Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. október 2000 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða ráðherra á ráðstefnu um landgrunnið og auðlindir þess

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra
á ráðstefnu um landgrunnið og auðlindir þess
í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík 13. október 2000



Hafréttarmál hafa skipað stóran sess hér á landi á undanförnum áratugum. Íslendingar voru sem kunnugt er meðal forystuþjóða í baráttu fyrir stækkun fiskveiðilögsögunnar og háðu nokkur þorskastríð í því skyni. Ísland tók virkan þátt í hafréttarráðstefnunum þremur og hafði þar mótandi áhrif.

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna, sem gerður var 10. desember 1982, er fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn á sviði hafréttar. Með honum voru settar eða staðfestar reglur um öll not hafsins og tekur hann til allra hafsvæða, þ.á m. loftrýmisins yfir þeim og hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Samningurinn fjallar m.a. um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið og alþjóðlega hafsbotn-inn, réttindi strandríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlinda-nýtingar, siglinga og flugs, verndun gegn mengun hafsins og lausn deilumála.

Ísland fullgilti hafréttarsamninginn 21. júní 1985, fyrst vestrænna ríkja. Samningurinn öðlaðist gildi 16. nóvember 1994 og eru aðildarríki hans nú 135 talsins. Með hafréttarsamningnum voru settar á laggirnar þrjár stofnanir sem nú hafa tekið til starfa: Alþjóðlegi hafréttardómurinn, Alþjóðahafsbotnsstofnunin og Landgrunnsnefndin. Hingað til hefur efnahagslögsagan og hinar lifandi auðlindir hafsins verið mest áberandi í umfjöllun um hafréttarmál. Með tilkomu tveggja síðastnefndu stofnan-anna má hins vegar búast við því að í framtíðinni muni áhersla á málefni hafsbotnsins aukast, bæði landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnsins. Fyrir strandríkið Ísland er það einkum landgrunnið sem hefur þýðingu.

Landgrunnsnefndin hefur sett sér starfsreglur og samþykkt vísinda-legar og tæknilegar viðmiðunarrreglur og er nú reiðubúin að taka við upplýsingum frá strandríkjum um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og gera tillögur þar að lútandi. Samkvæmt hafréttarsamningnum skulu strandríki almennt leggja upplýsingar um mörk landgrunns síns fyrir nefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins að því er viðkomandi ríki varðar. Ekkert ríki hefur enn lagt slíkar upplýsingar fyrir nefndina en alls munu um 30 ríki eiga rétt til landgrunns utan 200 sjómílna.

Frestur Íslands til þess að leggja upplýsingar fyrir Landgrunns-nefndina rennur út haustið 2004. Annars vegar er um að ræða landgrunnið til suðurs, þ.e. á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall svæðinu, og hins vegar landgrunnið til austurs, þ.e. í Síldarsmugunni. Ljóst er að mikið starf er framundan vegna þessa en m.a. þarf að yfirfara fyrirliggjandi gögn um mörk íslenska landgrunnsins, afla nýrra gagna, þar sem þörf er á, og ganga úr skugga um að gögnin séu í samræmi við hinar vísindalegu og tæknilegu viðmiðunarreglur Landgrunnsnefndarinnar. Starf þetta verður einkum í höndum utanríkisráðuneytisins og Orkustofnunar en aðrir aðilar munu einnig koma að því, m.a. Sjómælingar Íslands. Tryggja verður að þessir aðilar hafi bolmagn til þess að takast á við þetta mikil-væga verkefni með fullnægjandi hætti.

Rétt er að hafa í huga að á svæðum, sem tvö eða fleiri ríki gera tilkall til, eru valdi Landgrunnsnefndarinnar mikilvæg takmörk sett. Samkvæmt hafréttarsamningnum fara viðkomandi ríki sjálf með afmörkun landgrunns sín á milli og nefndin má ekki gera neitt sem hefur áhrif þar á. Hefur nefndin sjálf staðfest þetta í starfsreglum sínum.

Hatton Rockall svæðið er dæmi um svæði af þessu tagi, en fjögur ríki, Ísland, Danmörk f.h. Færeyja, Bretland og Írland, hafa gert tilkall til þess. Ljóst er annars vegar að aðilar þurfa að ná samkomulagi um skiptingu svæðisins sín á milli eða um að svæðið verði sameiginlegt nýtingarsvæði og hins vegar að nást þarf niðurstaða um afmörkun ytri marka landgrunnsins með hliðsjón af tillögum Landgrunnsnefndarinnar.

Við höfum talið tímabært að koma aftur á viðræðum milli aðila Hatton Rockall málsins til þess að endurmeta stöðu þess. Á fundi mínum með Robin Cook, utanríkisráðherra Bretlands, síðastliðinn vetur varð að samkomulagi að sérfræðingar landanna myndu hittast til að ræða málið. Viðræður þeirra fóru fram í London síðastliðið vor og voru þær að mínu mati afar gagnlegar. Aðilar komu sér saman um um að halda viðræðum áfram á haustmánuðum en báðir aðilar gera sér grein fyrir því að til þess að ná samkomulagi í málinu þurfa hinir tveir aðilarnir, Færeyjar og Írland, einnig að koma að því.

Hatton Rockall málið er býsna flókið og viðbúið að erfitt verði að finna lausn á því. Við munum hins vegar ekki láta okkar eftir liggja í því efni, enda er hætt við því að nái aðilar ekki samkomulagi muni kostnaðarsamar greinargerðir aðila til Landgrunnsnefndarinnar verða unnar fyrir gýg og hugsanlegar auðlindir á svæðinu liggja ónýttar í jörðu.


Góðir ráðstefnugestir.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, sem því miður getur ekki flutt ávarp hér í dag, hefur beðið mig að koma eftirfarandi á framfæri:

Í fyrsta lagi telur iðnaðarráðherra mikilvægt að Íslendingar skilgreini vel kröfugerð sína fyrir Landgrunnsnefndinni, enda eru svæði þar sem Íslendingar hafa gert tilkall til landgrunnsréttinda, t.d. Hatton Rockall svæðið, einna líklegust til að geyma olíu og gas í vinnanlegu magni. Það er því til mikils að vinna að vel verði búið að þeim aðilum sem leggja eiga upplýsingar fyrir Landgrunnsnefndina og bindur iðnaðarráðherra miklar vonir við að Íslendingar nái árangri í þessu mikilvæga máli.

Í öðru lagi telur iðnaðarráðherra nauðsynlegt að sett verði sérstök löggjöf hér á landi sem tekur til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi. Samkvæmt lögum nr. 73/1990, um eignarrétt ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, hefur ráðherra almenna heimild til þess að veita leyfi til nýtingar á öllum auðlindum hafsbotnsins, hverju nafni sem þær kunna að nefnast. Lögin geyma hins vegar engar efnisreglur um það hvernig veita skuli leyfi. Af viðræðum samráðsnefndar um landgrunns- og olíuleitarmál við erlend olíufyrrtæki er hins vegar ljóst að forsenda þess að fyrirtæki hefji olíuleit á íslensku landgrunni er sú að sett verði sérstök lög um þetta efni. Að mati iðnaðarráðherra er eðlilegt að réttarstaða olíufyrirtækja sé gerð skýr, sérstaklega þegar haft er í huga hversu kostnaðarfrek leit að olíu og gasi getur verið. Iðnaðarráðherra beitti sér í þessu skyni fyrir því síðastliðinn vetur að samið yrði frumvarp til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Frumvarpið hefur verið lagt fyrir ríkisstjórn og hlotið samþykki fyrir því að verða lagt fram á Alþingi sem stjórnarfrumvarp. Frumvarpið kemur til með að setja skýran lagaramma um það hver séu réttindi þeirra og skyldur þeirra sem óska eftir að leita að eða hefja vinnslu olíu eða gass.

Í þriðja lagi telur iðnaðarráðherra mikilvægt að huga að því, ef löggjöf um olíu- og gasleit hefur verið sett, hvernig við Íslendingar getum fengið erlenda aðila til þess að hefja leit að olíu eða gasi á landgrunni Íslands. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að leit að olíu og gasi er svo kostnaðaröm að varla er raunhæft að íslenska ríkið eða íslenskir aðilar standa fyrir leit að olíu og gasi á landgrunni Íslands. Það er hins vegar von iðnaðarráðherra að þessi ráðstefna og það lagafrumvarp, sem lagt hefur verið fram um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, geti markað upphafið að frekari leit að olíu og gasi á landgrunni Íslands.



Góðir ráðstefnugestir.

Tímabært er að efla umfjöllun um landgrunnsmál hér á landi en þau munu verða mjög í brennidepli á næstu árum. Ég tel því fagnaðar-efni að Hafréttarstofnun Íslands, sem komið var á fót á síðasta ári, skuli helga sína fyrstu ráðstefnu, sem haldin er í samstarfi við utanríkis-ráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin, landgrunninu og auðlind-um þess. Ég vona að ráðstefnugestir muni hafa bæði gagn og gaman af.

Finally, I would like to thank the speakers and guests from our neighbouring countries for coming to Iceland to take part in this Conference. I am sure we will all benefit from your participation.
_______________________


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum