Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. maí 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða utanríkisráðherra í tilefni 50 ára afmælis varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna

Ræða utanríkisráðherra í tilefni 50 ára afmælis varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna:

Ísland og öryggi á Norður-Atlantshafi í fortíð, nútíð og framtíð


    Öryggis- og varnarmál minna óneitanlega oft á tryggingar í nútímaþjóðfélagi. Menn tryggja sjálfa sig og eigur sínar fyrir óvæntum skakkaföllum. Með hliðstæðum hætti reyna ríki að koma öryggis- og varnarmálum sínum þannig fyrir að sjálfstæði og fullveldi þeirra sé tryggt eins og kostur er fyrir utanaðkomandi áreiti. Frá tímum Rómverja er vel þekkt latneska máltækið "Si vis pacem para bellum", eða "Viljirðu varðveita friðinn skaltu búa þig undir stríð". Yfirfært á nútímann felst í þessari hugsun sá skilningur að trúverðugar varnir séu nauðsynlegar hverri þjóð.

    Það segir sig sjálft að kringumstæður á hverjum tíma skipta miklu um það hvernig ríki meta öryggis- og varnarmál sín. Fjölmargir þættir hafa hér áhrif ekki síst pólitískar og efnahagslegar kringumstæður, innra sem ytra, landfræðileg lega og hernaðarleg þróun.

    Þegar litið er til fortíðar í Íslandssögunni og hún skoðuð út frá sjónarhóli öryggis- og varnarmála beinist athyglin að ýmsum þáttum eins og þeirri staðreynd hversu landvarnir voru hér brotakenndar lengst af. En einnig aðrir þættir og raunar nátengdir, ekki síst landfræðileg lega landsins, hafa verið miklir áhrifavaldar í gegnum tíðina og eru enn.

    Um margra alda skeið var Ísland afskekkt land og úr alfaraleið. Stríð á meginlandi Evrópu höfðu því lítil áhrif hér á landi. Á sviði öryggismála var fjarlægðin frá meginlandinu það skjól sem landsmenn treystu hvað mest á allt fram á fyrri hluta 20. aldar. Sú staðreynd að átök fyrri heimstyrjaldarinnar náðu ekki til Íslands, áttu stóran þátt í þeirri stefnu sem mörkuð var með fullveldinu 1918 þegar lýst var yfir ævarandi hlutleysi landsins.

    En öryggi í skjóli fjarlægða heyrði brátt sögunni til og vék fyrir þróuninni á hernaðarsviðinu. Við upphaf seinni heimsstyrjaldar hafði þróunin, einkum á sviði flughernaðar, gert það að verkum að Ísland var í allt annarri stöðu en áður. Vitundin um þetta átti stóran þátt í hernámi Breta í maí 1940. Bandaríkjamenn leystu síðan Breta af hólmi með herverndarsamningnum 1941.

    Hernaðarlegt mikilvægi Íslands kom skýrt í ljós í seinni heimsstyrjöldinni og engum dylst að staða og hlutverk landsins í öryggi Norður-Atlantshafsins á tímum Kalda stríðsins skipti miklu.

    Aðildin að Atlantshafsbandalaginu 1949 og gerð varnarsamningsins við Bandaríkin árið 1951 lögðu grundvöllinn að þeirri utanríkisstefnu sem Ísland hefur fylgt síðan. Á þessum tíma voru aðeins liðin örfá ár frá stofnun lýðveldisins. Mikil óvissa ríkti á sviði alþjóðamála og Kalda stríðið var smám saman að taka á sig mynd. Varla var við öðru að búast en að við þessar aðstæður greindi menn á um hvaða stefnu skyldi taka í utanríkismálum hins unga íslenska lýðveldis.

    Þegar litið er til baka sjáum við hversu vel tókst til með stofnun og þróun Atlantshafsbandalagsins. Aðild Íslands að því og gerð varnarsamningsins við Bandaríkin hafa að sama skapi reynst Íslendingum farsæl. Þessi stefnumótun var umdeild í íslensku þjóðfélagi um margra áratuga skeið og setti mjög svip sinn á stjórnmálaumræðuna og raunar allt stjórnmálalitrófið í landinu. Eftir lok Kalda stríðsins hefur orðið á þessu grundvallarbreyting. Mikill meirihluti þjóðarinnar er greinilega sáttur við það fyrirkomulag sem er á íslenskum öryggis- og varnarmálum og vill ekki hrófla við því. Í daglegri stjórnmálaumræðu verðum við nú orðið lítið vör við gagnrýnisraddir á þessa grundvallarþætti utanríkisstefnunnar.

    Varnarsamningurinn við Bandaríkin var gerður með Kalda stríðið og Kóreustríðið að bakgrunni. Það skipti einnig miklu um gerð hans að Ísland og Bandaríkin höfðu átt farsælt samstarf allt frá því að herverndarsamningurinn var gerður 1941 og síðan Keflavíkursamningurinn 1946. Kjölfesta samningsins er gagnkvæmir öryggishagsmunir Íslands, Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins í Norður-Atlantshafi. Á þessu byggir tilvist samningsins og á það við hvort sem er um fortíð, nútíð eða framtíð.

    Varnarsamningurinn lagði grundvöllinn að óvenju miklum og nánum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna undanfarna hálfa öld. Framkvæmd varnarsamningsins og samstarfið við Bandaríkin hafa frá upphafi verið með þeim hætti að íslensk stjórnvöld hafa verið og eru fyrir sitt leyti mjög ánægð með hvernig til hefur tekist. Það liggur í augum uppi að á þeim 50 árum sem liðin eru frá því að samningurinn var gerður hafa ýmiss mál komið upp þar sem reynt hefur á báða aðila að finna ásættanlega lausn. Fram til þessa höfum við haft árangur sem erfiði og ég hef trú á að svo verði áfram.

    Starfsemi varnarliðsins hefur þróast í samræmi við mat á ytri aðstæðum á hverjum tíma. Tengsl varnarliðsins við Atlantshafsbandalagið hafa einnig þróast með þeim hætti að um langt skeið hefur verið hér föst viðvera fulltrúa annarra bandalagsríkja. Ber þar helst að nefna Holland sem hefur haft hér kafbátaleitarvél með áhöfn frá níunda áratugnum. Ennfremur starfa hjá varnarliðinu fulltrúar herja Danmerkur, Noregs og Kanada. Á undanförnum árum hefur regluleg þátttaka samstarfsríkja okkar í Atlantshafsbandalaginu í æfingum hér á landi farið vaxandi.

    Lok Kalda stríðsins fól í sér grundvallarbreytingar í alþjóðamálum. Hið pólitíska umhverfi öryggis- og varnamála hefur gjörbreyst. Samhliða því hefur mikill samdráttur orðið hjá flestum ríkjum í okkar heimshluta á sviði varnarviðbúnaðar. Eftir að hafa horft upp á upplausn Júgóslavíu, Kosóvo og um þessar mundir skærur í Makedoníu dylst þó engum að þörf er á áframhaldandi náinni samvinnu um öryggis-og varnarmál í Evrópu. Það dylst heldur engum að eina stofnunin sem hefur tilskilinn styrk, hvort sem er í hernaðarlegu eða pólitísku tilliti, til þess að takast á við erfiðustu verkefnin sem við er að kljást, er Atlantshafsbandalagið.

    Hið nýja umhverfi öryggis- og varnarmála kallar á önnur og breytt viðbrögð ríkja og öryggisstofnana. Þær stofnanir sem Ísland er aðili að og fjalla um öryggismál hafa leitast við að aðlagast hinu breytta umhverfi og þróa nýjar leiðir til að takast á við þær hættur sem nú blasa við. Þetta á ekki síst við um Atlantshafsbandalagið.

    Í ár eru tíu ár liðin frá því að stofnaður var samstarfsvettvangur innan bandalagsins, Evró-Atlantshafssamstarfsráðið sem telur alls 46 ríki. Samstarf og samráð um öryggismál við Evrópuríki utan Atlantshafsbandalagsins er leið bandalagsins til að bregðast við breytingum, óskum ríkjanna sem um ræðir og til að leita leiða til að takast á við þær ógnir við öryggi og stöðugleika sem ríki álfunnar standa frammi fyrir nú. Önnur leið er Samstarf í þágu friðar, tvíhliða hernaðarsamstarf bandalagsins við ríki Mið- og Austur Evrópu allt til Kákasus og Mið-Asíu, sem stofnað var til 1994 og telur nú 26 ríki.

    Íslensk stjórnvöld hafa eindregið stutt stækkun Atlantshafsbandalagsins sem leið til að auka stöðugleika og öryggi í Evrópu. Með stækkun í 19 ríki og aðildarviðræðum við níu ríki Mið- og Austur-Evrópu hefur bandalagið komið til móts við ríki álfunnar sem nú standa utan varnarbandalaga. Varnarleysi einstakra ríkja stofnar ekki einvörðungu öryggi þeirra í hættu heldur einnig nágrannaríkjum þeirra. Þess vegna er stækkun Atlantshafsbandalagsins nauðsynleg. Með aðgerðaráætlun bandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Washington eru sett niður þau skref sem umsóknarríkin þurfa að taka til að geta komið til álita sem fullgildir aðilar. Má þar nefna sérstakar kröfur um meðhöndlun og réttindi minnihlutahópa innan ríkjanna, kröfur um mannréttindi og friðsamleg og góð samskipti við nágrannaríki. Þannig hefur stækkunarferli Atlantshafsbandalagsins þegar lagt af mörkum til stöðugleika og varanlegs friðar í álfunni. Á leiðtogafundi bandalagsins í Prag haustið 2002 verður frekari stækkun til skoðunar á ný. Fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík næsta vor verður mikilvægur þáttur í undirbúningi undir leiðtogafundinn. Íslensk stjórnvöld leggja sem fyrr áherslu á aðild Eystrasaltsríkjanna þegar næsta stækkunarlota hefst.

    Þá vil ég undirstrika mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið fyrir tilvist Atlantshafsbandalagsins og öryggi í Evrópu. Bandamenn okkar í Norður-Ameríku og Evrópu eiga líkt og áður sameiginlegra hagsmuna að gæta í varnar- og öryggismálum. Þess vegna er það hagur Atlantshafsbandalagsríkjanna allra að Atlantshafstengslin haldist sterk og að Evrópuríkjunum takist jafnframt að axla aukna ábyrgð og getu til að takast á við þær hættur sem steðja að í nágrenni þeirra

    Áhugi Evrópuríkja, að axla aukna ábyrgð í eigin vörnum er ekki nýr af nálinni, sú hugmynd er jafngömul og hugmyndin að Evrópusambandinu. Hugmyndin var fremur í orði en á borði þar til nýverið og enn er of snemmt að segja fyrir um hvert hlutverk sameiginlegrar öryggis- og varnarstefnu Evrópusambandsins verður í raun. Íslensk stjórnvöld eru hlynnt þessari þróun. En eins og bandamenn okkar leggjum við höfuðáherslu á að ekki dragi úr gildi Atlantshafstengslanna og að Atlantshafsbandalagið leiki eftir sem áður aðalhlutverkið í öryggismálum álfunnar, eins og það hefur gert í rúm 50 ár. Það hefur sýnt það og sannað að þrátt fyrir gífurlegar breytingar hefur engin stofnun önnur getað tekið að sér að leika það hlutverk á trúverðugan hátt.

    Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins á Balkanskaga, í Bosníu-Hersegóvínu og Kosóvo eru til marks um að Atlantshafsbandalagsríkin geta þurft að grípa inn í atburðarrás utan eigin landamæra til að gæta stöðugleika í álfunni og þar með tryggja eigið öryggi. Það liggur í augum uppi að Ísland hlýtur að leggja af mörkum eins og aðrir til slíkra aðgerða og hefur íslenskt hjúkrunarfólk, lögreglumenn og fleiri sérfræðingar starfað þar við góðan orðstír. Ríkisstjórnin hefur nú tekið ákvörðun um að stórauka framlag Íslands til friðar- og uppbyggingaraðgerða með stofnun Íslensku friðargæslunnar.

    Stofnun Íslensku friðargæslunnar er til marks um nýjar áherslur og stefnumótun sem miðar að virkari þátttöku af Íslands hálfu á sviði alþjóðlegra öryggismála. Hún endurspeglar vilja okkar til að axla meiri ábyrgð á sviði öryggis- og varnarmála í ljósi nýrra kringumstæðna. Ísland hefur ekki á að skipa herliði til að senda á vettvang til að sinna friðargæslustörfum. Það kemur hinsvegar ekki að sök þar sem borgaralegt starfslið hefur á undanförnum árum í auknum mæli tekið þátt í friðargæslu. Ísland hefur þessvegna á að skipa fjölmörgu hæfu fólki til friðargæslustarfa.

    Við höfum jafnframt miðað að virkari þátttöku Íslands í öryggis- og varnarmálum að öðru leyti undanfarinn áratug. Ég nefni m.a. aukið samstarf Landhelgisgæslunnar og varnarliðsins á ýmsum sviðum. Rekstur ratsjárstofnunar er alfarið í höndum Íslendinga. Samstarf og þátttaka í varnaræfingum sem og almannavarnaræfingum innan vébanda Samstarfs í þágu friðar hefur einnig verið aukið. Þá nefni ég einnig þátttöku í hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins sem hófst þegar á níunda áratugnum.

    Nýjar kringumstæður hafa eðlilega vakið upp spurningar um áframhaldandi varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Er þess lengur þörf? Íslensk stjórnvöld hafa eðlilega þurft að horfast í augu við nýjan veruleika í þessum efnum sem öðrum. Starfshópur sem var skipaður á sínum tíma og skilaði af sér áliti snemma árs 1993 komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að stjórnvöld tryggðu að hér á landi væri áfram nægilegur varnarviðbúnaður. Vissulega hefur margt breyst á þeim árum sem liðin eru en þó ekki í grundvallaratriðum. Niðurstöðurnar eiga við jafnt nú og þá. Ekkert ríkja Evrópu hefur lagt niður varnarviðbúnað sinn þrátt fyrir nýjar kringumstæður og þróunin í álfunni hefur staðfest nauðsyn þess að viðhalda honum. Með sama hætti er nauðsynlegt að hér á landi sé áfram lágmarksviðbúnaður til varnar landinu.

    Í kjölfar viðræðna milli Íslands og Bandaríkjanna voru undirritaðar bókanir 1994 og 1996 sem fólu í sér aðlögun að nýjum kringumstæðum með allmikilli fækkun í liðsstyrk Bandaríkjanna hér á landi eða í kringum þriðjung. Ég tel að hér á landi sé fyrir hendi sá lágmarksviðbúnaður sem nauðsynlegur er til landvarna. Ríkisstjórnin sér engar efnislegar ástæður til og hefur engin áform þess efnis að óska eftir breytingum þar á. Við teljum trúverðugar varnir nauðsynlegar og munum áfram taka mið af því grundvallaratriði í mótun stefnunnar í öryggis- og varnarmálum.

    Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vil ég færa Bandaríkjunum bestu þakkir fyrir farsælt samstarf á grundvelli varnarsamningsins frá upphafi. Ég vil einnig beina orðum mínum til allra þeirra sem framkvæmd samningsins hefur hvílt á dag frá degi af hálfu Bandaríkjanna og Íslands. Af hálfu Bandaríkjanna hefur hitinn og þunginn á samskiptum við Ísland hvílt á herðum yfirmanna og starfsliðs varnarliðsins og sendiráði Bandaríkjanna hér á landi. Ekki má gleyma nánum tengslum við SACLANT sem og starfi sem innt hefur verið af hendi í Washington og Brussel í þágu varnarsamstarfsins. Þá vil ég einnig þakka starfsfólki utanríkiráðuneytisins og annarra ráðuneyta og stofnana sem og þeim mörgu sem gegnt hafa störfum í nefndum sem fjalla um varnarsamstarfið.

    Þær miklu breytingar sem orðið hafa á sviði öryggismála hafa haft mikil áhrif á Íslandi sem annarsstaðar. En eitt breytist ekki. Við eigum samleið með vina- og samstarfsþjóðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðildin að Atlantshafsbandalaginu er besti vitnisburðurinn um þá samleið. Við viljum vera virkir þátttakendur við breyttar aðstæður. Með það í huga höfum við breytt áherslum, mótað nýja stefnu í góðu samstarfi við vini og bandamenn. Það samstarf hefur verið til heilla og á þeim trausta grunni viljum við byggja öryggi íslensku þjóðarinnar til frambúðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum