Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra veitir viðurkenningar á Degi umhverfisins

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt fulltrúum Sjálandsskóla, sem eru Varðliðar umhverfisins 2023. - mynd

Umhverfis-, orku-  og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, veitti  fyrirtækjunum Jáverk og Gefn í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Sjálandsskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins.

„Það er ánægjulegt að upplifa þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum, sem eru ein brýnustu mál samtímans. Þessi vitundarvakning endurspeglast meðal annars í mikilli grósku í umhverfismálum sem nú er innan margra fyrirtækja og stofnana landsins og er ein af ástæðum þess Kuðungurinn er nú veittur í tveimur flokkum, í flokki stærri og minni fyrirtækja og stofna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Það er ekki síður gleðiefni að verða vitni að þeirri grósku sem á sér stað umhverfisstarfi skóla og hvernig unga fólkið á þátt í jákvæðum breytingum í umhverfismálum sem ná út í nærsamfélag þeirra.“

Jáverk og Gefn hljóta Kuðunginn

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Jáverk sem handhafa Kuðungsins 2022 kemur fram að Jáverk hafi verið fyrsta umhverfisvottaða byggingarfyrirtækið á Íslandi, en fyrirtækið varð í fyrra Svansleyfishafi. JÁVERK hefur í starfi sínu innleitt nýjungar sem sýna samfélagslega ábyrgð. Þannig lífsferilsgreina þau öll verk og reikna innbyggt kolefni bygginga og orkunýtingu í Svansvottuðum verkefnum. Um 35% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu má rekja til byggingariðnaðarins og segir dómnefnd framlag Jáverks til umhverfismála því mikilvægt.

Rík áhersla sem fyrirtækið leggi á fræðslu starfsfólks sé ekki síður lofsverð. Starfsfólk Jáverk hlýtur m.a. þjálfun í efnisflokkun og þá fá verkstjórar þjálfun í vottunum og grunnumhverfisfræðslu. Fræðslan hefur haft jákvæð áhrif og aukið umhverfisvitund starfsmanna og eru undirverktakar í stórum stíl byrjaðir að óska eftir sambærilegri þjálfun. 

Í rökstuðningi sínum fyrir valinu á Gefn bendir dómnefndin á að fyrirtæki hafi náð frábærum árangri með QVIK tækninni sinni, sem snýr að nýtingu úrgangs og aukaafurða frá fituvinnslu til að búa til umhverfisvænar efnavörur. Með því færi fyrirtækið úrgang sem annars yrði urðaður aftur inn í hringrásarhagkerfið. Er það mat dómnefndar að nýsköpun á borð við þessa geti stuðlað að miklum framförum í umhverfismálum þar sem hún feli í sér að hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti og öðrum óumhverfisvænum og skaðlegum efnum í vörum fyrir umhverfisvænni og heilsuvænlegri kost. Eins telur dómnefnd að loftsvert að Gefn hanni allar sínar vörur með umhverfismerkið Svaninn að leiðarljósi.

Verðlaunagripurinn Kuðungurinn er hannaður af þeim Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur hjá Fléttu hönnunarstofu, en þær hafa sérhæft sig í að hanna úr endurnýttum efnivið. Við hönnun og framleiðslu Kuðungsins settu þær sér fastar skorður og nýttu til þess eingöngu endurnýttan efnivið eða afgangsefni frá annarri framleiðslu. Grunnur verðlaunagripsins er gerður úr lituðu timbri frá Sorpu sem annars færi til urðunar, og á toppnum trónir steinn sem minnir á hrafntinnu en er í raun aukaafurð frá framleiðslu steinullar hér á landi. Hráefnin koma svo saman í spíral og vísar formið þannig til kuðungsins sem verðlaunin eru kennd við.

Jáverk og Gefn öðlast rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Í dómnefnd sátu Kristín Amy Dyer, formaður, Brynjólfur Bjarnason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Auður Alfa Ólafsdóttir f.h. Alþýðusambands Íslands og Jóhannes Bjarki Urbanic Tómasson, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.

Nemendur Sjálandsskóla Varðliðar umhverfisins 2023

Nemendur á miðstigi og í 9. bekk Sjálandsskóla unnu á þemadögum verkefni um umhverfisvernd, endurvinnslu og endurnýtingu.

Markmið þemadaganna var gera nemendur meðvitaða um eigin þátttöku í neyslusamfélagi og velta upp hvað við getum gert sem einstaklingar til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.  Gerðu nemendur 9. bekkjar m.a. úttekt á orkunotkun rafmagnstækja og matarsóun á eigin heimili og bentu á leiðir til úrbóta. Þá gáfu nemendurnir úrgangi nýtt líf með því að endurnýta með skapandi hætti efnivið sem fannst í endurvinnslutunnum heimilanna. Nemendur á miðstigi endurnýttu á sama tíma efnivið sem annars hefði endað í ruslinu á skapandi hátt og hvöttu með því samfélagið til hugsa margnota frekar en einnota, m.a. með sköpun tónverka sem leikin voru á heimatilbúin hljóðfæri sem búin voru til úr plastúrgangi.

Er það mat valnefndar að verkefni Sjálandsskóla hafi gefið nemendum tækifæri til að öðlast djúpan skilning á  þeirra eigin þátttöku í ósjálfbæru neyslusamfélagi með vísindalegum vinnubrögðum, gagnasöfnum og skapandi úrlausnum. Nemendur hafi með þessu verið  þátttakendur í jákvæðum breytingum í umhverfismálum sem náðu til nærsamfélagsins og séu þar með bæði í orði og verki sannkallaðir varðliðar umhverfisins.

Rökstuðningur dómnefndar Kuðungsins

Rökstuðningur valnefndar Varðliðanna

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt fulltrúum Gefn sem hlutu Kuðunginn 2022 í flokki smærri fyrirtækja. - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt fulltrúum Jáverk sem hlutu Kuðunginn 2022 í flokki stærri fyrirtækja. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum