Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. nóvember 2008 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga

Ávarp ráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, fimmtudaginn 13. nóvember 2008.

Efnahagsástandið

Góðir ráðstefnugestir.

Eins og þið vitið er ég frá Siglufirði. Og eins og þið vitið líka þá er ég ákaflega stoltur af því að vera Siglfirðingur. Jafn undarlegt og það kann að hljóma er ég eiginlega aldrei jafn stoltur af því að vera Siglfirðingur eins og þegar ég er ekki á Siglufirði.
Einmitt þannig hafa Íslendingar á erlendri grundu verið. Við erum stolt þjóð. En getur verið að sá dagur sé runninn upp að Íslendingar skammist sín fyrir þjóðerni sitt í útlöndum?
Ég vona ekki.

Heima hjá mér rakst ég í gærkvöldi á bláu bókina með skólaljóðunum sem ég held að mörg okkar kannist við úr æsku, ýmist okkar eigin eða barnanna okkar. Þarna eru öll ættjarðarljóðin eftir stóru skáldin; Davíð Stefánsson, Jóhannes úr Kötlum og Jónas Hallgrímsson. Ég fór að lesa. Þið munið að skáldin okkar gegndu geysimiklu hlutverki í að byggja upp nýja þjóðarvitund kotungsþjóðarinnar sem braust til bjargræðis á hnefanum. Jónas vakti forfeður okkar af móki deyfðar og framtaksleysis:

Ísland, farsælda frón og hagsælda hrímhvíta móðir,
hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin best?

Þessi orð brýna okkur Íslendinga enn í dag, einni og hálfri öld eftir að þau voru ort. Við þurfum að muna þessa hvatningu þó að nú sé hún Snorrabúð stekkur. Við endurreistum Alþingi, við urðum sjálfstæð þjóð, færðum út landhelgina og tökumst á við náttúruna vetur eftir vetur. Ár eftir ár, öld eftir öld. Og stöndum enn.

Ég brýni ykkur sveitarstjórnarmenn til góðra verka. Foreldrar okkar og forfeður okkar, höfuðskáldin og sjálfstæðishetjurnar börðust ekki fyrir komandi kynslóðir, fyrir okkur, til þess að við myndum bregðast á ögurstundu. Við vorum ekki alin upp til að láta hendur falla í skaut nú þegar fyrst á reynir, í alvöru. Þá fyrst yrðum við að skammast okkar.

Sveitarfélögin standa á tímamótum. Lokið er miklu hagvaxtar- og uppgangstímabili í sögu landsins og framundan er dýfa sem mun reyna á allt okkar samfélag.

Búskapur sveitarfélaganna hefur vaxið hratt og mikil uppbygging hefur átt sér stað í mörgum sveitarfélögum undanfarin ár, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu og nálægum vaxtarsvæðum.

Mikil bjartsýni hefur ráðið ríkjum, eftirspurn á öllum sviðum hefur verið einkennandi og sveitarfélögin hafa hamast við að mæta þeim þörfum sem hinn mikli vöxtur hefur leitt af sér. Sveitarfélög hafa keppst við að brjóta niður land til lóðaúthlutunar og uppbyggingar nýrra hverfa með tilheyrandi fjárfestingum í innviðum.

Við sjáum þetta á aukningu í tekjum sveitarfélaganna. Í gögnum þeim, sem kynnt hafa verið hér á ráðstefnunini, kemur fram að tekjur sveitarfélaganna jukust á verðlagi ársins 2007 um 39% frá árinu 2004 þar til í fyrra. Þar af jukust útsvarstekjurnar um tæp 27% og Jöfnunarsjóður um nærri 60%.

Því hafa þau sveitarfélög, sem reiða sig hlutfallslega meira á framlög sjóðsins, einnig notið góðs af tekjuaukningunni.

Afkoma sveitarsjóðanna var því með besta móti síðasta ár um allt land. Fá sveitarfélög voru rekin með halla og rekstrarniðurstaða þeirra var jákvæð sem nemur 32.7 milljörðum og þá eru óreglulegar tekjur ótaldar.

Þessi góða útkoma hefur vonandi skapað svigrúm til endurskipulagningar í rekstri sumra sveitarfélaga og þar af leiðandi betri stöðu til að mæta þeim miklu erfiðleikum sem nú steðja að í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég veit hins vegar að víða er staðan ekki nægilega góð, því miður.

Ég neita því ekki að ég hefði gjarnan viljað sjá að sveitarfélög væru farin að vinna eftir sameiginlegum fjármálareglum til þess að geta betur gengið í takt við það efnahagsumhverfi sem ríkir hverju sinni.

Ég er ekki að segja að slíkar reglur hefðu haft afgerandi þýðingu fyrir þann mikla og óvænta samdrátt sem við nú stöndum frammi fyrir, en engu að síður tel ég ljóst að slíkar reglur, ef við hefðum verið farin að beita þeim markvisst, hefðu klárlega komið að gagni.

Því vil ég ekki gefa upp alla von um að okkur takist, ríki og sveitarfélögum, að ná samstöðu um að beita slíkum reglum í framtíðinni.

Mín framtíðarsýn hvað þetta varðar og efnahagslegt samráð ríkis og sveitarfélaga er sú, að árlega geri aðilar með sér rammasamning, sem nær til fleiri ára og lýtur að hagstjórn, fjármálareglum og fjármálastjórn. Við slíkan samning væri hægt að tengja ýmsar aðrar og tímabundnar aðgerðir á sviði fjármála og reksturs hins opbera, sem ríki og sveitarfélög koma sér saman um hverju sinni.

Ágætu ráðstefnugestir
Það er risavaxið verkefni sem við stöndum frammi fyrir í dag og í raun vitum við ekki ennþá hversu afdrifaríkt hrun bankakerfisins mun í reynd verða þegar öll kurl verða komin til grafar. Meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar síðustu vikur hefur verið að endurreisa og endurskipuleggja fjármálastarfsemi landsins og koma henni í eðlilegt horf. Það hefur tekið sinn tíma en ég vænti þess að um leið og fyrir liggur samþykki stjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um lán til Íslands muni sá hluti endurreisnarstarfsins að baki.
Það mun þýða að gjaldeyrisviðskipti eru þá komin í eðlilegra horf og fleiri ríki munu vera tilbúin að veita Íslandi fyrirgreiðslu.

Það mun taka nokkurn tíma að ná þeim stöðugleika sem við þurfum á að halda og þetta ástand bitnar á öllum hér á landi, almenningi, fyrirtækjunum og stjórnvöldum, hvort sem það er ríki eða sveitarfélögin.

Ég hef átt mjög gott samstarf við forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga á síðustu vikum. Við höfum, í samræmi við yfirlýsingu sem við undirrituðum í byrjun október, átt nær vikulega fundi. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera með ykkur á samráðsfundinum á Grandhótel fyrir skemmstu og í þar síðustu viku kom ég inn á stjórnarfund Sambandsins þar sem fram fóru mjög hreinskiptar og góðar umræður.

Á þessum reglulegu fundum með forystumönnum ykkar hefur verið farið yfir það sem efst er á baugi hverju sinni og ég hef eftir atvikum reynt að upplýsa um það sem ríkisstjórnin er að fást við hverju sinni. Ég skil vel óþreyju ykkar og annarra við því að skort hefur upplýsingar og að ekki hefur verið hægt að greina frá öllu því sem unnið er að vegna eðli þeirra mála.

Sumar upplýsingar hafa heldur ekki alltaf legið fyrir, ekki einu sinni hjá ríkisstjórninni, en það mun ekki standa á að upplýsa sveitarstjórnarmenn um hvaðeina sem viðkemur efnahagsmálum.
Enn er mikil óvissa um fjárhagslegar forsendur fyrir næsta ár. Við bíðum öll eftir því að endurgert fjárlagafrumvarp líti dagsins ljós, en það mun hafa áhrif á alla áætlanagerð bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Það á einnig við um forsendur fyrir framlögum Jöfnunarsjóðs á næsta ári.

Mikilvægast af öllu er að ríki og sveitarfélög standi saman um að varðveita grunnþjónustuna út um allt land og þar með velferð borgaranna. Því fagna ég sérstaklega því frumkvæði sem mörg sveitarfélög hafa tekið um að breyta sínum áætlunum á þann veg, að láta þessa velferðarþætti ganga fyrir en fresta verkefnum sem hafa minni þýðingu á tímum sem þessum.

Ég hyggst beita mér fyrir því, að þegar fjárlagafrumvarpið er komið fram, að kalla saman til samráðs fulltrúa úr ráðuneytum heilbrigðis, félags- og trygginga- og menntamála, og helstu forystumenn Sambandsins til samráðs um það, hvernig best sé að verja grunn- og velferðarþjónustuna í landinu. Ég tel mikilvægt að fulltrúar ríkisvaldsins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar eigi um það náið samráð - og ég mun boða til fleiri slíkra funda eftir því sem mér finnst þurfa þykja.

Ýmsar aðgerðir

Bráðavandi sveitarfélaga um þessar mundir hefur verið takmarkaður aðgangur að lánsfé. Ég fagna því frumkvæði sem Sambandið og Lánasjóður sveitarfélaga hafa sýnt hvað það varðar að byggja upp Lánasjóðinn enn frekar sem bakhjarl sveitarfélaganna í bráð og lengd. Ég mun áfram leggja því verkefni lið eftir því sem þörf verður á.

Ég hef nú gefið út reglugerð sem breytir tímabundið reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Breytingin felur það í sér að eftirlitsnefndin á ekki sjálfkrafa að hefja eftirlitsaðgerðir þó henni berist fjárhagsáætlanir frá sveitarfélögum sem sýna halla á rekstri ársins 2009. Nefndinni ber að skoða slíkar áætlanir heildstætt og í ljósi þess tímabundna efnhagsástands sem nú varir. Engu að síður ber sveitarfélögum að gera grein fyrir hallarekstrinum til eftirlitsnefndar.

Þá hafa verið smíðuð frumvörp í ráðuneytinu sem fela í sér breytingar á annars vegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga og hins vegar lögum um gatnagerðargjald.
Ég ætla ekki á þessari stundu að greina nánar frá efni þessara tillagna, en vil þó segja að þeim er ætlað að koma til móts við óskir sveitarstjórnarmanna um annars vegar lengd lögveðs vegna fasteignaskatts og hins vegar endurgreiðslu gatnagerðargjalda. Ég vænti þess geta lagt frumvarpið fram um leið og þing kemur saman eftir kjördæmavikuna, sem er í næstu viku.

Þó vil ég geta þess að ekki er hægt að breyta þessum lögum þannig að þau taki á þeim skaða sem þegar er skeður. Ef til vill hafa sum sveitarfélög farið of geyst í uppbyggingu nýrra hverfa og standa af af leiðandi frammi fyrir miklum vanda vegna þess mikla fjölda lóða sem nú hefur verið skilað. Ég er til í skoða þetta lagaumhverfi heildstætt í samstarfi við ykkur, sveitarstjórnarmenn góðir, t.d. með það að augnamiði að þetta regluumhverfi verði heildstæðara og gegnsærra.

Gott verk hefur verið unnið í samstarfi samgönguráðuneytisins og Sambandsins um að afla upplýsinga frá öllum sveitarfélögum landsins um fjárhagslega stöðu sveitarsjóðanna og A-hluta stofnana um þessar mundir. Markmiðið er að reyna að fá heildarmynd af fjárhagslegri stöðu allra sveitarfélaga í landinu svo hægt sé að segja betur til hvar skóinn kreppir og hvernig.
Slíkum upplýsingum munum við óska reglulega eftir héðan í frá og bið ég ykkur um að sjá til þess að engar tafir verði á því, þegar beiðni um slíkt berst á ykkar borð.

Nú þegar mikill meirihluti sveitarfélaga er búinn að skila upplýsingum um rekstur fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2008 kemur í ljós við framreikning að restrarniðurstaða gæti orðið neikvæð um 4.3 milljarða eins og fram kom í máli Karls Björnssonar í morgun. Það er mikill viðsnúningur frá síðasta ári og er mikið áhyggjuefni.

Efling sveitarstjórnarstigsins

Kæru sveitarstjórnarmenn og aðrir gestir.

Eins og ég sagði hér í upphafi þá standa sveitarfélögin á tímamótum. Það er ekki aðeins í þeim skilningi að við séum við lok mikils góðæriskafla og framundan sé kröpp dýfa sem kallar á aðhald og niðurskurð í rekstri og fjármálum heldur kallar það líka á mikla endurforgangsröðun verkefna.

Öllum steinum þarf að velta við þegar kemur að því að ákveða hvernig áætlanir næstu ára eiga að líta út.

Ég tel að sveitarstjórnarstigið standi einnig á tímamótum í þeim skilningi, að við eigum okkur sameiginlega framtíðarsýn um að efla sveitarstjórnarstigið. Við megum ekki örvænta og gleyma því að við munum vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem framundan eru á vonandi sem skemmstum tíma.

Við ætlum því ekki að leggja árar í bát og henda öllu frá okkur sem við höfum verið að vinna að. Við ætlum okkur að efla sveitarstjórnarstigið og gera það betur í stakk búið til þess að þjóna íbúum sínum og vinna landi og þjóð gagn.

Ríkisstjórnin mun áfram vinna að því að færa málefni fatlaðra og aldraðra yfir til sveitarfélaganna árið 2011 og 2012 eins og áætlanir hafa gert ráð fyrir. Þessari þjónustu er betur komið fyrir í höndum sveitarfélaganna, það hafa dæmin sannað og því skulum við ótrauð halda þessari vinnu áfram.

Það verður sett af stað vinna við að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga til þess að tryggt verði að tekjustofnar verði í samræmi við fjárþörf vegna nýrra verkefna. Dregist hefur að óska tilnefninga í nefndina vegna þess mikla álags sem verið hefur á stjórnarráðinu, en það verður gert við fyrsta tækifæri. Ég hyggst bjóða öllum þingflokkum að eiga þarna fulltrúa, auk þeirra sem Samband íslenskra sveitarfélaga mun skipa.

Við munum ráðast í heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með það að markmiði að nýjar og vonandi einfaldari úthlutunarreglur taki gildi um leið og ný verkefni færast til sveitarfélaganna árið 2011.

Og að endingu um þetta, þá mun ég senn leggja fram frumvarp um hækkun lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga úr 50 í 1000 samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Frumvarpið mun gera ráð fyrir því að frá árinu 2014 verði ekkert sveitarfélag með færri íbúa en sem því nemur, nema sérstakar aðstæður landfræðilegar eða félagslegar mæli með öðru.

Við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar á þessum tímamótum hvort við höfum í raun og veru efni á óbreyttu ástandi. Hvort hægt sé lengur að réttlæta t.d. tvo tónlistarskóla með aðins 12 kílómetra millibili. Ég hef þegar svarað þessari spurningu fyrir sjálfan mig. Okkur ber skylda til að reka sveitarfélögin með sem hagkvæmustum hætti svo unnt sé að bjóða uppá bestu mögulegu þjónustu – íbúunum til heilla.

Þetta er mín framtíðarsýn, og þetta er sú efling sveitarstjórnarstigsins sem við höfum þörf fyrir á Íslandi.

Góðir ráðstefnugestir.
Að endingu vil ég nefna þau tímamót, sem bæði íslensk sveitarfélög standa frammi fyrir og þjóðin í heild sinni, en það er staða Íslands í alþjóðasamvinnunni.

Ég hef persónulega trú á því að við munum fyrr en síðar ganga í Evrópusambandið og vinna að því á þeim vettvangi að skapa varanlegan grundvöll fyrir peningamálastefnu okkar.

Ég er jafnframt sannfærður um að sveitarfélögin munu hafa tækifæri til að nýta sér þann vettvang enn frekar sér til framdráttar en þau hafa getað gert innan EES. Margvíslegt gagnlegt starf helgað sveitarstjórnarstiginu fer fram á vegum sambandsins eins og mörg ykkar vita sem t.d. hafið sótt hina svokölluðu opna daga sveitarfélaganna í Brussel.

Á undanförnum árum hafa verið birtar niðurstöður skýrslna sem sýna ávinninginn af því fyrir Ísland að ganga inn í Evrópusambandið og ennfremur kostnaðinn. Ýmsar hagstærðir liggja til grundvallar slíkum útreikningum. Fróðlegt væri að vita hvað Ísland myndi fá úr uppbyggingarsjóðum ESB við aðild að sambandinu nú miðað við þá útreikninga sem gerðir voru þegar þjóðarframleiðsla á mann var sú mesta í Evrópu.

Kaldhamrað hagsmunamat sýnir okkur í dag að fullveldi okkar og sjálfstæði er best varðveitt í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir sem tryggir okkur raunverulega hagsæld og varanlegan stöðugleika. Þó nú ólgi kólguský í gráum himni, þá koma tímar. Og koma ráð.

Því brýni ég ykkur, kæru sveitarstjórnarmenn, að horfa til framtíðar. Hafið þið trú á sveitarfélögum ykkar og þeirri heild í Íslandi öllu sem þau tilheyra og styrkir þau og sjálfstæði þeirra. Við munum aftur sjá að;

Landið er fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár,
hafið er skínandi bjart.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum