Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2019 Innviðaráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Formlegar viðræður hafnar um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa sett af stað stýrihóp til að hefja viðræður til að móta tillögur til ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um næstu skref í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun þeirra.

Viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033 fara fram í umboði þriggja ráðherra, forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, og stjórn Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Stýrihópurinn er skipaður af ráðherrunum þremur, formanni og varaformanni stjórnar SSH og borgarstjóra Reykjavíkur.

Í erindisbréfi stýrihópsins segir að hópurinn skuli m.a. vinna tillögur út frá fyrirliggjandi hugmyndum um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og skýrslu viðræðuhóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2018 um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í þeirri skýrslu er að finna samkomulag um tillögu að framkvæmdum á stofnvegum, innviðum Borgarlínu og hjólreiða til næstu 15 ára.

Á kynningarfundi sem haldinn var 12. apríl sl. með Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kom fram að markmið viðræðnanna væri að móta sameiginlega sýn um fjármögnun 102 milljarða fjárfestingaráætlunar í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Stýrihópurinn skuli jafnframt leggja fram beinar tillögur um bæði fjármögnun einstakra framkvæmda og verkefna ásamt verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Sérfræðingahópur til stuðnings stýrihópi
Með stýrihópnum starfar starfshópur sem er skipaður sérfræðingum frá forsætisráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skipa þrjá fulltrúa. Hlutverk starfshópsins er að fjalla um mismunandi leiðir, valkosti og lausnir í viðræðunum, vinna drög að samningi og nauðsynlegri umgjörð um verkefnið til framtíðar sem lagðar verði fyrir aðila verkefnisins til samþykktar.

Starfshópinn skipa:

  • Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu,
  • Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu,
  • Sigurður Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu,
  • Birgir Björn Sigurjónsson, tilnefndur af SSH,
  • Guðrún Edda Finnbogadóttir, tilnefnd af SSH,
  • Páll Björgvin Guðmundsson, tilnefndur af SSH.

Með hópnum starfar Árni Freyr Stefánsson, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu

Tillögum skal skila fyrir lok maí 2019.

Skýrsla um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

11. Sjálfbærar borgir og samfélög
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum