Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. mars 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ísland og hnattvæðingin - Ræða ráðherra um utanríkismál á Alþingi

Ræða utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi, 29. mars 2001.


ÍSLAND OG HNATTVÆÐINGIN
Hr. forseti.

Í yfirlitsræðu minni um utanríkismál fyrir ári beindi ég einkum augum að samrunaþróuninni í Evrópu og tengingu Íslands við hana. Með því vildi ég hvetja til umræðna hér á Alþingi um þessa veigamestu hlið íslenskra utanríkismála. Að þessu sinni vil ég nota tækifærið til að ræða ferli sem ristir enn dýpra en samrunaþróunin í Evrópu. Hér á ég við þróun sem ýmist er kennd við alþjóðavæðingu eða hnattvæðingu. Þessi þróun mótar nú þegar með einum eða öðrum hætti flest stærri viðfangsefni okkar í ríkisstjórn og á Alþingi. Eins og með Evrópumálin í fyrra geri ég þetta að sérstöku umtalsefni hér á Alþingi í þeim tilgangi að hvetja til umræðna um málefni sem mun hafa úrslitaþýðingu fyrir þróun íslensks samfélags á komandi árum. (Við ræðum daglega ýmsa anga þessa fjölþætta máls en því miður gefst sjaldan tækifæri hér á Alþingi til þess að líta yfir sviðið og gera tilraun til að meta þær byltingarkenndu breytingar sem hnattvæðingin hefur í för með sér á nánast öllum sviðum okkar samfélags).

Byltingarkenndar breytingar
Á sínum tíma skipaði ég starfshóp til þess að huga að framtíð Íslands með tilliti til alþjóðavæðingarinnar. Ég bað um að málið yrði kannað með sérstakri áherslu á nauðsynlega þróun efnahagsumgjarðar fyrir íslenskt atvinnulíf. Nefndin skilaði skýrslu sem utanríkisráðuneytið gaf út fyrir röskum tveimur árum. Þegar nefndin var skipuð horfði svo við að þrátt fyrir aukinn þrótt atvinnulífsins og verulegan vöxt í efnahagslífinu um nokkurra missira skeið var það áhyggjuefni að Ísland var eftirbátur nálægra ríkja hvað varðaði alþjóðavæðingu viðskiptalífsins. Síðan hefur margt breyst. Íslensk fyrirtæki hafa sótt fram á alþjóðavettvangi með vaxandi þrótti, og íslenskt atvinnulíf er nú um margt betur búið til að nýta sér hin fjölmörgu tækifæri sem hnattvæðingin hefur skapað víða um heim. Afstaða manna hefur líka verið að breytast. Almennur skilningur er nú á því að framtíð okkar sé mjög undir því komin að við keppum af fullum þrótti á alþjóðlegum vettvangi.

Á því er enginn vafi að við lifum nú eina af hinum stóru byltingum mannkynssögunnar. Umfang og dýpt þeirra breytinga sem nú eiga sér stað er erfitt að ýkja. Þess vegna er nauðsynlegt að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast á alþjóðavettvangi og verjast þeim hættum sem þar kunna að leynast. Þegar aðstæðurnar breytast með jafn örum og róttækum hætti þurfum við sífellt að endurmeta stöðu okkar. Það þýðir hins vegar ekki að kasta þurfi fyrir róða gömlum gildum og hugsjónum. Þvert á móti er nauðsynlegt að byggja aðlögun okkar að nýjum raunveruleika á traustum undirstöðum menningar okkar og menntunar. Allar byggingar þarf að reisa á traustum grunni og á það einnig við um framtíð okkar í hnattvæddum heimi.

Stundum er sagt að við eigum ekkert val og að í reynd sé megineinkenni hnattvæðingar að valfrelsi einstakra ríkja um eigin mál fari sífellt þverrandi. Í því er ákveðinn sannleika að finna en um leið ákveðinn misskilning. Um leið og hnattvæðingin kallar á minni afskipti ríkisvalds og opnun landamæra, þá kallar hún sumpart á sterkari ríki. Hnattvæðingin gerir auknar kröfur til stjórnvalda um farsælar, almennar og gagnsæjar reglur á fjölmörgum sviðum viðskipta og þjóðfélagsmála, sem stjórnvöld hafi burði til að fylgja eftir af fullri einurð og sanngirni.

Alþjóðakerfið byggist á samstarfi sjálfstæðra, fullvalda þjóðríkja, ekki á yfirþjóðlegu valdi. Þegar ríki hafa með sér samvinnu með það að markmiði að auka farsæld allra sýnist sumum að þau missi vald og forræði í eigin málum. En til hvers er óskorað vald og forræði ríkja ef það skerðir möguleika íbúa þeirra til framfara? Skuldbindandi samstarf þjóðríkja er forsenda fyrir eflingu markaðsbúskapar og aukinni hagsæld. Það þarf öflug þjóðríki og skipulegt samstarf þeirra á milli til að setja viðeigandi umferðarreglur og framfylgja þeim til að tryggja að markaðsbúskapurinn geti blómstrað á heimsvísu. Fyrirtækjum eða ríkjum má ekki mismuna að ástæðulausu og skilja þjóðir eftir í fátækt og umhverfið í ólestri.

Um leið og sú vernd sem áður mátti finna í fjarlægðum og höftum á samskipti og viðskipti fellur burt verða stjórnvöld að sjá til þess að þau almennu skilyrði sem við búum atvinnulífi okkar og þjóðlífi séu eins góð og nokkur kostur er og samkeppnisfær við það sem önnur ríki búa við. Mistök í þeim efnum geta orðið dýrkeypt. Ríki geta farið ólíkar leiðir að því marki. Þannig hafa ríki með mjög ólíkar þjóðfélagsgerðir og áherslur í samfélagsmálum náð miklum árangri. Við þurfum ekki annað en að líta til Norðurlanda annars vegar og ríkja Asíu og Ameríku hins vegar til að sjá að hnattvæðingin krefst ekki sömu lausna alls staðar.

Það er misskilningur á eðli hnattvæðingar að líta svo á að með henni dragi úr mikilvægi stjórnmála og hlutverki þjóðríkisins. En hlutverk þjóðríkisins er að breytast og skilningur stjórnmálamanna og annarra á þeim breytingum er forsenda skynsamlegra viðbragða. (Það er með allt þetta í huga sem ég vil með þessari yfirlitsræðu um íslensk utanríkismál hvetja til umræðna hér á Alþingi um þá margvíslegu og byltingarkenndu þróun sem einu nafni er nefnd alþjóðavæðing eða hnattvæðing).

Alþjóðavæðing atvinnulífsins
Fyrir fáeinum missirum var íslenskt atvinnulíf nokkuð á eftir atvinnulífi margra nálægra landa í alþjóðavæðingu. Margt hafði þó verið gert til að búa í haginn fyrir alþjóðavæðingu atvinnulífsins og hefur það starf haldið áfram.

Ein helsta undirstaða þessara aðgerða var, og er, aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Umfram það hafa stjórnvöld skapað skilyrði fyrir alþjóðavæðingu atvinnulífsins með breytingum á fjármagnsmarkaði, í skattamálum, samkeppnismálum og í fleiri greinum. Á síðustu árum hefur mikilvægur þáttur í þessari stefnu verið efling utanríkisþjónustunnar og aðstoðar hennar við íslensk fyrirtæki. Á þessu ári verða tvö ný íslensk sendiráð opnuð í mikilvægum viðskiptalöndum okkar, Kanada og Japan.

Útrás íslenskra fyrirtækja hefur verið umfangsmikil síðustu ár. Þar hafa menn oft rekið sig á, sumt hefur mistekist, en fleira hefur tekist og sumt með ólíkindum vel. Nokkur fyrirtæki í okkar smáa atvinnulífi eru nú orðin leiðandi í heiminum á þeim sviðum sem þau hafa valið sér. Enn fleiri standa sig vel í samkeppni á alþjóðavísu innan stórra atvinnugreina. Bein fjárfesting íslenskra fyrirtækja erlendis, sem fyrir fáum árum var aðeins tíundi hluti þess sem algengt var í ríkjum OECD, hefur margfaldast á nokkrum árum.
Nú vinna um 11 þúsund starfsmenn hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis, sem er þreföldun á fimm árum. Í eina tíð hefði vafalítið verið fundið að þessari þróun og sagt að það væri ekki hlutverk íslenskra fyrirtækja að sjá útlendingum fyrir atvinnu. Þessi sjónarmið hafa breyst og nú sjá flestir þetta sem tákn um styrk. Útvegsfyrirtæki í eigu Íslendinga stunda nú veiðar við strendur flestra heimsálfa og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki selja framleiðslu sína um víða veröld í gegnum öflug markaðsnet sem þau hafa byggt á heimsvísu.

Árangur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja undirstrikar þau sannindi hnattvæðingarinnar að þau fyrirtæki sem ná bestum árangri á alþjóðavísu eru oftar en ekki þau sem byggja á sterkri stöðu heima fyrir. Hnattvæðingin krefst þess ekki að við förum að vinna við nýja hluti sem við þekktum ekki áður, heldur snýst hún þvert á móti um að sá geri hlutina sem kann þá best. Sú þekking sem er til í landinu er því grunnur að árangri á alþjóðavísu.

Um leið er það fagnaðarefni að Íslendingum hefur tekist að tileinka sér og nýta verðmæta þekkingu á sviði tæknivæddustu atvinnugreina samtímans. Þessar greinar byggjast yfirleitt ekki á nýtingu náttúruauðlinda. Auðlindir okkar gáfu ákveðið forskot sem við höfum borið gæfu til að nýta. Í hinum nýju greinum atvinnulífsins höfum við náð frumkvæði með öðrum hætti, svo sem á sviði tölvutækni, hugbúnaðargerðar, líftækni, matvælatækni og erfðavísindum. Ýmislegt í menningu okkar, menntun og hugarfari virðist falla vel að þeim kröfum sem frumkvöðlar á þessu sviði þurfa að uppfylla og slíkt framtak byggir einnig á eldri sérþekkingu. Gamlar hömlur sem lega landsins hefur sett íslensku atvinnulífi eru í litlum mæli fyrir hendi í þessum nýju greinum. Þá má einnig virkja og styrkja þessa vaxtarbrodda efnahagslífsins með skynsamlegri stefnu stjórnvalda.

Samkeppni um fólk og fyrirtæki
Um leið og við getum glaðst yfir frábærum árangri margra íslenskra fyrirtækja erlendis þurfum við að tryggja þeim aðlaðandi starfsskilyrði heima fyrir. Við verðum að vinna að því af fullri einurð að halda þessum fyrirtækjum hér á Íslandi, því annars kunna tengslin við arðbærasta hluta starfsemi þeirra að rofna. Þeir sem best standa sig eiga allra kosta völ í heiminum. Við þurfum að huga að því í auknum mæli hvernig umhverfi við getum boðið þeim sem alls staðar eru velkomnir.

Þetta á við um bæði fólk og fyrirtæki. Íslendingar eiga það flestir sammerkt að vera tengdir landi sínu sterkum böndum. En öflug íslensk fyrirtæki og sífellt fleiri Íslendingar eru boðnir velkomnir víða um heim. Fyrirtæki og stofnanir víða um lönd leita hvarvetna að sérþekkingu og vel menntuðu vinnuafli, og fólk losnar í vaxandi mæli úr tengslum við sín heimalönd.

Um leið og íslensk fyrirtæki ná árangri erlendis og fleiri einstaklingar afla sér aukinnar menntunar og þekkingar á viðfangsefnum sem eru í eðli sínu alþjóðleg, viljum við halda sem mestum tengslum við fólkið okkar, við fyrirtækin okkar og viljum þátttöku þeirra í íslensku þjóðfélagi. Eitt af því sem við þurfum jafnframt að huga að er hvernig við getum aukið erlenda fjárfestingu á Íslandi, ekki síst á fleiri sviðum en hingað til. Um leið og íslenskt atvinnulíf hefur af miklum þrótti leitað uppi tækifæri erlendis sem koma okkur til góða hér heima, hefur á það skort að erlend fyrirtæki leiti hingað til lands. Aukin erlend fjárfesting er okkur nauðsynleg af mörgum ástæðum. Hún eykur fjölbreytni atvinnulífsins, skapar ný atvinnutækifæri hér heima og eykur velmegun.

Erlend fjárfesting á Íslandi og íslensk fjárfesting erlendis eru því tvær hliðar á sama máli. Hvoru tveggja stuðlar að nýtingu þeirra tækifæra sem hnattvæðingin felur í sér, hvoru tveggja er forsenda velmegunar á næstu árum, og hvoru tveggja stuðlar að því að það geti farið saman að fólkið okkar verði sem gjaldgengast í veröldinni, en geti um leið með sem auðveldustum hætti valið Ísland sem sitt heimaland.

Byggðamál
Við viljum líka að fólk hafi sem mest og raunverulegast val um það hvar á Íslandi það býr. Í þeim efnum er mikil tækifæri að finna í hnattvæðingunni, gagnstætt því sem stundum er haldið fram. Það er ekki eðli hnattvæðingarinnar að allir safnist saman á einn stað. Þvert á móti. Mikilvægi fjarlægða hefur minnkað og möguleikar til samskipta hafa aukist. Það skiptir æ minna máli hvar vörur eru framleiddar heldur að þær séu framleiddar þar sem það er hagkvæmast og af þeim sem best kunna til verka. Einkenni hnattvæðingar lúta einnig að því að opna möguleika til dreifðrar búsetu.

En eins og með margt annað sem ég hef nefnt hér á undan, er fátt sjálfgefið í þessum efnum. Menn þurfa enn að sigrast á fjarlægðum. Það sem hefur breyst er að möguleikarnir til að sigrast á þeim hafa vaxið. Samskipti við umheiminn koma ekki af sjálfu sér þótt tæknin sé fyrir hendi. Menn þurfa að leita eftir þeim og kunna til þeirra verka.

Þau fyrirtæki sem náð hafa árangri á alþjóðavettvangi á síðustu árum eru ekki öll staðsett í stórborgum heimsins. Mörg eru staðsett í litlum samfélögum. Við eigum nokkur dæmi um slík fyrirtæki hér á Íslandi. Þeim þarf að fjölga og til þess eru aðstæður að skapast. Framtíð landsbyggðarinnar á Íslandi er án nokkurs vafa undir því komin að menn hafi áræði og þekkingu til að nýta þá möguleika sem felast í hnattvæðingunni.

Þótt algeng gagnrýni á hnattvæðingu beinist að drottnun fáeinna stórfyrirtækja, þá hefur hún opnað möguleika til alþjóðaviðskipta fyrir smærri fyrirtæki. Jafnvel lítil fyrirtæki á afskekktum stöðum stunda nú alþjóðleg viðskipti með góðum árangri. Oft er þetta spurning um áræði, en alltaf spurning um þekkingu.

Stjórnvöld geta með ýmsu móti auðveldað fyrirtækjum þátttöku í alþjóðaviðskiptum og sá stuðningur er oft mikilvægastur litlum fyrirtækjum. Um leið og utanríkisráðuneytið hefur kappkostað að byggja upp styrk til að aðstoða fyrirtæki á fjarlægum sem nálægum mörkuðum, hefur ráðuneytið reynt að kynna þessa starfsemi sína sérstaklega á landsbyggðinni.

Um landsbyggðina á Íslandi gilda sömu lögmál og um atvinnulíf landsmanna að öðru leyti. Forsenda framfara á næstu árum er nýting þeirra tækifæra sem hnattvæðingin hefur opnað. Tækifærin eru til staðar, það sýnir okkar reynsla og reynsla annarra. En við þurfum að sýna aukið áræði og hugvit til að finna þau og nýta.

Hnattvædd vandamál
Um leið og hnattvæðingin hefur opnað mikil tækifæri þurfum við að vera vel á verði gagnvart vandamálum sem fjarlægðin skýldi okkur fyrir. Það eru ekki aðeins fyrirmyndarfyrirtæki sem hafa nýtt sér nýja samskiptatækni, greiðari samgöngur og frjálsara flæði fjármagns. Alþjóðlegir glæpahringir hafa notfært sér þessar nýju aðstæður. Ríki heims heyja nú stöðugt erfiðari varnarbaráttu gegn fíkniefasmygli og peningaþvætti. Smygl á fólki og mannsal er einnig vaxandi vandamál með átakanlegar hliðar, rétt eins og fíkniefnasmyglið.

Alþjóðleg samvinna fer vaxandi í þessum efnum og Íslendingar hafa leitast við að fylgjast sem best með í þeim efnum. Ekki er síður mikilvægt að auknir möguleikar hafa opnast á svæðisbundnu samstarfi gegn glæpastarfsemi. Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu er afar mikilvæg í þessu tilliti. Hún hefur opnað aukna möguleika á sviði lögreglusamvinnu við ríki Evrópusambandsins og stóraukið bolmagn Evrópuríkja til að hamla gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þá hefur aðildin að Schengen meðal annars leitt til þess að gera má ráð fyrir að Ísland verði á meðal fyrstu ríkja til að gera samstarfssamning við EUROPOL.

Hvaða skoðun sem við höfum á hnattvæðingunni, þá er sú vernd sem fjarlægðin hefur veitt okkur að miklu leyti úr sögunni. Auknar hættur hér heima vegna alþjóðlegrar glæpastarfsemi eins og fíkniefnasmygls hafa ekki skapast vegna þátttöku okkar í hnattvæðingunni. Þróttmikið samstarf við aðrar þjóðir gefur hins vegar meiri möguleika til að bregðast við þessum hættum. Annað dæmi um vaxandi vá sem rekja má til auðveldari samgangna og samskipta er aukin og hraðari útbreiðsla ýmiss konar sjúkdóma. Smitsjúkdómar hafa aldrei virt landamæri eins og við þekkjum af gamalli og nýrri sögu. Hraðinn er hins vegar meiri en áður og í því felast nýjar hættur sem eingöngu er hægt að bregðast við með alþjóðlegu átaki. Engin þjóð getur staðið ein að slíkum málum og litlum þjóðum er þróttmikið samstarf á þessu sviði enn nauðsynlegra en öðrum.

Umhverfismál
Umhverfismál koma öllum við og umhverfisvandinn sameinar og skerpir vitund okkar um að við eigum aðeins eina jörð og að hennar þurfi að gæta vel til að komandi kynslóðir megi einnig geta lifað góðu lífi Okkur kemur við hvað menn eru að losa í sjóinn handan hafsins. Og okkur kemur við hvernig og hvort menn bregðast við loftmengun hinum megin á hnettinum. Ótti við hin svonefndu gróðurhúsaáhrif og mögulegar breytingar á veðurkerfum heimsins hafa knúið menn um allan heim til að hugsa þessi mál með nýjum hætti.

Meðal þeirra sem berjast gegn hnattvæðingu eru fjölmennir hópar umhverfisverndarsinna sem álíta að vaxandi mengun og eyðileggingu náttúrunnar megi rekja til hnattvæðingar. Í þessu er nokkurn sannleik að finna, en oft er einnig um að ræða grundvallarmisskilning.

Á því er enginn vafi að vaxandi samgöngur í heiminum og vaxandi velmegun víða um lönd sem rekja má til hnattvæðingar hafa aukið á losun mengandi efna í andrúmsloftið og aukið á þrýsting á viðkvæm vistkerfi víða um heim.

Samhengið á milli vaxandi mengunar og hnattvæðingar er hins vegar ekki eins einfalt og ætla mætti. Það verður að gera greinarmun á því hvort verið er að tala um afleiðingar hagvaxtar eða hnattvæðingar.

Ef menn vilja draga úr hagvexti til að draga úr umhverfisspjöllum er það sjónarmið út af fyrir sig. Ef menn vilja draga úr hnattvæðingu til að draga úr mengun hafa þeir sennilega rangt fyrir sér. Við getum séð það með því að líta í kringum okkur. Hvar er ástand umhverfismála verst í heiminum? Er það ekki einmitt í mörgum þeirra ríkja sem lengst voru lokuð fyrir alþjóðavæðingu? Hvar er ástand umhverfismála best? Er það ekki einmitt í nokkrum þeirra ríkja sem hafa af mestum þrótti tekið þátt í alþjóðasamstarfi og alþjóðavæðingu á öllum sviðum?

Ég er ekki með þessu að halda því fram að hnattvæðingin bjargi umhverfinu. En hnattvæðing sem slík eykur ekki við umhverfisvandann. Umhverfisvandinn er ekki til kominn vegna hnattvæðingar og lausnir á umhverfisvandanum verða ekki fundnar án öflugs alþjóðlegs samstarfs. Barátta umhverfisverndarsinna er einmitt dæmi um það atriði. Sennilega er engin hreyfing eins hnattvædd og hreyfing umhverfisverndarsinna.

Ein af athyglisverðum leiðum til að draga úr loftmengun snertir okkur Íslendinga með beinum hætti. Þetta er leið sem jafnframt byggist á alþjóðavæðingu og öflugu alþjóðlegu markaðskerfi. Hér á ég við alþjóðlegan markað með svonefnda losunarkvóta sem getur stuðlað að því að iðnframleiðsla eigi sér stað þar sem orkan er hreinust og hagræðingin mest. Með öflugri alþjóðasamvinnu á þessu sviði má virkja alþjóðleg markaðsöfl til að rjúfa þau tengsl sem eru á milli hagvaxtar og aukinnar mengunar.

Markaðsöflin sjálf eru blind fyrir umhverfinu. Markaðurinn sér ekki um þetta sjálfur. Hann er samt öflugt tæki sem stjórnvöld geta með víðtækri alþjóðlegri samvinnu virkjað í þessum tilgangi. Þetta á ekki aðeins við um losunarkvóta. Annað dæmi er alþjóðleg samvinna um afnám á niðurgreiðslum á orkugjöfum sem valda loftmengun. Þriðja dæmið er alþjóðleg samvinna um verðlagningu á eldsneyti sem miðast við skaðsemi viðkomandi eldsneytis fyrir umhverfið. Slíkar aðgerðir ryðja brautina fyrir þróun nýrrar tækni bæði í samgöngum og iðnaði og ýta undir notkun hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa.

Sjávarútvegur
Annað atriði varðandi tengsl hnattvæðingar og umhverfismála snertir íslenskt atvinnulíf með beinum hætti. Ég hef á alþjóðavettvangi reynt með ýmsu móti að benda á það samhengi sem er á milli ríkisstyrkja í sjávarútvegi, ofveiði og rányrkju á höfum heimsins. Tollar á fiskafurðir stuðla líka að rányrkju. Þeir hvetja sjávarútveginn til að leggja áherslu á magn frekar en gæði.

Stöðugt verður ljósara hvað lífkerfi sjávar stendur víða tæpt, ekki síst vegna rányrkju síðustu ára og áratuga. Hnattvæðingin hefur opnað leiðir til að þrýsta á um lausnir í þessum efnum, bæði vegna aukinnar alþjóðasamvinnu og vegna þess að alþjóðamarkaðir með sjávarafurðir stjórna því að verulegu leyti hvernig ríki nýta sjávarauðlindir sínar.

Því hef ég lagt ríka áherslu á að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi, og þá ekki síst innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að markaðshöft í sjávarútvegi, eins og ríkisstyrkir og tollar, verði afnumin.

Það er af og frá að bregðast eigi við þessum vandamálum með alþjóðlegri ofstjórn. Hnattvæðing krefst stundum hnattrænna lausna og stundum staðbundnari samvinnu. Það er ljóst að ekki verður komið í veg fyrir vaxandi mengun hafsins án hnattrænnar samvinnu. Um leið liggur fyrir að flestir fiskstofnar í hafinu eru ekki hnattrænir heldur staðbundnir. Ofveiði kallar því á staðbundnar lausnir en ekki hnattrænar. Ríkisstyrkir í sjávarútvegi og tollavernd eru hins vegar hnattræn vandamál.

Um svæðisbundin mál eiga svæðisbundnir samningar við. Í sjávarútvegi eins og svo mörgu öðru skiptir mestu að virkja ábyrgð þeirra sem eiga mest undir farsælli lausn málsins. Þess vegna verðum við að vinna gegn hugmyndum um hnattræna stjórn fiskveiða og leggja þess í stað áherslu á svæðisbundna samvinnu á grundvelli úthafsveiðisamninga og svæðisbundinna stofnana.

Með tilkomu æ fleiri svæðisbundinna stofnana eru úthöfin að lokast fyrir stjórnlausum veiðum. Ísland tekur virkan þátt í stjórn fiskveiða á Norður- Atlantshafi og við höfum einnig látið nokkuð til okkar taka varðandi stjórn á fjarlægari hafsvæðum þar sem við eigum hagsmuna að gæta. Á næstunni verður til dæmis undirritað samkomulag um stjórn veiða utan efnahagslögsögu á sunnanverðu Atlantshafi. Þar verðum við fullgildir aðilar.

Svæðisbundið samstarf ríkja
Eitt af einkennum, og kannski þversögnum hnattvæðingarinnar á síðustu árum, er að svæðisbundið samstarf ríkja hefur stórlega aukist. Menn hafa raunar stundum stillt þessu tvennu upp sem valkostum, hnattvæðingu og auknu svæðisbundnu samstarfi. Í því felst misskilningur á eðli málsins. Aukin svæðisbundin samvinna er oftar en ekki til komin sem viðbrögð við aukinni hnattvæðingu.

Þannig má líta á samrunaþróunina í Evrópu á síðustu árum sem viðbrögð við hnattvæðingunni og sömu sögu er að segja um vaxandi svæðisbundið samstarf víðar um heiminn. Alþjóðaviðskipti hafa orðið frjálsari með árunum en mikið vantar á að hægt sé að líta á heiminn allan sem eitt opið viðskiptasvæði. Með vaxandi samkeppni á öllum sviðum hefur ríkjum orðið nauðsynlegt að stækka markaðinn fyrir eigið atvinnulíf og það hafa þau gert með þátttöku í svæðisbundinni samvinnu.

Íslendingum tókst að tryggja hagsmuni sína að þessu leyti með EES- samningnum sem veitir aðgang að stærsta og auðugasta markaði heimsins, sem er innri markaður Evrópusambandsins. Aðildin að EFTA og EES-samningnum skiptir sköpum fyrir þátttöku Íslands í hnattvæðingunni. Þetta hefur haft ómetanlegt gildi fyrir atvinnulífið og er í reynd ómissandi undirstaða fyrir þær gífurlegu framfarir sem hafa orðið í efnahagslífinu á síðustu árum.

Miklar breytingar eiga sér nú stað í þessu umhverfi í Evrópu. Ný aðildarríki bætast við Evrópusambandið á næstum árum og innan sambandsins verða örar og mikilvægar breytingar á fjölmörgum sviðum. Ný samstarfssvið hafa komið til og aðild Íslands að hnattvæðingunni tengist í vaxandi mæli samstarfi við ESB. Með öllu þessu verðum við að fylgjast af mikilli nákvæmni og einurð. Hér er um grundvallarhagsmuni íslensku þjóðarinnar að tefla.

Þjóðarhagsmunir okkar í öryggismálum byggjast líka á svæðisbundnu samstarfi. Hugsjónin um hnattrænt öryggiskerfi fyrir allan heiminn, sem lá að baki stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir meira en hálfri öld, er enn fjarri því að verða að veruleika. Endalok kalda stríðsins hafa fært okkur í átt að þessari hugsjón en að henni verðum við að vinna áfram á grundvelli svæðisbundins samstarfs.

Það öryggissamstarf sem Ísland tekur fullan þátt í hefur líka verið að þróast og þátttökuríkjum hefur fjölgað. NATO hefur annars vegar brugðist við nýjum tækifærum með stækkun bandalagsins og hins vegar með öflugu samstarfi við ríki utan bandalagsins. Þar má nefna Samstarf í þágu friðar með aðild fjölda ríkja sem áður voru í andstæðu hernaðarbandalagi, sérstök samstarfsráð við Rússland og Úkraínu og hið svonefnda Evróatlantshafssamstarfsráð. Þá er í deiglunni samstarf NATO og ESB um eigin varnarstyrk ESB en í því máli eigum við Íslendingar sérstakra hagsmuna að gæta sem við höfum fylgt einarðlega eftir á síðustu missirum.

Auk samstarfsins innan NATO tekur Ísland virkan þátt í starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, og í starfi Evrópuráðsins sem að sínu leyti vinnur mikilvægt starf að svæðisbundnum öryggismálum með áherslu á styrkingu lýðræðis í Evrópu og nágrenni álfunnar.

Allt þetta svæðisbundna samstarf, sem við höfum sinnt af kappi, hefur gefið Íslendingum tækifæri til að gæta grundvallarhagsmuna okkar og hafa áhrif á margvísleg málefni sem við ella hefðum engan kost átt á að sinna nema með öflugri þátttöku.

Fyrir litlar þjóðir gegna alþjóðastofnanir lykilhlutverki og er aðild að þeim forsenda þess að þær geti tekið virkan þátt í alþjóðamálum. Stærri ríki geta haft með sér öflugra tvíhliða samstarf, þótt við eigum margs konar tvíhliða samstarf við nálæg og fjarlæg ríki. En þess væri enginn kostur fyrir jafnlítið land og Ísland að koma að svo mörgum málum ef ekki kæmi til aðild að þeim styrku stofnunum sem við höfum borið gæfu til að eiga aðild að.

Verkefni Íslands í alþjóðamálum
Í tíð minni sem utanríkisráðherra hef ég lagt höfuðáherslu á að auka sem mest þátttöku Íslands í þeim alþjóðastofnunum sem eru okkur mikilvægastar. Við verðum að taka þátt í starfi þessara stofnana af fullri alvöru og kosta nokkru til. Við getum ekki reiknað með því að aðrir taki okkur alvarlega ef við gerum það ekki sjálf.

Nú er ýmislegt í undirbúningi hvað þetta varðar. Á næsta ári tökum við að okkur að halda utanríkisráðherrafund NATO hér á landi. Þetta verður stærsti alþjóðlegi fundur sem haldinn hefur verið á Íslandi með þátttöku nær fjórðungs allra ríkja heimsins.

Við höfum lýst yfir vilja til að taka sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eftir nokkur ár og undirbúningur að framboði til þessarar langvaldamestu stofnunar Sameinuðu þjóðanna er að hefjast. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er mikill fjöldi mikilvægra verkefna fram undan. Almennt verður þó að viðurkenna að stofnanakerfi Sameinuðu þjóðanna hefur ekki staðið undir því stóraukna álagi sem hnattvæðingin hefur í för með sér þótt starf samtakanna hafi eflst talsvert undir þróttmikilli stjórn núverandi framkvæmdastjóra, Kofi Annan. Það er vissulega íhugunarefni að ekki skuli hafa tekist að efla samtökin og sérstofnanir þeirra nægilega til að mæta þeim kröfum sem gera verður til þeirra í ljósi þess gífurlega vaxtar sem hefur orðið í alþjóðaviðskiptum, alþjóðlegum fjármagnshreyfingum, alþjóðlegum samgöngum og alþjóðlegum samskiptum yfirleitt.

Veikleikar alþjóðakerfisins bjóða heim mörgum og alvarlegum hættum. Þeir koma líka í veg fyrir að samvinna um lausn á fjölmörgum alþjóðlegum vandamálum, allt frá fátækt og mannréttindabrotum til umhverfismála og tæknilegra úrlausnarefna. Minni ríki eiga enn meira undir því komið en þau stærri að það takist að efla alþjóðastofnanir á næstu árum.
Af stórum verkefnum í náinni framtíð má einnig nefna að við höfum ákveðið að stórauka á næstu árum framlag Íslands til friðargæslu. Starf okkar á þessu sviði er tiltölulega nýtt af nálinni. Þau skref sem við höfum tekið á síðustu árum, og sú reynsla sem við höfum öðlast, hefur hvatt okkur, hafa hvatt okkur til að axla aukna ábyrgð á þessu sviði. Unnið er að undirbúningi málsins af fullum krafti og er tíðinda að vænta af því starfi innan skamms. Er ætlunin að auglýsa fljótlega eftir fólki sem væri tilbúið að taka þátt í friðargæslu fyrir Ísland.

Þróunaraðstoð Íslands hefur einnig verið efld á undanförnum árum og tekið á sig fastari mynd. Á þeirri braut viljum við halda áfram. Að undanförnu höfum við unnið að því að bæta aðstöðu okkar og um leið sýnt þá alvöru sem hér býr að baki með opnun íslensks sendiráðs í Mósambík.

Við höfum kosið að beina aðstoð til nokkurra ríkja í sunnanverðri Afríku. Ríki Afríku hafa dregist aftur úr öðrum ríkjum heimsins á seinni árum. Hnattvæðingin hefur snert Afríkuríki hvað minnst. Fátækt Afríkuríkja felst því ekki í hnattvæðingunni, heldur þvert á móti í takmörkuðum möguleikum þessa heimshluta til að nýta sér þau tækifæri sem finna má í hnattvæðingu heimsviðskipta.

Allt þetta starf að alþjóðamálum kostar auðvitað nokkurt fé. Því verður hins vegar ekki haldið fram að við eyðum fé til alþjóðamála umfram það sem sæmir vel efnaðri þjóð sem vill láta taka sig alvarlega á alþjóðavettvangi. Með virkri þátttöku á vettvangi alþjóðastofnana sem við erum aðilar að getum við bæði gætt hagsmuna og einnig lagt af mörkum okkar skerf. Virkt starf okkar á vettvangi þessara stofnana skilar meiru en framlagið segir til um. Öflug þátttaka lítilla ríkja á borð við Ísland í alþjóðastofnunum, svæðisbundnum stofnunum og í alþjóðasamstarfi yfirleitt er nauðsynleg til að hægt sé að gæta íslenskra hagsmuna í hnattvæddum heimi.

Það gildir það sama með þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu og þátttöku íslensks atvinnulífs á alþjóðamarkaði. Hjáseta gerir lítið annað en að svipta okkur sjálf tækifærum til að hafa áhrif á örlög okkar. Sá kostur er alltaf fyrir hendi að sitja hjá. En með hjásetunni breytum við engu öðru en okkar eigin möguleikum til ábata og góðra verka.

Meðan sumir líta þannig á að í hnattvæðingunni felist margvíslegar hættur fyrir Ísland tel ég að í henni felist miklir möguleikar og sóknarfæri. Árangurinn veltur mest á okkur sjálfum og hvernig við vinnum úr tækifærunum. Íslendingar eru vel menntuð þjóð sem er meðvituð um eigin getu og vilja til að vera ávallt í fremstu röð meðal þjóða. Íslensku samfélagi hefur alltaf vegnað best, bæði í menningarlegu og efnahagslegu tilliti, þegar tengslin við útlönd hafa verið hvað mest. Það skiptir sköpum fyrir framfarir og velmegun á Íslandi hvernig okkur tekst til í alþjóðlegri samvinnu. Öflugt atvinnulíf sem stenst samkeppni á alþjóðamarkaði og virkt samstarf Íslands við önnur ríki sem tryggja jafnræði og tækifæri fólks og fyrirtækja er forsenda þess að íslenskri þjóð farnist vel á nýrri öld.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum