Hoppa yfir valmynd
/ Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerðum um fjármál sveitarfélaga til umsagnar

 Hugi Ólafsson

Til umsagnar eru nú drög að breytingum á reglugerðum er varða fjármál sveitarfélaga: Annars vegar um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga og hins vegar um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.

Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 4. ágúst næstkomandi og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Breytingarnar eru afrakstur samvinnu ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjölfar breytingar sem gerðar voru á lögum um Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á sl. ári, sbr. lög nr. 127/2016.

Markmið breytinganna er að tryggja rétta meðhöndlun greiðslna og skuldbindinga sveitarfélaga í kjölfar framangreindra lagabreytinga en þær vörðuðu samræmingu og jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði og framtíðarskipan lífeyrismála. Höfðu þær m.a. í för með sér að sveitarfélögum ber nú að gera upp reiknaðan framtíðarhalla A-deildar Brúar, lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, með einskiptisgreiðslu en þessar skuldbindingar höfðu ekki áður verið færðar til bókar í reikningum sveitarfélaga.

Um áhrif þessarar skuldbindingar segir í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 127/2016:

Í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, er kveðið á um fjármálareglur sem sveitarfélögum ber að fara eftir. Um er að ræða tvær reglur, jafnvægisreglu og skuldareglu. Samkvæmt jafnvægisreglunni ber sveitarfélögum að haga rekstri sínum þannig að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Skuldareglan kveður hins vegar á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta sveitarfélags séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.

Umræddar eingreiðslur setja strik í reikning sveitarfélaga og valda því að mörg þeirra brjóta að öðru óbreyttu framangreindar fjármálareglur. Væri þannig eingreiðslan gjaldfærð má ljóst vera að vegna jafnvægisreglunnar þrengdist mjög að fjárhag sveitarfélaga. Með því að færa eingreiðslur yfir efnahag væri hætt við að efnahagur einstakra sveitarfélaga færi í bága við skuldaregluna. Árlegar greiðslur vegna skuldayfirlýsinga yrðu síðan gjaldfærðar sem launakostnaður þegar þær falla til. Í árslok 2015 námu skuldir og skuldbindingar sveitarsjóða 291 ma.kr. og tryggingafræðilegt mat á nauðsynlegri eingreiðslu til Brúar ásamt framlagi til varúðarsjóðs hækkar því skuldir og skuldbindingar um rösklega 9%. Í 14. gr. reglugerðar nr. 502/2012, um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, er kveðið á um að draga skuli núvirði lífeyrisskuldbindinga sem áætlað er að komi til greiðslu lífeyris eftir 15 ár og síðar frá heildarskuldum og skuldbindingum. Forsenda fyrir frádrættinum er að fram komi í skýringum ársreiknings upplýsingar um skiptingu núvirðis lífeyrisskuldbindinga vegna greiðslu lífeyris næstu 15 árin og eftir það. Ætla má að vegna þess muni um helmingur framlags koma til álita við mat á skuldareglu. Ef gert er ráð fyrir skuldaviðurkenningu sveitarfélaga til 30 ára má ætla að skuldir og skuldbindingar sem koma til mats í skuldareglu hækki um 4,5%.

Af framansögðu má ráða að vilji löggjafans hafi staðið til þess að umrædd framlög yrðu gjaldfærð yfir líftíma skuldabréfa sem gefin eru út í tengslum við þau en ekki í heilu lagi strax í upphafi. Við útreikning á skuldaviðmiði skv. 64. gr. sveitarstjórnarlaga yrði einnig horft til þessa. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á annars vegar reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015, og hins vegar reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, nr. 502/2012, er þessi vilji löggjafans festur í sessi í reikningsskilum sveitarfélaga og í reglum um útreikning á skuldaviðmiði.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira