Hoppa yfir valmynd
20. september 2023 Innviðaráðuneytið

Ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2023

Ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 20. september 2023

Ágætu gestir á ársfundi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Það er ánægjulegt að enn á ný erum við komin saman til þess að ræða þetta mikilvæga samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga – sem er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og hans mikilvæga hlutverk.

Ég er vissulega fjarri góðum félögum núna en fæ þess í stað að ávarpa ykkur með þessum hætti.

Það væri vandséð hvernig væri hægt að reka hér umfangsmikið og þýðingarmikið sveitarstjórnarstig nema fyrir tilstilli sjóðsins eða einhvers sambærilegs kerfis – ekki síst í ljósi þess mikla fjölbreytileika sem einkennir íslenska sveitarstjórnarstigið. 

Sjóðurinn er vissulega vistaður hjá ríkinu, en er sameign okkar og mikilvægt samráð fyrir fram um alla starfsemina. 

Lengi hefur verið rætt um þörf fyrir breytingar á sjóðnum og regluverki hans. 

Nokkrar atlögur hafa verið gerðar og sumar skilað einhverjum framförum – en staðið hefur á heildarendurskoðun og umbreytingu sem breyttir tímar kalla á.

Sveitarfélögum hefur fækkað mikið á umliðnum áratugum – og munu eflaust gera heldur fram sem horfir. Þau hafa stækkað og verkefni þeirra aukist talsvert, og hvað það varðar sjáum við líka fyrir okkur að sú þróun muni halda áfram.

Árið 1990 voru sveitarfélög 204 talsins en um aldamótin síðustu voru þau 124. Í dag eru þau 64 og hefur þeim því fækkað um 60 frá því á árinu 2000. 

Það er því skylda okkar að vinna að slíkri endurskoðun og aðlaga kerfið að aðstæðum eins og þær eru hverju sinni.

Fyrir liggur frumvarp sem felur í sér heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, og er það afrakstur mikillar vinnu undangenginna ára. Með frumvarpinu er einnig lagt til að reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og starfsemi hans verði færð úr lögum um tekjustofna sveitarfélaga og að sett verði ný heildarlög um sjóðinn.

Aðaltillagan er nýtt líkan sem leysir tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs af hólmi og sameinar það í eitt almennt jöfnunarframlag.

Hér er komin fram tillaga sem margir hafa kallað eftir lengi, fyrsta alvöru tillagan að því að ná settum markmiðum um 

einföldun og gagnsæi kerfisins,

og sanngjarnara kerfi – sem jafnaði betur stöðu sveitarfélaga með lægri tekjur í samanburði við sambærileg sveitarfélög, þannig að allir íbúar landsins fái notið samskonar þjónustu frá sínu sveitarfélagi, sama hvar þeir búa.

Allar breytingar eru umdeildar og þau sveitarfélög sem fá lægri tekjur í samkvæmt nýja líkaninu eiga erfitt með að sætta sig við það. Þau verða þó að hafa í huga að aðstæður geta breyst – líka til hins verra – og þá er gott að búa við sanngjarnara kerfi sem er næmara á slíkar breytingar og grípur sveitarfélögin betur en í núverandi kerfi.

Þá er rétt að innleiðing kerfisins fari fram á nokkrum árum svo einstök sveitarfélög eigi auðveldar með að aðlaga sig að breyttum veruleika.

Þá verður tekið tillit til sérstakra áskorana og byggðasjónarmiða – og hef ég lagt ríka áherslu á það að hægt verði að bregðast við skyndilegum áföllum í rekstri sveitarfélaga og eins að vinna með svæðum sem hafa veikan tekjugrundvöll en talsverða útgjaldaþörf er snýr að grunnþjónustu og megin skyldum þeirra.

Í frumvarpinu er nýtt ákvæði sem kveður á um að skerða skuli framlög til þeirra sveitarfélaga sem ekki fullnýta útsvarið sitt. Vissulega mjög umdeilt – en sanngirnismál.

Hér er tekið fyrir það að sjóðurinn – og þar með tekjulægri sveitarfélögin – niðurgreiði útsvar fyrir þau sveitarfélög sem kjósa að hafa útsvarið lægra en almennt gerist. 

Það er bara gott eitt um það að segja ef sveitarfélög geta haft álögur á íbúa í hófi og þurfa ekki að nýta sér tekjustofna sína að öllu leyti til að sinna þjónustu við þá, en það er hins vegar ekki eðlilegt að þau haldi fullum framlögum úr Jöfnunarsjóði á sama tíma.

Frumvarpið hefur nú verið sent Alþingi og á ég von á því að geta mælt fyrir því innan tíðar. Það er síðan Alþingis að taka endanlega ákvörðun um þetta fyrirkomulag.

Góðir gestir.

Það eru mörg mikilvægt úrlausnarefni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. 

Málefni fatlaðra eru þar efst á baugi og ríkið hefur nú þegar bætt við um fimm milljörðum við útsvarið til að bæta afkomu sveitarfélaganna hvað það varðar. Mikilvægt er að ljúka þeirri endurskoðunarvinnu sem fram fer undir yfirstjórn félags- og vinnumarkaðsmála – og reyna að ná varanlegri niðurstöðu um framtíðarfyrirkomulagið í þessum málaflokki. Það myndi ég helst vilja gera fyrir áramót – svo hægt sé að vinna að frekari þróun og uppbyggingu í þágu fatlaðra íbúa þessa lands og horfa til framtíðar í góðri sátt allra hlutaðeigandi. 

Í því sambandi sé ég fyrir mér að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegni áfram lykilhlutverki.

Ársreikningur Jöfnunarsjóðs liggur nú fyrir og fer Guðni Geir yfir hann á eftir. Útkoman er góð og ég get leyft mér að upplýsa hér að í því ljósi hef ég að tillögu ráðgjafarnefndar tekið ákvörðun um að hækka útgjaldajöfnunarframlög ársins um einn milljarð króna.

Ég vil að endingu þakka ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir vel unnin störf og óska þeim góðs gengis í framtíðinni – jafnframt þakka ég starfsfólki sjóðsins kærlega fyrir vel unnin störf og veit að þau sinna sínum verkefnum af fagmennsku og metnaði.

Lifið heil.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum