Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2012 Matvælaráðuneytið

Skýrsla nefndar vegna endurskoðunar iðnaðarlaga

Nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði til að skoða hugsanlega endurskoðun iðnaðarlaga, nr. 42/1978, hefur skilað skýrslu með tillögum sínum til ráðherra. Nefndin leggur til að iðnaðarlögin verði endurskoðuð og að löggiltar iðngreinar verði framvegis tilgreindar í iðnaðarlögum í stað reglugerðar. Tillögurnar fara nú í opið umsagnarferli til 27. mars.

Nefndin leggur til að iðnaðarlögin verði endurskoðuð og að skoðað verði sérstaklega hvaða iðngreinar hafi tekið slíkum breytingum að ekki teljist lengur málefnalegar forsendur fyrir löggildingu þeirra. Nefndin mælir í því sambandi með því að aðeins þær iðngreinar sem telja verður nauðsynlegt að veita lögverndun á grundvelli ríkra almannahagsmuna verði framvegis felldar undir flokk löggiltra iðngreina, enda felur löggilding iðngreinar í sér skerðingu á atvinnufrelsi. Þá leggur nefndin til að löggiltar iðngreinar verði framvegis tilgreindar í iðnaðarlögum í stað reglugerðar eins og nú er reyndin, þannig að það verði Alþingi en ekki ráðherra sem taki ákvörðun um það hvort lögvernda skuli tiltekna iðngrein. Loks leggur nefndin til að ákvæði um eftirlit, viðurlög og kæruleiðir verði endurskoðuð.

Skýrsla nefndarinnar (pdf skjal)

Umsagnar- og samráðsferli

Ákveðið hefur verið að gefa almenningi og hagsmunaaðilum kost á að gera athugasemdir við tillögur nefndarinnar. Frestur til að gera athugasemdir er til 27. mars 2012 og skulu athugasemdir vera skriflegar. Vakin er athygli á því að allar athugasemdir munu verða birtar á heimasíðu iðnaðarráðuneytis. Hægt er að senda athugasemdir með pósti eða tölvupósti til iðnaðarráðuneytis:

Póstfang: Iðnaðarráðuneyti, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.

Tölvupóstur: [email protected]

Nánari upplýsingar um samráðsferlið veitir Hreinn Hrafnkelsson,
tölvupóstfang: [email protected], sími: 545-8500.

Að loknu umsagnar- og samráðsferlinu verður unnið úr athugasemdum og tekin ákvörðun um næstu skref.

Um iðnaðarlögin

Iðnaðarlögin taka til hvers konar iðnaðar í atvinnuskyni og til iðnaðar telst bæði handiðnaður og verksmiðjuiðnaður, en heimilisiðnaður er undanskilinn ákvæðum laganna. Í lögunum er m.a. kveðið á um réttindi og skyldur iðnaðarmanna, þar á meðal skilyrði fyrir rétti til iðnaðarstarfa og sektir vegna brota gegn ákvæðum þeirra. Samkvæmt iðnaðarlögunum má enginn reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi nema hafa fengið til þess leyfi samkvæmt lögunum. Í lögunum er mælt fyrir um löggildingu iðngreina, en löggiltar iðngreinar eru í dag tæplega 60 talsins og eru þær taldar upp í reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar. Samkvæmt iðnaðarlögunum hafa eingöngu þeir sem hafa sveinsbréf eða meistarabréf í viðkomandi iðngrein rétt til að kenna sig við þá iðngrein í starfsheiti sínu og eingöngu meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni hafa rétt til að starfa í viðkomandi iðngrein, en nokkrar undantekningar eru þó á þessum einkarétti þeirra til starfa, sbr. 8. gr. iðnaðarlaga. Dæmi um löggiltar iðngreinar eru t.d. húsasmíði, pípulagnir, bifreiðasmíði, kjólasaumur, hattasaumur, leturgröftur, bakaraiðn, matreiðsla, stálsmíði, mótasmíði, rafvirkjun, ljósmyndun og hársnyrtiiðn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum