Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. júní 2007 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Fögnum 70 ára flugsögu

Ávarp á afmælisfagnaði Icelandair sunnudaginn 3. júní 2007

Við fögnum hér í dag 70 ára íslenskri flugsögu sem nú heitir Icelandair en hófst með stofnun Flugfélags Akureyrar hér í þessum bæ. Þar voru framsýnir og dugandi menn á ferð sem sáu að flugið gat skipt sköpum í samgöngumálum þjóðarinnar.

Þannig hefur það verið allar götur síðan. Flugið óx og dafnaði og hefur í gegnum árin átt góða daga og slæma en aðallega góða og við fögnum þeim í dag.

Stofnun Flugfélags Akureyrar lagði grunninn að því atvinnuflugi sem nú er stundað á Íslandi. Þeir framsýnu og dugandi menn sem hófu sig til flugs létu ekki bugast þótt flugskilyrðin væru ekki alltaf góð. Þeir fundu ávallt leiðir til að halda áfram rekstri og sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem þeir stofnuðu til og íslenskur almenningur var fljótur að notfæra sér. Það gat þurft að breyta rekstrarformi, stofna nýtt félag og fá hentugri vélar allt eftir því hvernig viðraði hverju sinni og þannig hefur það alltaf verið.

Við þekkjum gömlu góðu nöfnin Flugfélag Íslands, Loftleiðir, Flugleiðir og Icelandair – og ég veit ekki hvort má bæta við öðrum nöfnum eins og Air Viking, Arnarflugi, Vængjum, Íslandsflugi og Air Atlanta – en allt eru þetta þættir í flugsögunni sem við þurfum að halda til haga þótt við stöldrum í dag fyrst og fremst við Flugfélag Akureyrar og beina afkomendur þess. Um þessa 70 ára sögu getum við fræðst hér og það er þarft framtak að búa um hana hér í Flugsafninu á Akureyri sem senn verður opnað formlega með enn meiri sögu.

Og úr því við tölum um söguna er ekki úr vegi að hæla öllum þeim sem stýrt hafa Icelandair, Flugleiðum, Flugfélagi Íslands og Flugfélagi Akureyrar fyrir að halda til haga þessu sögubroti sem er svo verðmætt í atvinnusögu þjóðarinnar.

Í þessari atvinnugrein eða viðloðandi hana hafa alltaf verið einstaklingar sem hafa gætt þess að ljósmynda, kvikmynd, skrá og halda til haga á einhvern hátt merkilegum áföngum í starfi þessara fyrirtækja. Þetta efni þarf að varðveita og gera sýnilegt og þess njótum við nú að geta í hnotskurn séð þessa 70 ára sögu og kannski séð andlit eða rifjað upp nöfn sem við þekkjum eða þekkjum til.

Ég vil að lokum óskað Icelandair til hamingju með daginn, með farsæla 70 ára sögu og óska því fararheilla um alla framtíð.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum