Hoppa yfir valmynd
18. október 2002 Forsætisráðuneytið

Nefnd um sveigjanleg starfslok

Lokaskýrsla, október 2002


Nefnd um sveigjanleg starfslok - lokaskýrsla október 2002 (223Kb)

Hinn 9. maí 2000 samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að móta tillögur um að auka sveigjanleika íslenskra launamanna við starfslok. Leitað var eftir tilnefningum í nefndina í nóvembermánuði sama ár og voru eftirtaldir skipaðir til setu í henni: Jón H. Magnússon, samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, Þorbjörn Guðmundsson, samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Már Ársælsson, samkvæmt tilnefningu Bandalags háskólamanna, Arna Jakobína Björnsdóttir, samkvæmt tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ásta Lára Leósdóttir, samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis. Formaður nefndarinnar var skipaður Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður.

Í skipunar- og erindisbréfi nefndarinnar, dags. 12. janúar 2001, er verkefni hennar svo lýst:

  • Nefndin skal gera grein fyrir lögum, reglum og venjum er gilda um starfslok launþega, bæði hjá opinberum aðilum og á almennum vinnumarkaði.
  • Nefndin skal gera grein fyrir því hvernig starfslokum er háttað í þeim nágrannalöndum sem gjarnan eru höfð til viðmiðunar hér á landi.
  • Nefndin skal gera grein fyrir vandkvæðum og álitamálum sem uppi eru varðandi fyrirkomulag starfsloka.
  • Nefndin skal fjalla um valkosti og mögulegar breytingar varðandi fyrirkomulag starfsloka og ráðstafanir sem slíkar breytingar myndu útheimta, t.a.m. varðandi iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði og lífeyrisgreiðslur.

Í skipunarbréfi var jafnframt tekið fram að æskilegt væri að nefndin lyki störfum fyrir árslok 2002.
Nefndarstarfið hófst í ársbyrjun 2001 og hefur nefndin fundað 14 sinnum síðan en gert var hlé á fundahöldum sumrin 2001 og 2002. Í samráði við forsætisráðuneytið ákvað nefndin að fara þess á leit við dr. Tryggva Þór Herbertsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að hann starfaði með nefndinni og varð hann við þeirri ósk. Ritari nefndarinnar var Guðmundur Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti.

Nefndin hefur viðað að sér gögnum víða að. Á fund hennar hafa meðal annars komið talsmenn samtaka eldri borgara og forstöðumenn samtaka lífeyrissjóða. Þá hafði nefndin frumkvæði að því að gerð var viðamikil könnun á afstöðu fólks á aldrinum 55–75 ára til ýmissa málefna sem lúta að starfslokum og ákvörðunum um þau. Var könnunin undirbúin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í samvinnu við IMG-Gallup sem annaðist framkvæmd hennar. Könnunin var kostuð af forsætisráðuneytinu, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Landssamtökum lífeyrissjóða, Samtökum atvinnulífsins og Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur.

Útgangspunktur í störfum nefndarinnar er að það sé verðugt markmið að auka sveigjanleika varðandi það hvernig og hvenær fólk lýkur atvinnuþátttöku og eru tillögur þær sem nefndin hefur sammælst um unnar út frá þeim forsendum. Með skýrslu þessari lýkur starfi nefndarinnar.

                                                                        Reykjavík 4. október 2002

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum