Hoppa yfir valmynd
25. maí 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ástand og þróun umhverfismála á Íslandi á árinu 1998

Skýrsla um ástand

og þróun umhverfismála

á Íslandi á árinu

1998

Gefin út skv. 9. gr. laga nr. 21/1993


Efnisyfirlit

1. Ný lög og reglugerðir um umhverfismál 1998

1.1. Lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir
Úrskurðarnefnd vegna laga um hollustuhætti
1.2. Nokkrar helstu reglugerðir settar árið 1998

2. Breytingar á stofnunum og málaflokkum ráðuneytisins

2.1. Breytingar á skipulagi skipulagsmála
2.2. Brunamál til umhverfisráðuneytisins
2.3. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur til starfa

3. Úrskurðir ráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum

4. Af starfi ráðuneytisins

4.1. Staðardagskrá 21.
4.2. Álit starfshóps um ósnortin víðerni
4.3. Mengun frá Sellafield mótmælt
4.4. Útgáfur (handbók um umhverfisstjórnun, Mengun á Íslandsmiðum)
4.5. Frigg fær norræna umhverfismerkið
4.6. Valhúsahæð friðlýst

5. Alþjóðasamstarf

5.1. Ísland skrifar undir þrjár alþjóðasamþykktir um umhverfismál (Árósa-fundur)
5.2. CLRTAP-samningur samþykktur
5.3. Fjórða þing samningsins um líffræðilega fjölbreytni
5.4. Niðurstöður og eftirfylgni OSPAR-fundar

1. Ný lög og reglugerðir um umhverfismál 1998

1.1. Lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir

Lögin voru samþykkt 12. mars 1998. Markmið þeirra er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.

Fyrri lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem samþykkt voru 1981, voru tímamótalög um margt. Þar var í fyrsta skipti kveðið á um að heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit skyldi rekið í landinu öllu með skipulegum hætti og að ekkert sveitarfélag væri án viðhlítandi heilbrigðiseftirlits.

Síðan þá hafa orðið verulegar breytingar innan málaflokksins, ekki síst á sviði mengunarmála, auk þess sem aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið kallaði á lögfestingu Evrópugerða sem tilheyra samningnum. Hollustuvernd ríkisins þarf að fylgjast með um 400 Evrópugerðum sem tengjast þeim málaflokkum sem stofnunin annast á sviði matvæla, mengunarmála, eiturefna og rannsókna. Þetta hefur m.a. leitt til þess að stjórnsýsluhlutverk Hollustuverndar ríkisins hefur aukist verulega frá því sem áður var og beindist endurskoðun laganna m.a. að þeirri staðreynd.

Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu atriðum, einkum nýmælum og breytingum á fyrri lögum, sem fram komu í frumvarpinu:

· Í lögunum eru skilgreindir þeir þættir sem heilbrigðisreglugerð og mengunarvarnareglugerð eiga að ná yfir. Sú stefna er mörkuð að starfsleyfi fyrir starfsemi sem fellur undir heilbrigðisreglugerð verði í höndum heilbrigðisnefnda. Sé um að ræða starfsleyfi gefið út samkvæmt mengunarvarnareglugerð skuli það vera í höndum umhverfisráðherra sé um að ræða meiri háttar atvinnurekstur, en annars í höndum Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefnda.

· Krafist er að bestu fáanlegrar tækni verði beitt við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem hún hefur verið skilgreind og að ákvæði um mengunarvarnir skuli taka mið af því. Slík ákvæði yrðu sett í mengunarvarnareglugerð.

· Umhverfisráðherra einn getur veitt tímabundnar undanþágur í allt að 12 mánuði frá einstökum greinum heilbrigðisreglugerðar og mengunarvarnareglugerðar. Aðeins yrði um tímabundnar undanþágur að ræða.

· Haft skal samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau atriði er varða skyldur sveitarfélaganna og framkvæmd laganna, svo sem setningu reglugerða.

· Heilbrigðisnefndum verður fækkað í tíu og að þær verða jafnframt svæðisnefndir þannig að saman fara starfssvæði heilbrigðisnefndar og eftirlitssvæði. Í hverri heilbrigðisnefnd sem kjörin skal eftir sveitarstjórnarkosningar verða fimm aðilar og fimm til vara. Samtök atvinnulífs á eftirlitssvæðinu tilnefna einn fulltrúa en aðrir verða kosnir af sveitarstjórnum og skal einn vera formaður. Umhverfisráðherra getur, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, ákveðið enn frekari sameiningu eftirlitssvæða og að heilbrigðisnefndir geti með samkomulagi kveðið á um skiptingu eftirlitsins sín í milli. Ekki skulu starfa færri en tveir heilbrigðisfulltrúar í fullu starfi á hverju svæði.

· Umhverfisráðherra skipar hollustuháttaráð, sem hefur það hlutverk að fjalla um þá þætti sem undir lögin falla og varða atvinnustarfsemi, svo sem um samhæfingu krafna og stefnumörkun varðandi atvinnustarfsemi og að gera tillögur um framkvæmdina.

· Stjórn Hollustuverndar ríkisins er lögð niður, en forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar.

· Umhverfisráðherra ákveður í reglugerð kröfur um gæðastjórnun og innra eftirlit með starfsemi sem er eftirlitsskyld. Heilbrigðisnefndum og Hollustuvernd ríkisins er heimilt að fela tiltekna þætti eftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum.

· Hollustuvernd ríkisins getur gripið til aðgerða ef svo alvarleg hætta stafar af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið. Slík stöðvun yrði til bráðabirgða.

Úrskurðarnefnd vegna laga um hollustuhætti

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra skipaði úrskurðarnefnd vegna laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sigurmar K. Albertsson, hrl., var skipaður formaður nefndarinnar, en einnig áttu í henni sæti Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson, héraðsdómslögmaður. Varaformaður nefndarinnar var skipuð Lára G. Hansdóttir, héraðsdómslögmaður, en aðrir varamenn eru Heiðrún Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður og Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi.

1.2. Reglugerðir settar árið 1998

Hér verður ekki farið yfir allar þær reglugerðir sem umhverfisráðuneytið setti árið 1998, heldur staldrað við nokkrar þær helstu.

Reglugerð um losun nokkurra gróðurhúsalofttegunda

Reglugerðin tekur á tilteknum efnum sem stuðla að auknum gróðurhúsaáhrifum, með það að markmiði að takmarka notkun þeirra og losun. Um er að ræða vetnisflúorkolefni (HFC), flúorkolefni (FC) og hexaflúorbrennistein (SF6). Samkvæmt reglugerðinni er óheimilt að framleiða, flytja inn og selja þessi efni eða vörur sem innihalda þau, með nokkrum undantekningum þó, þ.e. HFC til notkunar í kæli- og varmadælukerfum og í lyfjum sem drifefni og SF6 í rofum og rafbúnaði þar sem aðrar lofttegundir eru ónothæfar. Einnig getur umhverfisráðherra veitt tímabundnar undanþágur frá banni á þessum efnum. Óheimilt er að losa efnin út í umhverfið.

Losun þessara efna hér á landi er lítil, en á móti kemur að þau gleypa í sig mun meira af geislun en koltvíoxíð (CO2) og flest önnur efni sem valda gróðurhúsaáhrifum; þannig telst SF6 hafa rúmlega 20.000-falda virkni á við CO2. Samtals er losun efnanna um 3% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, mælt í CO2-ígildum.

Reglugerð um kjöt og kjötvörur

Reglugerðin er sett í því skyni að tryggja samræmi í merkingum á kjötvörum fyrir neytendur og reglulegt eftirlit með gæðum og markaðssetningu. Í henni eru skilgreindar leyfilegar merkingar á kjötvörum og settar reglur um markaðssetningu þeirra og um eftirlit og rannsóknir. Með reglugerðinni eru í fyrsta sinn settar reglur um skilgreiningar á vöruflokkum og gæðamerkingum, sem tryggja eiga neytendum að samræmi sé á milli heiti vöru og innihalds hennar. Þannig skal heitið "nautakjöt" ekki notað sem samheiti fyrir kjöt af nautgripum, t.d. um kýrkjöt, heldur einungis notað um ungneytakjöt. Innihaldslýsing skal veita nákvæmar upplýsingar um samsetningu vörunnar. Skylt er að gefa upplýsingar um næringargildi á umbúðum kjötvara, en ekki um hreinar kjötvörur og kjöt með beini. Sérmerking umbúða með fullyrðingum um innihaldsefni, s.s. merkingin "lítið salt" eða "fituskert", eru aðeins heimilar fyrir vörur sem uppfylla skilyrði ákvæða í reglugerðinni um slíkar merkingar.

Matvælafyrirtæki skulu á hverju ári rannsaka a.m.k. eitt sýni af hverri vörutegund sem fellur undir gæðakröfur til að kanna hvort varan er í samræmi við þessar kröfur. Heimilt er að veita fyrirtækjum undanþágu frá þeirri kröfu ef eftirlitsaðili telur að innra eftirlit fyrirtækisins sé fullnægjandi trygging fyrir því að framleiðsluvörur þess samræmist settum kröfum.

Reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum

Reglugerðin kveður á um búnað, hreinlæti og þrif á sund- og baðstöðum, hreinsun og sótthreinsun baðvatns, aðbúnað gesta og mengunarvarnir, auk ákvæða um öryggi sundlaugargesta. Sund- og baðstöðum er gert skylt að hafa laugargæslu og viðurkenndan búnað til skyndihjálpar. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu hafa staðist hæfnispróf, sem nánar er kveðið á um í viðauka með reglugerðinni. Starfsfólk sundstaða skal fá reglulega starfsþjálfun, þ.m.t. þjálfun í skyndihjálp og fræðslu um hreinlæti og hollustuhætti. Haldin skal skrá um slys í og við laugar og hún höfð aðgengileg heilbrigðiseftirliti.

Innstreymi í laugar og vatn í sturtum má ekki vera heitara en 55 °C þegar það er tekið til blöndunar með köldu vatni og skal það tryggt með segulrofa eða öðrum viðurkenndum búnaði. Merkja skal greinilega hitastig í setlaugum og aðra þætti varðandi öryggi og slysahættu, s.s. dýpi lauga og hálku á laugarbökkum. Í reglugerðinni er einnig að finna ákvæði um styrk klórs, sýrustig og endurnýjunarhraða vatnsins. Vatn sem er notað í laugar skal vera tært og uppfylla kröfur sem gerðar eru til neysluvatns varðandi örveruinnihald. Heilbrigðisnefndir skulu hafa eftirlit með að farið sé eftir ákvæðum reglugerðarinnar, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins. Sund- og baðstaðir skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis.

Reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sjávar

Markmið reglugerðarinnar er að samræma aðgerðir sem beita þarf þegar sjór og strendur mengast skyndilega vegna olíuslyss eða sambærilegra óhappa. Einnig er kveðið á um hvernig reyna skuli að draga úr tjóni, eða koma í veg fyrir hugsanlegt tjón vegna bráðamengunar eftir því sem kostur er. Reglugerðin fjallar um ábyrgð og verksvið þeirra sem eiga að bregðast við bráðamengun sjávar og um gerð viðbragðsáætlana innan sem utan hafnarsvæða í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986.

Varðandi viðbrögð og búnað innan hafnarsvæða, þá er landinu skipt í fimm svæði eftir landshlutum og skal 3-5 manna svæðisráð hafa umsjón með rekstri, viðhaldi og endurnýjun mengunarvarnarbúnaðs í hverju þeirra. Ein aðalhöfn er í hverjum landshluta, en þar skulu vera a.m.k. 300 m af flotgirðingum og eitt upptökutæki. Aðalhafnir eru Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Reyðarfjörður og Vestmannaeyjar. Í hverjum landshluta eru síðan 1-3 svæðishafnir, þar sem skulu vera a.m.k. 150 m af flotgirðingum, en í öðrum höfnum skal taka ákvörðun um viðbúnað eftir aðstæðum. Svæðisráð skal koma upp viðbragðsáætlunum í hverri höfn í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins, auk þess að sjá um skipun umsjónarmanns með mengunarvarnabúnaði. Mengunarvarnaráð hafna skal vera tengiliður milli svæðisráðanna og hlutaðeigandi eftirlitsaðila. Það skal skipað formönnum svæðisráða og fulltrúa Hollustuverndar ríkisins, sem jafnframt er formaður. Í höfn þar sem bráðamengun hefur orðið ber hafnarstjóri ábyrgð á að aðgerðir gegn mengun hefjist og segir til um þegar þeim er lokið. Hafnarstjóri stjórnar aðgerðum í samráði við umsjónarmann mengunarvarnabúnaðarins.

Varðandi viðbrögð og búnað utan hafnasvæða, þá er kveðið á um að Hollustuvernd ríkisins, Siglingastofnun Íslands og Almannavarnir ríkisins skuli gera með sér skriflegt samkomulag um samvinnu, verkaskiptingu og viðbrögð við bráðamengun. Hollustuvernd skal sjá um gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða í samráði við Almannavarnir ríkisins. Tilkynna skal um bráðamengunaróhöpp til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands, sem kallar síðan til viðkomandi heilbrigðisfulltrúa eða vakthafandi aðila innan Hollustuverndar ríkisins, eftir atvikum. Hollustuvernd ríkisins skal skipa verkefnisstjóra mengunarvarna, sem ákveður í samráði við umhverfisráðuneytið hvenær hefja skuli aðgerðir gegn mengun og segir til um hvenær þeim er lokið. Vettvangsaðgerðir skulu eftir því sem kostur er taka mið af fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum og neyðarskipulag Almannavarna ávallt notað þegar ætla má að almenningi stafi bráð hætta af menguninni.

Tímabundin friðun helsingja á nýjum varpstöðvum

Reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum var breytt í því skyni að friða varpstofn helsingja í Austur-Skaftafellssýslu. Helsingi hefur viðkomu á Íslandi til og frá varpstöðvum á Grænlandi og víðar, en hann hefur þar til nýlega ekki talist til varpfugla hér á landi. Á undanförnum árum hefur hins vegar byggst upp lítill varpstofn helsingja í Austur-Skaftafellssýslu. Í erindi frá Fuglaverndarfélagi Íslands til umhverfisráðuneytisins var lýst áhyggjum yfir því að veiðar gætu útrýmt þessum vísi að varpstofni og þess farið á leit að hann væri friðaður. Í umsögn ráðgjafanefndar um villt dýr var tekið undir þessi sjónarmið og lagt til að varpstofninn yrði friðaður. Skotveiðifélag Ísland mælti einnig með því í bréfi til ráðuneytisins að helsingjastofninn í Austur-Skaftafellssýslu yrði friðaður tímabundið.

Samkvæmt fyrri reglugerð var leyfilegt að veiða helsingja frá 1. september til 15. mars ár hvert og sú regla gildir áfram utan Austur-Skaftafellssýslu. Þar er friðun helsingja aflétt frá 25. september til 15. mars, sem á að tryggja að helsingjar frá varpstöðvum á Grænlandi verði komnir á veiðisvæðin í Austur-Skaftafellssýslu áður en veiðar á svæðinu hefjast. Þetta var gert í þeim tilgangi að minnka líkur á að íslenski varpstofninn verði veiddur. Þessi stytting á veiðitíma helsingja í Austur-Skaftafellssýslu skal endurskoðuð eftir fimm ár.

Reglugerð um akstur í óbyggðum

Samkvæmt reglugerðinni er allur akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúruspjöll geta af hlotist, bannaður. Með náttúruspjöllum er m.a. átt við spjöll á gróðri, jarðvegi og jarðmyndunum og myndun nýrra slóða, hvort sem er á grónu eða ógrónu landi og skiptir ekki máli hvort líkur eru á varanlegum skaða eða tímabundnum.

Nauðsynlegum akstri utan vega í óbyggðum skal jafnan hagað svo að engin náttúruspjöll eða lýti á landi hljótist af. Með nauðsynlegum akstri utan vega er m.a. átt við akstur vegna rannsókna eða björgunarstarfa. Við undirbúning ferðaáætlunar skal haft samráð við Náttúruvernd ríkisins sem getur sett skilyrði varðandi tækjabúnað og leiðaval. Tilkynna skal fyrirfram um akstur til viðkomandi sýslumanns eða lögreglustjóra, en nauðsynlegan fyrirvaralausan akstur utan vega skal tilkynna til viðkomandi sýslumanns við fyrsta tækifæri. Náttúruvernd ríkisins getur í verndarskyni takmarkað umferð tímabundið eða lokað svæðum í óbyggðum, enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu til umhverfisráðherra. Náttúruvernd ríkisins og vegamálastjóri gefa út kort, m.a. á vorin, með upplýsingum um ófærð á vegum og hvar óheimilt er að aka og á hvaða tímabili. Brot gegn reglunum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

2. Breytingar á stofnunum og málaflokkum ráðuneytisins

2.1. Breytingar á skipulagi skipulagsmála

Ný skipulags- og byggingarlög gengu í gildi í byrjun árs 1998. Með þeim urðu m.a. þær breytingar að skipulagsstjórn var lögð niður og nafni Skipulags ríkisins var breytt í Skipulagsstofnun.

Skipulags- og byggingarlögin (nr. 73/1997, ásamt br. nr. 135/1997) tóku við af skipulagslögum frá 1964 og byggingarlögum frá 1978. Með nýju lögunum var meðferð skipulags- og byggingarmála einfölduð og frumkvæði sveitarfélaga aukið. Skilgreind voru mismunandi stig skipulagsáætlana: Landsskipulag, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag.

Hlutverk Skipulagsstofnunar felst m.a. í eftirliti með framkvæmd laganna, ráðgjöf til sveitarstjórna og ríkisvaldsins um skipulags- og byggingarmál og að láta í té umsagnir um ágreiningsmál. Verkefni skipulagsstjórnar ríkisins eru að hluta flutt til Skipulagsstofnunar og að hluta til sveitarfélaganna. Þannig er frumkvæði aðal- og deiliskipulags flutt til sveitarfélaga frá skipulagsstjórn. Sett verður á stofn sérstök úrskurðarnefnd sem ætlað er að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum og kærum í stað þess að umhverfisráðherra úrskurði um þau.

2.2. Brunamál til umhverfisráðuneytisins

Í ársbyrjun 1998 tók umhverfisráðuneytið við yfirstjórn brunamála af félagsmálaráðuneytinu. Með breytingum á lögum um brunavarnir og brunamál, sem samþykkt voru á Alþingi 1997, var ákveðið að flytja yfirstjórn brunamála til umhverfisráðuneytisins. Með þessum breytingum var yfirstjórn byggingarmála og brunamála færð á eina hendi.

2.3. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur til starfa

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tók til starfa á árinu, en hún starfar skv. lögum nr. 81/1997. Hún er sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra og samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða hér á landi. Henni er ætlað að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á því sviði. Stofnunin hefur aðsetur á Akureyri.

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra skipaði Níels Einarsson forstöðumann stofnunarinnar, en stjórn hennar mælti einróma með Níelsi í stöðuna.

3. Úrskurðir umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum

Umhverfisráðherra felldi árið 1998 úrskurð í níu málum, þar sem ákvörðun skipulagsstjóra vegna mats á umhverfisáhrifum var kærð til ráðherra. Þessi mál voru:

- vegna fyrirhugaðrar urðunar sorps í Fíflholtum eða Jörfa

- vegna leiðigarða til varnar snjóflóðum úr Ytra-Strengsgili og Jörundarskála á Siglufirði

- vegna 400kV Búrfellslína 3A

- vegna hringvegar úr Langadal að Ármótaseli

- vegna sorpförgunar Byggðasamlagsins Hulu

- vegna þjóðvegar 36, Þingvallavegar, Steingrímsstöð

- vegna breikkunar Gullinbrúar

- vegna 140 MW virkjunar við Vatnsfell, 220 kV háspennulínu milli Vatnsfells- og Sigölduvirkjunar og nýrrar vegtengingu á Veiðivatnaleið

- vegna snjóflóðavarna á Drangagilssvæði í Neskaupsstað

Hér á eftir verður fjallað nánar um efnisatriði úrskurða umhverfisráðherra.

Fallist á lagningu Búrfellslínu 3A

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra féllst á lagningu 400 kV Búrfellslínu 3A frá Búrfellsvirkjun að Lyklafelli við Sandskeið. Að mati umhverfisráðuneytisins hefur lagning línunnar neikvæð áhrif á umhverfið á svonefndri Ölkelduhálsleið, þ.e. frá Sogi um Ölkelduháls að Orustuhólshrauni, en á hinn bóginn er ljóst að Landsvirkjun hafði ótvírætt leyfi iðnaðarráðherra frá árinu 1991 til að leggja 220 kV línu eftir þeirri leið, þannig að svigrúm umhverfisyfirvalda var í raun takmarkað við að meta umhverfisáhrif 400 kV línu umfram þau sem hlytust af 220 kV línu, þ.e. spennuhækkunarinnar fremur en línustæðisins sjálfs. Í úrskurði skipulagsstjóra var krafist frekara mats og að borin yrðu saman umhverfisáhrif línunnar á Ölkelduhálsleið annars vegar og svonefndri Ölfusleið hins vegar, þ.e. frá Sogi um Grafningsháls og Ölfus að Orustuhólshrauni. Landsvirkjun kærði þennan úrskurð til umhverfisráðherra. Í niðurstöðu umhverfisráðuneytisins sagði m.a. að hlutaðeigandi sveitarfélög, þ.e. Grafningshreppur, Ölfushreppur og Hveragerðisbær, hafi lýst sig andvíg Ölfusleið.

Úrskurður vegna Vatnsfellsvirkjunar

Umhverfisráðherra felldi úr gildi úrskurð skipulagsstjóra ríkisins um allt að 140 MW virkjun við Vatnsfell, 220 kV háspennulínu milli Vatnsfells- og Sigölduvirkjunar og nýja vegtengingu á Veiðivatnaleið. Úrskurðað var að fram skyldi fara frekara mat á umhverfisáhrifum Vatnsfellsvirkjunar, þar sem ekki skyldi gera ráð fyrir vatnsmiðlun um Norðlingaölduveitu. Í úrskurði skipulagsstjóra var fallist á fyrirhugaða byggingu allt að 140 MW virkjunar við Vatnsfell og aðrar ofangreindar framkvæmdir eins og þeim var lýst í frummatsskýrslu Landsvirkjunar. Sá úrskurður var kærður til umhverfisráðherra. Kærendur töldu að með úrskurðinum hafi skipulagsstjóri veitt heimild fyrir framkvæmd sem sé háð annarri tiltekinni framkvæmd, þ.e. Norðlingaölduveitu. Sú veita sé háð mati á umhverfisáhrifum, en slíkt mat hafi ekki farið fram. Að auki var bent á að Norðlingaöldumiðlun væri ekki aðeins háð niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum heldur einnig leyfi Náttúruverndar ríkisins. Í úrskurði skipulagsstjóra sagði að í niðurstöðu hans væri ekki tekið mið af hugsanlegri Norðlingaölduveitu. Aðeins sé fjallað um allt að 140 MW virkjun við Vatnsfell óháð því hvort af Norðlingaölduveitu verður eða ekki. Það var hins vegar mat umhverfisráðuneytisins að óhjákvæmilegt væri að líta á vatnsmiðlun um Norðlingaölduveitu sem starfsemi er fylgi Vatnsfellsvirkjun, en samkvæmt frummatsskýrslu Landsvirkjunar var Norðlingaölduveita sögð forsenda fyrir 140 MW virkjun við Vatnsfell. Ráðuneytið taldi því ekki hægt að fallast á óbreytta tilhögun Vatnsfellsvirkjunar.

Sorpurðun í Fíflholtum eða Jörfa heimiluð með skilyrðum

Umhverfisráðherra staðfesti á árinu úrskurð skipulagsstjóra og féllst á fyrirhugaða urðun úrgangs í landi Fíflholta eða Jörfa á Mýrum með skilyrðum. Annars vegar voru ákvæði um malarnám, en þar var m.a. krafist að efnistaka færi aðeins fram á tilgreindum svæðum og að unnið verði að frágangi í áföngum þannig að aldrei verði ófrágengin sár sem væru stærri en sem nemur eins árs efnistöku. Hins vegar var krafist að gerð væri framkvæmdaáætlun um endurheimt votlendis, þannig að votlendissvæði verði endurreist til að vega upp á móti þeim svæðum sem skerðast vegna sorpurðunarstaðarins og skal það gert á fyrsta ári framkvæmda. Í niðurstöðu ráðuneytisins var fallist á sjónarmið kærenda að malarnámið muni valda sjónmengun við þjóðveginn út á Snæfellsnes, en talið að halda mætti sjónmengun í lágmarki með skipulagðri efnistöku og frágangi svæðisins í áföngum. Hafa skal samráð við Náttúruvernd ríkisins um efnistöku og frágang lands að henni lokinni.

Sorpurðun á Stjórnarsandi heimiluð

Úrskurður skipulagsstjóra hvað varðar fyrirhugaða urðun sorps á Stjórnarsandi var kærður til umhverfisráðherra. Sorpförgunin var á vegum Byggðasamlagsins Hulu, en að því standa Vestur-Eyjafjallahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Í kærunni sagði að fyrirhugað urðunarsvæði á Stjórnarsandi sé mjög viðkvæmt gróðurfarslega og rof á gróðurþekju svæðisins geti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér hvað varðar fok. Í niðurstöðu umhverfisráðuneytisins sagði að skipulagsstjóri hafi leitað umsagnar Landgræðslu ríkisins, sem telji tillit hafa verið tekið til ábendinga stofnunarinnar. Landgræðslan þekki best til hættu á sandfoki á svæðinu og ráðuneytið geti því ekki fallist á þennan þátt kærunnar. Í kærunni var bent á að mengunarhætta geti stafað af urðuninni og að hún geti hugsanlega haft áhrif á fiskgengd í Skaftá. Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að óttast mengun eða minnkandi fiskgengd í Skaftá og bendir á að ef talin er þörf á sérstökum aðgerðum vegna hættu á mengun muni Hollustuvernd ríkisins taka á þeim þætti í starfsleyfi.

Þingvallavegur - námugröftur í Miðfelli

Skipulagsstjóri féllst í úrskurði sínum á fyrirhugaðar úrbætur á Þingvallavegi frá Steingrímsstöð að þjóðgarðsmörkum, með þeim skilyrðum að jarðraski verði haldið í lágmarki og samráð haft við Náttúruvernd ríkisins um afmörkun námusvæða, jarðefnisnám og frágang námusvæða og vegfláa. Þessi úrskurður var kærður til umhverfisráðuneytisins, þ.e. sá hluti hans sem snýr að námugreftri í Stekkjarhornsnámu í Miðfelli. Í niðurstöðu umhverfisráðuneytisins sagði m.a. að núverandi ástand námunnar sé alls óviðunandi og jafnframt sé ljóst að brottnám 25.000 m3 af efni muni breyta útliti fjallsins. Í niðurstöðum skipulagsstjóra komi hins vegar fram að brottnám efnis og frágangur námunnar miðist við að ekki verði um frekari efnistöku að ræða. Þá verði efnisnám úr Stekkjarhornssnámu í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Ekki sé unnt að fallast á þá fullyrðingu kæranda að vinnslan muni gjöreyðileggja fjallið og ráðuneytið telji það horfa til bóta að gengið verði frá námunni og að þar verði ekki um frekari vinnslu að ræða. Eftir endanlega lokun og frágang námunnar verði svæðið í framtíðinni betur fallið til friðunar en nú er.

Fallist á Háreksstaðaleið

Úrskurður skipulagsstjóra varðandi mat á umhverfisáhrifum hringvegar úr Langadal að Ármótaseli í Norður-Múlasýslu, þ.e. eftir svokallaðri Háreksstaðaleið, var kærður til umhverfisráðherra. Úrskurður umhverfisráðherra var á þá leið að úrskurður skipulagsstjóra skuli óbreyttur standa, að uppfylltum tveimur skilyrðum. Fyrra skilyrðið var að gerð verði framkvæmdaáætlun um endurheimt votlendis, sem myndi tapast vegna vegalagningarinnar, í samræmi við stefnu stjórnvalda um endurheimt votlendis. Þá var þess krafist að efnistökustöðum verði fækkað eftir því sem kostur er og haft um það samráð við Náttúruvernd ríkisins.

Tvöföldun Gullinbrúar matsskyld

Umhverfisráðherra sendi gatnamálastjóranum í Reykjavík svar við beiðni hans um afstöðu umhverfisráðuneytisins varðandi mat á umhverfisáhrifum vegna tvöföldunar á Gullinbrú. Það var mat umhverfisráðuneytisins að tvöföldun Gullinbrúar og akbrautarinnar frá Höfðabakka við Stórhöfða að Strandvegi við Hallsveg sé matsskyld framkvæmd, enda væri um nýframkvæmd að ræða. Ráðuneytið óskaði umsagnar skipulagsstjóra ríkisins á erindi gatnamálastjóra. Í umsögn hans kom fram að skv. ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum teldist tvöföldun Gullinbrúar matsskyld og var m.a. vísað til þess að umhverfisáhrif allra meiriháttar nýframkvæmda við stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins hafa verið metin skv. lögunum.

4. Af starfi ráðuneytisins

4.1. Staðardagskrá 21

Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytið gerðu á árinu með sér samstarfssamning um verkefni sem miðar að gerð umhverfisáætlana í sveitarfélögum, eða svokallaða Staðardagskrá 21. Í Staðardagskrá 21 á að koma fram lýsing á stöðu umhverfismála í sveitarfélaginu, markmiðssetning þess í umhverfismálum og áætlun og ákvarðanir um framkvæmdir á því sviði. Ráðuneytið og sambandið gáfu út handbók fyrir sveitarfélög um "Áætlun í umhverfismálum sveitarfélaga", sem var fjölfölduð og send til allra sveitarstjórna, sem og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Meginatriði samningsins eru þau að Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytið skipa sameiginlega 4 manna verkefnisstjórn um gerð Staðardagskrár 21. Í framhaldi af samningnum var ráðinn verkefnisstjóri til að leiðbeina sveitarstjórnum við að gera umhverfisáætlun og auglýst eftir sveitarfélögum, sem áhuga hefðu á að taka þátt í verkefninu.

Segja má að Staðardagskrárverkefnið hafi beina skírskotun til samþykkta Ráðstefnu S.þ. um umhverfi og þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro árið 1992. Þar samþykktu þjóðir heims viðamikla framkvæmdaáætlun, Dagskrá 21. aldar (Agenda 21), um hvernig eigi að koma á markmiðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. hvernig við getum tryggt áframhaldandi hagvöxt og velferð án þess að valda spjöllum á grunngæðum náttúrunnar og skerða þar með möguleika komandi kynslóða. Síðan hafa einstök ríki, þ.á m. Ísland, sett sér markmið um hvernig hægt sé að hrinda markmiðum sjálfbærrar þróunar í framkvæmd. Ríkisstjórnin samþykkti framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun fyrir Ísland árið 1997 og í framhaldi af því á að koma á áætlunum fyrir einstök byggðarlög. Erlendis hafa slíkar áætlanir gengið undir nafninu Local Agenda 21 og er Staðardagskrá 21 íslenskun á því hugtaki.

4.2. Álit starfshóps um ósnortin víðerni

Starfshópur sem Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra skipaði í september 1997 til að skilgreina hugtakið "ósnortin víðerni" hefur lauk störfum á árinu og skilaði áliti sínu. Meginniðurstaða starfshópsins var eftirfarandi:

Ósnortið víðerni er landsvæði

· þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa,

· sem er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, s.s. raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum (sbr. vegalög),

· sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu."

Í greinargerð starfshópsins sagði að meginmarkmið með skilgreiningu og afmörkun ósnortinna víðerna sé að varðveita svæði þar sem náttúran ræður ríkjum og maðurinn kemur eingöngu sem gestur. Nauðsynlegt sé að draga úr ummerkjum um mannvist eins og kostur er á þeim svæðum sem ætlunin er að vernda sem ósnortin víðerni, en óhjákvæmilegt sé að viðurkenna nokkra nýtingu og umferð um ósnortin víðerni. Starfshópurinn lagði til að afmörkuð verði landsvæði, sem eru einkennandi fyrir íslenskt landslag og náttúrufar og eru enn lítt snortin eða óröskuð og settar reglur um verndun þeirra.

Í bréfi starfshópsins til umhverfisráðherra segir að ekki sé hægt að nota orðið "ósnortið" bókstaflega, þar sem beinna og óbeinna áhrifa byggðar og starfsemi mannsins gæti um allt land, sem lýsi sér m.a. í eyðingu skóga, áhrifum beitar, umferð, vegagerð og breytingu á rennsli straumvatna, auk þess sem aðskotaefni vegna hnattrænnar mengunar berist um allt land með vindum og úrkomu. Með bókstaflegri skilgreiningu megi segja að vart finnist lófastór blettur á landinu sem talist gæti ósnortinn, en með raunsærri nálgun megi finna nothæfa skilgreiningu á hugtakinu, sem leggja megi til grundvallar umræðu um náttúruvernd og nýtingu. Með niðurstöðum starfshópsins fylgir kort, sem unnið er upp úr upplýsingum á Íslandskorti Landmælinga Íslands, en tekið er fram að kortið beri að taka með fyrirvara á þessu stigi og að endanlegar upplýsingar um stærð og legu ósnortinna víðerna fáist með nákvæmari úttekt á hverju einstöku svæði.

Starfshópinn skipuðu Kristín Halldórsdóttir, alþingiskona, sem var formaður, dr. Jón Gunnar Ottósson, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, dr. Kristján Geirsson, tilnefndur af Náttúruvernd ríkisins, Kristján Guðjónsson, tilnefndur af Landmælingum Íslands og Þóroddur Fr. Þóroddsson, tilnefndur af Skipulagi ríkisins. Ritari starfshópsins var Sigmundur Einarsson, deildarsérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.

4.3. Mengun frá Sellafield mótmælt

Umhverfisráðherrar Norðurlanda sendu John Prescott, umhverfisráðherra Bretlands, bréf í febrúar 1998, þar sem þess var krafist að losun geislavirka efnisins teknesíum-99 frá kjarnorkuendurvinnsluverinu í Sellafield verði stöðvuð. Þá lýstu ráðherrarnir yfir áhyggjum vegna beiðni eigenda Sellafield um leyfi fyrir aukinni losun á ákveðnum geislavirkum efnum út í andrúmsloftið, þó svo að þeir segist ætla að draga samhliða úr annarri losun. Í bréfi ráðherranna til Prescotts var bent á að sum Norðurlandanna byggi afkomu sína að stórum hluta á fiskveiðum og heilbrigðu umhverfi sjávar, en samt sem áður hafi bresk stjórnvöld leyft aukna losun geislavirkra efna frá kjarnorkuendurvinnslustöðvunum í Sellafield og Dounreay í trássi við mótmæli Norðurlandanna. Í viðamikilli skýrslu um ástand umhverfisins á Norðurheimskautssvæðinu, sem kom út 1997, kom fram að Sellafield-verið væri helsta uppspretta geislamengunar á svæðinu, þar sem geislavirkur úrgangur frá því bærist norður með vindum og hafstraumum. Þá hefur teknesíum mælst í vaxandi magni sl. tvö ár við strendur Noregs í sjó, þangi og skeldýrum.

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra sendi Prescott aftur bréf í ágúst, þar sem lýst var yfir áhyggjum vegna atviks í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield, þar sem geislavirk efni sluppu út og starfsfólk var sent í læknisskoðun til þess að athuga hvort það hefði orðið fyrir skaða af völdum þeirra. Í bréfinu minnti umhverfisráðherra á fyrri yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda, þar sem lýst er þungum áhyggjum vegna öryggis kjarnorkuendurvinnslustöðva í Bretlandi og mengunar frá þeim og sagði að atvikið í Sellafield veki enn einu sinni upp spurningar um öryggi þar. Á hinn bóginn væri ástæða til að fagna breyttri afstöðu Breta á nýlegum fundi umhverfisráðherra aðildarríkja OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins. Þar samþykktu Bretar og Frakkar að þeir myndu hætta losun geislavirkra efna í hafið fyrir árið 2020, en þessar þjóðir eru þær einu sem stunda slíka losun og endurvinnslu á geislavirkum úrgangi. Umhverfisráðherra sagði í niðurlagi bréfsins að þessi yfirlýsing eigi að varða veginn fram á við og eigi að tryggja að losun geislavirkra efna út í umhverfið fari minnkandi.

4.4. Útgáfur

Bæklingur um mengun hafsins

Umhverfisráðuneytið gaf í árslok út bækling um mengun hafsins í tilefni af Ári hafsins 1998. Bæklingurinn, sem ber heitið Mengun á Íslandsmiðum, fjallar í stuttu máli um helstu uppsprettur mengunar, ástandið á Íslandsmiðum og aðgerðir gegn mengun hafsins, jafnt heima fyrir sem á alþjóðavettvangi. Áhersla er lögð á að mengun sjávar við Íslands sé með því minnsta sem þekkist, en að árvekni og aðgerða sé þörf, því sum mengunarefni sem áður fundust helst í innhöfum og við strendur iðnríkja finnast nú í úthöfunum og lífríkinu þar og kunna að valda vanda í náinni framtíð verði ekki gripið í taumana. Bæklingnum var dreift í alla skóla landsins og víðar.

Handbók um umhverfisstjórnun

Í ársbyrjun 1998 kom út Handbók um umhverfisstjórnun: Hreinni framleiðslutækni . . . grænn gróði. Handbókin lýsir því hvernig fyrirtæki geta með einföldum og skipulögðum hætti haldið mengun og úrgangi í lágmarki og um leið náð fram umtalsverðum sparnaði í rekstri. Iðntæknistofnun, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Framtíðarsýn hf. gefa bókina út, en umhverfisráðuneytið og Iðnlánasjóður styrktu gerð hennar. Handbókin byggir á reynslu Iðntæknistofnunar af samstarfi við fimm íslensk iðnfyrirtæki á árunum 1992-1993 og reynslu Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins af samskonar samstarfi 1994-1996 við átta fyrirtæki í fisk- og matvælavinnslu. Handbókin er ætluð stjórnendum fyrirtækja og öðrum starfsmönnum, sem bera ábyrgð á bættum rekstri og lágmörkun sóunar og mengunar. Í viðaukum er m.a. að finna upplýsingar um mögulegar leiðir til að farga iðnaðarúrgangi og leiðbeiningar um flokkun spilliefna.

4.5. Valhúsahæð friðlýst

Vesturhluti Valhúsahæðar á Seltjarnarnesi var á árinu friðlýstur sem náttúruvætti, skv. ákvæðum laga um náttúruvernd. Á Valhúsahæð eru merkar minjar um hærri sjávarstöðu í lok ísaldar og minjar sem m.a. tengjast sögu hernáms í síðari heimstyrjöld. Markmið friðlýsingarinnar var einnig að tryggja aðgang að útivist með fallegu útsýni. Friðlýsing Valhúsahæðar var gerð samkvæmt ósk bæjarstjórnar Seltjarnarness og hefur umhverfisnefnd bæjarins eftirlit með framkvæmd friðlýsingar. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask er óheimilt á náttúruvættinu án leyfis Náttúruverndar ríkisins. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd, svo og sögu- og fornminjar.

4.6. Frigg fær Norræna umhverfismerkið

Sápugerðin Frigg fékk í maí 1998 leyfi til að merkja ákveðna vörutegund, Maraþon milt þvottaduft, með Norræna umhverfismerkinu - Svaninum. Um er að ræða viðurkenningu á því að varan og framleiðsla hennar standist strangar kröfur um umhverfismál. Frigg er fyrsta íslenska fyrirtækið sem fær leyfi til að setja Norræna umhverfismerkið á framleiðslu sína, en alls hafa um 500 slík leyfi verið gefin út.

5. Alþjóðasamstarf

5.1. Ísland skrifar undir Árósasamninginn og viðauka við CLRTAP-samning

Dagana 23.-25. júní var haldin í Árósum í Danmörku fjórða ráðstefna umhverfisráðherra um umhverfismál í Evrópu. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar 55 ríkja Evrópu, auk Bandaríkjanna og Kanada, þar af umhverfisráðherra Íslands og 34 annarra ríkja í Evrópu og nýrra ríkja fyrrum Sovétríkjanna. Á ráðstefnunni var farið yfir ástand umhverfismála í Evrópu og samþykktar ályktanir um forgangsverkefni og aðgerðir ríkjanna í umhverfismálum.

Á ráðstefnunni voru samþykktir þrír nýir alþjóðasamningar sem koma til með að gilda í þessum heimshluta. Tveir samninganna fjalla um varnir gegn loftmengun sem berst langar leiðir en þriðji samningurinn, sem hlýtur heitið Árósasamningurinn, fjallar um upplýsingaskyldu stjórnvalda og þátttöku almennings í ákvarðanatöku í umhverfismálum. 32 ríki auk Evrópusambandsins undirrituðu loftmengunar-samþykktirnar og 31 ríki auk Evrópusambandsins undirrituðu samninginn um upplýsingaskyldu. Ísland undirritaði alla samningana.

Tveir fyrstnefndu samningarnir eru viðaukar við samning um mengun sem berst langar leiðir í lofti og var hann fullgiltur af Íslands hálfu árið 1983. Viðaukarnir sem nú bætast við samninginn fjalla annars vegar um takmörkun á mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna og hinsvegar um þungmálma. Undirritun þessara tveggja viðauka tengist aukinni vernd gegn mengun hafsins.

Árósa-samningurinn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangur að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum hefur að markmiði að tryggja rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál og þátttöku í ákvörðunum þar að lútandi. Er samningnum ætlað að stuðla að því að réttur fólks til að búa í umhverfi sem er viðunandi fyrir heilsu þess og almenna velferð sé tryggður. Samningurinn er tímamótasamningur, þar sem ekki hafa áður verið gerðir alþjóðlegir samningar um þetta efni.

Í lokayfirlýsingu Árósa-ráðstefnunnar var fjallað um helstu forgangsmál í umhverfismálum á svæðinu. Þar er fjallað um aðgerðir til að efla aðgerðir í umhverfismálum almennt, framkvæmd þeirra samþykkta um varnir gegn loftmengun sem undirritaðar voru, aðgerðir til þess að hætta notkun blýbensíns, aðgerðir til að auka orkunýtni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, verndun líffræðilegs fjölbreytileika og framkvæmd samningsins um upplýsingaskyldu. Þá var lögð áhersla á sérstakar aðgerðir til stuðnings hinum nýfrjálsu ríkjum Evrópu og ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.

5.2. Fundur OSPAR í Sintra - sigur í baráttu gegn geislamengun Atlantshafsins

Umhverfisráðherrar aðildarríkja OSPAR-samningsins, sem fjallar um vernd hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, funduðu í Sintra, Portúgal dagana 20.-24. júlí 1998. Tilefni fundarins var að OSPAR-samningurinn, sem undirritaður var 1992, var að taka gildi, en hann kemur í stað eldri samninga: Óslóar og Parísarsamninganna, sem eru frá 1973 og 1974. Fjallað var um margháttuð málefni á fundinum í Sintra og voru þessi helst:

1. Varp lággeislavirks úrgangs í hafið.

Þegar hinn nýi OSPAR-samningur var undirritaður 1992 treystu Frakkar og Bretar sér ekki til að skuldbinda sig til að varpa ekki lággeislavirkum úrgangi í hafið eftir árið 2008, þegar gildandi bann gagnvart þeim fellur úr gildi. Í Sintra lýstu þessar tvær þjóðir því yfir að þær myndu ekki nota þær undanþágur sem eru í samningnum. Með þeirri yfirlýsingu og samþykktinni sem fylgir í kjölfarið bannar OSPAR-samningurinn allt varp geislavirks úrgangs í hafið. Bretar og Frakkar hafa ekki í raun varpað geislaúrgangi í hafið, en yfirlýsingin markaði engu að síður tímamót, þar sem öll tvímæli eru tekin af um að slíkt sé bannað.

2. Stefnumótun hvað varðar losun geislavirkra efna í hafið.

Á fundinum kom greinilega í ljós breytt stefna Breta og Frakka varðandi losun geislavirkra efna í hafið. Fundurinn samþykkti samhljóða að markmið OSPAR varðandi geislavirk efni væri að koma í veg fyrir mengun hafsins frá jónandi geislun og draga verulega úr losun geislavirkra efna, með það framtíðarmarkmið að styrkur þeirra í umhverfinu verði nærri bakgrunnsgildum fyrir náttúrulega geislavirk efni og sem næst engin frá tilbúnum geislavirkum efnum. Þetta er mjög mikilvægt markmið og í raun skuldbundu Bretar og Frakkar, einu þjóðirnar sem stunda endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi, sig með þessu til að losun þeirra verði nánast engin fyrir árið 2020.

3. Hættuleg efni.

OSPAR samþykkti metnaðarfulla stefnu varðandi meðhöndlun hættulegra efna, þ.á m. notkun svokallaðra þrávirkra lífrænna efna, sem Íslendingar hafa verið að berjast gegn. Þessi samþykkt mun þegar fram líða stundir hafa áhrif á flestalla starfsemi sem í dag veldur einhverri mengun sjávar.

4. Förgun úreltra borpalla

Þetta atriði snerti Íslendinga lítið, nema óbeint. Ríki sem liggja að Norðursjó hafa hins vegar margar hverjar lagst mjög gegn því að úreltir borpallar yrðu skildir eftir í sjónum. Samningaviðræður stóðu yfir í 3 ár og loks var samþykkt á fundinum lagalega bindandi ákvörðun um að bannað yrði að skilja eftir alla borpalla sem hætt er að nota eða varpa þeim í hafið, með nokkrum undantekningum.

5. Verndun búsvæða

Samþykktur var viðauki við samninginn um verndun tegunda og búsvæða, sem stillir saman krafta aðildarríkjanna 18 til að vernda vistkerfi og tegundir sem eru í hættu. Það kemur hins vegar kemur skýrt fram að viðaukinn tekur ekki til stjórnunar á fiskveiðum eða nýtingar sjávarspendýra.

6. Ýmsar aðgerðir

OSPAR setti fram vinnuáætlun til nokkurra ára og tók sameiginlega nokkrar ákvarðanir. Sú sem varðar Íslendinga mest var ákvörðun um losun mengandi efna frá áliðinaði. Íslendingar höfðu mikil áhrif á þessa ákvörðun, enda á margan hátt með tækni sem mengar hafið minna en tækni sem notuð er í sumum öðrum aðildarlöndum OSPAR.

5.3. Fjórða þing samningsins um líffræðilega fjölbreytni

Fjórða aðildarríkjaþing samningsins um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity) var haldið í Bratislava í Slóvakíu 4.-15. maí sl. Fulltrúar frá um 180 ríkjum tóku þátt í fundinum, ásamt fulltrúum fjölda alþjóðastofnana og samtaka.

Samningurinn var lagður fram til undirritunar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro 1992 og var hann þá undirritaður af Íslands hálfu. Ísland staðfesti samninginn í september 1994 og tók hann gildi hér á landi í desember sama ár. Markmið hans er þríþætt: Að vernda líffræðilega fjölbreytni, tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda og stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar, sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda, sem og aðgangi að þeim. Skrifstofa samningsins er í Montreal í Kanada.

Helstu málefni sem rædd voru á þinginu voru: Vernd og sjálfbær nýting líffræðilegrar fjölbreytni við strendur og í hafinu, vernd og nýting skóga, lífríki í fersku vatni og erfðabreyttar lífverur. Auk þess var rætt um upplýsingamiðlun og vísindalega samvinnu, mikilvægi flokkunarfræði, erfðaauðlindir, fjármál og framkvæmd samningsins.

Á þinginu var samþykkt heildstæð aðgerðaáætlun til þriggja ára um vernd og nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni á strand- og hafsvæðum. Aðgerðaráætlunin var sú fyrsta sem samþykkt er á vegum samningsins. Áætlunin skiptist í fimm kafla, sem fjalla um: (1) samþætta stjórnun á strand- og hafsvæðum, (2) lifandi auðlindir, (3) verndarsvæði, (4) framandi tegundir og (5) sjávareldi.

Fulltrúar Íslands tóku virkan þátt í umræðum um áætlunina og lögðu m.a. áherslu á að við framkvæmd hennar yrði byggt á vinnu í aðildarríkjunum, hjá svæðasamtökum og í alþjóðastofnunum á þessu sviði. Ákveðið var að skrifstofa samningsins byði alþjóðasamtökum og svæðasamtökum að annast ákveðin verkefni og að samræma vinnu sína áætluninni, þar sem við á.

Á þinginu var ennfremur fjallað sérstaklega um aðgang að erfðaauðlindum og skiptingu hagnaðar af nýtingu þeirra. Samþykkt var að setja á fót nefnd til að leggja drög að samræmdum reglum, sem lögð yrðu fyrir næsta aðildarríkjafund. Í umræðum lögðu fulltrúar Íslands áherslu á rétt ríkja til þess að vernda og nýta erfðaauðlindir sínar, svo sem örverur á jarðhitasvæðum, og til hlutdeildar í hagnaði af nýtingu þeirra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum