Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. apríl 2008 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Óþrjótandi verkefni í sveitarstjórnarmálum

Ræða á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, 4.apríl 2008.

Kæru landsþingsfulltrúar.

Mér er það sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er gestur á landsþingi ykkar sem ráðherra sveitarstjórnarmála og mér er það mikill heiður.

Sveitarstjórnarmálin hafa alltaf verið mér hugleikin. Ég sat sjálfur í sveitarstjórn á Siglufirði í 12 ár og tók með margvíslegum hætti virkan þátt í félagsstarfi í mínu ágæta sveitarfélagi og hafði af því mikla ánægju. Þessi reynsla gerði það einnig að verkum að ég hef sem þingmaður tekið virkan þátt í umræðu um stöðu og viðfangsefni sveitarfélaganna.

Verkefni sveitarstjórnarmanna eru umfangsmikil og vandasöm og á þeim hvílir mikil ábyrgð. Það þarf að framfylgja reglum og fyrirmælum um lögbundna þjónustu, það þarf að mæta kröfum íbúanna um sambærilega eða betri þjónustu en er í næsta eða þarnæsta sveitarfélagi, það þarf að byggja upp þjónustustofnanir og styrkja innviði nærsamfélagsins

Verkefnin eru óþrjótandi og sveitarstjórnarmenn hafa metnað fyrir hönd sinna umbjóðenda og bera hag þeirra fyrir brjósti – þessi eldmóður hefur skinið í gegn á þeim fundum sem ég hef átt með fulltrúum einstakra sveitarstjórna síðan ég tók við sveitarstjórnarmálunum um síðustu áramót.

Vandi sveitarfélaganna er gjarnan sá að þessi verkefni kosta mikla fjármuni og þegar tekjustofnar sveitarfélaga eru takmarkaðir er oft úr vöndu að ráða. Það kallar á forgagnsröðun verkefna, vandaða áætlunargerð og ábyrga fjármálastjórn.

Ég hef hins vegar fullan skilning á því að sveitarfélögin eru misjafnlega í stakk búin til að takast á við þessi verkefni, og sum sveitarfélög hafa átt við langvarandi rekstrarvanda að glíma sem meðal annars má rekja til breytinga á byggða- og búsetumynstri fólks. Ytri og innri skilyrði sveitarfélaga eru því afar mismunandi og viðfangsefni á sviði byggðamála eru stöðugt til umræðu og kalla á nánið samstarf margra aðila.

Þess vegna fagna ég sérstaklega að Samband íslenskra sveitarfélaga hyggst gangast fyrir ráðstefnu um byggðamálin í samstarfi við samgönguráðuneytið og iðnaðarráðuneytið, sjálfur hef ég átt samtöl við iðnaðarráðherra um aukið samstarf okkar í milli á þessu sviði. Ég mun því fylgjast grannt með framvindu byggðamála og gera mitt til að leggja lóð á vogaskálarnar.

Ég legg einnig áherslu á að byggðamál eru mál alls landsins, en ekki aðeins landsbyggðarinnar. Það eru okkur öllum í hag að jafnvægi sé í búsetu og byggðaþróun í landinu og allir hafa þar hlutverki að gegna. Ég hvet því sveitarstjórnarmenn til að hafa það sérstaklega í huga í störfum sínum.

Tvenns konar viðfangsefni liggja fyrir í þessu sambandi sem ég hef til skoðunar.

Í fyrsta lagi að ákveða aðra úthlutun 250 m.kr. framlags til þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir tekjumissi vegna tímabundins samdráttar í aflamarki þorsks. Eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin að veita samtals 750 milljónum króna í þetta verkefni á árunum 2007 til 2009 sem hluta af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna hins tímabundna samdráttar í sjávarútvegi.

Í öðru lagi liggur fyrir að setja reglur varðandi úthlutun 1.400 milljón króna aukaframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en því framlagi er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna.

Vinna er nú hafin við að ákveða hvernig að þessu verður staðið í ár og á þessum tímapunkti get ég ekkert um þær reglur sagt sem úthlutun framlaganna mun byggja á. Náið samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um úthlutunarreglurnar. Ég vil þó segja það, að veigamikil rök verða að vera til staðar ef breyta á þessum reglum í grundvallaratriðum. Hins vegar verður áhersla lögð á að hraða setningu reglnanna og greiða framlögin að einhverju leyti fyrr á árinu en var í fyrra.

Þá þurfum við í sameiningu að meta framhald slíkra aukaframlaga til sveitarfélaga vegna erfiðra ytri aðstæðna.

Sveitarstjórnarmál og samgöngumál

Sveitarstjórnarmál, samgöngumál og fjarskiptamál eru náskyldir málaflokkar. Því tel ég að það hafi verið góð ákvörðun að sameina þessa málaflokka undir einu og sama ráðuneyti. Greiðar og hagkvæmar samgöngur eru forsenda fyrir jákvæðri þróun byggðar í landinu, það þekkjum við öll. Samgöngubætur hafa styrkt innviði byggðarlaga, stuðlað að uppbyggingu vaxtar og ýtt undir atvinnusköpun.

Við þekkjum öll jákvæð áhrif Hvalfjarðargangna á atvinnu- og búsetuþróun á Vesturlandi, þar hefur átt sér stað hljóðlát bylting hin síðari ár. Héðinsfjarðargöng voru forsenda fyrir sameiningu sveitarfélaga á utanverðum Tröllaskaga og skapa auk þess fjölmörg tækifæri fyrir aukið samstarf sveitarfélaga á svæðinu, uppbyggingu ferðaþjónustu og svo framvegis. Göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar voru sömuleiðis ein lykilforsenda fyrir sameiningu sveitarfélaganna þar og hafa átt sinn þátt í að mynda eitt atvinnusvæði.

Núgildandi vegaáætlun er metnaðarfull, þar er gert ráð fyrir margvíslegum samgöngubótum sem munu hafa mikla þýðingu fyrir byggðirnar um allt land. Í því sambandi má sérstaklega nefna vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Mér er einnig sérstaklega ljúft að nefna í þessu sambandi hinn nýja viðauka við vegaáætlunina, sem ríkisstjórnin samþykkti fyrir páska að minni tillögu, en hann felur í sér ákvörðun um að hefja framkvæmdir við tvöföldun suðurlandsvegar og göng í gegnum Vaðlaheiði strax á þessu ári. Ég er ekki í nokkrum vafa um samfélagslegan ávinning af þessum framkvæmdum.

Fjölmörg verkefni eru einnig aðkallandi á höfuðborgarsvæðinu og það er skiljanlegt að ákveðinnar óþreyju gæti hjá sveitarstjórnarmönnum hvað það varðar. Ég fullvissa menn þó um að það er vilji minn og þessar ríkisstjórnar að vinna að farsælum og góðum framtíðarlausnum fyrir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hitti á dögunum hinn ágæta bæjarstjóra í Kópavogi og átti með honum góðan fund um þessi mál, þó ég hafi reyndar ekki fengið allt það bakkelsi sem mér hafði verið lofað í frægri Morgunblaðsgrein. Ég hef hins vegar ákveðið, eins og ykkur er kunnugt, að koma á fót sérstökum samstarfsvettvangi milli ráðuneytisins, vegagerðarinnar og sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu um framtíð og verkefni í samgöngumálum á þessu svæði í náinni framtíð. Þegar liggja fyrir fjárveitingar í mikilvæg verkefni og önnur eru enn til skoðunar. Ákvarðanir um legu Sundabrautar munu liggja fyrir með haustinu og áætlun um framkvæmdir þar í kjölfarið.

Þá eru flugsamgöngur afar mikilvægar og enginn neitar því að Reykjavíkurflugvöllur skiptir sköpum hvað varðar tengingu annarra landshluta við höfuðborgina. Það er því brýnt að eyða allri óvissu um framtíð flugvallarins þannig að þessi mikilvæga samgönguleið til og frá borginni geti bæði viðhaldist og þróast til lengri tíma.

Góðar samgöngur á sjó gegna einnig þýðingarmiklu hlutverki í að tengja byggðir og það er sérstakt ánægjuefni að nú hafa Grímseyingar loksins fengið góðan ferjukost. Ég hef einnig lagt áherslu á að vinna náið með Vestmannaeyingum í því að tryggja öruggar, greiðar og reglulegar siglingar milli lands og eyja, og áform um höfn á Bakkafjöru munu bæði tryggja þessi markmið sem og skapa ný tækifæri til samstarfs og samvinnu sveitarfélaga á Suðurlandi.

Í nútíma samfélagi skipta fjarskipti gríðarlegu máli og þar eru margir hlutir að gerast en öll uppbygging fjarskipta á vegum Samgönguráðuneytis fer fram á grundvelli fjarskiptaáætlunar og er fjármögnuð í gegnum fjarskiptasjóð.

Áætlunin gerði ráð fyrir að uppbyggingu á farsímaþjónustu verði lokið á árinu 2009 en samkomulag hefur náðst við aðilann sem fékk verkefnið um að þeirri uppbyggingu verði hraðað. Gert er ráð fyrir að verkefninu verði að mestu lokið á þessu ári. En uppbyggingu á fyrsta hluta er nær til hringvegarins og 5 fjallvega, er nánast lokið en síðari hluti tekur til stofnvega aðallega á Vestfjörðum og NA-landi og tveggja þjóðgarða

Útboð á umfangsmesta verkefninu á sviði fjarskipta sem eru háhraðatengingar til allra landsmanna var kynnt í lok febrúar. Verkefnið nær til tenginga á um 1300 stöðum á landsbyggðinni. Svæði sem mótvægisaðgerðir vegna skerðingar þorskkvóta ná til þ.e. Vestfirðir og á N-Austurlandi verður lokið fyrr eða á innan við ári frá undirritun samnings.

Í undirbúningi er í samvinnu samgöngu- og utanríkisráðuneytis að koma ljósleiðaraþráðum NATO í borgaraleg not. Þessi þræðir liggja með ljósleiðara Símans kringum landið og til Vestfjarða. Stefnt er að útboði á afnotum þeirra á vormánuðum og er markmiðið er stuðla að aukinni samkeppni í gagnaflutningum á innanlandsmarkaði og um leið að auka aðgengi almennings og fyrirtækja að háhraðatengingum, einkum út á landi.

Sameining þessara málaflokka, þ.e. sveitarfélaga, samgöngumála og fjarskipta undir einni yfirstjórn gefur sannarlega tækifæri til ákveðinnar samþættingar og heildarsýnar sem ég hyggst sannarlega nýta mér. Sérstök vinna er nú í gangi í ráðuneytinu sem miðar að því að nýta samþættingartækifærin, og skoða þannig hvernig við stöndum sem best að því að búta til nýtt og heildstætt ráðuneyti sveitarstjórnar- samgöngu- og  fjarskiptamála .

Samskipti ríkis og sveitarfélaga

Það var eitt mitt fyrsta verkefni á þessu ári eftir að ég tók við málefnum sveitarfélaganna að eiga fund með formanni, varaformanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á þeim fundi kynntu þessir fulltrúar ykkar fyrir mér ýmis fjárhagsleg samskiptamál sem brýnt er að ræða og afráða um.

Ég legg gríðarlega áherslu á að eiga gott og náið samstarf við sveitarstjórnarmenn um öll þessi málefni. Góð samskipti ríkis og sveitarfélaga eru mikilvæg forsenda þess að árangur náist á mörgum sviðum, það þekki ég vel sem gamall sveitarstjórnarmaður. Virða þarf sjálfsforræði sveitarfélaganna og það mikilvæga hlutverk sem þau gegna í að veita íbúum þessa lands velferðarþjónustu, ráðstöfun tekjustofna þeirra í því skyni og viðleitni þeirra almennt til að tryggja hag sinna íbúa.

Á hinn bóginn verða sveitarfélögin að skilja, að eftir því sem umfang þeirra og ábyrgð eykst vex þörfin fyrir aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að búskap hins opinbera í heild sinni og hagstjórn í landinu.

Búskapur sveitarfélaganna hefur stöðugt aukist hin síðari ár og umfang þeirra í útgjöldum hins opinbera er nú tæpur þriðjungur. Þetta hlutfall mun aukast enn næstu árin þegar sveitarfélögin taka við málefnum fatlaðra og öldrunarþjónustu af ríkinu, sem ég vona að verði sem fyrst því reynslan hefur sýnt að sveitarfélög, sem hafa tekið þessa málaflokka yfir, hafa náð að samþætta þá þeim velferðarverkefnum sem fyrir eru.

Í þessu ljósi er því mikilvægt að samskipti ríkis og sveitarfélaga séu góð og gagnkvæmt traust ríki milli aðila, og að menn virði mismunandi hlutverk aðila. Það er ennfremur sérstök ábyrgð okkar, sem höfum verið valin til að gæta hagsmuna almennings, að stilla saman strengi okkar á þeim óstöðugleikatímum sem nú ríkja í efnahagsmálum okkar Íslendinga og umheimsins. Það er ekki gott að skulda mikið á tímum sem þessum, hvorki fyrir heimilin, sveitarfélögin eða hið opinbera í heild sinni. Ráðdeild og yfirvegun eru því lykilatriði í allri áætlanagerð, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Því höfum við fjármálaráðherra bundið miklar vonir við að okkur takist að ná saman um meginsjónarmið varðandi fjármálareglur fyrir sveitarfélög, eins og viljayfirlýsingin frá síðasta ári kvað á um. Að þessu hefur verið unnið í svokallaðri samráðsnefnd um efnahagsmál, sem starfar á grundvelli samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga.

Á nýliðnum samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga var lögð fram greinargerð samráðsnefndarinnar þar sem dregnar eru upp fyrstu línur að slíkum reglum og hvernig megi beita þeim. Góðar umræður fóru fram um þetta viðfangsefni, og samþykkt tillaga þess efnis að fela sérstakri nefnd undir forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga að halda þessu verki áfram og á hún að skila af sér fyrir lok júlí n.k.

Ég er sannfærður um að fjármálareglur muni vera til góðs fyrir sveitarfélögin og ég tel að við eigum að vinna áfram að því að ná samstöðu um slíkar reglur, sem sveitarfélögin geta síðan nýtt sér við áætlanagerð og spilað þannig betur með við stjórn efnahagsmála í landinu.

Viljayfirlýsingin gerir einnig ráð fyrir því að ríkið sé tilbúið að skoða þátttöku sína í lækkun skulda þeirra sveitarfélaga sem tækju upp slíkar reglur. Ég hef heyrt efasemdaraddir um að þetta sér gerlegt og ástæðulaust sé að verðlauna þá sem safnað hafa skuldum sérstaklega. Ég átta mig á því að þetta er ekki einfalt viðfangsefni, ástæður fyrir skuldasöfnun sveitarfélaga geta verið mismunandi og hvernig slíkur stuðningur er útfærður skiptir því vissulega máli. Ég er hins vegar sannfærður um að í þessu felast ákveðin tækifæri fyrir sveitarfélögin og það er fullur einhugur af hálfu ríkistjórnarinnar að standa við þetta ákvæði viljayfirlýsingarinnar.

Ríki og sveitarfélög eiga að leggja sig fram um að eiga gott samstarf. Ég veit að aðilar eru ekki alltaf sammála um hvernig leysa eigi hin margvíslegu samskiptamál og sveitarfélögin innbyrðis geta í sjálfu sér einnig haft mismunandi hagsmuna að gæta í því sambandi. Þegar kemur hins vegar að formlegum samskiptum ríkis og sveitarfélag er mikilvægt að til staðar séu samskiptareglur og skilvirk ferli fyrir viðræður.

Á samráðsfundinum var undirritaður nýr samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga – honum fylgir viðauki sem er nýmæli og ég er ákaflega stoltur af en þar er kveðið á um skipan sérstakrar nefndar sem er sérstaklega ætlað að ræða með hvaða hætti megi bæta verkferla og samskipti ríkis og sveitarfélaga. Til nefndarinnar verður hægt að vísa stefnumálum ríkisstjórnarinnar sem  hafa í för með sér nýja löggjöf eða reglur sem  snerta sveitarfélög, verkefni þeirra og tekjustofna, óskir sveitarfélaga um breytingar á lögum og reglum og álitamálum um kostnaðarskiptingu sem og kostnaðaráhrif nýrra laga og reglugerða.

Nefndinni er ætlað að greina stöðu mála í álita og ágreiningsmálum, koma með tillögur til lausnar til ríkistjórnarinnar, ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skipað verður í þessa mikilvægu nefnd við fyrstu hentugleika.

Góðir sveitarstjórnarmenn

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga skuli endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.  Að þessu markmiði hyggst ég vinna ötullega í samstarfi við félaga mína í ríkisstjórn og ykkur kæru sveitarstjórnarmenn.

Verkefnisstjórn er nú starfandi undir forystu félags- og tryggingamálaráðherra sem hefur það markmið að færa málefni fatlaðra og öldrunarþjónustu til sveitarfélaga og hef ég beðið fulltrúa minn þar að leggja sitt á vogaskálarnar til að það geti gerst sem fyrst og í sátt við sveitarfélögin. Við þurfum ennfremur að skoða fleiri viðfangsefni hins opinbera og meta hvernig ríki og sveitarfélög geta hagað verkaskiptingu sinni þannig, að til hagsbóta sé fyrir almenning og samfélagið í heild sinni. Við þurfum einnig að vera opin fyrir því að skapa svigrúm fyrir fjölbreytni í rekstri velferðarverkefna eftir því sem við á.

Þá vil ég minna á að Ísland er aðili að Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem setur okkur þær skyldur á herðar að standa vörð um stöðu sveitarstjórnarstigsins. 

Einn liður í því að efla sveitarstjórnarstigið er að stækka sveitarfélögin, skapa þeim þannig  stjórnsýslulegar og fjárhagslegar forsendur til að takast á við ný og flókin verkefni. Ég er mikill áhugamaður um þetta viðfangsefni og þó vissulega hafi náðst góður árangur í að stækka sveitarfélögin á umliðnum árum má færa rök fyrir því að sveitarfélögin á Íslandi séu enn of mörg og mörg þeirra alltof fámenn miðað við þær skyldur sem á þeim hvíla. Ef við ætlum að efla sveitarstjórnarstigið og ef við meinum eitthvað með því, þá þurfum við að horfast í augu við þessa fullyrðingu og ræða þetta samhengi til fulls.

Ég hef sett af stað sérstaka skoðun á framkvæmd og áhrifum af átaksverkefni stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga um sameiningu sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins sem stóð frá árinu 2004 og fram til sveitarstjórnarkosninga 2006. Markmiðið er að meta árangur af áðurnefndu átaksverkefni, en einnig að leggja fram hugmyndir/tillögur að því hvernig best sé að standa að frekari eflingu sveitarstjórnarstigsins í komandi framtíð.

Ég vil hér með opna á þessa umræðu með ykkur, kæru sveitarstjórnarmenn. Ég tel að við verðum m.a. að spyrja okkur þeirrar spurningar, hvort ekki sé tímabært að hækka lágmarksíbúafjölda sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum er 50. Öllum má ljóst vera að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta ákvæði var lögfest fyrir 22 árum síðan, starfsemi, skyldur og umfang sveitarfélaganna er með öðrum hætti nú en þá. Eins og ykkur er eflaust mörgum kunnugt um hef ég verið meðflutningsmaður að tillögum á Alþingi að hækka bæri lágmarksíbúafjölda í eittþúsund. Ég er enn þeirrar skoðunar að það beri að gera, og því kalla ég eftir umræðu á þessu landsþingi um þetta mál.

Ég kom inn á þetta atriði í viðtali í Sveitarstjórnarmálum fyrir skömmu og viðbrögðin voru mjög jákvæð, ég fékk mörg samtöl um þetta mál og hvatningu. Þannig að þessi sjónarmið eiga greinilega góðan hljómgrunn víða.

Ég vil að endingu segja um þetta, að ég hyggst beita mér fyrir því að áfram verði til svigrúm í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að greiða með myndarlegum hætti fyrir sameiningu sveitarfélaga sem kann að eiga sér stað á næstu árum. Það er ljóst að þeir fjármunir sem hafa runnið til sameinaðra sveitarfélaga á síðustu árum hafa haft mikla þýðingu fyrir þá endurskipulagningu sem hefur þurft að eiga sér stað í kjölfar sameiningar – því tel ég mikilvægt að slík aðstoð verði áfram til staðar.

Herra fundarstjóri

Á borði ríkisstjórnarinnar liggur fyrir erindi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um að skipuð verði nefnd til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Þetta mál var til umræðu á samráðsfundi okkar fóru fulltrúar ykkar yfir þau sjónarmið sem þar liggja að baki. Ég lýsti þar yfir vilja mínum til að hefja slíka vinnu, en tel engu að síður brýnt að undirbúa hana vel, skilgreina þau markmið sem við viljum ná.

Mikilvægt er að sveitarfélögunum séu á hverjum tíma tryggðir tekjustofnar til að mæta lögbundnum verkefnum, og að sveitarfélög njóti svigrúms til að ráðstafa þeim í samræmi við þarfir og skyldur. Það liggur hins vegar í hlutarins eðli, að takmörk eru á því að hve miklu leyti er hægt að koma til móts við kröfur sveitarfélaganna.

Almenn sjónarmið um samræmda stjórn efnahagsmála, viðfangsefni opinberrar fjármálastjórnunar og þjóðarbúskapurinn í heild sinni hafa áhrif á niðurstöðuna hverju sinni. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að skoða með opnum huga hvernig rétt sé að tekjustofnar sveitarfélaga þróist með hliðsjón af breytingum í rekstrarumhverfi sveitarfélaganna og tel að sérstök endurskoðunarnefnd sé réttur vettvangur fyrir slíka umræðu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki við að jafna útgjalda og tekjumun á milli sveitarfélaga. Eins hefur sjóðnum verið falið margvísleg sérstök verkefni í gegnum tíðina, en áætluð heildarvelta sjóðsins í ár eru rúmir 18 milljarðar.

Reglur sjóðsins eru ekki yfir gagnrýni hafnar og ég er tilbúinn til að skoða með opnum huga, með hvaða hætti er hægt að þróa reglur hans þannig að hann þjóni best því hlutverki sem honum er ætlað að gegna. Ég kalla eftir uppbyggilegri og málefnalegri umræðu um þennan mikilvæga jöfnunar- og byggðasjóð.

Fyrir liggja tvær nýjar skýrslur um starfsemi sjóðsins.

Í fyrsta lagi er um að ræða skýrslu og tillögur nefndar skipuð fulltrúum sambandsins, þingflokka og félagsmálaráðuneytis. Þar eru settar fram ýmsar áhugaverðar tillögur um breytingar á reglum sjóðsins og hef ég sent skýrsluna til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til skoðunar og vænti viðbragða á næstunni. Í sjálfu sér er ekki verið að leggja til neina uppstokkun á starfsemi sjóðsins, heldur lagðar til margvíslegar breytingar á einstökum reglum hans til að um markvissari jöfnun verði að ræða.

Ég mun gefa mér tíma til að skoða þessar tillögur og meta í samhengi við annað, þó hef ég ákveðið með hliðsjón af ábendingum nefndarinnar að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Mun ég á næstunni senda stjórn Sambandsins bréf þar að lútandi. Jafnframt hyggst ég óska eftir samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og fleiri aðila um að greina starfsemi þeirra og meta hvort hægt sé með einhverjum hætti að styrkja forsendur fyrir þessu svæðisbundna samstarfi sveitarfélaga. Meginspurningin er hvort hægt sé og æskilegt að tengja þessa starfsemi með markvissari hætti öðru svæðasamstarfi í landinu.

Í öðru lagi liggur fyrir úttektarskýrsla Ríkisendurskoðunar varðandi framlög sjóðsins til reksturs grunnskóla. Margar gagnlegar ábendingar koma þar fram sem vert er að skoða nánar, m.a. varðandi tengslin á milli framlaga sjóðsins við aðra tekjustofna og raunútgjöld sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla. Almennt má þó segja, að Ríkisendurskoðun staðfestir að sjóðurinn rækir sitt hlutverk vel miðað við gildandi lagaákvæði. Ég hef falið nokkrum sérfræðingum að meta þessar ábendingar skýrslunnar og mun bíða með frekari ákvarðanir um breytingar á reglum sjóðsins þar til þeirri vinnu er lokið.

Kæru landsþingsfulltrúar.

Það eru mörg verkefni fyrirliggjandi í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, bæði á sviði sveitarstjórnarmála og eins á sviði hefðbundinna samgöngu- og fjarskiptamála.

Ég mun í næstu viku leggja  fram á Alþingi frumvarp sem gerir ráð fyrir því að Bjargráðasjóður verði lagður niður. Sjóðurinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í gegnum tíðina og komið sveitum lands til hjálpar þegar hart var í ári. Nú eru hins vegar breyttir tímar og ekki þörf á að halda úti sérstökum tryggingasjóði sem þessum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að hreinum eignum sjóðsins verði skipt á milli eigenda hans, þ.e. ríkissjóðs, Bændasamtaka Íslands og sveitarfélaganna, sem samkvæmt nýjasta ársreikningi eru um 660 milljónir króna.

Að lokum vil ég nefna þau áform mín um að hefja fljótlega vinnu við heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga. Núgildandi lög eru frá árinu 1998 og því eru í sumar liðin 10 ár frá gildistöku þeirra. Þeim hefur hins vegar verið breytt nokkrum sinnum á tímabilinu og tel ég nú vera lag að skoða lögin í heild sinni og meta hverju þarf að breyta með hliðsjón af þeirri þróun sem átt hefur sér stað málefnum sveitarfélaganna almennt. Í því sambandi kemur einnig til greina að skoða þróun mála í nágrannalöndunum og með hliðsjón af umræðu sem fram fer á vettvangi þess alþjóðasamstarfs sem við erum þátttakendur í, svo sem á vettvangi Evrópuráðsins.

Ég legg áherslu á að til slíkrar vinnu komi breiður hópur aðila, sem bæði hafa reynslu og þekkingu á starfsemi sveitarfélaganna og eins utanaðkomandi aðila, sem gætu lagt sitt af mörkum við að varpa nýju ljósi á þessi mikilvægu lög, sem eru grundvöllur fyrir lýðræðislega og samfélagslega þátttöku í hverju sveitarfélagi um sig.

Kæru landsþingsfulltrúar.

Mér er það mikill heiður að hafa verið falið það mikilvæga hlutverk að gegna embætti ráðherra sveitarstjórnarmála. Ég, ásamt mínu góða samstarfsfólki í ráðuneytinu, hlakka til að vinna með ykkur hér eftir sem hingað til.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum