Hoppa yfir valmynd
06. maí 2021 Innviðaráðuneytið

Ávarp á ársfundi Byggðastofnunar

Ávarp flutt á ársfundi Byggðastofnunar 6. maí

Fundarstjóri, góðu fundargestir.

Það verður að segjast að það er heldur fátæklegt lífið þegar maður hittir eins fáa og raunin hefur verið síðasta rúma árið. Faraldurinn hefur settur okkur fastar skorður en hann hefur líka neytt okkur til að hugsa upp nýjar leiðir í samskiptum sem margar hverjar hafa reynst vel og munu í framtíðinni nýtast áfram og jafnvel spara töluverða fjármuni í ferðir milli heimshluta, landshluta, bæjarhluta – jafnvel hæða.

„Það er þetta með alfaraleiðina, er hún nú ekki bara þar sem maður er?“ spyr Geiri í kvikmyndinni Börn náttúrunnar þegar dóttir hans talar við hann um að samskipti þeirra hafi ekki verið mikil í gegnum tíðina. Þetta er stórfengleg mynd hjá Friðriki Þór Friðrikssyni enda var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna á sínum tíma. En það er þetta með alfaraleiðina, hún er þar sem maður er. Og við finnum fyrir því núna, á þessum tímum sem heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á, að alfaraleiðin hefur breyst. Hún liggur nú inn á hvert heimili. Og þótt við söknum þess vissulega að geta ekki setið saman á stórum ráðstefnum eins og þessari þá búum við að því að á síðustu árum hefur verið lyft grettistaki í ljósleiðaravæðingu landsins alls með Ísland ljóstengt sem ég kallaði í grein minni árið 2013, Ljós í fjós. Þessi háhraðatenging sem yfirstígur hindranir veðurs og fjalla hefur gert okkur lífið bærilegra í kófinu. Það er líka eitt af því sem við tökum jákvætt út úr þessu ástandi að þröskuldarnir sem hafa heft verkefni eins og störf án staðsetningar hafa verið pússaðir niður og eina fyrirstaðan nú er í huga stjórnenda hjá stofnunum hins opinbera og fyrirtækjum landsins. En það kemur og munum við leggja okkar af mörkum til þess að fólk geti sest að þar sem því líkar best og unnið nálægt heimili sínu þótt það sé fjarri höfuðborginni.

Fyrir nokkru síðan, nánast eilífð finnst mér því það var fyrir faraldur, sat ég ráðstefnu um byggðamál í Aþenu. Þar var mikið um það sem á ensku er nefnt „mega-trend“ og lýsti sér í þessum miklu flutningum úr dreifbýli og minna þéttbýli í stóru borgirnar. Eitt af mínum hjartans málum í stjórnmálum hefur verið að berjast gegn þessari þróun. Ekki af því að ég sé einhver óvinur höfuðborgarsvæðisins, þvert á móti, heldur vegna þess að ég vil að fólk geti búið sér líf þar sem því líður best og þurfi ekki bara að fylgja straumnum þangað sem hann liggur sterkastur. Um það snýst mín byggðastefna að styðja við byggðir um allt land með því að auka atvinnutækifæri og tækifæri til menntunar hringinn í kringum landið

Við upplifum ægikraft náttúrunnar á ýmsan hátt. Heimsfaraldur, eldgos, snjóflóð, aurskriður, óveður. Við Íslendingar þekkjum þennan kraft, eyðileggingarmátt og sköpunarmátt náttúrunnar. Við höfum brugðist við þessum krafti nátúrunnar með því að byggja varnargarða, tryggt fjarskipti og raforkukerfi og við höfum – síðast en ekki síst - lagt mikla áherslu á efla þekkingu okkar á þessum náttúruöflum. Þessi byggðaþróun, þessir miklu fólksflutningar til stórborganna, eru ekki náttúrulögmál en líkt og með náttúruöflin verðum við að viðurkenna straumana, kvikuhólfin og veirurnar til þess að geta brugðist við. Við verðum að efla þekkinguna á því hvers vegna fólk færir sig, hvaða aðstæðum það sækist eftir, hvernig það sér framtíð sína fyrir sér. Við eigum vísindafólk sem hefur helgað sig rannsóknum á byggðamálum en mín skoðun er sú að við þurfum að gefa slíkum rannsóknum meira vægi til að geta tekist á við þá staðreynd að á Íslandi búa 64% íbúa á höfuðborgarsvæðinu einu en til samanburðar búa 36% íbúa Danmerkur á Kaupmannahafnarsvæðinu, 30% íbúa Noregs á Oslóarsvæðinu og 26% íbúa Finnlands á Helsinkisvæðinu. Hugsa mætti sér að Byggðastofnun fengi í framtíðinni stærra hlutverk í því að stækka þennan þekkingargrundvöll.

Þessi öfgakennda staða sem búum við hér hefur leitt til þess að umræða um byggðamál hér á landi hefur tilhneigingu til að kristallast í andstæðunum: Höfuðborgarsvæði – landsbyggð. Það er í mínum huga augljóst að slík einföldun, slík andstæðugreining, er slæm og engum til gagns. Við viljum öll að það sé byggð um allt land. Um það er enginn ágreiningur. Samspil þéttbýlis og dreifbýlis er ein af helstu áskorunum og viðfangsefnum á sviði byggðaþróunar og mjög mikilvægur þáttur í því að byggja upp sjálfbær byggðalög. Dreifbýli og þéttbýli eru ekki andstæður og við þurfum að forðast að líta þannig á það, en í staðinn nýta styrkleika þéttbýlismyndunar og styrkja samspil við aðliggjandi dreifbýlissvæði í þeim tilgangi að bæta grunnþjónustu. Við eigum að styðja við sérstöðu einstakra svæða í þágu þeirra og landsins alls. Mannlíf, menning og blómlegt atvinnulíf er aðdráttarafl fyrir fólk og fyrirtæki hvaðanæva að. Þetta samspil þéttbýlis og dreifbýlis, sem og stuðningur við sérstöðu einstakra svæða styrkir samkeppnishæfni landsins alls og er þannig hagsmunamál okkar allra.

Byggðamál eru þverlægur málaflokkur sem snertir flesta, ef ekki alla, málaflokka ríkisins. Því er byggðaáætlun gott og mikilvægt tæki til að tengja saman opinberar áætlanir. Og það ríkir góð sátt um byggðaáætlun í samfélaginu. Segja má að byggðamálin eru loksins orðin „alvöru“ málaflokkur, en það var ekki litið þannig á þau fyrir nokkrum árum. Þá þóttu þau jafnvel bara óþörf eða í besta falli frekar „púkó“.

Lögum samkvæmt skal endurskoða byggðaáætlun á þriggja ára fresti og sú vinna er nú á lokametrunum, enda verða þrjú ár liðin frá samþykkt hennar í júní. Ég hef lagt mikla áherslu á að samhæfa byggðaáætlun eins og kostur er við aðrar áætlanir ríkisins sem skipta miklu máli fyrir byggð í landinu. Sem dæmi má nefna heilbrigðismál, menntamál og orkumál. En allt eru þetta stór byggðamál. Og ekki má gleyma hinum þremur áætlunum sem heyra undir mitt ráðuneyti, samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og áætlun í málefnum sveitarfélaga.  Við horfum til allra þessara áætlana nú við endurskoðun byggðaáætlunar.

Stefnt er að því að hvítbók, þ.e. drög að stefnu, verða lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda á næstu dögum. Byggðastofnun og ráðuneytið leiða þessa vinnu í nánu samráði við haghafa í samfélaginu, svo sem sveitarfélög og önnur ráðuneyti.

Landsátakið Ísland ljóstengt og uppbygging opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum er lýsandi dæmi um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og heimafólks til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs seinna í þessum mánuði hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins.

Á kjörtímabilinu hefur margt áunnist, hvort tveggja er varðar uppfærslu regluverks fjarskipta og netöryggis og uppbyggingu fjarskiptainnviða. Tímabært er að leggja línur fyrir nýja framsókn í fjarskiptum. Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu.

Með slíkri framtíðarsýn og tilheyrandi aðgerðum væri óvissu eytt um það hvort fólk, óháð búsetu, fái notið þeirrar þjónustu sem verður forsenda og hvati samfélagslegra framfara og nýsköpunar um land allt í fyrirsjáanlegri framtíð. Standi hún til boða er eðlilegt að hún verði jafnframt áreiðanleg, örugg og á sanngjörnu verði.

Ég man eftir því að hafa fyrir nokkru síðan lesið grein um mannauðsmál fyrirtækja þar sem rætt var við forstjóra veitingasölukeðju í Bretlandi. Það hafði vakið mikla athygli hvað viðhorf og framkoma starfsmanna keðjunnar voru jákvæð og að starfsmenn hefðu hærri starfsaldur en í sambærilegum keðjum. Forstjórinn var spurður hvað olli þessu, hvernig stefna fyrirtækisins í mannauðsmálum væri frábrugðin annarra. Hann sagði að stefnan væri frekar einföld. Þau legðu sig fram um að ráða hamingjusamt fólk til starfa. Ég nefni þetta hér og nú af því að ég held að byggðamál snúist ekki síst um hamingju fólks. Störf án staðsetningar eru frábær viðbót við möguleika okkar til að breyta byggðaþróuninni en fleira verður auðvitað að koma til og þar leika stórt hlutverk hinar stóru byggðaáætlanir míns ráðuneytis, samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og sveitarstjórnaráætlun. Að ekki sé talað um áætlanir í mennta- og heilbrigðismálum. Fólk á að geta valið sér búsetu þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt. Og hamingja er, eins og við vitum öll, bráðsmitandi og hefur áhrif á umhverfi okkar, framlag okkar í vinnu og þar með á verkefnin og útkomu þeirra.

Ég trúi því að það sé bjart framundan í byggðamálum Íslendinga. Við höfum gert byggðaáætlun að alvöru áætlun sem mark er á tekið. Þó svo að áætlunin sé ekki stór í krónum talið þá gerum við okkar besta til að tengja hana við áætlanir annarra ráðuneyta – svo sem ráðuneyta heilbrigðis, mennta og atvinnumála – enda eru innan þeirra ráðuneyta stórar byggðaáætlanir, þó þær heiti öðrum nöfnum. Við kappkostum að samhæfa byggðaáætlun sem mest þessum áætlunum og leggja þannig áherslu á mikilvægi byggðamála í sem flestum málaflokkum ríkisins.

Byggðastofnun er öflug stofnun. Með verkum sínum hefur stofnunin áunnið sér traust – ekki bara mitt og ráðuneytisins -  heldur líka samfélagsins alls. Ég vil þakka stjórn, stjórnendum og öllu því öfluga starfsfólki sem stofnunin hefur á að skipa kærlega fyrir gott samstarf og vel unnin störf.

Að lokum vil ég segja þetta: Við sjáum til lands. Stundin er að renna upp, stundin sem við höfum beðið eftir síðan heimsfaraldurinn skall á með öllu sínu tjóni á heilsu og hag fólks um allan heim. Allt síðasta ár hefur verið helgað baráttunni við faraldurinn, helgað því að vernda heilsu fólks og afkomu og því að tryggja hraða og markvissa viðspyrnu fyrir Ísland. Augnablikið þegar allt horfir til betri vegar er ekki síst upplifun okkar hvers og eins þegar við fáum stunguna í öxlina, þegar við sjáum fram á að losna við óttann við veiruna, ótta sem snýst ekki aðeins um okkur sjálf heldur ekki síst um ástvini okkar.

Ég er stoltur af þjóðinni okkar. Á erfiðum tímum, tímum þegar faraldurinn hefur ógnað heilsu okkar og okkar nánustu, hefur þjóðin staðið saman og mætt erfiðleikum af einurð og styrk. Sól hækkar á lofti, hópur bólusettra stækkar, atvinnulausum fækkar. Við horfum bjartsýn fram á veginn.

Takk fyrir mig.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum