Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. maí 1995 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp ráðherra á aðalfundi Útflutningsráðs Íslands

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, á aðalfundi Útflutningsráðs Íslands.

Góðir fundarmenn,

Það er mér sérstakt ánægjuefni að eitt fyrsta opinbera skylduverk mitt sem utanríkisráðherra skuli vera að ávarpa aðalfund Útflutningsráðs Íslands hér í dag. Kosningar til Alþingis eru nú að baki og það er ekki ætlun mín að gera baráttumál þeirra að sérstöku umtalsefni á þessum aðalfundi. Það er samt ástæða til að rifja upp að stjórnmálaflokkarnir deildu ekki um nauðsyn þess að styrkja markaðssókn og auka útflutning.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birt var á dögunum settu stjórnarflokkarnir fram þau meginmarkmið að á kjörtímabilinu skuli unnið að því að auka útflutning landsmanna og laða hingað erlenda fjárfestingu. Í sem stystu máli felur hún í sér að efla markaðssókn fyrir íslenskar vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum, styðja samstarf við erlend fyrirtæki og þjóðir og vinna markvisst að því að vekja áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi. Með þessi meginmarkmið í huga er stefnt að því að styrkja starfsemi Útflutningsráðs, Ferðamálaráðs og markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar. Lögum samkvæmt fellur Útflutningsráð undir þau starfssvið sem utanríkisráðuneytið fer með. Í lögum um Útflutningsráð Íslands segir meðal annars að Útflutningsráð skuli vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum sem varða utanríkisviðskipti Íslendinga. Í þessum lögum er gert ráð fyrir nánu samstarfi utanríkisráðuneytis og Útflutningsráðs. Þetta samstarf vil ég efla.

Sú spurning er ofarlega á baugi hvernig skipulagi og starfsemi þessara stofnana og ráða, sem nú eru starfrækt, verði best háttað, til að ná settum markmiðum. Ljóst er að breytingar verða að eiga sér stað. Ég er fullviss um að það tekst gott samstarf milli mín og annarra ráðherra um að ná fram þeim breytingum sem ríkisstjórnin stefnir að á þessu sviði.

Ég mun sem utanríkisráðherra leggja mitt af mörkum til að efla starfsemi Útflutningsráðs og gera því betur kleift að vinna að þeim markmiðum sem ríkisstjórnin leggur mjög mikla áherslu á. Ég vil ennfremur gera gangskör í að koma á virku og kraftmiklu samstarfi milli utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs sem ég mun víkja nánar að síðar.

Íslenska utanríkisþjónustan starfrækir nú 13 sendiráð og fastanefndir í Bandaríkjunum, Kína, Rússlandi og ríkjum Vestur-Evrópu. Auk þess hafa verið skipaðir rúmlega 170 ólaunaðir ræðismenn í öllum heimsálfum.

Í utanríkisráðuneytinu hafa viðskiptamál fengið sífellt meira vægi á undanförnum árum. Sendiráðum og fastanefndum hefur verið ætlað að sinna kynningum á Íslandi og íslenskum afurðum eftir megni og aðstæðum á hverjum stað. Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins var sett á laggirnar árið 1988 og er hún fjölmennasta starfseining ráðuneytisins með níu starfsmenn. Hún hefur frá upphafi sinnt að stærstum hluta verkefnum í tengslum við þá alþjóðaviðskiptasamninga sem Ísland á aðild að svo sem EES, GATT/WTO og í verulegum mæli samskiptin við Evrópusambandið. Fram til þessa hafa ofangreindir málaflokkar tekið mestan tíma í starfsemi viðskiptaskrifstofu og er fyrirséð að vegna eðli þessara samninga verða þeir áfram fyrirferðarmiklir. Viðskiptaskrifstofa hefur sinnt fyrirgreiðslu við fyrirtæki og einstaklinga og vil ég sjá þann þátt í starfsemi viðskiptaskrifstofu aukast til muna.

Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að fylgst verði náið með þeirri þróun sem mun eiga sér stað innan Evrópusambandsins á komandi tímum og að treysta verði þann grundvöll samskiptanna sem EES-samningurinn er. Það er staðreynd að EES-markaðurinn er okkar stærsti og mikilvægasti markaður og því er höfuð nauðsyn að viðskiptahagsmunir okkar þar séu í sem tryggustum farvegi.

Þó við séum komin á tiltölulega lygnan sjó í hinu alþjóðlega samningaferli þá getum við ekki látið staðar numið. Við verðum sífellt að spyrja okkur þeirrar spurningar: Hvar getum við bætt um betur?

Ég lagði á það áherslu í kosningabaráttunni að virkja ætti utanríkisþjónustuna enn frekar í þágu viðskiptalífsins á erlendum vettvangi. Það kallar á vissa endurskipulagningu í starfi ráðuneytisins og mun það verk hefjast innan tíðar. Það starf sem unnið verður að mun að sjálfsögðu ekki beinast einvörðungu að hefðbundnum mörkuðum okkar í Evrópu og Bandaríkjunum heldur einnig hinum óhefðbundnu, ef svo má að orði komast, svo sem í Austurlöndum fjær, Suður-Ameríku og Afríku. Þar legg ég áherslu á að nýjum vinnubrögðum verði beitt og allar útflutningsafurðir okkar sitji við sama borð. Á sjávarútvegssviðinu eru mikil tækifæri að finna í mörgum þróunarríkjum þar sem Íslendingar geta beitt sér á fjölmörgum sviðum.

Það verður að sjálfsögðu að byggja á því sem þegar hefur verið unnið á vettvangi utanríkismála og utanríkisviðskipta. Stofnun sendiráðs í Kína var mikilvægur áfangi en því sendiráði verður ætlað að sinna viðskiptamálum að stærstum hluta. Stofnuð hefur verið fjárfestingaskrifstofa Útflutningsráðs og viðskiptaráðuneytisins og viðskiptafulltrúi hefur hafið störf við sendiráð Íslands í Moskvu.

Ég gat þess hér á undan að ég teldi nauðsyn á að samnýta þá krafta sem fyrir hendi eru í utanríkisráðuneytinu og Útflutningsráði. Það á að takast á við útflutningsátaksverkefni í samvinnu þessara aðila. Það er ljóst í mínum huga að öll skynsemi mælir með því að starfsemi sem í grundvallaratriðum stefnir að sama markmiði eigi að beina sem mest í einn farveg.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur m.a. á að skipa sérfræðingum í alþjóðlegum viðskiptasamningum á borð við EES og WTO, tengsl við ESB, lögfræðiþekkingu, viðskiptaþekkingu, diplómatísk sambönd og beint samband við sendiráð, fastanefndir og ræðismenn. Útflutningsráð hefur m.a. á að skipa sérfræðingum á sviði útflutnings- og markaðsmála, viðskiptafulltrúum í þremur sendiráðum, erlend viðskiptasambönd og beint samband við fyrirtæki og stofnanir hér á landi. Innan Útflutningsráðs er starfrækt sérstök sjávarútvegsdeild sem sérhæfir sig í málefnum sjávarútvegs á erlendum mörkuðum og heimafyrir.

Ég hef þegar falið embættismönnum í utanríkisráðuneytinu það verkefni að kanna grundvöll nánara samstarfs ráðuneytisins og Útflutningsráðs, skilgreina þau verkefni sem ætlunin verður að sinna og gera kostnaðaráætlun sem tekur mið af þeim verkefnaramma sem samkomulag mun nást um.

Það er sameiginlegt verkefni okkar að efla íslenskt atvinnulíf og sinna því meginverkefni að skapa fleiri störf. Kröftugt markaðs- og kynningarstarf er veigamikill þáttur í auknum hagvexti og baráttunni gegn atvinnuleysi.

Það er ósk mín að við getum sameinað kraftana til að takast á við þau mikilvægu viðfangsefni sem hvarvetna blasa við í útflutningsmálum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum