Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. október 1998 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp ráðherra við afhendingu minnisvarða að Hnjóti

Ávarp utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar
við afhendingu minnisvarða að Hnjóti, 3. október 1998

Ríkisstjórn Íslands ákvað að tillögu minni þann 24. apríl sl. að láta smíða og reisa minnisvarða hér við minjasafnið að Hnjóti til að minnast afreka íslenskra björgunarmanna við björgun innlendra og erlendra sjómanna úr sjávarháska og til minningar um þá sem ekki varð bjargað.
Við erum hér saman komin til að afhjúpa þennan minnisvarða og ég fagna að sjá svo marga við þessa athöfn. Það er fagnaðarefni að Fred Collins sem bjargað var úr togaranum Sargon er hann strandaði hér við Hafnarmúlann fyrir tæpum 50 árum, þá 16 ára piltur, er nú staddur hér ásamt konu sinni við þessa athöfn. - It gives me great pleasure to welcome here especially Mr. Fred Collins and his wife who have come here from their home in Great Britain to attend this ceremony. We are delighted to have them here among us as our guests.
Fáir hafa lýst umhverfi okkar með svo sönnum hætti sem Jón Magnússon skáld er hann orti:

Föðurland vort hálft er hafið
helgað margri feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Yfir logn og banabylgju
bjarmi skín af drottins náð.
Föðurland vort hálft er hafið
hetjulífi og dauða skráð.

Í upphafi Laxdælu er Íslandi lýst svo, að þar sé fiskastöð öllum misserum. Fréttir voru af góðum landskostum, hvalréttur mikill og laxveiðar. Þótt fátt segi af sjóslysum landnámsmanna er sagt frá því, að hver knörr hafi haft í togi svonefndan eftirbát í öryggisskyni. Sjóslysavarnir eru því hérlendis jafngamlar byggð landsins og er ekki að efa að barátta sjómanna þeirra tíma við óblíð náttúruöfl hefur verið hörð og er svo reyndar enn.
Að þekkja sjó og land, háttarlag fugla og fiska og kunna að greina skýjafar og veðrabrigði var hverjum sjómanni nauðsynleg þekking. Ákvörðun formanna sem byggð var á reynslu og hyggjuviti réði því hvort róið var eða haldið til lands eða í var. Um líf eða dauða var að tefla.
En landskostir Íslands löðuðu fleiri en Norðmenn hingað til lands. Englendingar voru fyrstir framandi þjóða til að nýta sér ómælisauð Íslands-miða og öðluðust í íslenskum veðraham reynslu til stórræða annars staðar á úthafinu. Um aldamótin 1500 er talið að Englendingar hafi átt á fimmta hundrað hafskip, en um hálft annað hundrað af þessum skipum hélt á hverju ári á Íslandsmið, versluðu hér og stunduðu fiskveiðar.
Ég læt þessa getið hér, því það fór ekki hjá því, að mörg þessara ensku skipa og skip annarra fiskveiðiþjóða er hér stunduðu veiðar lentu hér í sjávarháska og færust. Stundum varð mannbjörg, en oftar en ekki hafa sjómenn ekki átt afturhvarf til síns heima og hlotið vota sjávargröf.
Seinni tíma frásagnir af sjóslysum og björgunum hafa varðveist og urðu merk tímamót í íslenskri björgunarsögu er Slysavarnarfélag Íslands var stofnað árið 1928. Saga þess félags og annarra íslenskra björgunarmanna verður skráð gullnu letri í sögu Íslands því hetjuskapur og árangur íslenskra björgunarmanna innan félagsdeilda þess og utan, svo sem áhafna íslensku varðskipanna og þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar hefur verið einstakur. Má telja víst, að við Íslendingar séum þar síst eftirbátar annarra, heldur fremstir í flokki þeirra þjóða sem lagt hafa áherslu á að skipuleggja björgunarstörf sem best, jafnt á láði sem legi.
Orðstír íslenskra björgunarmanna hefur sennilega ekki borist víðar en þegar björgunardeildin Bræðrabandið í hinum forna Rauðasandshreppi bjargaði skipbrotsmönnum af breska togaranum Dhoon er hann strandaði við Látrabjarg í desember 1947. Kvikmyndin Björgunarafrekið við Látrabjarg fór víða um heim, en hana gerði Óskar Gíslason ljósmyndari fyrir nær fimmtíu árum er hann kvikmyndaði björgunaraðgerðir við strand togarans Sargon 1. desember 1948 hér undir Hafnarmúla. Þar tókst að bjarga fimm af sautján manna áhöfn togarans. Einn þeirra er þar bjargaðist var Fred Collins, 16 ára piltur sem, eins og ég sagði, er nú staddur hér í dag ásamt konu sinni við þessa athöfn. Er ekki að efa að hann hugsar með hlýhug til björgunarmanna sinna. Meðal þeirra var annar ungur maður, Egill Ólafsson að Hnjóti, sem nú er bóndi hér og safnstjóri þessa ágæta minjasafns sem varðveita mun minnisvarðann.
Margt hefur breyst síðan þessi atburður átti sér stað fyrir 50 árum síðan, en brimaldan brotnar sem fyrr þungt við Íslandsstrendur. Þjóðin er nú betur búin en nokkru sinni fyrr til að mæta boðaföllum og háska í orðsins fyllstu merkingu. Þar kemur til, eins og ég sagði áður, vel skipulagt starf og fórnfýsi og hetjulund þúsunda einstaklinga sem leggja á sig ómælt erfiði við æfingar og fjáröflunarstarf til að tryggja sem bestar slysavarnir og björgunarstörf.
Áður en ég afhjúpa þennan minnisvarða sem er áhrifamikið listaverk vil ég færa alúðarþakkir þeim sem unnið hafa hugmyndinni fylgi og nefni þá sérstaklega til safnstjórann hér að Hnjóti Egil Ólafsson. Þá ber að þakka Bjarna Jónssyni, hönnuði minnisvarðans, fyrir hans frábæru vinnu, þeim sem smíðuðu hann, Reyni Hjálmtýssyni framkvæmdastjóra í Vélsmiðjunni Orra, Ólafi Þorvarðarsyni smið og Kristni Egilssyni sem séð hefur um vinnu og frágang minnisvarðans hér að Hnjóti.
Um leið og ég afhjúpa minnismerkið afhendi ég það formanni héraðsnefndar Vestur-Barðastrandarsýslu Jóni B.G. Jónssyni héraðslækni.
Megi Guð blessa minningu látinna sjómanna og þeirra sem fórnað hafa lífi sínu við hetjuleg björgunarstörf.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum