Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. febrúar 1997 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp ráðherra við opnun alþjóðlegs málþings um einkavæðingu

19. febrúar 1997

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra,
við opnun alþjóðlegs málþings um einkavæðingu,
haldið í Perlunni í Reykjavík

Virðulega samkoma,

Mér er það sérstök ánægja að ávarpa þetta málþing sem fjallar um mjög brýnt málefni. Einkavæðing er eitt þeirra málefna sem engin ríkisstjórn getur skorast undan að fjalla um. Ég er sannfærður um að reynslan í Tékklandi sem Vaclav Klaus, forsætisráðherra, mun deila með okkur hér í dag er afar mikilvæg og verður okkur öllum lærdómsrík. Alþjóðleg sjónarmið sem Alþjóðabankinn og Alþjóðalánastofnunin (IFC) hafa fram að færa eru og kærkomið og mikilvægt framlag til þessa málþings.

Einkaeignarréttur hefur um langt skeið verið snar þáttur í efnahagslífi þjóða víða um heim. Sú er og raunin hér á landi. Engu að síður var hugtakið (einkavæðing) lítt þekkt fyrir rúmum áratug eða svo. Á umliðnum árum hefur orðið bylting á þessu sviði í heiminum og um þessar mundir leitast flest iðnríki og þróunarlönd við að styrkja efnahagslíf sitt með því að stuðla að vexti arðbærra einkafyrirtækja.

Einkavæðing hefur átt sér stað um heim allan en róttækastar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa fram til þessa orðið eftir fall kommúnismans í AusturðEvrópu og í löndum Sovétríkjanna fyrrverandi.

Í flestum löndum hefur einkavæðing verið annað og meira en að eignir hins opinbera hafi flust til einkafyrirtækja. Hún hefur verið liður í víðtækum aðgerðum sem miða að því að skapa stöðugleika í efnahagslífi og aflétta höftum af mörgum sviðum þess. Þetta á til að mynda við um eftirlit, verðlag, viðskipti og fjármagnsmarkaðinn.

Ríkisstjórnir ýmissa landa hafa gert sér far um að endurskilgreina hlutverk ríkisvaldsins í efnahagslífinu og hvernig samskiptum ríkisvalds og einkafyrirtækja skuli háttað. Þær hafa meðal annars leitast við að draga úr því að fyrirtæki í ríkiseign fái aðgang að ríkissjóði, eða njóti tollverndar eða annars konar verndar fyrir vörur sínar, og lögverndar gagnvart keppinautum í einkageiranum.

Allt frá því að Íslendingar hlutu sjálfstæði hafa stjórnvöld leitast við að viðhalda góðu jafnvægi milli einkaframtaks og reksturs á vegum hins opinbera. Einkaframtakið hefur ávallt skipt sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf og hefur í raun verið drifkraftur hagvaxtar hér á landi á síðari árum.

Mörg íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum leitast við að treysta fjármagnsuppbyggingu sína og þannig búið sig undir að gegna enn stærra hlutverki í íslensku efnahagslífi. Líklegt má telja að sum íslensk fyrirtæki muni, áður en langt um líður, láta í té þjónustu og hefja rekstur sem fram til þessa hefur verið í höndum hins opinbera. Það má þó ekki leiþa til þess að þjónusta við almenning skerðist. Þvert á móti ætti þjónustan að batna og kostnaður við hana að minnka.

Ávinningur einkavæðingar

Það er nú viðtekin skoðun að einkavæðing geti orðið þjóðfélaginu til hagsbóta með margvíslegum hætti. Í þessu sambandi má nefna: betri frammistöðu fyrirtækja og aukna skilvirkni; þróun samkeppnisiðnaðar; nýjar vörur og tækni sem bæta þjónustu við neytendur og koma betur til móts við þarfir þeirra; skilvirkari stjórnun fyrirtækja; greiðari aðgang að fjármagni, þekkingu og mörkuðum sem stuðla að vexti; þróaðri fjármagnsmarkaði og sem mestan hagnað ríkisins af sölu ríkiseigna.

Einkavæðingin getur einnig gagnast til að ná öðrum mikilvægum pólitískum markmiðum, eins og að draga úr fjárlagahalla eða afla ríkissjóði tekna; stuðla að almennri hlutafjáreign; taka innlenda kaupendur fram yfir erlenda; tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja; halda uppi atvinnu og standa við aðrar félagslegar skuldbindingar.

Pólitískar hindranir

Auk efnahagslegs ávinnings sem einkavæðing getur haft í för með sér er ljóst að hún getur einnig haft pólitískar afleiðingar. Umbótasinnar þurfa oft að glíma við pólitískar hindranir af ýmsu tagi. Í mörgum löndum hafa neikvæðar pólitískar afleiðingar verið þrándur í götu umbóta. Meðal annars skýrir pólitískur óstöðugleiki og aðrir pólitískir þættir að miklu leyti hvers vegna mörg lönd samþykktu í upphafi þá stefnu sem þau fylgja, sér til óhagræðis.

Oft skapar íhaldssemi stjórnenda og starfsmanna í opinberum fyrirtækjum, sem eru óviðbúnir frjálsu markaðskerfi og óttast það, pólitíska hindrun í vegi einkavæðingar. Auk þess að stefna að skilvirkni og hraðari hagvexti setja stjórnvöld sér einnig oft önnur markmið. Sköpun atvinnutækifæra gegnir mikilvægu hlutverki í þessu sambandi og flestar ríkisstjórnir telja rétt að breyta tekjudreifingu til að skapa aukið réttlæti.

Markaðsbrestur og hlutverk ríkisins

En hvert á hlutverk ríkisins að vera í efnahagslífinu? John Maynard Keynes sagði eitt sinn: ,,mikilvægt er fyrir stjórnvöld að gera ekki það sem einstaklingar eru þegar byrjaðir á, og gera það örlítið betur eða verr, heldur að koma því í verk sem ekki er gert eins og sakir standa."

Fyrir utan augljósan efnahagslegan ávinning sem einkavæðing getur haft í för með sér skal ekki gert lítið úr mikilvægu hlutverki stjórnvalda við að skapa einkaframtakinu góð skilyrði og auka skilvirkni þar sem markaðir bregðast eða þeir virka ekki sem skyldi

Ekki ber að líta á afskipti stjórnvalda sem óæskileg í sjálfu sér. þvert á móti eru margs konar afskipti forsenda þess að hámarksárangur náist í efnahagsmálum. Stjórnvöld verða til dæmis að halda uppi lögum og reglu, vernda eignarrétt og samningsbundin samskipti, tryggja almenningsheill eins og landvarnir, fjárfesta í mannauði og vernda umhverfið. Á öllum þessum sviðum (og mörgum fleiri) "bregðast" markaðir og verða stjórnvöld þá að láta til sín taka.

Við verðum að horfast í augu við að frjáls markaður er stundum ófær um að láta tilteknar vörur og þjónustu í té eða gera það eins og best verður á kosið. Ef ekki kæmu til fjárframlög stjórnvalda til menntamála drægi úr tækniframförum og hagvöxtur minnkaði. Þetta stafar af því að einstaklingurinn nýtur aðeins hluta þeirra verðmæta sem menntun hans skapar og því hættir honum til að leggja minna til menntunar sinnar en ella.

Stjórnvöld kunna og að ákveða að sleppa ekki hendinni af eignum af öðrum ástæðum en efnahagslegum. Sem dæmi má nefna eignir sem eru þjóðfélagslega mikilvægar, eins og vegi og flugvelli.

Rétt væri að stjórnvöld í mörgum löndum beittu sér minna á sumum sviðum en meira á öðrum. Ríkið ætti að láta markaðslögmálin ráða þar sem því verður komið við, en grípa inn í með virkum hætti ella. Til að svo megi verða er oft nauðsynlegt að stíga ákveðnari skref í átt til frjáls markaðar, jafnframt því að skýra betur verkefni hins opinbera og gera opinberan rekstur skilvirkari. Nýlegar vísindalegar rannsóknir benda til þess að þetta sé öruggasta leiðin til aukinnar framleiðni, hærri tekna og varanlegrar efnahagsþróunar. Ef marka má stjórnvaldsaðgerðir að undanförnu, bæði í fjölmörgum iðnríkjum og þróunarlöndum, aðhyllast stjórnvöld einnig þessa skoðun.

En því má ekki gleyma að einnig eru ótal dæmi um misheppnuð afskipti stjórnvalda. Af þeim má draga þann lærdóm að hér ber að fara fram af fyllstu varúð. Markaðir bregðast en það á einnig við um ríkisstjórnir. Markaðsbrestur er ekki næg réttlæting fyrir ríkisafskiptum. Vissa verður að vera fyrir því að stjórnvöld geti gert betur en einkaframtakið. Í annarri innsetningarræðu sinni viðhafði Clinton Bandaríkjaforseti eftirfarandi orð: "Stjórnvöld eru ekki vandamálið og stjórnvöld eru heldur ekki lausnin". Það eru orð að sönnu. Okkur ber að rata meðalveginn þar sem ríkið skapar einkafyrirtækjunum hagstæð vaxtarskilyrði án of mikilla eða ónauðsynlegra afskipta.

Lokaorð

Mörg lönd hafa hrundið umfangsmiklum einkavæðingaráætlunum í framkvæmd og fleiri hyggjast fylgja í kjölfarið. Í einkavæðingu er þræddur meðalvegur milli efnahagslegra og pólitískra markmiða. Galdurinn felst í því að höndla efnahagslegan ávinning af einkavæðingu þjóðinni til hagsbóta og um leið afstýra félagslegum vanda sem kann að fylgja. Þegar allt kemur til alls er sameiginlegt markmið okkar að örva frekari efnahagsþróun með því að stuðla að vexti arðbærra einkafyrirtækja sem mun um síðir leggja grunn að enn frekari tekjuaukningu og velsæld í
löndum okkar.

Ég vil að lokum þakka þeim sem stóðu að undirbúningi þessa tímabæra og mikilsverða málþings fyrir að standa framúrskarandi vel að verki. Ég er þess fullviss að við munum öll læra og hafa mikið gagn af þeirri reynslu sem okkar virtu ræðumenn búa yfir. Ég er og þeirrar trúar að málþing þetta muni treysta enn frekar vináttubönd og góð samskipti sem ríkja þegar milli Tékklands og Íslands.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum