Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. október 1995 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Skýrsla ráðherra um utanríkismál á Alþingi

19. október 1995

Ræða utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar
á Alþingi um utanríkismál

1. INNGANGUR
Í fyrstu stefnuræðu minni á hinu háa Alþingi um utanríkismál Íslands verður lögð megin áhersla á alþjóðlegt samstarf um sjávarútvegs- og hafréttarmál og viðleitni okkar á alþjóðavettvangi til að tryggja vernd náttúruauðlinda hafsins og skynsamlega nýtingu þeirra. Ég hef helgað þessum málum mikinn hluta starfsævi minnar, og þau munu vega þungt í starfi mínu sem utanríkisráðherra. Í ræðunni verður ennfremur fjalla um það, hvernig tryggja megi hagsmuni Íslendinga í umbreytingunum, sem nú standa yfir í stjórnmálum og öryggismálum í Evrópu. Jafnframt verður gerð grein fyrir auknum áherslum í viðskipta- og markaðsmálum. Við mótun utanríkisstefnunnar verður haft að leiðarljósi að tryggja sjálfstæði og afkomu þjóðarinnar og virka þátttöku í samfélagi þjóðanna.

2. SAMEINUÐU ÞJÓÐIRNAR
Innan fárra daga, - hinn 24. október -, fagna Sameinuðu þjóðirnar fimmtíu ára afmæli sínu. Á þessum tímamótum er vert að minnast þess, að þátttaka í starfi samtakanna var ein fyrsta ákvörðun hins unga íslenska lýðveldis og jafnframt eitt fyrsta skrefið í þátttöku Íslendinga í alþjóðastjórnmálum. Nú, sem fyrr, gerir þátttakan í starfi Sameinuðu þjóðanna Íslendingum kleift að leggja sitt af mörkum til velfarnaðar alls mannkyns; til friðar og öryggis, lýðræðis, mannréttinda, umhverfisverndar og þróunarhálpar. Mér var sérstök ánægja að ávarpa fimmtugasta allsherjarþingið hinn 25. september síðastliðinn og taka undir með þeim sem vilja efla samtökin og búa þau undir viðfangsefni framtíðarinnar.

Fjölmargir leggja nú gjörva hönd á það verk að endurskoða og bæta störf og skipulag samtakanna, jafnframt því að leysa aðsteðjandi fjárhagsvanda, sem nú ógnar öllu starfi þeirra. Við viljum stuðla að umbótum; hvort sem er á starfi allsherjarþingsins, einstakra stofnana eða öryggisráðsins. Í því skyni þarf sérstaklega að endurskoða reglur um framlög aðildarríkja. Norðurlöndin hafa mótað sameiginlega afstöðu til breytinga á öryggisráðinu, þar sem lögð er áhersla á að stærra öryggisráð endurspegli breyttar aðstæður í heiminum, og ráðið verði áfram vettvangur virkra og ábyrgra aðildarríkja. Í ræðu minni á allsherjarþinginu var lýst stuðningi Íslands við að Þýskaland og Japan fái fast sæti í öryggisráðinu.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur tekið frumkvæði í því að móta nýja stefnu samtakanna með starfsskrám sínum um frið og framþróun. Sameinuðu þjóðirnar hafa síðustu misseri staðið fyrir ráðstefnum um mikilvæg mál, sem varða framtíð alls mannkyns; nú síðast um málefni kvenna í Peking, þar sem samþykkt var framkvæmdaáætlun í málefnum kvenna fyrir næstu áratugi.

Friðargæsla verður æ umfangsmeiri í starfi Sameinuðu þjóðanna og renna nú um tveir þriðju hlutar útgjalda þeirra til hennar. Ísland greiðir skilvíslega hlutdeild sína í kostnaðinum og hefur lagt til lækna og hjúkrunarfólk til starfa í fyrrverandi Júgóslavíu. Íslenskur læknir er að hefja störf um þessar mundir í heilsugæslusveit norska hersins í Bosníu og tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar taka nú þátt í þjálfunarnámskeiði í Noregi með það fyrir augum að fara til starfa í Bosníu.

Leggja ber áherslu á að Íslendingar taki þátt í því starfi Sameinuðu þjóðanna þar sem sérþekking þeirra nýtist best. Þegar er starfræktur hér á landi Jarðhitaskóli á vegum Háskóla Sameinuðu þjóðanna og unnið er að því að koma á fót Sjávarútvegsskóla með sama hætti, sem hugsanlega gæti tekið til starfa að tveimur árum liðnum.

Leitað verður leiða til að auka samstarf við þróunarstofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðastofnanir, og efla þannig starfsemi á sviði þróunarmála. Innan Þróunarsamvinnustofnunar verður lögð áhersla á aðstoð á sviði sjávarútvegs, jarðhita og tækniþekkingar. Einnig ber að hafa þau langtímamarkmið í huga, að þróunaraðstoðin geti orðið vísir að frekari viðskiptasamvinnu Íslands og viðkomandi ríkja og jafnframt stuðlað að uppbyggingu efnahagslífs í þessum löndum og eflingu lýðræðis og mannréttinda. Íslendingar hafa undanfarin ár víða miðlað af lýðræðishefð sinni með þátttöku í kosningaeftirliti. Áfram verður unnið að framboði Íslands í Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 1997 til 1999.

3. AUÐLINDA-, UMHVERFIS- OG NORÐURSLÓÐAMÁL
Ekki þarf að hafa mörg orð um framlag Íslands til hafréttarmála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hingað til, svo kunnugt er þingheimi og þjóðinni allri um þau efni. Áfram ber að leggja áherslu á þátttöku í því starfi samtakanna sem varðar beinlínis lífsafkomu íslensku þjóðarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl síðastliðnum er lýst þeim ásetningi að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi til að verjast mengun og vernda lífríki hafsins. Þátttaka í slíku samstarfi mun skila sér til komandi kynslóða.

Á alþjóðavettvangi hefur Ísland vakið athygli á afleiðingum mengunar hafsins. Í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hvatti ég aðildarríki til þátttöku í alþjóðaráðstefnu, sem á að halda í Washington, um mengun hafsins frá landsstöðvum. Mengun þekkir engin landamæri og setja þarf alþjóðalög til að bægja mengunarhættunni frá hafinu.

Um heim allan er fólk háð fæðuöflun í hafinu og ber nauðsyn til að vernda vistkerfi og lífríki hafsins og nýta auðlindir þess á sjálfbæran hátt. Þetta verður aðeins gert með alþjóðlegu samstarfi. Það hefði það mikla þýðingu fyrir fæðuöflun mannkyns í framtíðinni, ekki síst fyrir þróunarlöndin, ef þjóðir heims tækju höndum saman og kæmu á skynsamlegri stjórnun fiskveiða á úthöfum. Ísland tók virkan þátt í úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í ágúst og gerð alþjóðasamnings um verndun og stjórnun deilistofna og mikilla fartegunda. Með samkomulaginu hefur verið rennt styrkri stoð undir alþjóðlega fiskveiðistjórnun og rétt þeirra þjóða sem eru mjög háðar nýtingu lífrænna auðlinda. Leitast verður við að efla svæðisbundna samvinnu um þessi mál í framtíðinni.

Ákveðið hefur verið, að Ísland bjóði fram dómara til setu í Alþjóðlega hafréttardómstólnum, sem taka mun til starfa innan tíðar.

Sömu grundvallarlögmál gilda um nýtingu hvalastofna og annarra lífrænna auðlinda hafsins. Af Íslands hálfu er vel fylgst með þróun mála innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við munum jafnframt beita okkur fyrir samvinnu um nýtingu sjávarspendýra á Norður-Atlantshafssvæðinu með þátttöku í NAMMCO.

Barátta Íslendinga fyrir yfirráðum yfir efnahagslögsögunni er kunnari en frá þurfi að segja. Okkur ber einnig skylda til að tryggja hagsmuni okkar á fjarlægari miðum og knýja á um að fiskstofnar á Norðurslóðum verði nýttir á skynsamlegan hátt og að sanngirnissjónarmið ráði í stjórnun veiðanna. Það er von okkar að hægt verði innan skamms að leysa ágreining sem staðið hefur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þorskveiðar í Barentshafi. Það myndi auðvelda þessum ríkjum ásamt Færeyjum að snúa sér að stjórnun veiða úr íslenska-norska síldarstofninum. Deilurnar við nágrannaþjóðirnar undirstrika nauðsyn þess að fjölþjóðleg samvinna takist um nýtingu auðlinda á Norðurslóðum. Víða annars staðar má sjá merki vaxandi hörku í deilum um fiskveiðiréttindi, til dæmis í málflutningi Evrópusambandsins og ætti það að vera okkur varúðarmerki.

Íslendingum og Norðmönnum er ekki sæmandi að standa í langvinnum deilum um sameiginleg hagsmunamál. Það er umhugsunarefni, að fyrsta og eina skoti, sem hefur verið hleypt af að skipun norskra stjórnvalda eftir stríð, var beint að íslenskri áhöfn. Bræðraþjóðirnar, sem sækja sameiginlegan menningararf til frægasta rithöfundar Íslendinga, afburða lærdómsmannsins Snorra Sturlusonar, verða að geta komið sér saman um nýtingu auðlinda. Snorri Sturluson rétti yfir hafið þá gersemi sem er enn í dag aflvaki metnaðar, uppbyggingar og sóknar. Í anda sameiginlegrar menningar, sem bindur okkur saman, hlýtur að finnast sú sanngirni, sem getur leitt til sameiginlegrar niðurstöðu. Í þeirri sanngirni má finna bæði prósentur og tölur og mat á raunverulegum möguleikum beggja þjóðanna til að búa þegnum sínum sómasamlegt líf á grundvelli auðlinda þjóðanna. Íslendingar eru og verða af augljósum ástæðum háðir auðlindum hafsins um ófyrirsjáanlega framtíð.

Kappkostað verður að Íslendingar taki þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um auðlindamál í okkar heimshluta. Sjónir manna beinast æ meira að norðurslóðum. Þegar er hafin í Barentsráðinu fjölþjóðleg samvinna Norðurlandanna og Rússlands á sviði efnahagsmála, tækni, samgangna og vísinda. Lífsafkoma og menningararfleifð frumbyggja svæðisins er sérstaklega höfð til hliðsjónar. Barentssamvinnan veitir auk þess töluverða möguleika á efnahags- og viðskiptasamvinnu sem nýst getur atvinnuvegum á Íslandi.

Næsta skref á þessari braut er fyrirhuguð stofnun Norðurskautsráðsins, með þátttöku átta aðliggjandi ríkja. Innan ráðsins verður annars vegar unnið áfram að framkvæmd "umhverfisstefnunnar á heimskautasvæðinu" og hins vegar að "Átakinu um sjálfbæra þróun á heimsskautasvæðinu", en í því er lögð áhersla á efnahags-, félags-, heilbrigðis- og menningarmál. Norðurskautsráðið er um margt táknrænt fyrir hinar breyttu aðstæður í alþjóðastjórnmálum. Í Norðurskautsráðinu munu nágrannaþjóðir, sem árum saman fjandsköpuðust hver við aðra, taka höndum saman um sjálfbæra nýtingu auðlinda svæðisins og vernd viðkvæmrar náttúru norðurslóða.

4. NORÐURLÖND OG EYSTRASALTSSVÆÐIÐ
Ég hef haft tækifæri til að vinna að stofnun Norðurskautsráðsins innan Norðurlandaráðs, og í gær ákváðu norrænu samstarfsráðherrarnir, að leggja tillögu um samstarf um málefni norðurskautsins og aukinn forgang þess fyrir Norðurlandaráðsþingið í Kuopio í Finnlandi í næsta mánuði. Fjöldi slíkra hagsmunamála Íslendinga færir mér ávallt heim sanninn um mikilvægi norrænnar samvinnu og þýðingu hennar í framtíðinni. Óþarfi er að fjölyrða um hið umfangsmikla og nána samstarf á milli Norðurlandanna á sviði menningarmála, félagsmála og umhverfismála, sem fram fer í Norðurlandaráði, svo sjálfsagt er það orðið í hugum flestra Norðurlandabúa. Þetta samstarf, sem byggir á sameiginlegum menningararfi og grundvallarviðhorfum, hefur þróast í áratugi, þrátt fyrir ólík viðhorf til alþjóðastjórnmála og mismunandi þátttöku í fjölþjóðasamtökum á sviði varnarmála og efnahagssamvinnu.

Ýmsar efasemdir hafa komið fram um framtíð Norðurlandasamstarfsins vegna aðildar Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar að Evrópusambandinu. Ég er þeirrar skoðunar, að hin nánu bönd Norðurlandabúa, sem tengt hafa ótal einstaklinga, félög og stofnanir í áratugi, séu það sterk að aðild ríkjanna þriggja að Evrópusambandinu fái þau ekki slitið. Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa á markvissan hátt leitast við að eyða óvissu í þeim efnum. Norðurlöndin hafa yfirfarið samstarf sitt á alþjóðavettvangi, sérstaklega hjá Sameinuðu þjóðunum.

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í maí var samþykkt greinargerð um framtíðarsamstarf landanna á alþjóðavettvangi. Í henni eru meðal annars ákvæði um að viðhalda nánu pólitísku samstarfi, og sameiginlegu framboði og málflutningi, þegar því verði við komið. Aftur á móti er ljóst, að ríkin þrjú hafa undirgengist skyldur við Evrópusambandið, sem veita þeim minna svigrúm til samstarfs við ríki utan þess en áður. Samstaða er þó um að Ísland og Noregur geti átt samleið með hinum Norðurlöndunum, hvað varðar sameiginlegar yfirlýsingar og afstöðu Evrópusambandsins, á grundvelli EES-samningsins. Norðurlanda-samvinnan getur þannig verið mikilvæg tenging Íslands við Evrópusambandið.

Á aukaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn hinn 29. september síðastliðinn voru samþykktar ákveðnar breytingar, sem gera þurfti á Helsinkisáttmálanum, grundvelli hins opinbera norræna samstarfs, til að aðlaga starfshætti Norðurlandaráðs að breyttum aðstæðum. Innan tíðar verður samkomulagið um breytingarnar á sáttmálanum lagðar fyrir Alþingi til staðfestingar. Einnig var sú breyting gerð á Helsinkisáttmálanum, að bætt var við hann jafnréttisreglu um það, að við lagasetningu á Norðurlöndum skuli ríkisborgarar annarra Norðurlanda njóta sama réttar og ríkisborgarar viðkomandi lands á þeim sviðum sem samningurinn nær til.

Sem kunnugt er, var öryggismálasamráð Norðurlandanna lengst af lítið. Það helgaðist meðal annars af mismunandi afstöðu ríkjanna til öryggismála og hlutleysisstefnu Finnlands og Svíþjóðar. Segja má, að nú hafi komist á formlegra samráð Norðurlandanna um öryggis- og varnarmál en áður var, með áheyrnaraðild Finnlands og Svíþjóðar í Vestur-Evrópusambandinu, auk þess sem ríkin tvö eiga nú áheyrnaraðild að Norður-Atlantshafssamvinnuráðinu. Rétt er einnig að minnast á hefðbundið samráð Norðurlandanna á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Vínarborg.

Ég hef hér að framan fjallað um fjölþjóðlega samvinnu á norðurslóðum. Ekki verður nógsamlega ítrekað mikilvægi Norðurlandasamstarfsins í þeim efnum. Það á einnig við um samstarf ríkjanna, sem liggja að Eystrasalti. Í Eystrasaltsráðinu liggja einnig saman leiðir Norðurlandanna og nágrannaríkjanna; Þýskalands, Póllands, Rússlands og Eystrasaltsríkjanna, en þau síðastnefndu höfðu um aldaraðir náin tengsl við Norðurlönd. Ráðið gegnir meðal annars því mikilvæga hlutverki að gera þessum ríkjum kleift að bindast samfélagi vestrænna ríkja traustari böndum og aðstoða við uppbyggingu lýðræðislegra stofnana og réttarkerfis. Þar fer einnig fram aðstoð við að koma á eðlilegum viðskiptaháttum, sinna umhverfisvernd, orkumálum og samgöngum.

Það er Íslendingum engin nýlunda að taka þátt í samstarfi í tengslum við þetta innhaf Norður-Evrópu. Þegar á miðöldum var Ísland hluti af verslunarsambandi Hansaborganna, sem vel mætti kalla fyrsta evrópska efnahagssvæðið. Enn eigum við pólitískra hagsmuna og viðskiptahagsmuna að gæta á þessum slóðum. Við viljum taka fullan þátt í starfi Eystrasaltsráðsins og gæta þar hagsmuna okkar, eins og í öðru alþjóðlegu samstarfi, en jafnframt leggja fram okkar skerf til að koma til móts við óskir hinna nýfrjálsu þjóða. Á þetta sérstaklega við um Eystrasaltsríkin. Allt frá þeim tíma að Ísland og Eystrasaltsríkin urðu sjálfstæð ríki árið 1918, hafa Íslendingar látið sig málefni ríkjanna varða og borið til þeirra hlýjan hug. Öflug þátttaka í Eystrasaltsráðinu rennir stoðum undir sjálfstæði þessara vinaþjóða og stuðlar jafnframt að pólitískum stöðugleika í norðanverðri Evrópu.

5. ÞRÓUN ÖRYGGISMÁLA
Skipan öryggismála í Evrópu er um þessar mundir á krossgötum og unnið er að mótun nýs öryggiskerfis fyrir álfuna. Lykilatriði er, að þeim samtökum, sem vinna að mótun þessari takist að ná samstöðu um grundvöll öryggismála í álfunni, sem tryggir frið og stöðugleika til lengri tíma. Á þessum umbrotatímum hefur berlega komið í ljós að enginn getur staðið hjá og hvílir raunar sérstök skylda á þeim þjóðum, sem hafa mótaða lýðræðishefð, að leggja sitt að mörkum. Á okkur hvílir ábyrgð virkrar þátttöku.

Umfjöllun um öryggismál í dag takmarkast ekki við hefðbundna þætti varnarmála. Inn í þá umræðu tvinnast vaxandi ógnun svæðisbundinna átaka, hryðjuverkastarfsemi og alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Hafa ber í huga, að öryggi er samhæfing margra ólíkra þátta; hernaðarlegra og pólitískra, jafnt sem efnahagslegra, samfélagslegra og mannlegra þátta. Friður verður ekki tryggður nema á grundvelli efnahagslegrar velferðar, gangkvæms trausts og virðingar fyrir mannréttindum. Efla ber starf hinna fjölmörgu samtaka, sem vinna að þessu, eins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Evrópuráðsins, svo og svæðisbundið samstarf, sem brúar skil er áður voru milli austurs og vesturs.

Evrópuráðsins bíða óþrjótandi verkefni við að treysta mannréttindi og lýðræði í sessi í nýju aðildarríkjunum. Framundan er aðild Rússlands að ráðinu, sem ber að fagna. Flest íslensk ráðuneyti láta sig varða störf ráðsins og virk þátttaka þingmanna innan þess er afar mikilvæg.

Þátttaka íslands í varnarsamstarfi vestrænna ríkja hefur verið grundvöllur farsællar stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Öryggi landsins hefur verið tryggt með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951. Leggja ber ríka áherslu á samstarfið yfir Atlantshafið, sem er og verður sú taug, sem tryggir öryggi og stöðugleika í Evrópu. Á þessum grunni mun stefna landsins í öryggis- og varnarmálum hvíla áfram, eins og áréttað er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Þeir flokkar, sem standa að núverandi ríkisstjórn studdu aðildina að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma, þótt ekki væri það ágreiningslaust. Tíminn hefur leitt í ljós að sú ákvörðun var rétt og skipti sköpum fyrir íslenska hagsmuni. Nú er vart til stjórnmálaflokkur á meðal þeirra þjóða, sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu, sem ekki vill treysta og efla starfsemi bandalagsins. Lýðræðisöflin í Austur-Evrópu vilja ganga í Atlantshafsbandalagið til að festa lýðræðið betur í sessi. Frá því við gengum í bandalagið hafa aðstæður gjörbreyst. Nú verðum við að skoða aðild okkar og veru varnarliðsins hér í allt öðru ljósi en fyrir tæpum fimmtíu árum.

Í Bandaríkjunum hefur farið fram aðlögun að breyttum aðstæðum í varnarmálum. Í því skyni hefur verið ráðist í fækkun í liði Bandaríkjamanna í Evrópu. Angi af þessari stefnu er sá samdráttur sem verið hefur á undanförnum árum í umsvifum varnarliðsins hér á landi. Eins og kunnugt er, var gerð bókun milli Íslands og Bandaríkjanna í ársbyrjun 1994 um aðlögun varnarsamstarfsins að breyttum tímum. Samkomulagið byggir á traustum grunni varnarsamningsins og er þar áréttaður vilji til áframhaldandi samstarfs. Varnarsamstarfið byggir á því grundvallaratriði að hér verði trúverðugar varnir.

Á þessum óvissutímum, þar sem jafnvel fámennir hópar öfgamanna geta valdið usla í rótgrónum samfélögum, er það lykilatriði fyrir hverja sjálfstæða lýðræðisþjóð að sýnilegar varnir séu til staðar. Vera varnarliðsins treystir öryggi og stöðugleika á Norður-Atlantshafi og er staðfesting hinna mikilvægu tengsla yfir Atlantshafið. Ástæða er til að kanna, hvort ekki megi víkka og dýpka tengsl lýðræðisþjóðanna yfir Atlantshafið umfram hefðbundið varnarsamstarf þeirra, einkum á sviði efnahags- og viðskiptamála.

6. AÐLÖGUN ATLANTSHAFSBANDALAGSINS
Atburðarásin í fyrrverandi Júgóslavíu hefur fært okkur heim sanninn um það að Atlantshafsbandalagið eitt hefur styrk til að stöðva þær stríðshörmungar sem þar hafa dunið yfir. Með aðgerðum bandalagsins og frumkvæði Bandaríkjanna til málamiðlunar hefur nú loks fengist sá grundvöllur sem leitt getur til friðar. Allt bendir til þess að Atlantshafsbandalagið muni halda áfram að gegna lykilhlutverki að lausn þessa hörmulega ástands. Vert er jafnframt að vekja athygli á því, að ef friðarsamkomulag verður að veruleika, bíður gífurlegt endurreisnarstarf í Bosníu-Herzegóvínu.

Aðlögun Atlantshafsbandalagsins að breyttum aðstæðum hefur tekist vonum framar. Með stofnun Norður-Atlantshafssamvinnuráðsins og Samstarfs í þágu friðar var komið til móts við ríki í Mið- og Austur-Evrópu í öryggismálum. Alls eru nú 26 Mið- og Austur-Evrópuríki þátttakendur að Samstarfi í þágu friðar. Af hálfu utanríkisráðuneytisins er nú unnið að könnun á því, hvernig haga megi þátttöku Íslands í samstarfinu, svo að hún komi að sem mestu gagni. Til greina kemur, að Ísland verði vettvangur æfingar innan ramma Samstarfs í þágu friðar árið 1997, sem hefði það að höfuðmarkmiði að æfa viðbrögð við neyðarástandi vegna náttúruhamfara.

Mörg ríki telja þó aðeins fulla aðild að Atlantshafsbandalaginu næga tryggingu fyrir öryggi sínu. Bandalagið hefur staðfest að það sé opið nýjum aðildarríkjum. Í nýbirtri athugun þess á forsendum stækkunar er áréttað að ný aðildarríki fái sömu réttindi og gangist undir sömu skuldbindingar og núverandi aðildarríki. Verið er að kynna samstarfsríkjunum þessa athugun. Skýrslan sjálf og viðbrögð samstarfsríkjanna verða til umfjöllunar á fundi utanríkisráðherra bandalagsins í desember. Næsta skrefið verður væntanlega að meta, hvaða ríki koma til greina sem aðildarríki og hvenær þau geti fengið aðild. Það er afar miklvægt, að væntanleg stækkun bandalagsins rýri á engan hátt varnargetu þess og öryggisskuldbindingar gagnvart núverandi aðildarríkjum. Ísland styður markvissa en varkára stækkun Atlantshafsbandalagsins. Rétt er að benda á þá staðreynd að Atlantshafsbandalagið hefur áður verið stækkað á farsælan hátt.

Mikilvægt er að tryggja að Rússar telji sér ekki standa ógn af stækkun bandalagsins. Atlantshafsbandalagið leggur því áherslu á öryggismálasamstarf við Rússland. Í tengslum við ráðherrafund bandalagsins í Hollandi í vor var gengið formlega frá aðild Rússa að Samstarfi í þágu friðar og sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra bandalagsríkjanna og Rússlands um frekara samstarf hinna síðastnefndu við bandalagið umfram ramma samstarfsins. Sams konar samráð við Úkraínu er nú að hefjast. Rétt er að árétta, að Atlantshafsbandalagið hefur eitt ákvörðunarvald um stækkun sína. Hvorki Rússland né önnur ríki utan bandalagsins hafa neitunarvald þar um.

Stækkun og aðlögun Atlantshafsbandalagsins fer ekki fram í tómarúmi. Þetta starf tekur mið af, og hefur áhrif á það, sem er að gerast í utanríkis- og öryggismálum í öðrum Evrópusamtökum.

7. VESTUR-EVRÓPUSAMBANDIÐ, EVRÓPUSAMBANDIÐ OG ÖSE
Starf Evrópusambandsins að öryggismálum fer vaxandi. Eitt meginverkefni ríkjaráðstefnu þess, sem hefst á næsta ári, verður að skilgreina betur Sameiginlega utanríks- og öryggisstefnu, sem er ein af þremur meginstoðum Maastricht-sáttmálans. Áhrifamiklum ríkjum í sambandinu er mjög umhugað um að efla samstarf á sviði öryggis- og utanríkismála. Í því sambandi verða skipulagsleg tengsl við Vestur-Evrópusambandið mikilvægt viðfangsefni.

Innan Vestur-Evrópusambandsins fer nú fram grunnvinna við mótun sameiginlegrar varnarstefnu fyrir Evrópusambandið. Skýrsla um þetta verður til umfjöllunar á ríkjaráðstefnu ESB. Skoðanir eru skiptar um það, hvernig skipa á þessum málum, og vilja sum ríki fella starfsemi Vestur-Evrópusambandsins undir stofnanir Evrópusambandsins, en önnur, að VES haldist sem sjálfstæð stofnun. Afar mikilvægt er fyrir Íslendinga að fylgjast náið með þessari umfjöllun og koma afstöðu okkar á framfæri innan VES, auk þess að nýta á virkan hátt pólitískt samráð EES-ríkjanna og möguleikana, sem hin sameiginlega yfirlýsing EES-ráðsins um pólitísk skoðanaskipti.

Afstaða okkar er skýr. Við hljótum að vinna að því, að VES haldist sem sjálfstæð stofnun og verði ekki innlimað í Evrópusambandið, sem við eigum ekki aðild að. Við leggjum áherslu á að þróunin innan sambandsins verði til að styrkja það sem Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins.

Ófriðurinn á Balkanskaga ætti að vera okkur þörf áminning um að aldagömul óvild á milli þjóða og trúflokka er enn við lýði í Evrópu. Tuttugu ár eru nú liðin síðan Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu var ýtt úr vör á Helsinkifundinum árið 1975. Framlag ráðstefnunnar til afvopnunar í álfunni, bættra samskipta ríkja í austri og vestri og mannréttinda er óumdeilanlegt. Leiðtogafundurinn í desember 1994, þar sem ráðstefnunni var breytt í stofnun, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ákvað að hefja athugun á nýju öryggislíkani fyrir Evrópu og er nú hafin markviss vinna að þessu.

Mikilvægt er, að Ísland taki þátt í starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu af fullri alvöru, enda er stofnunin eini öryggismálavettvangurinn í Evrópu, sem öll ríki álfunnar eiga aðild að. Fylgjast verður vel með á þessum vettvangi, sem öðrum, sem hafa með öryggismál að gera. Sem kunnugt er, var fastanefnd Íslands og fyrirsvari hjá Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu í Vínarborg lokað í árslok 1993. Brýnt er að bæta úr því.

8. AFVOPNUNARMÁL
Mikilvægasti afvopnunarsamningur Evrópu, Samningurinn um hefðbundinn herafla (CFE), á að vera kominn að fullu til framkvæmdar hinn 17. næsta mánaðar og er fyrirhugað að hann verði síðan endurskoðaður vorið 1996 og framtíð hans metin. Töluverð áhersla hefur verið lögð á það innan Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi Norðurlandanna að vel sé staðið að endurskoðunarstarfinu og allir leggi þar sitt af mörkum.

Framkvæmd gildandi afvopnunarsamninga er grundvallarforsenda fyrir nýju öryggisumhverfi í Evrópu og heimsins alls. Árangur í samningagerð um kjarnavopn og hefðbundinn vígbúnað undanfarin ár hefur leitt til meira öryggis. Þannig er ótímabundin framlenging samningsins um að dreifa ekki kjarnavopnum (NPT) síðastliðið vor mikið fagnaðarefni. Því miður hafa sum kjarnavopnaveldi ekki látið af kjarnasprengingum. Ríkisstjórnin hefur því mótmælt harðlega kjarnavopnatilraunum Kínverja og Frakka ásamt öðrum Norðurlöndum.

Ísland, sem aðili að ýmsum afvopnunarsamningum, mun leggja allri raunhæfri viðleitni til afvopnunar lið og mun heilshugar styðja samningaviðræður um allsherjarbann við kjarnavopnatilraunum.

9. EFTA/EES
Sem utanríkisviðskiptaráðherra mun ég leggja rækt við að tryggja viðskiptahagsmuni þjóðarinnar og öfluga þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, Fríverslunar-samtaka Evrópu og evrópska efnahagssvæðisins.

Þegar Ísland gerðist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, var tilgangurinn ekki einungis sá að efla samstarf við þáverandi aðildarríki, heldur ekki síður að skapa traustan samstarfsgrundvöll við Evrópusambandið, sem nú grundvallast á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hlutverk EFTA hefur þróast á undanförnum árum með gerð samstarfsyfirlýsinga og fríverslunarsamninga. EFTA-ríkin hafa þegar gert fríverslunarsamninga við níu ríki og samningaviðræður standa yfir við Eystrasaltsríkin þrjú. Tilgangurinn hefur ekki síst verið að tryggja að aðgangur fyrirtækja innan EFTA að mörkuðum þessara landa væri ekki síðri en fyrirtækja innan Evrópusambandsins.

Evrópusambandið hefur boðað þá stefnu að efla skuli samskipti landa við Miðjarðarhaf og hefur þegar verið skrifað undir fríverslunarsamninga við Túnis. Undirbúningur samninga ESB við Egyptaland og Marokkó er langt kominn. EFTA ríkin hafa brugðist við með því að bjóða þessum ríkjum til samstarfs og verður það þróað á næstu mánuðum. EFTA getur einnig orðið styrkur þegar kemur að því að fylgjast með þróun svæðisbundins ríkjasamstarfs annars staðar og má þar nefna ASEAN og MERCOSUR. Til greina kemur einnig að auka beint samstarf EFTA við Fríverslunarsamtök Mið- og Austur-Evrópuríkja (CEFTA).

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur reynst traustur grunnur samskipta okkar við ESB. Eftir aðild EFTA-ríkjanna þriggja að ESB hefur EES-samstarfið lagst af meiri þunga á íslensk stjórnvöld.

Frá gildistöku EES-samningsins hefur megináhersla verið lögð á samræmingu löggjafar að því sem tíðkast innan ESB og aðlögun samstarfsins vegna aðildar Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar að ESB. Nú gefst tækifæri til að leggja aukna vinnu í þátttöku í mótun nýrra evrópskra reglna. Af mikilvægum málum, sem nú eru til umræðu innan EES og varða Ísland, má meðal annars nefna, að Ísland og Noregur eiga í viðræðum við ESB um afnám heilbrigðiseftirlits á landamærum ESB. Hagsmunir sjávarútvegsins eru mjög miklir. Augljóst hagræði er af því að geta flutt sjávarafurðir á markað ESB án slíks eftirlits. Unnið er að samræmingu upprunareglna EES-samningsins og þeirra fríverslunarsamninga, sem Evrópusambandið og EFTA-ríkin hafa gert við Austur-Evrópuríkin. Þegar þeirri samræmingu er lokið geta íslenskir framleiðendur notað aðföng frá Mið- og Austur-Evrópu ríkjum án þess að endanleg framleiðsla tapi íslenskum uppruna og mun hún því njóta réttinda EES-samningsins.

Íslendingar eru aðilar að svokallaðri fjórðu rammaáætlun Evrópusambandsins um vísindi og rannsóknir. Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa nýtt sér möguleika þessa samstarfs og gætu styrkir til þeirra numið verulegum fjárhæðum.

10. EVRÓPUSAMBANDIÐ
Stækkun til austurs er án vafa eitthvert stærsta og erfiðasta verkefnið sem ESB hefur staðið frammi fyrir til þessa. Spurningin er ekki lengur hvort af henni verður heldur hvenær. Grundvallarmarkmiðið með inngöngu Mið- og Austur-Evrópu ríkjanna í ESB er að stuðla að velsæld, friði og stöðugleika í álfunni. Ófriðarbálið í fyrrverandi Júgóslavíu er áminning til Íslendinga sem annarra að þetta er markmið sem ekki má gleymast í öllum þeim sviptingum og breytingum sem eru að eiga sér stað í Evrópu. Jafnframt er þetta þróun sem hefur sögulega, pólitíska og efnahagslega þýðingu langt út fyrir sambandið sjálft og þau lönd er knýja á um aðild. Hún varðar því hagsmuni Íslendinga afar miklu, bæði sem Evrópuþjóðar og vegna þess að með hverju nýju aðildarríki að ESB stækkar EES að sama skapi. Íslendingar geta því ekki staðið hjá sem hlutlausir áhorfendur. Við verðum að fylgjast grannt með þróuninni, vega hana og meta og koma okkar sjónarmiðum að þegar það á við. Eðlilegt er því að spyrja hver staða Íslands verður í Evrópu í byrjun 21. aldarinnar. Margir eru þeirrar skoðunar að sækja eigi um aðild að ESB. Það er ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að fara þá leið.

Hvað er það, sem helst ber í milli þeirra, sem vilja sækja um aðild og þeirra, sem ekki vilja það. Þeir, sem vija sækja um aðild, segjast, - að minnsta kosti í orði kveðnu -, ekki vera tilbúnir að lúta sameiginlegri sjávarútvegsstefnu með tilheyrandi yfirráðum sambandsins yfir auðlindum utan 12 mílna lögsögu. Engin þjóð í Evrópu er tilbúin að afhenda megin auðlind sína undir sameiginleg yfirráð eða samþykkja að stærsta iðngreinin sé rekin undir verndarvæng og styrktarkerfi hins opinbera. Með umsókn við núverandi aðstæður væri gefið til kynna, að við gætum sætt okkur við sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins í meginatriðum. Engin vísbending hefur fengist um að Íslendingar gætu losnað undan ákvæðum Rómarsáttmálans í þessum efnum, og því er aðildarumsókn órökrétt. Það er hins vegar ljóst að ef breytingar verða í þessum efnum og nýjar vísbendingar koma fram, er komin upp ný staða, sem þarf að meta þegar þar að kemur. Það er ekki síst þess vegna, sem nauðsynlegt er, að fylgjast vel með og kynna sjónarmið og hagsmuni Íslendinga. Á þann eina hátt er tryggt að ávallt sé valinn sá kostur sem þjónar best langtímahagsmunum þjóðarinnar.

ESB stendur frammi fyrir þeirri erfiðu spurningu hvernig hægt sé að tryggja stækkun án þess að vega að undirstöðum sambandsins. Ríkjaráðstefnunnar sem hefst á næsta ári bíða erfið viðfangsefni. Ljóst er, að ýmis þeirra málefna, sem koma til kasta hennar varða Ísland og ber því að kappkosta að fylgjast náið með framvindu mála og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri.

Meðal viðfangsefna ríkjaráðstefnunnar verður samstarf ESB í löggæslumálum, varnar- og öryggismálum og einföldun ákvarðanatöku sambandsins. Margt bendir til að ýmsar róttækar breytingar verði þó látnar bíða, t.d. hvað varðar stofnanir og uppbyggingu ESB og landbúnaðar- eða byggðastefnuna sem þó eru nauðsynlegar til að stækkun ESB geti orðið að veruleika.

Ísland og Noregur hafa byrjað viðræður um aðild að Schengen-samningnum og reiknað er með að formlegar viðræður hefjist á næstu vikum. Norðurlöndin þrjú í ESB hafa gert fyrirvara um að lausn finnist varðandi norræna vegabréfasambandið. Ef af aðild Íslands að Schengen verður yrði Ísland hluti af stóru svæði þar sem fólk getur ferðast yfir innri landamæri án þess að sæta þar nokkru eftirliti, en hins vegar er heimilt þrátt fyrir afnám landamæraeftirlits, að höfðu samráði við önnur aðildarríki, að koma á tímabundinni landamæravörslu á innri landamærum vegna allsherjarreglu og þjóðaröryggis.

11. OECD, WTO
Þátttaka Íslands í starfi Efnahagssamvinnu- og þróunarsstofnunar Evrópu, OECD hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum og taka flest ráðuneyti auk Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar nú beinan þátt í starfi stofnunarinnar.

Um þessar mundir stendur OECD að mörgu leyti á krossgötum. Mikilvægi stofnunarinnar sést best á því að fjölmörg ríki sækja nú um aðild. Er sú skoðun almennt ríkjandi að fara beri varlega í stækkun OECD ella sé hætta á því að gæði starfseminnar muni minnka.

Á vegum OECD stendur nú yfir athugun meðal aðildarríkja um nýjar áherslur í starfi stofnunarinnar. Hefur af Íslands hálfu verið lögð á það megináhersla að tryggja áframhaldandi starfsemi í þeim málum þar sem áhugi og hagsmunir okkar eru sem mestir, t.d. í sjávarútvegsmálum.

Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur nú verið starfrækt á tíunda mánuð. Miklar vonir eru bundnar við þessa nýju stofnun, sem eins og kunnugt er nær ekki einungis til vöruviðskipta, eins og GATT-samningurinn, heldur einnig til nýrra sviða milliríkjaviðskipta. Þar má helst nefna þjónustuviðskipti og hugverkaréttindi í viðskiptum. Alþjóðaviðskiptastofnunin stefnir í það að verða mun stærri en GATT. Nú standa yfir viðræður um aðild 28 ríkja, þar á meðal við Rússland og Kína, en einnig smærri ríki eins og Eystrasaltsríkin.

Þegar nafn Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur borið á góma hérlendis hefur það nánast án undantekninga verið í tengslum við landbúnað. Þetta er skiljanlegt, þar sem landbúnaðarsamningur stofnunarinnar hefur kallað á breytingar hérlendis sem annars staðar. Því má ekki gleyma, að stofnunin og samningar hennar eiga sér fleiri hliðar, en mun minna hefur verið fjallað um þau jákvæðu áhrif, sem niðurstöður Úrugvæ-viðræðnanna munu hafa á efnahagsumhverfi og viðskiptakjör Íslands, m.a. vegna verulegra tollalækkana fyrir íslenskar útflutningsvörur og aukinna sóknarfæra á mikilvægum framtíðarmörkuðum.

Landbúnaðarsamningurinn markar upphaf umbóta, sem stuðla að eflingu viðskipta á þessu sviði og fellir þau undir grundvallarreglur alþjóðaviðskipta. Í þeim breytingum má ekki bera hagsmuni og framtíðarafkomu bænda fyrir borð. Slíkt væri ekki í anda samningsins. Leiðin, sem valin var af hálfu íslenskra stjórnvalda við framkvæmd samningsins, var að tryggja íslenskum landbúnaði nægjanlegt svigrúm, til að laga sig að breyttum aðstæðum innan þess ramma, sem samningurinn setur jafnframt því að fyrstu skref eru stigin til aukinnar samkeppni erlendis frá. Framkvæmd landbúnaðarsamningsins hér á landi endurspeglar þá sátt sem náðst hefur um málið á Alþingi og er jafnframt í grundvallaratriðum í samræmi við það sem gerist í öðrum löndum.

Markviss framkvæmd samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar með fulltingi traustra reglna um lausn deilumála rennir styrkari stoðum undir stofnunina, eykur aga og festu í milliríkjaviðskiptum og treystir réttarstöðu minni ríkja. Þótt Úrugvæ-viðræðurnar hafi verið til lykta leiddar er enn verið að ræða aukið frelsi í ýmsum þáttum þjónustuviðskipta og tengsl viðskipta-og umhverfismála.

12. MARKAÐS- OG FJÁRFESTINGARÁTAK
Kröftugt markaðs- og kynningarstarf erlendis á íslenskum vörum og þjónustu er veigamikill þáttur í auknum hagvexti og baráttunni gegn atvinnuleysi. Í þessu augnamiði verða ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki að taka upp virkara samstarf sín á milli. Nýta þarf starfslið og aðstöðu utanríkisþjónustunnar á markvissari hátt á viðskiptasviðinu. Lögð verður sérstök áhersla á að auka þjónustu og tengsl utanríkisráðuneytisins við fyrirtæki í útflutningi og gefa útflutningsviðskiptamálum aukið vægi í starfsemi viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins. Nauðsyn ber einnig til að samhæfa og efla markaðsstarfsemi utanríkisráðuneytisins, Útflutningsráðs, Ferðamálaráðs, Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar.

Nýlega lauk í Reykjavík ráðstefnu rúmlega eitt hundrað kjörræðismanna Íslands. Ákveðið var að kynna þeim atvinnustarfsemi hér á landi, með sérstakri áherslu á útflutningsviðskipti, ferðamál og fjárfestingar á Íslandi. Tæplega fimmtíu íslensk fyrirtæki sýndu vörur sínar á ráðstefnusvæðinu og komust ræðismennirnir í tengsl við fyrirtæki og forsvarsmenn atvinnulífsins. Þar kom fram hjá fulltrúa eins fyrirtækisins, sem selur vélar til iðnaðarframleiðslu, að leiddi ráðstefnan til þess að ein af stærri vélum þeirra seldist, þá myndi afrakstur ríkissjóðs af sölu þessarar einu vélar gera meira en að greiða allan kostnaðinn af ráðstefnunni. Það er því til mikils að vinna að styðja íslensk fyrirtæki og atvinnulíf með ráðum og dáð.

Ég hef áður á þessum vettvangi getið opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Kína í lok sumars. Mikilvægt var að nýta þá ferð og koma á fundum með æðstu ráðamönnum kínversks samfélags og forstjórum stórfyrirtækja og fulltrúa íslenskra fyrirtækja á sviði jarðhita, sjávarútvegs, vélaframleiðslu og hugbúnaðar. Tvö íslensk fyrirtæki skrifuðu undir samninga í ferðinni og einnig var skrifað undir samkomulag um að stofna íslensk-kínverska viðskipta- og efnahagssamstarfsnefnd. Fram kom hjá fulltrúa eins íslenska fyrirtækisins að þátttaka í þessari viðskiptasendinefnd hefði hraðað markaðsstarfi þess um eitt til tvö ár. Kínversk viðskiptanefnd heimsótti Ísland í lok septembermánaðar og væntanlegur er í nóvember hópur sérfræðinga, til að kynna sér hagkvæmni fjárfestinga í álveri á Íslandi. Innan fárra daga verður stofnað íslenskt-kínverskt verslunarráð.

Að fenginni reynslu hefur verið ákveðið að skipuleggja heimsóknir af þessu tagi, með þeim hætti, að þær nýtist fyrirtækjum sem best.

Við höfum sett okkur það markmið, að efla á erlendri grund kynningu á Íslandi sem eftirsóknarverðum fjárfestingarmöguleika. Þegar hefur verið komið á samstarfi milli Fjárfestingaskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands og viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem ætlað er að stórefla kynningarstarfsemi sendiráðanna á þessu sviði. Jafnframt verður kannað með hvaða hætti unnt er að aðstoða íslensk fyrirtæki sem vilja fjárfesta erlendis eða hefja þar starfsemi.

Ég hef í ræðu minni leitast við að gera grein fyrir stöðu íslenskra utanríkismála. Við Íslendingar höfum borið gæfu til að búa við pólitískt og efnahagslegt öryggi í ótryggum heimi. Okkur ber skylda til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. Það verður aðeins gert með ábyrgri utanríkisstefnu. Við munum leitast við að tryggja hagsmuni Íslands með sem öflugastri þátttöku á alþjóðavettvangi. Þannig mun Íslendingum farnast best í samfélagi þjóðanna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum