Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. mars 1996 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra

Fyrir rétt tæpum tíu árum var með skömmum fyrirvara efnt til fundar leiðtoga risaveldanna í Höfða í Reykjavík, þar sem afvopnunarsamningar og aðrar leiðir til að sporna við geigvænlegu vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna voru í öndvegi. Á undanförnum misserum hafa verið að koma fram ýmsar nýjar upplýsingar um raunverulegt gildi Reykjavíkurfundarins og áhrif hans á þær umfangsmiklu breytingar er urðu skömmu síðar á stöðu heimsmála með frelsun ríkja í Austur-Evrópu, falli Sovétríkjanna og endanlegum lokum kalda stríðsins. Það er ekki ofsögum sagt að á einungis sex árum hafa orðið umfangsmiklar breytingar. Fyrrum aðildarríki Varsjárbandalagsins taka nú verulegan þátt í fjölþjóðasamstarfi Atlantshafsbandalagsins í þágu friðar og stefna óðfluga að fullri aðild að Atlantshafsbandalaginu. Fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna eru mörg hver orðin sjálfstæð ríki og Rússland sjálft er orðið gildur samstarfsaðili í margskonar hefðubundnu samstarfi Evrópuríkja, nú síðast sem fullgilt aðildarríki Evrópuráðsins.

Á sama tíma hefur stórlega dregið úr framlögum til hermála um allan hinn vestræna heim. Bandaríkjamenn hafa til dæmis á skömmum tíma lokað yfir tvö hundruð herstöðvum um heim allan á örfáum árum, og frekari niðurskurður er fyrirhugaður af hálfu bandarískra stjórnvalda. Verulegur samdráttur hefur orðið í útgjöldum Bandaríkjanna til varnarmála eða um 40% frá því sem mest var á tímum kalda stríðsins. Krafan í dag eru jafnöflugar varnir og áður en fyrir mun minni útgjöld. Aðhaldsaðgerðir eru því stór liður í framkvæmd varnarmála. Varnarstöð Atlantshafsbandalagsins hér á Miðnesheiði hefur af eðlilegum ástæðum ekki farið varhluta af niðurskurði til hermála. Á undanförnum fimm árum hefur varnarliðsmönnum í stöðinni fækkað um þriðjung, í samræmi við minna umfang stöðvarinnar. Orrustuflugvélum hefur fækkað úr átján í fjórar, svo dæmi séu nefnd. Það er mat mitt nú, og á grundvelli nýs samkomulags um framkvæmd varnarsamningsins að um frekari fækkun í liði Bandaríkjanna á Íslandi verði ekki að ræða. Í þessu samhengi er mikilvægt að árétta að þær breytingar er átt hafa sér stað í varnarstöðinni hafa átt sér stað að undangengnu samráði íslenskra og bandarískra stjórnvalda á grundvelli gagnkvæms varnarsamnings ríkjanna frá árinu 1951. Í því samhengi hafa íslensk stjórnvöld lagt höfuðáherslu á að tryggja lágmarksviðbúnað, stöðugleika og trúverðugar varnir. Einnig er ljóst að þrátt fyrir minni varnarbúnað nú en á dögum kalda stríðsins að þá er hernaðarlegt mikilvægi stöðvarinnar og Íslands engu síðra nú en áður. Við þekkjum dæmi sögunnar og vitum að skjótt skipast veður í lofti. Með skömmum fyrirvara gætu komið fram nýjar stjórnmálalegar forsendur er hefði í för með sér stigmögnun spennu og nýja hernaðarógn í okkar heimshluta. Ísland mun sem fyrr gegna mikilvægu hlutverki í vörnum Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi og á tímum átaka gegna lykilhlutverki það að tryggja örugga framkvæmd liðs og birgðaflutninga yfir Atlantshafið og á því sviði mun Ísland áfram gegna hlutverk brúarinnar milli bandamanna okkar í austri og vestri.

Nýtt samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framkvæmd bókunar við varnarsamninginn endurspeglar raunsætt mat beggja ríkja á ríkjandi aðstæðum og jafnframt aðlögun varnarstöðvarinnar að breyttu umhverfi. Í því eru ennfremur ákvæði sem ætlað er að tryggja stöðugleika í umsvifum varnarliðsins. Árið 1994 var undirrituð samkomulag til tveggja ára er reynst hefur farsælt og þjónað hagsmunum beggja ríkja og bandalagsþjóða okkar í Atlantshafsbandalaginu. Íslensk stjórnvöld lýsa nú sérstakri ánægju með lengri gildistíma samkomulagsins að þessu sinni, er tryggja mun öryggi Íslands og jafnvægi í atvinnumálum á Suðurnesjum fram á næstu öld.

Samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda, er nú liggur fyrir, felur í hnotskurn í sér eftirfarandi atriði:

Ítrekaðar eru skuldbindingar beggja ríkjanna um varnir Íslands á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og aðildar að Atlantshafsbandalaginu, og staðfest er áframhaldandi vera varnarliðs Bandaríkjanna í varnarstöðinni. Áréttað er áframhaldandi náið samstarf í öryggis- og varnarmálum, bæði tvíhliða og innan Atlantshafsbandalagsins.

Ákveðið er að varnarviðbúnaður verði óbreyttur frá því sem ákveðið var í bókun þjóðanna frá 4. janúar 1994. Í því felst meðal annars að aldrei verða færri en fjórar orrustuþotur staðsettar á Íslandi. Jafnframt er staðfest að rekstur þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins verður óbreyttur og mun hún veita sömu þjónustu og áður. Heræfingunni Norður-Víkingi verður framhaldið á tveggja ára fresti, með áherslu á að aðlaga varnarsveitir og varnaráætlanir fyrir Ísland sem best að ríkjandi aðstæðum hérlendis.

Áhersla er lögð á að áfram verði reynt að draga úr kostnaði vegna varnarstöðvarinnar og í því skyni verði áfram starfrækt nefnd háttsettra embættismanna sem hefur það hlutverk að gera tillögur um leiðir til þess að draga úr kostnaði vegna reksturs varnarstöðvarinnar.

Samkomulagið felur jafnframt í sér að staðfestur er ásetningur beggja ríkja um aðlögun
fyrirkomulags verktöku fyrir varnarliðið að breyttum aðstæðum. Ákveðið er að árið 1998
verði lokið athugun á reynslu af útboðum á framkvæmdum fyrir Mannvirkjasjóð
Atlantshafsbandalagsins og þjónustuverkefnum fyrir varnarliðið. Á grundvelli þeirrar athugunar
verða settar reglur um samkeppnisútboð fyrir byggingaframkvæmdir og viðhaldsverkefni á
vegum varnarliðsins. Gerir samkomulagið ráð fyrir því að eitt verkefni verði boðið út á
almennum markaði á grundvelli þeirra reglna árið 1999 og tvö verkefni árið 2000. Að því
loknu er gert ráð fyrir að verktaka á þessu sviði verði boðin út á almennum markaði í
áföngum, allt fram til janúarmánaðar árið 2004. Í þessu felst að einkaréttur Íslenskra
aðalverktaka og Keflavíkurverktaka á framkvæmdum fyrir varnarliðið verður því endanlega
afnuminn að öllu leyti í janúar árið 2004.

Gildistími samkomulagsins er til fimm ára, og geta samningar um endurskoðun þess hafist á fimmta ári gildistíma. Hinn langi gildistími samkomulagsins tryggir stöðugleika og treystir
farsælt varnarsamstarf ríkjanna fram á næstu öld.

Þegar hugað er að framtíðinni er hverju sinni mikilvægt að hafa í huga áunna reynslu af samskiptum okkar við Bandaríkin á sviði öryggis-og varnarmála frá lokum síðari heimsstyrjaldar og frá undirritun varnarsamningsins árið 1951. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta hafi verið farsæl reynsla er vel hafi þjónað hagsmunum beggja ríkja og bandamanna okkar í Atlantshafsbandalaginu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum