Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 100/2020 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 21. desember 2020

í máli nr. 100/2020

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða henni bætur þar sem hún hafi orðið fyrir tjóni þar sem ekki varð af leigusamningi aðila.

Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að greiða bætur að fjárhæð 177.587 kr. vegna vanefnda sóknaraðila á leigusamningi aðila. Auk þess fer varnaraðili fram á að sóknaraðila beri að greiða lögfræðikostnað varnaraðila vegna máls þessa, sbr. 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Með kæru, dags. 8. september 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 11. september 2020, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 21. september 2020. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 22. september 2020, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti, dags. 4. október 2020, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 7. október 2020. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 9. október 2020, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 13. október 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. september 2020 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um hvort varnaraðila beri að greiða sóknaraðila bætur vegna þess að hún hafi orðið fyrir fjártjóni þar sem ekki varð af leigusamningi aðila. Einnig hvort sóknaraðila beri að greiða varnaraðila bætur vegna vanefnda á samningi aðila sóknaraðila. Þá gerir varnaraðili kröfu um að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að við upphaf leigutíma hafi hvorki verið gluggatjöld í stofu íbúðarinnar né eldhúsi. Þá hafi hvorki verið háfur né uppþvottavél í eldhúsi og stórt gat verið á borðplötu í þvottahúsi. Einnig hafi stórt gat verið á svalavegg og vatn á svölum. Sterk lykt hafi verið af málningu innanhúss.

Sóknaraðili telji að endurnýjun íbúðarinnar hafi ekki verið lokið. Hún hafi farið fram á að varnaraðili setti upp það sem á hafi vantað og gerði við vegginn áður en hún myndi flytja inn. Varnaraðili hafi hafnað þeirri beiðni og af þeim sökum hafi sóknaraðili neitað að flytja inn.

Þar sem sóknaraðili hafi ekki getað flutt í íbúðina hafi hún orðið fyrir viðbótarkostnaði vegna flutninga, þurft að greiða gistigjöld, kostnað vegna geymslu húsgagna og vegna aukins kostnaðar vegna bensíns.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi með tölvupósti 20. júlí 2020 óskað eftir að leigja íbúðina. Í kjölfarið hafi hún skoðað íbúðina 22. júlí 2020. Við þá skoðun hafi framkvæmdum verið ólokið. Sóknaraðili hafi óskað eftir að leigja íbúðina frá 1. september 2020.

Í samtali aðila 31. júlí 2020 hafi komið fram að sóknaraðili þyrfti að standa straum af kostnaði við að flytja til D þar sem dóttir hennar hygðist nema við E næsta skólaár. Sóknaraðili hafi óskað eftir því að leiguverð yrði lækkað sem varnaraðili hafi samþykkt. Drög að leigusamningi hafi í kjölfarið verið send sóknaraðila. Þann 3. ágúst 2020 hafi sóknaraðili aftur skoðað íbúðina og aðilar farið yfir leigusamninginn. Sóknaraðili hafi óskað eftir lyklum og möguleika á því að fresta því að flytja inn í íbúðina yrði sterk lykt í henni. Varnaraðili hafi fallist á það en ákvæði sett í leigusamning um að teldi sóknaraðili að lykt væri til staðar þyrfti óháður skoðunarmaður að skera úr um það. Leigusamningur hafi verið undirritaður 7. ágúst 2020 og honum þinglýst 10. ágúst samkvæmt beiðni sóknaraðila.

Sóknaraðili hafi óskað eftir lyklum helgina fyrir mánaðamótin til þess að auðvelda flutninga. Varnaraðili hafi fallist á að hún gæti fengið lykla við lok framkvæmda henni að kostnaðarlausu. Varnaraðili hafi upplýst 25. ágúst 2020 að framkvæmdum væri ólokið og ekki yrði hægt að klára þær fyrr en 28. ágúst. Varnaraðili hafi einnig farið fram á að fengi sóknaraðili lyklana 28. ágúst yrði hún að koma til móts við það að iðnaðarmenn þyrftu að hafa aðgang að íbúðinni til að ljúka framkvæmdum. Á þessum tíma hafi verið óljóst hvenær lokið yrði að klæða húsið að utan. Í símtali aðila 27. ágúst 2020 hafi sóknaraðili sagt að allt yrði klárað fyrir mánaðamót en ekki fyrir 28. ágúst. Sóknaraðili hafi viljað sjá íbúðina þann dag sem varnaraðili hafi fallist á.

Sóknaraðili hafi skoðað íbúðina með föður varnaraðila og gert ýmsar athugasemdir á staðnum. Hún hafi gert athugasemd við að það væru engar gardínur í stofu. Hún hafi verið upplýst um að þær væru ekki nauðsynlegur fylgihlutur og myndu ekki fylgja. Sóknaraðili hafi gert athugasemd við það að enginn háfur væri í eldhúsi. Við skoðun hafi henni verið tjáð að slíkt væri ekki nauðsynlegur fylgihlutur þar sem loftun væri tryggð. Sóknaraðili hafi lýst yfir óánægju með ýmis fleiri atriði, meðal annars að opnar veggdósir væru til staðar, þrifum væri ábótavant og fleygar undir sólbekk. Henni hafi verið tjáð að þessu yrði öllu lokið fyrir 1. september 2020.

Misskilningur hafi átt sér stað á milli sóknaraðila og umboðsmanns varnaraðila sem hafi orðið til þess að hún hafi fengið lykla 28. ágúst. Sóknaraðila hafi þó verið tjáð að aðeins væri leyfilegt að nota lyklana til að flytja dót í íbúðina en þó ekki fyrr en tryggingarfé yrði greitt. Að kvöldi 28. ágúst hafi varnaraðili fengið símhringingu frá sóknaraðila þar sem hún hafi sett út á að engar gardínur væru í stofunni. Varnaraðili hafi sagt að það hefði aldrei staðið til að setja gardínur í stofnuna og að húsaleigulög legðu engar kvaðir á um slíkt. Símtalinu hafi lokið með því að sóknaraðili hafi sagt að hún ætlaði að hafa samband næsta dag. Síðar sama kvöld hafi varnaraðili frétt að hún hefði fengið lykil þótt tryggingarfé hefði ekki verið greitt og að hún hygðist flytja dótið sitt í svefnherbergin og læsa þeim. Á þessum tímapunkti hafi varnaraðili sent skriflega kröfu um að sóknaraðili greiddi tryggingarféð þar sem hún væri komin með lyklana.

Sóknaraðili hafi svarað og týnt til ýmsa meinta ágalla á íbúðinni. Í niðurlögum tölvupósts hennar hafi hún sagt að kæmust aðilar ekki að samkomulagi myndi hún rifta leigusamningnum. Varnaraðili hafi svarað þessum tölvupósti og meðal annars upplýst að íbúðin yrði tilbúin 1. september 2020. Varnaraðili hafi bent á að um væri að ræða bindandi leigusamning en vildi sóknaraðili rifta honum yrði á það fallist að því gefnu að sóknaraðili flytti ekki í íbúðina, greiddi tveggja mánaða leigu, fyrirgerði rétti sínum til að nota íbúðina og skila þegar lyklum. Í tölvupósti sóknaraðila 29. ágúst 2020 hafi hún gefið varnaraðila eftirfarandi kosti. Í fyrsta lagi að hún myndi skila lyklum samdægurs og endurgreiða varnaraðila kostnað við að aflýsa leigusamningi. Í öðru lagi að varnaraðili myndi greiða kostnað við uppsetningu háfs og gardína og að því loknu myndi hún flytja inn og greiða leigu frá þeim degi. Einnig að varnaraðili myndi sjá um þrif á sameign eða sóknaraðili myndi gera það gegn lækkun á leigu. Í þriðja lagi að sóknaraðili myndi flytja inn 1. september 2020, setja sjálf upp háf og gardínur og varnaraðili greiða fyrir það. Varnaraðili myndi sjá um þrif á sameign eða sóknaraðili gegn lækkun leigu.

Í tölvupósti varnaraðila 29. ágúst 2020 hafi hún ritað að hún væri ósammála atburðalýsingu sóknaraðila en að hún myndi undirbúa pappírsvinnu til að aflýsa leigusamningi. Sóknaraðili hafi neitað að skrifa undir slíkt nema varnaraðili samþykkti að sóknaraðili væri ekki skaðabótaskyld gagnvart varnaraðila. Því hafi verið hafnað. Að kvöldi 29. ágúst 2020 hafi sóknaraðili loks samþykkt að hitta umboðsmann varnaraðila og afhenda honum lyklana.

Í 14. gr. húsaleigulaga sé tilgreint hvert ástand hins leigða húsnæðis eigi að vera. Þar sé hvergi gerð krafa um gardínur. Þar sé einnig tekið fram að fylgifé húsnæðis sem hafi verið til staðar við sýningu eigi að fylgja nema sérstaklega sé samið um annað. Ekki hafi verið um annað samið.

Við sýningu íbúðarinnar 22. júlí og 3. ágúst 2020 hafi sóknaraðili verið upplýst um það sem hafi átt eftir að gera í eldhúsinu til þess að það væri tilbúið en ekki hafi verið minnst á háf. Samkvæmt túlkun varnaraðila á 14. gr. húsaleigulaga teljist háfur eða gufugleypir ekki nauðsynlegur fylgihlutur, sé tryggð nægileg loftun í eldhúsi.

Í leiguauglýsingu hafi verið tekið fram að gert væri ráð fyrir uppþvottavél en ekki sagt að hún fylgdi. Við skoðun á íbúðinni hafi verið tekið fram að önnur tæki myndu ekki fylgja með íbúðinni en þau sem hafi verið til sýningar, þ.e. ekki ísskápur, uppþvottavél, þurrkari eða þvottavél. Í þvottahúsi sé gert ráð fyrir þvottavél undir borðplötu og þurrkara ofan á borðplötu. Innstunga fyrir bæði þvottavél og þurrkara sé staðsett í skáp fyrir ofan þurrkarann. Til að tryggja leið fyrir ragmagnssnúru frá þvottavél að innstungu hafi verið gert gat á borðplötu sem myndi lenda fyrir aftan þurrkarann. Þessu hafi verið lokið áður en sóknaraðili hafi skoðað íbúðina í fyrsta skipti og sjáist á myndum sem hafi fylgt auglýsingu. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þetta við skoðun. Hvað stórt gat á svalavegg varði, sem sóknaraðili vísi til, hafi átt eftir að setja upp rafmagnsdós úti sem hafi verið lokið 1. september 2020. Þá hafi sóknaraðili ekki nefnt sterka lykt vegna málningar innanhúss fyrr en í kæru í máli þessu.

Varnaraðili hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna ólögmætrar uppsagnar sóknaraðila. Hún hafi rift samningnum þremur dögum fyrir mánaðamót með því að setja fram afarkosti þar sem enginn þeirra hafi sýnt fram á að hún hygðist uppfylla leigusamninginn. Íbúðin hafi þegar verið auglýst og nýr leigjandi flutt inn 20. september 2020. Ljóst sé því að fjártjón vegna tapaðra leigutekna hafi numið 150.000 kr. Að ósk sóknaraðila hafi varnaraðili þinglýst leigusamningnum á sinn kostnað, auk þess sem hún hafi staðið straum af kostnaði við aflýsingu hans.

Þar sem varnaraðili hafi verið erlendis hafði hún gengið frá öllu sem hafi viðkomið þinglýsingu áður en hún hafi farið af landi brott. Til þess að geta aflýst samningi ásamt því að takmarka tjón hafi hún þurft að senda umboð til föður síns með hraðpósti sem gerði föður hennar kleift að aflýsa samningnum ásamt því að skrifa undir nýjan leigusamning. Póstburðargjald fyrir hraðsendingu á bréfi frá Sviss til Íslands hafi verði 64 CHF. Einnig hafi þurft að þinglýsa umboði til þess að faðir hennar gæti afþinglýst samningnum með tilheyrandi kostnaði að fjárhæð 2.500 kr.

Í ljósi þess að sóknaraðili hafði þegar fengið afhentan lykil að íbúiðnni og notað hann, hafi varnaraðili séð sig knúna til að skipta um sílinder í íbúðinni til að tryggja hagsmuni næsta leigjanda.

Þá sé óupptalinn kostnaður sem hafi farið í að svara tölvupóstum sóknaraðila fyrir mánaðamót, ráðgjöf hjá lögfræðingi í undirbúningi slíks svars, tími sem hafi farið í að auglýsa íbúðina upp á nýtt, finna nýjan leigjanda og ráðgjöf lögfræðinga við undirbúning greinargerðar þessarar.

Heildarkostnaður, sem varnaraðili hafi orðið fyrir vegna vanefnda sóknaraðila, sé eftirfarandi:

Tap á leigutekjum………………………………………..150.000 kr.

Þinglýsingargjald leigusamnings…………………………...2.500 kr.

Aflýsing leigusamnings og þinglýsingargjald………………5.300 kr.

Póstburðargjald……………………………………………..9.759 kr.

Kostnaður við að auglýsa íbúðina að nýju………………....3.528 kr.

Nýr sílinder í hurð………………………………………….6.500 kr.

Lögfræðiráðgjöf……………………………… Reikningur ókominn

Öllum kröfum sóknaraðila sé hafnað og teljist kröfur hennar réttmætar hefði varnaraðili hvort sem væri átt að vera varin af 17. gr. húsaleigulaga og hafa fjórar vikur til þess að ráða bót á þeim annmörkum sem sóknaraðili hafi talið fram.

Varnaraðili telji sóknaraðila skaðabótaskylda þar sem hún hafi ekki efnt samninginn. Eftir að ljóst hafi orðið að sóknaraðili hygðist ekki efna leigusamninginn hafi varnaraðili unnið hart að því að lágmarka það tjón sem hafi orðið vegna vanefnda sóknaraðila. Fjártjón varnaraðila nemi 177.587 kr., auk lögfræðikostnaðar en sá reikningur sé ókominn. Varnaraðili líti jafnframt svo á að kæra þessi sé með öllu tilhæfulaus af hálfu sóknaraðila og því eigi hún að bera lögfræðikostnað varnaraðila, sbr. 85. gr. húsaleigulaga.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að hún hafi tekið myndir af íbúðinni 29. ágúst 2020 eftir að hafa óskað eftir gardínum. Hún hafi farið í íbúðina og séð fleira sem hafi verið óásættanlegt. Sóknaraðili hafi fengið loforð frá varnaraðila um að íbúðin yrði tilbúin um miðjan ágúst og að hún gæti flutt inn í lok þess mánaðar. Sóknaraðili hafi því lokið fyrri leigusamningi sínum fyrr en honum hafi átt að ljúka í lok september. Hún hafi flutt dóttur sína úr D í G fyrir haustönn 2020 en skólinn hafi byrjað 25. ágúst.

Varnaraðili hafði lofað að hún myndi afhenda henni lykla nokkrum dögum fyrr. Hún hafði ekki heyrt í henni frá undirritun samningsins og því hafi hún sent henni tölvupóst 25. ágúst og spurt hvort allt gengi vel. Hún hafi svarað um kvöldið og sagt að það hefðu orðið tafir og sóknaraðili því beðið um að fá að skoða íbúðina áður en hún flytti inn. Hún hafi ekki fengið að sjá íbúðina fyrr en 28. ágúst. Þann dag hafi íbúðin ekki verið tilbúin þannig að unnt væri að flytja inn. Sóknaraðili hafi farið fram á að íbúðin yrði kláruð á tíma en varnaraðili neitað og ekki getað gefið upp þann tíma sem hún yrði tilbúin til notkunar. Sóknaraðili hafi boðist til að klára restina á kostnað varnaraðila en hún neitað. Þann 29. ágúst hafi hún haldið því fram að íbúðin væri tilbúin til notkunar og að ekkert fleira þyrfti að gera. Sóknaraðili hafi verið að leita að langtímaleigu og virkilega þurft á leigusala að halda sem unnt væri að treysta og því hafi hún boðið varnaraðila að segja upp leigusamningnum án bóta.

Sóknaraðili hafi tímabundið flutt í aðra íbúð þar sem leigusamningi um fyrri íbúð hennar hafi lokið og ekki hægt að flytja í íbúð varnaraðila. Varnaraðili hafi neitað öllum tilboðum sóknaraðila. Hún hafi hótað því að hún ætti að greiða sér bætur vegna fjárhagslegs tjón þar sem hún hefði aldrei flutt í íbúðina.

Sóknaraðili hafi fundið auglýsingu um íbúðina á facebook og því skilji hún ekki hvers vegna varnaraðili fari fram á kostnað vegna auglýsingar í dagblaði. Þegar sóknaraðili hafi fyrst hitt varnaraðila hafi hún sagt að íbúðin yrði tilbúin til notkunar um miðjan ágúst og að hún hafi ætlað að gera íbúðin upp með hágæðaefni. Þegar sóknaraðili hafi séð íbúðina aftur hafi eini munurinn verið sá að upp hafi verið komin nokkur ný loftljós og gólfið hafði verið lagt. Varnaraðili hafi sagt að gluggar við svalir yrðu franskir gluggar og sturtugólfið yrði jafnað og fleira. Vegna alls framangreinds geri sóknaraðili eftirfarandi kröfur:

Í fyrsta lagi hafi hún áður verið búsett í 101 Reykjavík og dóttir hennar gengið í D sem hafi verið í þriggja mínútna fjarlægð. Á tímabilinu 25.-30. ágúst 2020 hafi hún þurft að keyra dóttur sína frá Reykjavík og frá 31. ágúst frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar alla virka daga, um 80 km hvern dag, hún hafi þurft að vakna klukkutíma fyrr til þess að komast hjá umferð til 26. september 2020 þegar hún hafi fundið aðra íbúð í Hafnarfirði. Bensínkostnaður vegna þessa tímabils nemi 26.251 kr.

Hún hafi orðið fyrir kostnaði vegna gistingar frá 1.-25. september 2020 en sóknaraðili og dóttir hennar hafi þurft að búa hjá vini hennar þetta tímabil og hún séð um öll matarinnkaup þann tíma. Kostnaður vegna þessa hafi numið 81.456 kr. en vanalega greiði hún ekki meira en 30.000 kr.

Þá hafi sóknaraðili í tvígang þurft að leigja flutningabíl fyrir húsgögn sín. Það hafi kostað 42.479 kr. Sóknaraðili hafi einnig þurft að greiða kostnað vegna aðstoðar við flutninga og geymslu búslóðar hennar að fjárhæð 126.000 kr. Annar kostnaður hafi enn ekki verið reiknaður.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila eru fyrri sjónarmið ítrekuð. Þá sé sértaklega tekið fram að hvorki hafi verið lofað að fletja niður sturtubotn né setja franska glugga. Þá hafi það verið sóknaraðili sem hafi sagt leigusamningnum upp, þrátt fyrir að varnaraðili hafi staðið við sinn hluta samningsins. Kröfur sóknaraðila um að varnaraðili greiði bensín- og matarkostnað sé fráleitar.

VI. Niðurstaða            

Ákvæði 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, hefur að geyma í átta töluliðum heimildir leigjenda til að rifta leigusamningi. Í 5. mgr. sömu greinar segir að um bótarétt leigjanda á hendur leigusala vegna riftunar fari eftir almennum reglum kröfuréttar. 

Aðilar gerðu samning um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila frá 1. september 2020. Í aðdraganda afhendingar hins leigða til sóknaraðila kom upp ágreiningur um ástand eignarinnar þar sem sóknaraðili gerði ýmsar athugasemdir eftir skoðun 28. ágúst 2020, meðal annars þær að hvorki væru gardínur í stofu né háfur í eldhúsi, opnar veggdósir væru í stofu, þrifum væri ábótavant ásamt fleiru. Varnaraðili hafi upplýst að íbúðin yrði tilbúin til afhendingar 1. september 2020 en að gardínur í stofu og háfur myndu ekki fylgja, enda hafi það hvorki staðið til né séu það nauðsynlegir fylgihlutir leiguhúsnæðis á grundvelli húsaleigulaga.

Með tölvupósti sóknaraðila 29. ágúst 2020 gaf hún varnaraðila þrjá kosti til lúkningar ágreiningi þeirra. Að hún myndi skila lyklum og greiða kostnað varnaraðila vegna þinglýsingar á samningnum, að varnaraðili myndi setja upp háf og gardínur eða að sóknaraðili myndi setja upp háf og gardínur á kostnað varnaraðila. Að lokum sagði sóknaraðili að ef hún myndi ekki heyra í varnaraðila innan tiltekins tíma myndi hún skila lyklunum í pósthólfið. Varnaraðili mótmælti rétti sóknaraðila til að rifta samningi en til að takmarka tjón sitt kveðst hún hafa útbúið yfirlýsingu til sýslumanns um aflýsingu samningsins og hafist handa við að finna nýjan leigjanda að íbúðinni.

Kærunefnd telur að sóknaraðili hafi með ólögmætum hætti rift leigusamningi aðila með fyrrnefndum tölvupósti 29. ágúst 2020, enda réttlætir vöntun á gardínum og háfi ekki riftun á grundvelli 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til greina að fallast á að sóknaraðili eigi skaðabótakröfu á hendur varnaraðila.

Í 1. mgr. 62. gr. húsaleigulaga segir að nú sé leigusamningi rift af einhverri þeirri ástæðu sem talin sé í 61. gr. og skuli leigjandi þá bæta leigusala það tjón sem leiði beint af vanefndum hans. Hafi leigusamningur verið tímabundinn skuli leigjandi auk þess greiða bætur sem jafngildi leigu til loka leigutímans, en ella til þess tíma sem honum hefði verið rétt að rýma húsnæðið samkvæmt uppsögn. Í 2. mgr. sömu greinar segir að leigusali skuli þó strax gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leigja húsnæðið hið allra fyrsta gegn hæfilegu gjaldi og skuli þær leigutekjur, sem hann þannig hefur eða hefði átt að hafa, koma til frádráttar leigubótum.

Varnaraðili gerir kröfu um að sóknaraðili greiði henni bætur að fjárhæð 177.587 kr. vegna vanefnda sóknaraðila og riftunar leigusamningsins. Krafan er sundurliðuð þannig að farið er fram á bætur vegna taps á leigutekjum, kostnaðar vegna þinglýsingar og auglýsingar íbúðarinnar að nýju. Einnig vegna nýs sílinders. Með hliðsjón af ólögmætri riftun sóknaraðila telur kærunefnd að sóknaraðila beri að bæta varnaraðila beint tjón sem varð vegna vanefnda hennar á leigusamningnum.

Kærunefnd telur því að sóknaraðila beri að bæta tap á leigutekjum vegna tímabilsins 1.-20. september 2020 að fjárhæð 150.000 kr., kostnaði vegna þinglýsingar að fjárhæð 7.800 kr. og 3.528 kr. vegna auglýsingar. Aftur á móti telur kærunefnd að ekki séu skilyrði til að sóknaraðili greiði skaðabætur vegna nýs sílinders, enda hefur hún þegar skilað lyklum að íbúðinni. Sama gildi um óbeint tjón vegna póstburðargjalds.

Í 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga segir að sé kæra bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndarinnar geti nefndin gert kæranda að greiða gagnaðila málskostnað. Varnaraðili fer fram á að sóknaraðila beri að greiða málskostnað með vísan til framangreinds ákvæðis. Kærunefnd fellst ekki á með varnaraðila að kæra hafi verið tilefnislaus, enda ljóst að ágreiningur er með aðilum um uppgjör vegna riftunar sóknaraðila.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. sömu greinar eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Sóknaraðila ber að greiða varnaraðila skaðabætur að fjárhæð 161.328 kr.

Öðrum kröfum aðila er hafnað.

 

 

Reykjavík, 21. desember 2020

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum