Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. janúar 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

30. desember 2000 Við áramót. Ávarp Halldórs Ásgrímssonar

Við áramót. Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra, í Degi.


Heimurinn í dag er heimur sífelldra breytinga. Það sem var er ekki lengur, það sem er verður ekki og hvað verður er vandi að sjá og átta sig á. Ísland og Íslendingar hafa ekki farið og munu ekki fara varhluta af þessari þróun. Umhverfi okkar og við sjálf mótumst í sífellt auknum mæli af alþjóðasamfélaginu. Við lifum orðið í opnu samfélagi, gjörólíku því sem flest okkar ólust upp í, jafnvel þótt skammt sé um liðið.

"Þeim mun meiri Íslendingur - þeim mun meiri heimsborgari."

Ég heyrði um daginn einn okkar besta, ef ekki allra besta núlifandi rithöfund, Einar Má Guðmundsson, segja í sjónvarpsviðtali "þeim mun meiri Íslendingur - þeim mun meiri heimsborgari". Mér þóttu þetta merkileg orð og þau hafa vakið mig til umhugsunar. Um leið er ég þeim sammála. Sú menning sem við höfum hlotið í arf, sú náttúra sem við ölumst upp við, það umhverfi sem við mótumst af er það sem gerir okkur að Íslendingum. Einmitt þetta virðist um leið gera það að verkum að við náum árangri á alþjóðavísu, hvort sem litið er til menningar eða viðskipta. Saga okkar, umhverfi og menning hefur margt fram að færa sem höfðar ekki aðeins til okkar, heldur alls alþjóðasamfélagsins. Það að vera Íslendingur gefur margvísleg tækifæri sem við getum notfært okkur í breyttum heimi og jafnframt lagt mikið af mörkum til að bæta mannlíf og stuðla að framförum. Það að geta horft út fyrir sjóndeildarhringinn, notið þess og nýtt það sem alþjóðasamfélagið býður okkur, en ekki síður auðgað það með anda okkar og atorku, gerir það að verkum að við erum hvort tveggja í senn, Íslendingar og heimsborgarar.

Alþjóðavæðing - opið samfélag

Um leið og okkur gefast ótal tækifæri með opnun samfélagsins, aukinni alþjóðavæðingu og öllum þeim breytingum sem heimurinn er að ganga í gegnum, sakna margir gamalla tíma. Sakna þess sem liðið er og vildu helst hverfa ár eða áratugi aftur í tímann. Að sumu leyti tilheyri ég þessum hópi. Ég sakna margs úr fortíðinni, ekki síst frá uppvaxtarárunum. Ég lít svo á að það hafi verið ákveðin forréttindi að fá að vaxa upp í þeim einfaldleika sem einkenndi íslenskt samfélag á árum áður. Þar sem fátt virtist flókið, nálægðin meiri, höfuðborgin langt í burtu, útlönd nánast óviðkomandi. Samfélagið samanstóð af fáeinum hundruðum manna og kvenna, sem stóðu saman í þrengingum og glöddust saman þegar það átti við. Þetta var á þeim tíma að menn tóku höndum saman um atvinnureksturinn í samvinnufélagi. Það sá um að koma framleiðsluvörum á markað og að nokkru leyti um samfélagsþjónustuna. Lífið var einfalt og byggðist í ríkum mæli á persónulegum samskiptum. Allir þekktu alla og "truflun að utan" var fátíð.
Að sumu leyti væri ósköp þægilegt að geta horfið aftur til þessa tíma en að öðru leyti ekki. Það sem fyrir liggur er hins vegar að það er ómögulegt. Við snúum ekki til baka tímans hjóli, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við búum við breyttar aðstæður, breytt umhverfi, breytt samfélag, ný tækifæri. Við búum í opnu samfélagi þar sem landamæri verða sífellt óskýrari, þar sem vegalengdir skipta æ minna máli og þar sem hraði, þekking og kunnátta leika lykilhlutverk í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.
Auðvitað hafa þær breytingar sem við höfum á undanförnum árum og áratugum gengið í gegnum ekki verið sársaukalausar. En þær hafa, svo ekki verður um villst, skilað okkur fram á veg. Við erum fullgildir meðlimir í samfélagi þjóðanna. Við búum í landi allsnægta og friðar. Óvíða á byggðu bóli eru lífskjör jafn góð og hér. Atvinna er hér næg, flestir hafa sem betur fer nóg að bíta og brenna, mengun er með því minnsta sem þekkist í heiminum og okkur hefur tekist að byggja upp samfélag sem byggir á félagslegum jöfnuði og jafnræði þegnanna.

Framþróun kemur ekki af sjálfu sér

Við höfum ekki náð þessum árangri með hendur í skauti. Við höfum náð honum vegna þess að við höfum haft þekkingu, getu, kraft og þor til að nýta okkur tækifærin þegar þau hafa gefist. Þau tækifæri hafa ekki síst falist í þátttöku okkar í samfélagi þjóðanna, - í þeirri alþjóðavæðingu sem orðið hefur á þessari öld.
Ég er raunar þeirrar skoðunar að okkur hafi, með þeirri þátttöku, tekist að verja fullveldi okkar og sjálfstæði, samfara því að byggja upp eitthvert eftirsóknarverðasta þjóðfélag í heimi. Það er hægt að taka ótal dæmi þessu máli mínu til stuðnings og ég nefni nokkur af handahófi.
Þátttaka okkar í norrænu samstarfi hefur lagt grunninn að framsæknu félagslegu öryggiskerfi, öflugri neytendavernd og virkri samkeppni.
Þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu á ríkan þátt í því að á Ísland ríkir friður og að við getum haft og höfum haft áhrif á öryggismál heimsbyggðarinnar.
Þátttaka okkar í GATT og síðar WTO hefur tryggt samkeppnisstöðu okkar á alþjóðavettvangi viðskipta og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur opnað okkur haftalítinn aðgang að mikilvægasta útflutningsmarkaði okkar.
Um allar þessar aðgerðir hafa staðið deilur hér á landi. Í öllum tilvikum hafa verið uppi háværar raddir sem hafa viljað viðhalda óbreyttu ástandi og halda í gamalt horf. Þær hafa sem betur fer ekki fengið að ráða. Ég segi sem betur fer því ég tel að raunverulega sé ekkert til sem heitir kyrrstaða. Ég tel að annað hvort færumst við fram eða aftur. Ég tel að með þeim ákvörðunum sem við höfum tekið, um fulla þátttöku í alþjóðasamfélaginu, höfum við tryggt framþróun í lífskjörum þjóðarinnar sem annars, ef ekkert hefði verið að gert, hefði birst í hnignun.

Hvar viljum við vera?

En hvaða áhrif hefur hið opna samfélag og aukin alþjóðavæðing á líf okkar til framtíðar? Hvaða tengingar viljum við og þurfum við að hafa við löndin í kringum okkur, ekki síst í Evrópu? Við erum hluti af Evrópu við erum þátttakendur á innri markaði hennar Það er skylda okkar við komandi kynslóðir að við ígrundum og reynum að átta okkur á hvernig við tryggjum best hagsmuni þjóðarinnar til framtíðar. Sömuleiðis er það skylda okkar að taka þær ákvarðanir í þessu sambandi sem við teljum að muni gera hvort tveggja, skila þjóðinni fram til aukinnar hagsældar og bættra lífskjara en um leið tryggja fullveldi okkar og áhrif á það umhverfi sem við lifum í og þær aðstæður sem við búum við.

Eftirlit með markaðsöflunum

En það er vandasamt að taka þátt í þeirri þjóðfélagsbreytingu sem við erum vitni að og þátttakendur í. Um leið og við erum í auknum mæli þátttakendur í alþjóðasamfélagi og á alþjóðamarkaði, eykst samkeppni á okkar litla markaði hér innanlands. Samfara því vegur æ þyngra gildi þess að sú samkeppni sé virk og heilbrigð. Um leið verðum við að krefjast aukins eftirlits með að svo sé. Við verðum að standa vörð um raunverulega samkeppni og berjast gegn fákeppni og einokun. Yfirtaka samkeppnisreglna Evrópska efnahagssvæðisins hefur haft meiri áhrif á íslenskt samfélag en menn hafa viðurkennt og gert sér grein fyrir. Við erum ekki lengur eyland, í þeim skilningi og þurfum því virkt eftirlit á borð við það sem Samkeppnisstofnun er ætlað að veita. Með nýjum samkeppnislögum eru gerðar ríkari kröfur, til fyrirtæka og ríkisvalds en áður var og það er vel.
Við megum ekki gleyma því að um leið og það verður að viðurkennast að kapítalismi hefur borið sigurorð af t.d. kommúnisma og fleiri andstæðum kenningum, hljótum við að horfast í augu við að óheftur kapítalismi er ekki ekki það umhverfi sem við kjósum eða sættum okkur við.

Aldrei óheftan kapítalisma

Um leið og við viðurkennum að ákveðnar greinar ríkisrekstrarins eru fullt eins vel komnar, eða jafnvel betur, í höndum einkaaðila, verðum við að tryggja að einkaaðilum séu ekki færð óeðlileg völd eða aðstaða til einokunar. Við verðum líka að gera greinarmun á eðli ríkisrekstrarins, þegar við ræðum um sölu ríkiseigna og einkavæðingu.
Mér finnst fátt mæla á móti því en flest með, að ríkið dragi sig út úr þjónustu á fjármálamarkaði og eftirláti einkaaðilum eða samtökum þeirra hana. Mér finnst sama máli gegna um rekstur fjarskiptaþjónustu á borð við símann. Mér er hins vegar ekki sama hvernig það er gert. Mér finnst ekki mega koma til einokunar á þessum sviðum og ég tel að við verðum að tryggja að þjóðin öll geti notið þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er á sambærilegu verði.

Stöndum vörð um velferðarkerfið

Þegar kemur að hugmyndum um einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfi gegnir allt öðru máli. Ég dreg skýr mörk milli þess sem teljast má hreinn atvinnurekstur í mikilli og opinni alþjóðlegri samkeppni á borð við þann sem fyrr var lýst, og hins sem er rekstur velferðarkerfis og samfélagsþjónustu. Hvað atvinnureksturinn varðar gilda sjónarmið frjálsrar samkeppni og lögmál markaðar en velferðarkerfið má aldrei verða selt undir hagnaðarsjónarmiðið. Um velferðarkerfið gilda sjónarmið mannúðar og samhjálpar. Það hefur ríkt sátt um velferðarkerfið á Íslandi og þótt á hverjum tíma megi deila um hvort hagræða þurfi á einstökum sviðum þess eða þörf sé aukingar á öðrum, tel ég að grundvallarhugsunin sem byggir á tekju- og lífskjarajöfnun, samfélagshjálp og mannúð, standi óhögguð.
Það er á þessum grundvelli sem ég tel að ríkt hafi nokkuð almenn samstaða um það í íslensku samfélagi, undanfarna áratugi, raunar allan lýðveldistímann og jafnvel lengur, að þeir sem bágust hafi kjörin njóti meiri aðstoðar samfélagsins en hinir, sem meira hafa. Þess vegna tel ég að nýfallinn dómur Hæstaréttar um afnám tengingar örorkubóta við tekjur maka hafi komið mörgum á óvart. Það tjóir hins vegar ekki að deila við dóminn, hann hefur fellt sinn úrskurð. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að greiddar verði út bætur á nýjum grundvelli, svo fljótt sem auðið er. Ég tel að með því liggi fyrir að leiðréttar bætur til þeirra sem dómurinn tekur til verði þar með greiddar út hið allra fyrsta. Hvað varðar aðra þætti sem dómurinn kann að hafa áhrif á er of fljótt að kveða upp úr með.

Litið um öxl

Um áramót lítum við gjarnan yfir farinn veg og gerum upp árið. Mér finnst við geta horft með ánægju og jafnvel stolti til þess árangurs sem náðst hefur á því ári sem nú er senn liðið. Margt hefur áunnist, við höfum að mínu viti þokast áfram í átt til betri lífskjara.
Hvort heldur litið er til afkomu ríkissjóðs, byggðamála, uppbyggingar atvinnulífsins eða eflingar velferðarkerfisins tel ég góðum áföngum hafa verið náð:

Fjölskyldan - hornsteinn samfélagsins

Okkur hefur á sama tíma tekist að gera betur en viðhalda velferðarkerfinu, við höfum styrkt það til muna, ekki síst stoðir fjölskyldunnar. Ef ég nefni nokkur dæmi um árangur á því sviði, sem við framsóknarmenn hétum að beita okkur fyrir í síðustu kosningum, má nefna að við höfum stóraukið framlög til barnabóta og gert breytingar á því kerfi sem ég tel að hafi verið nauðsynlegar. Við höfum þannig hækkað frítekjumark barnabóta, dregið úr eignatengingu og tryggt fyrsta áfanga ótekjutengdra barnabóta, sem við höfum kallað "Barnakort".
Við höfum tryggt aukinn rétt foreldra til fæðingarorlofs, bæði karla og kvenna, þannig að eftir er tekið víða um heim. Sjálfstæður réttur karla til fæðingarorlofs er nú í fyrsta sinn tryggður og sameiginlegur réttur foreldra þannig aukinn til muna. Auk þess hefur verið komið á svokölluðu foreldraorlofi sem tryggir foreldrum rétt til samvista við börn sín og þar með frí frá vinnu, án þess að gengið sé á önnur orlofsréttindi þeirra á móti.

Baráttan við sölumenn dauðans

Að síðustu nefni ég sem dæmi að við höfum sannarlega tekið til hendinni þegar kemur vörnum gegn fíkniefnavánni. Framlög til þess málaflokks hafa verið stóraukin enda sjást þess merki á öflugra forvarnastarfi, stórauknum árangri hvað varðar haldlagningu efna og síðast en ekki síst kröftugri starfsemi á meðferðarsviðinu, ekki síst hvað varðar börn og unglinga. Við sögðumst ætla að ráðast til atlögu við sölumenn dauðans og verja til þess umtalsverðum fjármunum. Það höfum við gert og það munum við áfram gera.
Á sama tíma og við höfum þannig styrkt velferðarkerfið með margvíslegum hætti hefur okkur tekist að auka hér hagvöxt og efla kaupmátt, meira en dæmi eru um hér á landi um svo langt, samfellt skeið.

Nægt framboð atvinnu

Okkur hefur að auki tekist að viðhalda nægri atvinnu fyrir fólkið í landinu, sem í mínum huga er eitt mikilvægasta atriðið lífshamingju fólks. Þetta hefur ekki síst orðið fyrir uppbyggingu fyrirtækja sem haslað hafa sér völl, í nokkurri andstöðu við stjórnarandstöðuna í landinu og ég leyfi mér að segja, mikinn minnihluta þjóðarinnar. Þessi fyrirtæki munu vonandi ekki missa móðinn heldur halda uppbyggingunni áfram og sem betur fer er allt útlit fyrir að áfram takist að aukna fjölbreytni atvinnulífsins og verðmætasköpun þess á komandi ári. Fyrirtæki í líftækniiðnaði, í orkufrekum iðnaði og fiskeldi, svo nokkur séu nefnd, hafa uppi stórkostleg áform um mikla atvinnuuppbyggingu á næstu misserum. Sú uppbygging mun ekki síst eiga sér stað á landsbyggðinni ef svo fer sem horfir. Við erum byrjuð að sjá teikn um vaxandi umsvif t.d. Íslenskrar erfðagreiningar á landsbyggðinni, við heyrum af áformum um fiskeldi á Austurlandi og víðar, við sjáum góða og vaxandi möguleika þess að byggt verði álver í þeim sama fjórðungi með tilheyrandi virkjunum og þannig mætti áfram telja. Við getum því áfram búist við uppgangi í atvinnulífinu og þar með bættum lífskjörum fólksins í landinu.

Þróun byggðar

Sú ánægjulega þróun hefur orðið á þessu ári að nokkur fólksfjölgun hefur orðið víða á landsbyggðinni, þótt ekki sé hún í þeim mæli sem mörg okkar vildu og hennar sjást heldur ekki alls staðar merki, því miður. Ég trúi því þó að við séum á réttri leið hvað aðgerðir ríkisvaldsins varðar og að á næstu misserum megi takast að laða fleira fólk til búsetu á landsbyggðinni. Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur gert til að treysta byggð í landinu má nefna fjölmörg verkefni sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bæta samgöngur, m.a. jarðgangaáætlun. Slíkar bætur gera ekki einungis íbúum viðkomandi svæða lífið léttara heldur skjóta stoðum undir atvinnulíf, s.s. ferðaþjónustu og framleiðslu sem þarf á tryggum leiðum að halda til að afla aðfanga og koma framleiðslunni á markað. Við höfum einnig lagt umtalsverðar fjárhæðir til jöfnunar húshitunarkostnaðar og námskostnaðar, en hvort tveggja getur haft úrslitaáhrif þegar kemur að ákvörðun fólks um búsetu. Fleira mætti týna til á borð við aukna fjármuni til sauðfjárræktar.
Við höfum sömuleiðis tryggt sveitarfélögunum í landinu auknar tekjur í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga að ógleymdum breytingum á gjaldstofni vegna fasteignagjalda sem koma öllum þeim sem á landsbyggðinni búa til góða, með beinum hætti. Til framtíðar tel ég að mestu máli skipti að tryggja fólki á landsbyggðinni fjölbreytt atvinnutækifæri ásamt tækifærum til menntunar og aðgang að öflugri heilbrigðisþjónustu. Endurskipulögð Byggðastofnun á að mínu mati að gegna lykilhlutverki hvað varðar stefnumótun og nýjungar á þessu sviði og flutningur hennar til Sauðárkróks, ásamt auknum fjármunum til byggðamála, á að gefa stofnuninni þann kraft og það umhverfi sem hún þarf á að halda. Hún á að vera í fararbroddi við uppbyggingu landsbyggðarinnar og auðvelda íbúum þar notkun nýrrar tækni.
Þar tel ég raunar að lykillinn að framförum á landsbyggðinni liggi - í nýrri tækni, upplýsingatækninni. Við sjáum hvað hún skapar stórkostleg tækifæri á sviði menntamála, t.d. með námsframboði Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands við íbúa landsbyggðarinnar í samvinnu við heimamenn og samtök þeirra, svo dæmi séu tekin. Þannig geta Íslendingar nú stundað fullgilt háskólanám heiman frá sér með þessari stórkostlegu tækni. Við sjáum fyrirhugaða uppbyggingu Íslenskrar erfðagreiningar á Akureyri og víðar um land og þannig mætti áfram telja. Við þurfum hins vegar einnig að hyggja að nýtingu nátttúruauðlindanna og þess vegna er áfram lögð áhersla á uppbyggingu stóriðju á Austurlandi en einnig fiskeldi, svo dæmi séu tekin.

Fólk í fyrirrúmi

Kæri lesandi. Um leið og ég óska þér og þínum, sem og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári vil ég ítreka það sem ég hef áður sagt í þessari grein: Opið samfélag má ekki þýða óheftan kapítalisma, við viljum, eigum og verðum að standa vörð um félagsleg gildi í samfélaginu. Um það getum við tekið höndum saman, til þess verks erum við reiðubúin. Framsóknarflokkurinn er, hefur alltaf verið og mun alltaf verða, flokkur sem setur manngildið ofar auðgildinu. Við höfnum öfgum, við setjum fólk í fyrirrúm.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum