Hoppa yfir valmynd
30. september 2016 Matvælaráðuneytið

Hver verður búsetuþróun á Íslandi til ársins 2030

Hvaða mun ráða búsetuþróun á Íslandi fram til ársins 2030? Hvert ber að stefna í byggðaáætlun sem er í mótun? Þetta voru á meðal þeirra spurninga sem ræddar  voru á ráðstefnunni „Búsetuþróun á Íslandi til ársins 2030“ sem Byggðastofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóðu fyrir í vikunni.  

Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra byggðamála sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni að hann hefði falið Byggðastofnun að útfæra tillögur að skattalegum ívilnunum og að þær myndu birtast í nýrri byggðaáætlun. „Þær leiðir sem við erum helst að horfa í er lækkun á tryggingargjaldi því lengra sem komið er frá höfuðborgarsvæðinu, lækkun á ferðakostnaði fyrir þá sem sækja vinnu langt að og niðurfellingu á námslánum hjá fólki sem býr á svokölluðum veikum svæðum.“

Vinna við tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára fyrir árin 2017-2023 hófst í lok árs 2015. Áætlunin skal lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Vinnan hefur farið vel af stað þó tíminn sé knappur og fundað hefur verið með fulltrúum allra landshluta og flestra ráðuneytanna í fyrsta samráðsfasa verkefnisins.

Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður sviðsmyndagreiningar á búsetuþróun til ársins 2030. Sviðsmyndir eru viðurkennd aðferðafræði til að rýna framtíðina, skilja umhverfið og skapa sameiginlegan skilning á því hvað rétt er að gera í dag til að undirbúa og móta framtíðina. Hlutverk sviðsmynda er að gefa okkur hugmynd um hvernig trúverðugar „framtíðir“ gætu litið út. Það er mikilvægt að skilja að við sköpun framtíð okkar með því sem við gerum eða gerum ekki í dag. Því er það rökrétt að reyna að velta því upp hvernig framtíðin gæti litið út, áður en við þurfum að bregðast við. Þar gagnast sviðsmyndir best – til að skilja hvernig framtíðin lítur út áður en þurfum að bregðast við.

Markmið sviðsmynda er ekki að segja fyrir um framtíðina, heldur búa okkur undir það að lifa með óvissunni og skilja í hverju hún felst. Mælikvarði um hvort sviðsmyndir eru góðar eða slæmar felst ekki í því hvernig og hve vel þær rætist í framtíðinni heldur hvort þær leiði til betri ákvarðana í dag.

Karl Friðriksson og Sævar Kristinsson hjá Framtíðarsetri Íslands kynntu sviðsmyndirnar og að því loknu dró Þóroddur Bjarnason, prófessor við HA saman mikilvægustu niðurstöður og ræddi þau áhrif sem þær kunna að hafa á þá Byggðaáætlun 2017-2023 sem nú er unnið að af hálfu stjórnvalda.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum