Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 46/2021 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 46/2021

 

Ákvörðunartaka: Málun yfir handverk í stigagangi.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 26. apríl 2021, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 8. maí 2021, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 31. ágúst 2021.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls átta eignarhluta. Aðilar eru eigendur íbúða í stigaganginum. Ágreiningur er um hversu marga eigendur þurfi til að samþykkja að málað verði yfir handverk sem hefur verið á neðri hluta veggja í sameiginlegum stigagangi hússins frá byggingu þess.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að ákvörðun húsfundar um að mála yfir listaverk í stigagangi hússins sé lögmæt.

Í álitsbeiðni kemur fram að á húsfundi 24. mars 2021 hafi verið samþykkt að mála yfir neðri hluta veggja í stigagangi hússins með nýjum lit. Atkvæði hafi fallið þannig að fimm hafi kosið með því að mála yfir núverandi málningu en þrír verið á móti. Þeir sem standi gegn þessu telji núverandi málningu hafa sögulegt gildi og að um sé að ræða verulega breytingu á sameign og því þurfi aukinn meirihluta til að hægt sé að samþykkja að mála yfir.

Meirihluti eigenda telji núverandi málningu vera forljóta og vilji losna við hana. Minnihlutanum þyki hún falleg og vilji gera við hana. Ekki sé deilt um að það þurfi að mála stigaganginn þar sem hann liggi undir skemmdum.

Núverandi málun á stigahúsinu sé svokölluð skreytimálun. Aflað hafi verið álits málarameistara sem telji að það að mála yfir hana sé ekki óafturkræfur gjörningur þar sem aðferðin sé þekkt og hana sé hægt að læra. Húsið sé ekki friðað og auk þess sé þarna um að ræða málningaraðferð sem lítið mál væri að endurskapa, væri vilji til þess í húsfélaginu. Til að mynda væri hægt að taka myndir af núverandi málningu og varðveita hjá húsfélaginu.

Í greinargerð gagnaðila segir að ágreiningur snúist um að framkvæmd verði eyðilegging og óafturkræfur gjörningur á um 60 ára gömlu listaverki sem hafi fengið að vera í friði í stigaganginum frá byggingu hússins þar til fyrir um tveimur árum. Það að mála yfir og farga 60 ára gömlu listaverki stangist á við 30. gr. laga um fjöleignarhús. Gjörningurinn sé það stór og breytingin það mikil á útliti stigagangsins að 1. mgr. þeirrar lagagreinar eigi við, þ.e. samþykki allra þurfi til.

Í álitsbeiðni sé gefið í skyn og látið líta út að um smávægilega litabreytingu sé að ræða á neðri hluta veggja í stigagangi, en það sé þó mun meira en það sem standi til. Fyrirhugað sé að mála yfir fallegt vel unnið og vel gert listaverk/handverk. Það sé eining um að mála stigaganginum að öðru leyti en ekki að skemma listaverkið.

Það sé rangt að stigagangurinn liggi undir skemmdum. Stigagangurinn sé þurr og á engan hátt að skemmast. Verði listaverkið eyðilagt verði það ekki endurgert. Áhugi hafi verið fyrir því frá kennara í Tækniskólanum að fá að gera við þær tiltölulega fáu skemmdir sem séu á listaverkinu og hafi ætlun hans verið að hafa með sér nemendur skólans til að viðhalda þekkingu á handverki sem þessu. Þá hafi álit Minjastofnunar verið það að listaverkið væri mikilvægur hluti af sögu hússins og þar af leiðandi væri mjög mikilvægt að því yrði ekki raskað. Einnig hafi verið tekið fram að listaverk eins og þetta væri sjaldgæft, það væri greinilega í góðu ástandi og mikill skaði yrði það eyðilagt.

III. Forsendur

Í 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá verður ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, sé um að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Í 2. mgr. sömu greinar segir að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi breytingar á sameign, utan húss eða innan, í för með sér sem þó geti ekki talist verulegar nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægi þó alltaf samþykki einfalds meirihluta miðað við eignarhluta.

Deilt er um hversu hátt hlutfall samþykkis þurfi til að mála yfir handverk sem hefur verið í stigagangi hússins frá byggingu þess, eða í um 60 ár. Handverkið þekur neðri hluta veggja stigagangsins og var það málað á sínum tíma með aðferð sem kallast skreytimálun samkvæmt gögnum málsins. Fyrir liggur ákvörðun húsfundar þar sem eigendur fimm eignarhluta af átta samþykktu að mála yfir handverkið en þrír eigendur voru því mótfallnir og vilja fremur að það verði lagfært.

Aðilar eru ósammála um það hvort handverkið prýði stigaganginn. Gagnaðili telur svo vera á meðan álitsbeiðandi telur það fremur vera lýti. Þrátt fyrir skiptar skoðanir aðila hér um telur kærunefnd að hafa beri hliðsjón af því að um er að ræða handverk sem hefur verið í stigaganginum frá byggingu hússins og að með því að mála yfir það kemur ásýnd stigagangsins til með að breytast nokkuð. Þannig telur nefndin að um sé að ræða framkvæmd sem verði ekki felld undir smávægilega breytingu. Þó telur nefndin að ekki sé um að ræða breytingu á sameign sem teljist veruleg þannig að samþykki allra þurfi til að koma. Að þessu virtu er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun um framkvæmdina undir 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús og þarf hún því samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta. Ljóst er að miðað við fyrrnefnda atkvæðagreiðslu húsfundar um framkvæmdina liggur nægilegt samþykki ekki fyrir. Kröfu álitsbeiðanda er því hafnað.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að ekki liggi fyrir lögmæt ákvörðun til þess að mála yfir handverk í stigagangi hússins.

 

Reykjavík, 31. ágúst 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum