Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. apríl 1996 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp ráðherra við opnun Sænskra daga

17. apríl 1996

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra
við opnun "Sænskra daga"
í Kringlunni



Sendiherra Svíþjóðar, góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að opna sýninguna "sænskir dagar 96" og efast ég ekki um að margir munu leggja leið sína hingað þessa vordaga sem hún stendur yfir. Sænskar vörur eru vel þekktar og vinsælar á Íslandi, sem best kemur fram í því að höfnin í Gautaborg er orðin önnur stærsta höfn fyrir innflutning til Íslands. Hefð er fyrir mörgum vörum eins og hrökkbrauðinu, sem ég sé mér til sérstakrar ánægju að boðið er upp á. Sumt annað sem hér er kynnt eru nýmæli fyrir okkur en lítið hefur frést hingað af sænskri vínframleiðslu, þó að fernurnar frá Tetrapak séu okkur að góðu kunnar og langt síðan íslensk mjólk var sett í þessar umbúðir sem auðvelda alla mjólkurdreifingu að mun. Ósagt skal látið hver áhrif nýju umbúðanna á vínið kann að hafa.

Við trúum því að menningin sé besta landkynningin og örvi viðskiptin. Meðal þeirra dagskráratriða í dag sem vekja sérstaka athygli mína eru söngvar Bellmans en þeir eru margir til í frábærum þýðingum á íslensku. Svíar sem hingað koma og hlýða á fjöldasöng Íslendinga vekja oft máls á því að Íslendingar syngja mörg lög Bellmans í íslenskri þýðingu. söngurinn sem margir kunna "Úr þeli þráð að spinna" er t.d. kvæði Jóns Thoroddsens við lag eftir Bellman og þá má ekki síður nefna "Gamla Nóa" sem hvert mannsbarn á Íslandi þekkir, en Bellman samdi bæði lag og texta sem við syngjum í þýðingu Sigurðar Þórarinssonar. Sigurður Þórarinsson var einn þeirra fyrstu Íslendinga sem bjuggu í Svíþjóð á námsárum sínum og við heimkomu að námi loknu miðlaði hann ekki aðeins af fræðum sínum heldur hafði hann með sér perlurnar úr sænskri menningu í farteskinu.

Ég vona að sýningin SÆNSKIR DAGAR 96 verði til að efla enn frekar hin góðu samskipti Íslands og Svíþjóðar, en því má ekki gleyma að þó að vöruviðskiptin milli landanna séu ekki hlutfallslega mikil, þá eru þjónustuviðskiptin blómleg. Má nefna sem dæmi að um tuttugu þúsund sænskir ferðamenn koma hingað til lands árlega og sækja okkur heim allt árið um kring og ekki aðeins yfir hásumartímann. Mjög margir Íslendingar þekkja líka Svíþjóð eftir skemmri eða lengri tíma dvöl þar, en í engu landi eru jafnmargir Íslendingar búsettir utan heimalandsins.

Með þessum orðum opna ég hér með sýninguna SÆNSKIR DAGAR 96!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum