 til 2004. Háskólaráð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hafði áður samþykkt samninginn og fyrir lá samþykki landbúnaðarráðherra við þessari ráðagerð. Eftirfarandi samningur var síðan undirritaður við hátíðlega athöfn í Bændahöllinni 6. febrúar 2001:
                          Samkomulag um lífræna miðstöð við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

                          Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, kt. 500169-3899, og Áform-átaksverkefni, kt. 530695-2209, gera með sér eftirfarandi samkomulag um lífræna miðstöð á Hvanneyri.
                          1. gr.
                          Við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri verður komið á fót lífrænni miðstöð til eflingar á rannsókna- og þróunarstarfi á sviði lífrænnar ræktunar á Íslandi svo og til kynningar á möguleikum greinarinnar hér á landi.
                          2. gr.
                          Bókasafn landbúnaðarháskólans verði eflt á þessu sviði þannig að þar verði aðgengilegt efni um lífræna framleiðslu, s.s. alþjóðlegir staðlar, rannsóknaniðurstöður innlendar og erlendar, og annað efni innlent og erlent sem þessa tegund landbúnaðar varðar, m.a. allt efni sem Áform-átaksverkefni hefur aflað og varðar lífræna ræktun og markaðssetningu lífrænna afurða. Þá skal landbúnaðarháskólinn safna saman upplýsingum um stöðu lífrænnar ræktunar hér á landi og þá reynslu sem þegar hefur fengist af slíkum framleiðsluháttum hérlendis.
                          3. gr.
                          Fræðsla um grundvallar forsendur lífrænnar framleiðslu verði liður í námi skólans. Einnig verði boðið upp á valgreinar um lífrænan landbúnað sem jafnframt verði boðnar í fjarnámi. Við landbúnaðarháskólann skal skipuleggja námskeið á sviði lífrænnar framleiðslu fyrir bændur og leiðbeinendur. Þá skal stefnt að því að a.m.k. tveir nemendur landbúnaðarháskólans hafi lífræna framleiðslu sem lokaverkefni við skólann á tímabilinu 2001 – 2004.
                          4. gr.
                          Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri mun á árunum 2001 - 2004 gera sérstakt átak í rannsóknum á sviði jarðræktar og fóðuröflunar fyrir lífræna búfjárrækt og í framleiðslu lífrænna búfjárafurða (sauðfjárafurða) í samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Áætlun um slíkt rannsóknaferli skal liggja fyrir 1. febrúar ár hvert.
                          5. gr.
                          Á vegum landbúnaðarháskólans verði frá vorinu 2001 unnið að því að koma á fót lífrænum einingum til stuðnings rannsóknum, kennslu og leiðbeiningum. Þá skulu tún, engi, garðar og önnur aðstaða skólans til lífrænnar framleiðslu vera aðgengileg bændum til skoðunar svo og öðru áhugafólki um lífræna ræktun.
                          6. gr.
                          Áform átaksverkefni mun árlega árin 2001 – 2004 veita Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri styrk að fjárhæð kr. 4 milljónir vegna kostnaðar við framangreind verkefni. Þar að auki er gert ráð fyrir að afla styrktarfjár úr rannsókna- og þróunarsjóðum vegna rannsóknar- verkefna um lífræna ræktun.

                          7. gr.
                          Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri skal árlega skila stjórn Áforms-átaksverkefnis (eftir árið 2002 Landbúnaðarráðuneytinu) skýrslu um framvindu verkefna skv. þessu samningi.

                          8. gr.
                          Landbúnaðarháskólinn tilnefnir sérstakan ábyrgðarmann úr röðum starfsmanna sinna sem er ábyrgur fyrir framkvæmd samkomulags þessa og ræður verkefnisstjóra og annað starfsfólk til þess að annast framkvæmd þeirra verkefna sem felast í samkomulaginu. Í samráðshóp um verkefnið verður, auk fulltrúa landbúnaðarháskólans og fulltrúa Áforms-átaksverkefnis, leitað tilnefninga Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Garðyrkjuskóla ríkisins, Hólaskóla, Bændasamtaka Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins og VOR- félags lífrænna bænda.
                          Reykjavík, 6. febrúar 2001


                          Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri Áform-átaksverkefni
                          Landbúnaðaarráðuneytið

                          2.1. Könnun á möguleikum til lífrænnar sauðfjárræktar
                          Í febrúar 2000 réð stjórn Áforms Egil Bjarnason, ráðunaut í Skagafirði, til þess að kanna skilyrði til lífrænnar sauðfjárræktar í einstökum landshlutum. Verkefnið fólst m.a. í því, að skilgreina þau svæði sem vænlegust eru til lífrænnar sauðfjárræktar og hver afkomugrunnur er í slíkri framleiðslu. Var Agli m.a. falið að ræða við bændur í Mýrdal sem stundað hafa lífræna framleiðslu um nokkurra ára skeið. Á 59. fundi stjórnar, 2. mai 2000, lagði Egill fram greinargerð um athuganir sínar á möguleikum til lífrænnar framleiðslu á dilkakjöti sem hann hafði unnið skv. beiðni stjórnar Áforms. Í skýrslunni kemur m.a. fram að fóðuröflunin sé sá þáttur sem erfiðast er að tryggja í þessun sambandi. Heyfengur sé nær undantekningarlaust talinn verulega minni en 70% af því sem tún í hefðbundinni ræktun gefa þótt notuð séu yfir 20 tonn af lífrænum áburði á ha. Að mati Egils er staða lífrænnar framleiðslu á dilkakjöti enn sem komið er mjög veik. Rekstrareiningarnar eru mjög litlar og háðar því að fóðuröflunin byggi á lífrænum áburði frá öðrum búgreinum. Rekstrarlegar forsendur virðist hæpnar miðað við það afurðaverð sem nú er í boði og nauðsynleg hækkun á því, sem byggir á markaðslegum forsendum, sé ekki í sjónmáli. Að mati Egils er sú reynsla, sem nú liggur fyrir og viðhorf þeirra sem nú eru í þessari framleiðslu, eða hafa reynt hana, ekki grunnur til að byggja á hvatningu til annarra um að hefja þessa framleiðslu og líta á hana sem möguleika fyrir sauðfjárbændur til að byggja afkomu sína á. Þá sé einnig hæpið að mati Egils að gera ráð fyrir að aukið magn af lífrænt framleiddu dilkakjöti, til frekari markaðstilrauna, fáist á næstunni að óbreyttum aðstæðum, þar sem ekki sé hægt að svo komnu að benda á raunhæfar rekstrarforsendur fyrir þessa framleiðslu.

                          2.2. Átak til eflingar lífrænni sauðfjárrækt
                          Í framhaldi af skýrslu Egils Bjarnasonar ákvað stjórn Áforms að fara í viðræður við Bændasamtök Íslands og landbúnaðarráðuneytið (Framkvæmdanefnd búvörusamninga) um hvernig staðið verði að framhaldi verkefnisins. Þær viðræður leiddu til þess að stjórn Áforms ritaði Framkvæmdanefnd búvörusamninga eftirfarandi bréf hinn 8. nóvember 2000:

                          "Áform-átaksverkefni hefur ákveðið að leita samstarfs við Framkvæmdanefnd búvörusamninga um að stuðla að aukinni framleiðslu á lífrænt vottuðu dilkakjöti á allra næstu árum, til þess að unnt sé að gera marktæka tilraun með útflutning á því og láta reyna á hversu hátt verð er hægt að fá fyrir þannig vottað kjöt. Verkefnið standi í fimm ár.
                          Gert er ráð fyrir að leitað verði samninga við nægilega marga bændur til að framleiðslan geti orðið a.m.k. 50 - 100 tonn á ári. Þeir verði valdir með tilliti til þess að þeir geti hver og einn með lágmarksfyrirhöfn og lítilli fjárhagsáhættu aðlagað búskap sinn að lífrænum háttum á sem stystum tíma.
                          Samið verði við einn til tvo sláturleyfishafa um slátrun og útflutning, þ.e. um þátttöku í þessari útflutningstilraun, sem felur í sér að veita hlutaðeigandi aðilum jafnóðum upplýsingar um árangur og annað sem máli skiptir og að gera upp við bændurna samkvæmt samkomulagi.
                          Á árunum 2001 til 2005 verði bændum tryggt 100 kr. hærra verð fyrir hvert kg sem vottað er lífrænt en þeir hefðu fengið fyrir óvottað kjöt. Þeir verði háðir útflutningskvöð eins og aðrir, en verðmunurinn miðist við vegið meðalverð kjöts sem selt er innanlands og þess sem flutt er úr landi og samkvæmt verðlagningu mismunandi gæðaflokka. Þetta þýðir að bóndinn fær 100.000 kr. aukalega fyrir hvert tonn af lífrænt vottuðu kjöti. Álagið er miðað við það sem raunhæft þykir að gera væntingar um að hinn lífræni markaður muni skila aukalega þegar fram líða stundir.
                          Erfitt er að gera kostnaðaráætlun á þessu stigi, en til að gera sér grein fyrir líklegu umfangi er eftirfarandi forsendum og reiknitölum stillt upp:

                            Álagsgreiðsla
                            Ár Framleiðsla Verðmunur pr. kg Alls

                            2001 20 tonn 40 kr. 60 kr. 1.200 þ. kr.
                            2002 30 tonn 40 - 60 - 1.800 - -
                            2003 50 tonn 50 - 50 - 2.500 - -
                            2004 70 tonn 50 - 50 - 3.500 - -
                            2005 100 tonn 70 - 30 - 3.000 - -
                          Stjórn Áforms er reiðubúin til samstarfs um að Áform greiði kostnaðinn að hálfu leyti og leitar hér með eftir því að Framkvæmdanefnd búvörusamninga leggi helminginn á móti af þróunarfé hins nýja sauðfjársamnings.
                          Óskað er eftir viðræðum við Framkvæmdanefnd búvörusamninga um þetta mál."

                          Hinn 14. desember 2000 komu stjórn Áforms-átaksverkefnis og Framkvæmdanefnd búvörusamninga saman til viðræðna um þetta mál. Áður höfðu þessar hugmyndir verið kynntar landbúnaðarráðherra. Aðilar urðu ásáttir um að Áform-átaksverkefni og Framkvæmdanefnd búvörusamninga legðu fram fé vegna umræddrar tilraunar árin 2001 – 2005 í samræmi við þá áætlun sem fram kemur í bréfi stjórnar Áforms. Ákveðið var að fela Guðmundi Sigþórssyni, Sveinbirni Eyjólfssyni, Sigurgeiri Þorgeirssyni og Baldvini Jónssyni að gera áætlun um framkvæmd tilraunarinnar, að höfðu samráði við sláturleyfishafa. Áætlunin verði lögð fyrir sameiginlegan fund aðila eigi síðar en í febrúar 2001.

                          2.3. Rannsóknir Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri
                          Í samræmi við áherslur sem fram koma í verklagsreglum þeim sem landbúnaðarráðherra hefur sett stjórn verkefnisins og það sem fram kemur í skýrslu Egils Bjarnasonar var ákveðið að leggja áherslu á styrki til rannsókna á möguleikum til lífrænnar fóðuröflunar og framleiðslu lífræns áburðar. Með tilliti til þessa voru Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri á sl. ári, veittir fjórir styrkir til rannsókna á þessu sviði.

                          Í fyrsta lagi fékk skólinn 1.500.000 kr. styrk til að hefja og reka til ársins 2004 tilraun með notkun lífræns áburðar (búfjáráburðar og safnhaugs). Markmið tilraunarinnar er að kanna hvernig skynsamlegast sé að nýta búfjáráburð. Tekið er mið af því að ráðlagt er að nota stóra skammta af búfjáráburði þegar aðlögun hefst að lífrænni ræktun og borið saman hvort betra er að gefa frekar einn mjög stóran skammt í byrjun eða skipta honum á fá ár.

                          Í öðru lagi var skólanum veittur 375.000 kr. styrkur til rannsókna á langtímaáhrifum lífræns áburðar og steinefnaáburðar á uppskeru og jarðveg.

                          Í þriðja lagi var skólanum veittur 1.186.000 kr. styrkur til rannsóknar sem miðar að því að meta áhrif þess að fóðra sauðfé mikinn hluta fóðrunartímabilsins með fóðri, sem fengið er utan ræktaðs lands, borið saman við hefðbundna fóðrun, og afla reynslu af slíkum búskap.

                          Í fjórða lagi fékk landbúnaðarháskólinn 275.000 kr. styrk til könnunar á engjum í Borgarfjarðarsveit með tilliti til möguleika á nýtingu þeirra til öflunar fóðurs til lífrænnar framleiðslu.

                          2.5. "Iceland Naturally"
                          Á 65. fundi stjórnar, 14. desember 2000, var lagt fram bréf frá "Iceland Naturally" sem er átak til kynningar á Íslandi og íslenskum vörum í Norður-Ameríku. Í bréfinu kemur fram að ríkisstjórnin hafi sumarið 1999 ákveðið að efna til kynningarátaks á Íslandi og íslenskum vörum í Norður-Ameríku. Átakið á að standa í fimm ár, þ.e. árin 2000 til 2004. Áformað var að verja einni milljón bandaríkjadala árlega til verkefnisins, þar af legði ríkið fram 70% en hagsmunaaðilar um 30%. Markmið átaksins er að auka eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu og auka þannig útflutning og gjaldeyrisöflun. Allt kynningarstarf verður samræmt undir kjörorðinu "Iceland naturally". Upphaflega átti landbúnaðurinn ekki fulltrúa í stjórn átaksins en landbúnaðarráðherra fékk því framgengt að Bændasamtök Íslands tilnefni fulltrúa í stýrihóp gegn því að greinin greiði árlega sem svarar 25 þús. bandaríkjadölum til verkefnisins. Tillaga landbúnaðarráðherra er að þessi fjárhæð skiptist jafnt milli Áforms, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og Framkvæmdanefndar búvörusamninga næstu tvö ár, 2000 og 2001, og greiði hver aðili kr. 750.000 hvort ár. Stjórn Áforms samþykkti að taka þátt í þessu verkefni og greiða kr. 750.000 til verkefnisins árlega árin 2000 og 2001.

                          2.6. Söluátak fyrir dilkakjöt o.fl. vörur í Bandaríkjunum
                          Á 62. fundi stjórnar, 10. ágúst 2000, lagði verkefnisstjóri fram hugmyndir um markaðssetningu og kynningu á lambakjöti o.fl. íslenskum afurðum í verslunum Fresh Fields í Bandaríkjunum, í samráði við Goða hf og kynningarnefnd Íslands í Bandaríkjunum, Iceland Naturally, sem á að starfa að markaðs- og kynningarmálum þar næstu 4 árin. Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri BÍ, kom til fundarins til viðræðna um þetta mál en hann á sæti í stjórn verkefnisins f.h. landbúnaðarins. Stjórn Áforms samþykkti að fela verkefnisstjóra að leita eftir samstarfi um samræmingu á markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða á grundvelli framlagðra hugmynda. Jafnframt var samþykkt að fela verkefnisstjóra að gera áætlun um kynningu og markaðssetningu íslenskra afurða næstu 3 – 4 ár sem Áform gæti lagt lið í samvinnu við aðra aðila. Hér fer á eftir greinargerð verkefnisstjóra um þessi mál:

                          Markaðsþróun í Bandaríkjunum
                          "Á undanförnum árum hefur Áform, ásamt Goða hf. og Landssambandi sauðfjárbænda, kannað möguleika á sölu dilkakjöts í Bandaríkjunum. Á árunum 1995 -1996 var gerð tilraun með sölu á frystu kjöti á Manhattan svæðinu í New York í um það bil 30 verslunum. Fólki var gefinn kostur á að smakka kjötið í verslununum og einnig var auglýst í blöðum og gefnir út kynningarbæklingar. Segja má að tilraunin hafi tekist vel, kjötið vakti verðskuldaða athygli, kjötkaupmennirnir og neytendur sýndu kjötinu áhuga, en verðið sem fékkst fyrir kjötið var of lágt til að grundvöllur væri til að framleiða fyrir þennan markað.

                          Síðan hefur það gerst í Bandaríkjunum sem og í flestum löndum í Evrópu að vitund neytenda um mikilvægi hollra og hreinna afurða hefur aukist verulega og er nú svo komið að verslunum sem bjóða vörur á þessum forsendum fjölgar og hefðbundnar verslanir leita í síauknum mæli eftir hollum, hreinum gæðavörum. Æ fleiri neytendur eru nú reiðubúnir að greiða sanngjarnt verð fyrir afurðir, sem framleiddar eru í sátt við umhverfið, eru hreinar og velferð dýra er í hávegum höfð við framleiðsluna. Þetta skapar íslenskri landbúnaðarframleiðslu nýtt tækifæri til að ná fótfestu á markaði í Bandaríknunum til frambúðar.

                          Á sl. ári stofnaði ríkisstjórn Íslands ásamt aðilum innan ferðaþjónustunnar, sjávarútvegsins og landbúnaðarins til verkefnis sem ætlað er að vinna að markaðssetningu íslenskra afurða og þjónustu í Bandaríkjunum á næstu 5 árum, þ.e. til ársloka 2004. Verkefnið hefur til ráðstöfunnar $ 1.000.000 á ári. Stofnað var til verkefnisins í tilefni þess að 1000 ár voru liðin frá því Leifur Eiríksson sigldi fyrstur evrópskra manna til Ameríku og í tengslum við siglingar víkingaskipsins Íslendings til Bandaríkjanna. Á sl. ári var lögð megin áhersla á kynningar tengdar atburðum er varða landafundina. Á næstu fjórum árum mun verkefnið einkum leggja áherslu á að styðja kynningar á vörum og þjónustu frá Íslandi og kanna hvort aðilar geti sameinast um notkun vörumerkisins "Iceland Naturally". Mikilvægt er að íslenskur landbúnaður nýti sér það tækifæri sem skapast í tengslum við þessar kynningar. Hafa aðilar að Iceland Naturally lagt til að Áform og IN eigi samstarf á þeim sviðum er varða íslenskan landbúnað. Þetta mál hefur verið rætt við starfsmenn verkefnisins, þá Magnús Bjarnason og Einar Gústafsson, svo og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóra BÍ, sem er fulltrúi landbúnaðrins í stjórn verkefnisins.

                          Sölu- og kynningarátak árið 2000
                          Í september og október 2000 fór fram kynning á lambakjöti í verslunum Fresh Fields í Maryland og Virginia í Bandaríkjunum. Verslanir þessar eru hluti af stærri keðju sem heitir Whole Foods og leggur megin áherslu á fersk matvæli sem framleidd eru í sátt við umhverfið og dýraverndunarsjónarmið. Þessar verslanir eru Whole Foods í Kaliforniu og Miðríkjunum, Bread and Circus í Boston og nágrenni og Fresh Fields á Austurströndinni. Frá árinu 1995 hefur verslununum fjölgað úr rúmlega 70 í 135 á þessu ári. Stefnt er að því að verslununum fjölgi í 200 fyrir árslok 2002. Kynningaraðferð Whole Foods verslananna gengur einkum út á það að fræða viðskiptavinina með útgáfu fréttabréfa. Verslanirnar eru almennt staðsettar í hverfum þar sem vel menntað efnafólk býr. Viðskiptavinirnir eru annars vegar fólk sem er vel upplýst um gæði matvæla og hins vegar fólk sem hefur miklar tekjur. Það má því segja að Whole Foods verslanirnar hafi haft forystu í þeirri gríðarlegu breytingu í innkaupavenjum neytenda sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum á síðustu 5-7 árum. Þá leggja verslanirnar mikla áherslu á það að eiga viðskipti við bændur sem stunda búskap í sátt við umhverfið á litlum og meðalstórum búum en selja ekki matvæli sem framleidd eru í svokölluðum verksmiðjubúum.

                          Þá fór einnig fram hliðstæð kynning í verslunum Byerly}s og Lunds í Minneapolis. Verslanirnar í Minneapolis eru glæsilegar matvöruverslanir sem eru í auknum mæli að leita nýrra afurða sem uppfylla sömu skilyrði og Fresh Fields gerir. Allir kjötkaupmennirnir í þessu verslunum eru sammála um að íslenska kjötið sé með því besta sem völ er á og líta svo á að hér sé um að ræða nýja spennandi afurð í kjötborðin. Alls staðar er kjötinu gerð afar góð skil og það sett á besta stað ásamt sérstökum kynningum. Þá eru kaupmennirnir sammála um að með því að gefa fólki að smakka kjötið sé nokkuð víst að það kaupir það. Framleiðslan og frágangur á kjötinu, sem unnið er á Húsavík, er til mikillar fyrirmyndar og greinilegt að starfsfólkið þar hefur náð góðum tökum á því verki.

                          Að fenginni þessari reynslu er áríðandi að gera sér grein fyrir því með hvaða hætti best verður staðið að útflutningi á kjöti til Bandaríkjanna með það í huga að auka enn frekar sölu á þennan markað. Það liggur fyrir að áhugi á kjötinu er mikill meðal kaupmanna. Það hafa þeir sýnt með því hvernig þeir kynna kjötið og koma því á framfæri við neytendur.

                          Sú reynsla, sem þegar er fengin, bendir til að hagkvæmast sé að selja kjötið sem "season vöru", það er að segja vöru sem er árstíðabundin á markaðnum, í þessu tilfelli bundin við sláturtíðina. Vitund neytenda fyrir season vörum er mikil í þessum búðum og styrkir fólk í trúnni að um sé að ræða hágæðavöru. Dæmi um season vörur eru mörg, bæði í sjávararfurðum og landbúnaðarafurðum. Með þetta í huga er lagt til að fimmtudagur fyrir verkalýðsfrídaginn (labour day) sé sá dagur sem kjötið verður kynnt í verslunum í Bandaríkjunum. Þessi helgi er hentug þar sem hún er alltaf fyrsta helgin í september og síðasta langa helgin á sumrinu í Miðríkjum Bandaríkjanna og á Austurströndinni. Þetta er mikil kjötsöluhelgi og ferðahelgi, ekki ósvipað verslunarmannahelginni hér á landi.

                          Það sem einkum hefur valdið erfiðleikum við útflutninginn eru samskipti innflytjendanna við bandarísk tollayfirvöld, US Customs og skoðunarmenn landbúnaðarráðuneytisins - USDA. Þau samskipti hafa verið með ólíkindum erfið og höfðu næstum valdið því að kaupmennirnir gæfust upp á því að flytja kjötið inn. Borið hefur verið við alls kyns fyrirvörum svo sem því að kjöt frá Íslandi sé á bannlista, og að greiða þurfi allt að 35% toll af kjötinu, svo að dæmi séu tekin. Starfsmenn Áforms og Goða hf., ásamt sendiráði Íslands í Washington og starfsmönnum Flugleiða í Baltimore og New York hafa reynt að greiða úr þessum málum og standa vonir til að þau leysist varanlega áður en útflutningur hefst á komandi hausti.

                          Sölu og kynningarátak árið 2001
                          Sú reynsla, sem fékkst af sölu og kynningu á islensku dilkakjöti í Bandaríkjunum á sl. hausti, verður lögð til grundvallar þeirri kynningu sem ráðgert er að fari fram haustið 2001. Ráðgert er að kjötkynning hefjist í byrjun september í haust í öllum verslunum Fresh Fields. Senda þarf prufusendingu um miðjan ágúst 2001 til að tryggja að erfiðleikarnir frá sl. hausti varðandi tollafgreiðslu endurtaki sig ekki og að kjötið fái eðlilega afgreiðslu hjá tollayfirvöldum og skoðunarmönnum USDA. Þá þarf að tryggja að sláturhúsin hafi fengið vottun og leyfi til að slátra og vinna kjötið fyrir Bandaríkjamarkað. Kanna þarf hvenær sláturtíð gæti hafist til að tryggja að nægilegt magn verði komið í verslanir fyrir 6. september 2001.

                          Unnið hefur verið að því að fjárfesta í gaspökkunarvélum, en með þeirri pökkunaraðferð er mögulegt að tryggja gæði og ferskeika kjötsins í allt að 90-120 daga frá pökkun. Þetta gæti leitt til þess að unnt sé að flytja kjötið í gámum með skipi að einhverju leyti og spara þannig flutningskostnað og lengja sölutímabilið.

                          Jafnframt er ætlunin að kanna hvort áhugi sé á öðrum íslenskum afurðum, svo sem fiski, ostum, vatni, bjór og eldisfiski, en verslanir Fresh Fields selja nú þegar talsvert af íslenskum ferskum fiski. Þá er ætlunin að kanna hvort unnt sé að tileinka október íslenskum afurðum. Þetta verði gert í samráði við Iceland Naturally og jafnframt tekið þátt í sýningunni EXPO east 2001 sem fram fer í Washington 12.-14. október. Á sýningunni, sem sérhæfir sig í fæðubótarefnum, snyrtivörum og vistvænum og lífrænum afurðum, er ætlunin að kynna ímynd Íslands sem land hollustu, hreinleika og gæða. Þegar hefur verið gengið frá leigu á litlum sýningarbás þar sem allir básar hafa nú þegar verið teknir frá. Gert er ráð fyrir að fjöldi gesta, sem heimsækir sýninguna, verði um 35.000, allt fólk sem með einum eða öðrum hætti tengist hollum mat, sjálfbærum aðferðum við matvælaframleiðslu og dýravernd. Þetta er því kjörinn vettvangur til að koma afurðum okkar og þjónustu á framfæri svo og aðferðum okkar við matvælaframleiðsluna, svo sem sértækri gæðastýringu í landbúnaði, fiskveiðistjórnunarkerfinu svo og þróun sjálfbærra byggðakjarna.

                          Taka þarf sem allra fyrst ákvörðun um tilhögun þessara mála og undirbúning ef af á að verða. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að svona verkefni tekur mikinn tíma í undirbúningi og staðfesta þarf leigu á sýningarplássi svo og að undirbúa og framleiða kynningarefni, bjóða blaðamönnum með góðum fyrirvara o.s.frv.

                          2.7. Vinnsla fæðubótarefna
                          Á undanförnum árum hefur Áform styrkt rannóknir dr. Sigmundar Guðbjarnasonar, prófessors, og Raunvísindastofunar Háskólans á íslenskum lækningajurtum og möguleikum á vinnslu fæðubótarefna og efna til lyfjaframleiðslu úr þeim. Áform fékk fyrirtækið Burnham International til að kanna möguleika á stofnun hlutafélags um vinnslu og markaðssetningu lyfja og fæðubótarefna á grundvelli rannsókna dr. Sigmundar. Þessar athuganir hafa nú leitt til þess að hann, ásamt fleiri aðilum, hefur stofnað fyrirtækið Íslenskar heilsujurtir ehf. Stjórn Áforms samþykkti á fundi sínum í desember sl. að leggja fram 270.000 kr. hlutafé vegna stofnunar fyrirtækisins. Samkvæmt ákvörðun stjórnar Áforms verða Bændasamtök Íslands handhafi þess hlutar.

                          2.8. Hreinleiki íslenskra matvæla
                          Í júní 2000 samþykkti stjórn Áforms að veita MATRA – Matvælarannsóknum á Keldnaholti, 700.000 kr. styrk til að taka saman aðgengilegar upplýsingar um hreinleika íslenskra matvæla. Ýmsar fullyrðingar hafa verið settar fram um hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða. Ljóst er að menn binda vonir við að hreinleiki og sérstaða íslensku framleiðslunnar geti í framtíðinni skipt miklu máli við sölu- og kynningarstarf. Nokkrar rannsóknir og einstakar mælingar hafa beinst að hreinleika íslenskra afurða en enn er ólokið að setja niðurstöðurnar í samhengi við alþjóðlegar niðurstöður. Með hreinleika er vísað til þess að aðskotaefni séu í lágmarki. Aðskotaefnin eru fjölmörg og hvert um sig þarf sérstaka skoðun. MATRA hefur safnað íslenskum og erlendum upplýsingum um aðskotaefni í matvælum á undanförnum árum. Engu að síður er ljóst að skipuleg leit mun leiða miklu meira í ljós af erlendum upplýsingum en nú er vitað um. Ljóst er að samanburður á íslenskum og erlendum gögnum er vandasamur þar sem margir þættir skipta máli. Engin verkefni tengd hreinleika landbúnaðarafurða hafa enn sem komið er veitt svigrúm til slíkrar umfjöllunar. Með verkefninu er stefnt að því að vinna samantekt um hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða með samanburði við gildi fyrir erlendar landbúnaðarafurðir. Samantektin verður miðuð við þarfir sölu og kynningarstarfs fyrir íslenskan landbúnað.

                          2.9. Þungmálmar í mosa
                          Á undanförnum árum hefur Hollustuvernd ríkisins tekið þátt í verkefni um mælingar á þungmálmum í mosa. Verkefnið tengist sams konar mælingum sem fram fara víðsvegar í Evrópu og gera þær mögulegt að bera saman þróun í styrk þungmálma í mosa hér á landi við það sem er að gerast annars staðar í Evrópu. Upplýsingar um ástand umhverfisins eru sífellt að verða mikilvægari fyrir samfélagið, bæði fyrir einstaklinga og aðila sem stunda matvælaframleiðslu. Hreinleiki þeirrar náttúru sem framleiðslan byggir á er ekki síður mikilvægur þáttur í markaðssetningu en hreinleiki afurðanna sjálfra. Vitneskja um styrk/magn efna eins og þungmálma í náttúrunni er því nærri því jafn nauðsynleg og að vita um styrk efnanna í afurðunum sjálfum. Af þessu sést að mikilvægt er fyrir aðila í matvælaframleiðslu að hafa undir höndum gögn um nátturlegan styrk mengandi efna og breytingar á honum til að kynna bæði kaupendum og neytendum. Það hefur komið í ljós að styrkur ýmissa þungmálma í umhverfinu hér á landi er frekar hár. Þessi háu gildi er almennt ekki unnt að rekja til mengunar frá athöfnum manna, heldur virðast þau tengjast beint náttúrufari landsins. Nauðsynlegt er að geta sýnt fram á að um nátturlegt ferli sé að ræða svo og hver breyting í styrk með tímanum sé. Til þess að geta fylgst með þróun styrks efna í náttúrunni er nauðsynlegt að mæla hann samfellt yfir langan tíma. Vitneskja um þessi atriði er grundvöllur þess að meta breytingar sem stafa af mengun frá manninum. Verkefni þetta hófst árið l980 sem samstarfsverkefni Svíþjóðar og Danmerkur. Síðan var það útvíkkað og nær nú yfir mikinn hluta Evrópu. Ísland tók fyrst þátt í verkefninu árið l990. Tekin eru sýni á 5 ára fresti og voru sýni tekin hér á landi á sl. ári. Stjórn Áforms samþykkti að veita Hollustvernd ríkisins 200.000 kr. styrk til verkefnisins. Aðrir, sem styrkja þetta verkefni, eru Landsvirkjun, Vegagerð ríkisins, landbúnaðar- ráðuneytið og umhverfisráðuneytið.

                          2.10 Kynnisferð til Austurlands
                          Stjórn Áforms hefur á starfstíma verkefnisins farið í kynnisferð til einhvers landshluta einu sinni á ári í tengslum við stjórnarfundi. Samhliða stjórnarfundi 14. september 2000 var skipulögð kynnisferð stjórnarmanna til bænda á Fljótsdalshéraði og á Jökuldal og í stofnanir á Egilsstöðum.

                          Kynnisferðin hófst kl. 10.00 fimmtudaginn 14. september með heimsókn í Vallanes til Eymundar Magnússonar bónda sem þar hefur stundað lífrænan búskap um 25 ára skeið. Stjórnarmenn og starfsmenn skoðuðu ræktunarreiti, garða, skjólbelti og skógrækt, safnhaugagerð, framleiðslu á snyrtivörum og annað sem Eymundur fæst við á búi sínu, svo og uppskeru af garðávöxtum. Fannst mönnum mikið til um þann árangur sem þarna hefur náðst. Eymundur hefur með skógrækt, ræktun skjólbelta og margskonar lífrænum aðferðum við ræktun og framleiðslu áburðar gjörbreytt allri aðstöðu til ræktunar á jörð sinni. Höfðu menn á orði að með þessum aðgerðum Eymundar hefði Vallanes "færst talsvert sunnar á hnöttinn" en áður var hvað varðar aðstöðu til ræktunar. Að lokinni heimsókninni í Vallanes var farið að Hallormsstað og snæddur hádegisverður sem nemendur hússtjórnarskólans höfðu framreitt, m.a. úr lífrænum afurðum frá Eymundi í Vallanesi. Kl. 13.30 var ekið að svonefndum Víðivallareit, 30 ára gömlum lerkireit, sem er elsti bændaskógurinn á Héraði. Reiturinn er um 60 ha að stærð og hefur verið gerð tilraun með að beita sauðfé í skóginn með góðum árangri. Í Víðivallareitnum komu til fundar við stjórnarmenn þeir Hallgrímur Þórarinsson bóndi á Víðivöllum og Jón Þór Þorvarðarson bóndi á Glúmsstöðum. Greindu þeir frá reynslunni af að beita sauðfé í skóginn og þeirri vinnu við grisjun og umhirðu um skóginn sem til fellur. Að lokinni heimsókninni í Víðivallareitinn var ekið að Glúmsstöðum og skoðað fé Jóns bónda sem þar var í rétt. Jón stundar lífræna sauðfjárrækt og svaraði hann spurningum stjórnarmanna um reynslu sína af slíkum búskap. Þessu næst var ekið að Skriðuklaustri, húsakynni skoðuð undir leiðsögn staðarhaldara og drukkið miðdagskaffi. Að lokinni þeirri heimsókn var ekið upp á Fljótsdalsheiði, langleiðina að Snæfelli og þaðan niður í Hrafnkelsdal og Jökuldal að Klausturseli til Aðalsteins Jónssonar. Í Klausturseli skoðuðu stjórnarmenn vísi að dýrasafni, sem Aðalsteinn og fjölskylda hans hafa komið upp, skoðuðu sölusýningu á hannyrðum húsfreyjunnar o.fl. kvenna í sveitinni og þágu veitingar þeirra hjóna. Um kvöldið var síðan haldinn stjórnarfundur.

                          Föstudaginn 15. september fóru stjórnarmenn í heimsókn til Búnaðarsambands Austurlands og ræddu m.a. aðstæður til lífrænnar ræktunar á héraði. Á fundinum með starfsmönnum Bs. Austurlands var lagt fram bréf Þórarins Lárussonar, ráðunautar, þar sem hann fjallar um lífræna framleiðslu á Íslandi og greinir frá viðræðum sínum við Bernward Geier á sl. sumri er sá síðarnefndi var í heimsókn á Héraði. Að lokinni heimsókninni til Bs. Austurlands var farið til fundar við Jón Loftsson, skógræktarstjóra, og rætt um framtíð skógræktar, m.a. með tilliti til lífrænnar sauðfjárbeitar í lerkiskógum framtíðarinnar. Að þeim fundi loknum var farið í heimsókn til fyrirtækisins Barra hf. sem framleiðir skógarplöntur, starfsemin skoðuð og rætt við starfsmenn. Kl. 13.00 lauk þessari heimsókn til Fljótsdalshéraðs og fór hver heim til sín.

                          III. Styrkveitingar 2000

                          Á árinu 2000 veitti stjórn Áforms styrki til eftirtalinna verkefna:

                          Raunvísindast. Háskóla Íslands v/ rannsókna á ísl.
                          lækningajurtum kr. 800.000
                          Kjötumboðið v/ markaðssetningar á dilkakjöti í
                          Bandaríkjunum - 1.040.000
                          MATRA v/ rannsókna á hreinleika ísl. lambakjöts - 700.000
                          VOR v/ þátttöku í BÚ2000 - 407.812
                          Landb. háskóinn á Hvanneyri v/ fóðurtilr. með sauðfé - 1.186.000
                          Landb. háskólinn á Hvanneyri v/ endurvinnsl.
                          lífr. úrgangs - 1.500.000
                          Landb. háskólinn á Hvanneyri v/ tilr. með steinefnaáburð- - 375.000
                          Landb. háskólinn á Hvanneyri v/ könnunar á nýtingu
                          flæðiengja - 275.000
                          Vottunarstofan Tún v/ kynningarverkefnis - 700.000
                          Landssamtök sauðfjárbænda v/kynnisferðar
                          til Bandaríkjanna - 100.000
                          Hollustvernd ríkisins v/ranns. á þungmálmum í mosa - 200.000
                          Eymundur Magnússon, Vallanesi v/útgáfu
                          á kynningarefni - 500.000
                          Bændasamt. Íslands v/ stofnfjár í Heilsujurtum ehf. - 270.000
                          Samtök um vistvæna framleiðslu í N.-Þing - 150.000
                          Útgáfa á leiðbeiningum um góða búskaparhætti - 500.000
                          Styrkur til lífrænnar miðstöðvar á Hvanneyri - 4.000.000
                          Bændasamt. Ísl. v/ þátttöku í verkefninu
                          "Iceland Naturally - 1.500.000
                          Samtals styrkir kr. 14.203.812

                                Í stjórn Áforms- átaksverkefnis,

                          Efnisorð

                          Var efnið hjálplegt?
                          Takk fyrir

                          Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

                          Af hverju ekki?

                          Hafa samband

                          Ábending / fyrirspurn
                          Ruslvörn
                          Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum