Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. september 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Viðtal við Halldór Ásgrímsson á Rás 1

RÚV - Rás 1 klukkan 1, 2. sept. 2001 - Halldór Ásgrímsson í viðtali við Ævar Kjartansson


ÆK: Í september, eða það sem eftir lifir sumardagskrár, er hugmyndin að spjalla við formenn stjórnmálaflokkanna svona í sumarlok og áður en hefðbundið starf þings hefst og í dag erum við svo heppin að ná í utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins, ég segi heppin að ná í hann því eins og gefur að skilja þá er utanríkisráðherra ekki ævinlega á sama stað og mikið á ferðalögum, það er nú ekki rétt að segja að hann hafi lent í ferðalögum heldur eru þetta sjálfsagt skipulögð ferðalög allt saman. Röðin er að öðru leyti ekkert ákveðin en mig langar til þess, Halldór, um leið og ég býð þig velkominn í þennan sunnudagsþátt …

HÁ: Þakka þér fyrir.

ÆK: ... að rétt að byrja á því að heyra hvernig þetta sumar lítur nú út í þínum huga svona í pólitíkinni, hvernig sumar hefur þetta verið?

HÁ: Þetta hefur nú verið gott sumar fyrir mig persónulega. Það hefur nú verið tiltölulega rólegt í pólitíkinni og ég hef getað notað tímann ágætlega hér í mínu ráðuneyti og ég hef líka átt þess kost að ferðast dálítið innanlands og vera fyrir austan – nú mér hefur nú svona fundist upp á síðkastið hér á suðvesturlandinu rigningin hafa verið heldur mikil en ég er ánægður með þetta sumar og kem kannski bara nokkuð vel undan sumri.

ÆK: Nú hafa verið nokkur mál sem hafa kannski svona staðið upp úr finnst manni svona ef maður lítur til baka yfir sumarið. Það eru annars vegar mál sem eru reyndar kannski ... koma inn á ... sem eru nú persónuleg og við skulum nú ekki fara að fara út í hér en bar mikið á í fjölmiðlum – mál einstaks þingmanns og svo hins vegar umræður manna um virkjun á Austurlandi, í þínu kjördæmi. Og kannski er þar á ferðinni málefni sem er eiginlega stærra heldur en það að flokkast undir flokkspólitískt mál. En, en það hlýtur óneitanlega að hafa komið mikið við þig sem þingmann kjördæmisins fyrir austan.

HÁ: Já, það er alveg ljóst, ég er búinn að fylgjast með þessu máli frá því að ég byrjaði í stjórnmálum; ég var kosinn á Alþingi 1974 og hef fylgst með umræðunni á Austurlandi og tekið þátt í henni allan þennan tíma. Nú, þar hafa verið margir iðnaðarráðherrar á ferð og m.a. tveir þeirra sem núna hafa lagst gegn þessu máli sem er ... þeir Hjörleifur Guttormsson og Sverrir Hermannsson. Ég man vel eftir þeirra mikla áhuga að koma þessu máli áfram á sínum tíma og það eru mikil vonbrigði fyrir Austfirðinga þegar að þetta snýst svona við. Þetta er sennilega eitt stærsta mál sem að ég hef komið að á mínum pólitíska ferli og hef þó komið að mörgum mjög stórum málum, sennilega er nú það stærsta fiskveiðistjórnunarmálið en þetta kemur þar næst á eftir og það er hápólitískt og þegar að um það er fjallað þá kemst maður ekki hjá því að hafa eitthvað álit á því sem sagt er og gefið út. Það er t.d. verið að gagnrýna mig fyrir að vera að hafa eitthvað álit á því sem að kemur frá ákveðnum stofnunum ríkisins. Það er miður að þurfa að standa í slíkum athugasemdum en ég spyr á móti, hvaða stofnanir ríkisins eru það sem ekki má tala við og ekki má gagnrýna eru þær einhverjar? Og það væri út af fyrir sig fróðlegt að fá þann lista. Ég hitti nú menn frá póstinum þegar ég var á ferð til Helsinki og kom þaðan í gær og ég sagði við þá: þið þurfið endilega að komast inn á þennan lista að það megi ekki gagnrýna ykkur, það virðist vera einhver listi hjá stjórnarandstöðunni yfir stofnanir sem að ekki má tala við. Ég tel að það sé algjörlega fráleitt í svona stóru máli að menn geti ekki haft skoðun á því sem maður er að lesa. Og ég hef verið að lesa mikið um þetta mál og þykist hafa bærilega tilfinningu fyrir því; ég þykist hafa bærilega tilfinningu fyrir þeirri náttúru sem er á þessum slóðum og tel mig ekki vera neitt minni náttúruunnanda en hvern annan og tel að það hafi enginn einhvern einkarétt á því að kalla sig umhverfisverndunarsinna og allir hinir séu eitthvað annað. Þannig að það er alveg rétt hjá þér að þetta er mjög heitt mál og við erum ákveðin í því sem erum í þessari ríkisstjórn að koma þessu máli í höfn og ég mun halda áfram að vinna á þeim nótum. Það eru afskaplega margar hliðar á þessu máli og það náttúrulega er stærsta hliðin, það er hin efnahagslega bæði fyrir þjóðfélagið og fyrir Austurland. Ég hef séð Austurland rísa og ég hef séð Austuland falla niður. Á árunum 1970-1980 þá var að fjölga á Mið-Austurlandi eða það sem við getum kallað Mið-Austurland, sveitarfélögin í kringum Fjarðarbyggð, kringum Egilsstaði, Fljótsdalshéraðið, fóru úr 8 þús. manns í tæplega 10 þús. manns, það var áratugur sem að þessar byggðir voru að rísa og það var vegna landhelgisbaráttunnar og þess sem að því fylgdi. Það var baráttumál sem að Framsóknarflokkurinn hafði mikla forystu í og varð til þess að ýmis byggðarlög út um land gátu vaxið. Nú, síðan árin 1980-1990 það er áratugur stöðnunar, það má segja að fólksfjöldi hafi staðið í stað en svo á árunum 1990-2000 þá hefur fólki fækkað um 12% eða um 2 þús. manns þannig að fólksfjöldinn á þessu svæði er kominn niður fyrir það sem hann var 1970 og á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um 30%. Nú, það sem að við erum að tala um núna er uppbygging sem mun væntanlega leiða til þess við sjáum aftur svona svipaða stöðu og var í kringum 1980 og það náttúrulega þessu fólki sem að þarna býr sárnar óskaplega það skilningsleysi sem er í þessu sambandi, það er eins og fólkið sé ekki til og það eigi eingöngu að hugsa um umhverfið. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að við eigum að hugsa mikið um það, við eigum að taka fullt tillit til þess og við gerum það oft á tíðum ekki en það eru bara fleiri mál sem þar skipta máli heldur en þetta eina mál.

ÆK: En finnst þér, Halldór, að það sé ákveðin tilhneiging til þess að þrýsta, ja, t.d. ráðherra í ríkisstjórn til þess að þrýsta honum í ákveðið hlutverk eins og það að hann, ja, hann eigi ekkert endilega hafa eða að tjá sig um álit stofnunar eins og umhverfisstofnunar. Að það eigi..., að annars vegar séu embættismenn og ákveðnar stofnanir, síðan séu stjórnvöld sem eigi annaðhvort að fara eftir úrskurðinum eða ganga beint í gegn honum en ekkert endilega hafa á því skoðun.

HÁ: Sko, embættismenn eru starfsmenn ríkisvaldsins og ríkisvaldinu er stjórnað með pólitískum hætti, með lýðræðislegum hætti. Embættismenn eru ekki kosnir. Við stjórnmálamennirnir erum kosnir og það hlýtur að vera okkar að marka stefnu til framtíðar, segja með hvaða hætti við viljum byggja upp íslenskt samfélag og berjast fyrir því. Embættismennirnir eiga ekki að vera pólitískir. Þeir eiga að segja til um það, að mínu mati, hvað muni gerast og hvaða áhrif þetta muni hafa, hins vegar eigum við að taka hina endanlegu ákvörðun. Og mér finnst sumar þessar stofnanir sem að eru að fjalla um umhverfismál, ja, eins og Náttúruvernd ríkisins, Landgræðslan, ég hef lesið þessi álit, þar eru þeir mikið að fjalla um hina efnahagslegu hlið sem ég held að... ég held ekkert, ég tel að sé ekkert þeirra hlutverk. Það er ekki hlutverk Þjóðhagsstofnunar að fjalla um plöntur uppi á Fljótsdalsheiði eða að fjalla um hreindýr. Það er hins vegar hlutverk Þjóðhagsstofnunar að fjalla um efnahagslega þætti í samfélaginu og þeir hafa gert það í þessu máli, sýnt fram á mikilvægi þess. Það er hins vegar afskaplega lítið tekið inn í það álit sem kom frá Skipulagsstjóra í þessu máli. Og ég hef haldið því fram að þeir hafi fyrst og fremst safnað þar saman hinum neikvæðu hliðum og lítið fjallað um hinar jákvæðu, það hefur verið sýnt fram á það t.d. að því er varðar sveitarfélögin á Austurlandi sem sendu inn athugasemdir. Það er líka að því er varðar álit Hagfræðideildar Háskólans og m.a.s. Iðnaðarráðuneytisins og svona allt að því þegar maður les þetta álit að Iðnaðarráðuneytið sé á móti framkvæmdinni, sem er náttúrulega alveg fráleitt. Þannig að ég stend við þau orð að þarna sé mest fjallað um hinar neikvæðu hliðar. Af hverju það er það ætla ég ekki að segja neitt um en ég tel mig hafa fullan rétt til þess að segja mitt álit á því eftir að vera búinn að lesa þessa hluti yfir. Ef að ég get ekki gert það, ef að ég get ekki fjallað um þetta mál með eðlilegum hætti þá spyr ég sjálfan mig hvað ég sé að gera í stjórnmálum.

ÆK: En, en ... má ég skilja þetta þannig að þú viljir að hinar einstöku fagstofnanir safni upplýsingum og vinni þær faglega en það sé fyrst og fremst stjórnmálamannanna að draga ályktanir og taka ákvarðanir, að það sé ekki inni á verkahring stofnana ...?

HÁ: Já, ég er þeirrar skoðunar. Enda er það þannig, það er þannig í þessu ferli ef ég má tala um það. Það er ákveðin stofnun sem að safnar saman upplýsingum frá ýmsum öðrum stofnunum og fjallar um málið, síðan fer það til umfjöllunar Umhverfisráðuneytisins og umhverfisráðherra sem ber að fjalla um það með ákveðnum hætti og ber að fara eftir lögunum og það verður umhverfisráðherrann að sjálfsögðu að gera, hefur þá ábyrgð en umhverfisráðherrann getur ekki verið bundinn að því sem að stofnunin hefur sagt og gert. Umhverfisráðherrann er hins vegar bundinn að lögum. Umhverfisráðherrann er ekkert bundinn að því, beint að stefnu ríkisstjórnar í þessu máli. Umhverfisráðherrann er fyrst og fremst bundinn að lögunum vegna þess að hver og einn ráðherra hefur með viðkomandi mál að gera. Ég sem utanríkisráðherra hef ekkert með mál umhverfisráðherrans að gera, ekki forsætisráðherrann heldur. En umhverfisráðherrann verður að sjálfsögðu að vinna það í samræmi við þessi lög og það er náttúrulega alveg fráleitt þegar að því er haldið fram að stofnun eins og Skipulagsstofnun eigi að hafa síðasta orðið í einu stærsta máli þjóðarinnar. Og hún sé æðri, ja, allt að því bara löggjafarsamkomunni heyrist mér stundum á stjórnarandstöðunni.

ÆK: En nú er samt sko ... nú eru bæði hérna stjórnmálamenn og embættismenn bundir að lögum ... áhrifin síðan, sko ... áhrif þín á þetta einstaka mál sem þú ert að tala um, það kannski er ekki einmitt, það er ekki áhrif þín sem utanríkisráðherra heldur meira sem formanns Framsóknarflokksins ekki satt ...?

HÁ: Jú, að sjálfsögðu. Ég er formaður Framsóknarflokksins og vinn á grundvelli stefnu hans. Ég er fyrsti þingmaður Austurlands og ég hlýt að vinna í þeim anda sem ég hef talað um alla tíð; ég hef ekki verið að blekkja neinn í þessu máli. Ég stend fyrir ákveðnar skoðanir í þessu máli og það þarf engan að undra þó ég ætli mér að standa á þeim. Nú, það vill svo til að við sem erum í því, við erum kosnir með fjögurra ára millibili og það vissu allir í síðustu kosningum fyrir hvað ég stóð í þessu máli, bæði þá og í mörgum kosningum þar á undan. Við höfum sett okkur það markmið í Framsóknarflokknum að skapa meiri atvinnu í þessu landi, við höfum sett okkur það markmið að skapa meiri fjölbreytni og við höfum sett okkur það markmið að efla velferðarkerfið og það vita allir hvað það þýðir, það þarf eitthvað nýtt að koma til, það þarf ný verðmætasköpun að koma til og sú verðmætasköpun verður fyrst og fremst til á grundvelli þeirra auðlinda sem við eigum og með þeim mannauði sem við eigum og ef við ætlum að standa við þau markmið þá verðum við að nýta þessar auðlindir. Ef við viljum sætta okkur við það að ganga til baka, að hagvöxtur verði hér lítill sem enginn á næstu tíu árum þá er það ákvörðun út af fyrir sig en menn geta ekki látið eins og þetta hafi enga þýðingu. Og ég tel að þær miklu breytingar sem að þetta mál hafi í för með sér, bæði fyrir Austurland og þjóðfélagið í heild og sú mikla styrking sem verður á íslensku samfélagi með þessum framkvæmdum að það sé svo mikils virði að það réttlæti fyllilega þær breytingar sem þarna verða á umhverfi. Við skulum muna það að þessar framkvæmdir verða að lang mestu leyti neðanjarðar. Öll göng verða neðanjarðar, stöðvarhúsið verður neðanjarðar. Lónið fellur vel inn í landslagið að mínu mati. Það sem mér finnst vera lang ljótast í öllum þessum framkvæmdum það eru þessar háspennulínur. Og ég tók eftir því í áliti Náttúruverndar ríkisins að þeir sögðu: þessar framkvæmdir þarna eru ekki óafturkræfar. En hins vegar eru línurnar, þær eru óafturkræfar, þær má rífa niður, það er sjálfsagt rétt. En mér er sem ég sjái þann dag að Íslendingar taki þá ákvörðun, ja, við skulum segja íbúar okkar fallegu höfuðborgar, taki þá ákvörðun að rífa nú niður allar rafmagnslínur í kringum höfuðborgina til þess að fegra umhverfið og sætti sig við það að verða rafmagnslausir. Þannig að þó að það sé í prinsippinu hægt að segja svona að þá vitum við að við erum aldrei tilbúin sem einstaklingar að búa í samfélagi án þess að það séu rafmagnslínur.

ÆK: Hérna ... ég veit ekki hvað ... við kannski komum aðeins betur að prinsippunum í þessu en mig langar til þess að spyrja aðeins um þessa stöðu eða þetta hlutverk sem, sko, flokksformaður og þar með stefnumótandi í stjórnmálastefnu eins stjórnmálaflokks í landinu, hvernig þetta hlutverk fer við þetta annasama starf að vera utanríkisráðherra ... hvernig er t.d. ef þú ert staddur á hóteli einhvers staðar hinum megin á hnettinum, hvernig gengur þér að fylgjast með þróun mála á Austurlandi?

HÁ: Mér gengur það ágætlega. Ég er alltaf með síma með mér og það eru alls staðar faxtæki og það eru sjónvörp og maður er í stöðugu sambandi, það er enginn munur á því fyrir mig hvort ég er staddur í gær úti í Helsinki eða á morgun norður í Skagafirði eins og ég verð. Þannig að þetta er bara ekkert vandamál í nútímanum og mér finnst menn tala stundum eins og það hafi ekki átt sér stað neinar tæknibreytingar. Það má segja að það sem við erum að takast á við finnst mér í stjórnmálunum það er ekki síst þessar gífurlegu breytingar sem að maður er að upplifa; alþjóðavæðingin svo ég taki sem dæmi, tæknibreytingarnar, þetta kallar allt saman á nýja hugsun. Afstaða sem að maður hafði fyrir tíu árum á ekki lengur við í dag. Þessar gífurlegu breytingar í Evrópu þær hafa feiknarleg áhrif á okkur. Ég meina, franska byltingin á sínum tíma hafði mikil áhrif á alla Evrópu og með sama hætti er það sem er að gerast í Evrópu í dag eitthvað sem að hefur mjög mikil áhrif. Og við erum líka farin að tala um mannréttindi með öðrum hætti en við gerðum fyrir tiltölulega stuttum tíma síðan, ég meina, það sem við getum kannski talað um sem frummannréttindi er rétturinn til að kjósa, rétturinn til að segja sína meiningu, rétturinn til þess að þurfa ekki að þola pyntingar, þetta voru svona einhver frummannréttindi sem að menn voru að berjast við. Það þótti sjálfsagt að pynta fólk, það þótti sjálfsagt að banna mönnum að tjá sig, það þótti sjálfsagt að konur fengju ekki að kjósa. Nú er þessi þróun sem betur fer öll að baki og þá eru menn farnir að tala um nýja tegund mannréttinda. Við lítum á það sem mannréttindi að við getum sent börnin okkar í skóla, við lítum á það sem mannréttindi að við höfum aðgang að heilsugæslu, við höfum aðgang að spítölum. Til þess að njóta þessara mannréttinda þá þarf að eiga sér stað verðmætasköpun og mesti óvinur mannréttinda í heiminum er fátæktin. Það þýðir ekkert að segja fólki í Malawi, ráðherrum í Malawi, börnin ykkar njóta ekki grundvallarmannréttinda sem er að fara í skóla og fá lágmarks þjónustu í heilsugæslu. Auðvitað eru þeir að byggja það upp með sínum hætti á grundvelli þeirra litlu verðmæta sem þeir hafa. Og ef að við ætlum að geta boðið Íslendingum þessi grundvallarmannréttindi á við þjóðirnar í kringum okkur þá verðum við að standa okkur með svipuðum hætti og það þýðir það að við verðum að byggja upp og nýta þau tækifæri sem að bjóðast. Og það er hluti af því að halda fólkinu hér í landinu, missa ekki unga fólkið úr landi. Ég meina, okkar unga fólk á gífurleg tækifæri og þetta er allt saman hluti af einni heild og það er ekki hægt að tala um virkjun á Austurlandi og álver á Austurlandi bara með þeim hætti að reyna að átta sig á því hvaða áhrif það hefur á líf hreindýranna, hvaða áhrif það hefur á Flóru Íslands o.s.frv. os.frv. Þetta er svo margbrotin heild að það geta engir aðrir en stjórnmálamenn tekið þar endanlega ákvörðun sem eru rétt kjörnir til þess með lýðræðislegum hætti. Ef við förum að setja þær ákvarðanir til embættismanna, ágætra embættismanna, þá erum við að mínu mati að afnema lýðræðið og þessum embættismönnum dettur það aldrei í hug; ég meina, ég er oft ekki sammála mínum embættismönnum hér í þessu ágæta ráðuneyti. Við ræðum málin og þeir segja náttúrulega við mig að lokum, ja, þú hefur síðasta orðið Halldór, við gerum okkur grein fyrir því en ég er afskaplega þakklátur þessum góðu embættismönnum mínum að þeir eru tilbúnir til þess að segja mér sína skoðun en þeir standa með mér þegar að ég tek mína ákvörðun.

ÆK: En er það ekki mergurinn málsins í rauninni að það séu sem flestir til kallaðir að segja sína skoðun að undirbúa ákveðin álitamál ...?

HÁ: ... allt, allt rétt, allt rétt. En þá verða menn að vera klárir á því líka hver á að hafa síðasta orðið.

ÆK: Þessi kynni þín, Halldór, af Evrópumálefnum, ég man það að þú varst í forsvari fyrir Evrópuráðið, er það ekki rétt ...?

HÁ: ... jú, jú jú ...

ÆK: ... þ.e.a.s. ákveðna stofnun þess og Ísland hafði þar, gegndi þar forystu og þú sagðir það hafa orðið miklar breytingar á skoðunum þínum á síðustu tíu árum ... það er nú kannski full, hérna, dónaleg spurning en getur ráðherra skipt um skoðun en getur ráðherra skipt um skoðun?

HÁ: Jú, að sjálfsögðu. Ég er nú ekki frægur fyrir það að skipta um skoðun en auðvitað skipti ég um skoðun. Ég er alltaf að þroskast eins og annað fólk. Það sem var rétt í gær, getur verið rangt á morgun vegna breytinga, vegna aðstæðna, vegna þekkingarleysis o.s.frv. o.s.frv. Og það er nú sem betur fer þannig að maður er alltaf að læra og þess vegna hef ég verið að hvetja til meiri umræðu um Ísland og Evrópu. Og það er afskaplega skemmtilegt að lesa um það einmitt núna að Evrópa, Evrópusambandið er að byggja upp mikla umræðu um framtíð Evrópu; hvert á að vera hlutverk Evrópusambandsins, hvert á að vera hlutverk Evrópuþingsins, hvert á að vera hlutverk þjóðþinganna, hvernig á að tryggja sjálfstæði þessara ríkja innan Evrópusambandsins, þar eru tveir skólar á ferðinni annars vegar þeir sem að vilja gera Evrópusambandið að n.k. sambandsríki og svo aftur hinir sem að vilja það alls ekki. Og eftir því sem að Evrópusambandið stækkar þá verður það að mínu mati miklu ólíklegara að Evrópusambandið verði sambandsríki en þarna þarf hins vegar að finna betri skil, það eru alls konar hugmyndir á lofti og menn hafa ákveðið að taka sér núna bara nokkur ár að ræða það fram og til baka án þess að ákveða það fyrirfram hvenær ákvörðun verði tekin. Það má segja að þetta sé alveg nákvæmlega sama hugsun og ég hef reynt að halda fram að það þurfi að fara fram miklu meiri og opnari umræða um Ísland og Evrópu; hvaða kostir eru það sem við þar eigum, hverjir eru kostir þess að ganga í Evrópusambandið hverjir eru gallar þess að ganga í Evrópusambandið, hverjir eru gallar þess að standa þar utan við; er framtíð í evrópska efnahagssvæðinu og það er afskaplega mikilvægt að menn ræði þetta með opnum hætti. Og þá segi ég fyrir mig, ég sé ýmsa nýja fleti í þessu öllu saman vegna þess að ég sé hvað breytingarnar eru miklar. Ég meina, hér voru þrír fulltrúar Eystrasaltsríkjanna, þessara nýfrjálsu ríkja, það er alveg ljóst að þessar þjóðir gera sér grein fyrir því að þeir eiga sér ekki framtíð nema í náinni samvinnu við Norðurlönd og Evrópu. Og það er alveg sama með Ísland, framtíð Íslands verður ekki tryggð nema í mjög náinni samvinnu við Norðurlöndin og Evrópu í heild sinni. Og ég held að það sé líka ljóst að ef við ætlum að vega á móti öllum þeim göllum sem fylgja alþjóðavæðingunni, sem eru ýmsir, að þá gera menn það ekki nema í samstarfi þjóða. Við getum það ekki einir og ég held að sterk Evrópa sem býr yfir svona svipuðum gildum, svipaðri hugsun og við höfum, hin Norðurlöndin hafa líka svipaða hugsun á sviði mannréttinda, á sviði grundvallarréttinda; það þarf að berjast gegn þessum miklu ágöllum alþjóðavæðingarinnar í samvinnu slíkra þjóða sem búa við svipuð gildi og hafa svipuð gildi. Ég tel að gildin í Evrópu séu nokkuð öðruvísi en t.d. í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru öflugasta ríki heims, hafa lang mest áhrif, geta sett mönnum stólinn fyrir dyrnar og eru mjög valdamikil þjóð og ég held að það vanti þar mótvægi á vissan hátt. Það mótvægi er ekki lengur í kommúnismanum, hann er bara dauður sko, og núna eru menn ekki ... og nú segja menn nú erum við ekkert lengur hræddir við kommúnismann og jafnvel ekki við guð almáttugan, nú eru menn bara hræddir við fituna, þ.e.a..s. þessu sem fylgir velmeguninni og hérna nútímalífinu, það er þessi bölvuð fita. Þannig að það hefur orðið mikil breyting í hugsun.

ÆK: En þessi ... en einmitt umræðan um gildin ... sko, er okkur Íslendingum ekki frekar óeiginlegt að ræða um gildin, lendum við ekki dálítið í því að vera að byrja á því að ákveða hvort við ætlum að vera með eða á móti, án þess að skoða gildin sem að liggja þar að baki?

HÁ: Sko, það er alveg nauðsynlegt að hafa þessi gildi alltaf í huga og við erum nú kristin þjóð og það er náttúrulega alveg ljóst að við sækjum okkar hugsun og okkar mikilvægustu gildi í kristna hugsun og þess vegna skiptir það miklu máli að mínu mati að kirkjan á Íslandi sé öflug og mér hefur fundist að hún sé að styrkajst. Og ég tel líka mikilvægt að Háskólinn sé öflugur vegna þess að menntunin er mesta trygging þess að við höldum ákveðnum gildum í heiðri og það er náttúrulega alveg ljóst að við sem erum í pólitíkinni við sækjum það mikilvægasta í því inn í heimspekina. Heimspekin er grundvöllur stjórnmálastarfsins en við megum vara okkur á því að festast alveg í einhverju einu, við verðum að hafa yfirsýn og við verðum að hugsa um þetta allt í samhengi og mér hefur fundist það vera mikilvægt í mínu pólitíska lífi að ég hef alltaf reynt að hugsa hlutina þannig, það er kannski vegna þess að ég lærði ungur bókhald og vissi að það var alltaf debet og kredit og það er mjög góð þjálfun að þurfa alltaf að stemma hlutina af og fá þá til þess að passa og hafa vanist því. En ég vil, og tel mig vinna þannig að ég hafi þessi gildi að leiðarljósi. Þegar ég er t.d. að hugsa um virkjun á Austurlandi, ja, þá reyni ég að hugsa á grundvelli þeirra umhverfissjónarmiða sem ég tel að þurfi að hafa að leiðarljósi, efnahagslegra gilda, nú, þjóðfélagslegra gilda í sambandi við byggðina. Ég meina, viljum við að þetta haldi endalaust áfram að hér sé byggt upp á Reykjavíkursvæðinu en landsbyggðin koðni niður er það íslensku þjóðfélagi til góðs, er það höfuðborginni til góðs, nei, það hafa allir komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. En við verðum líka að vera tilbúin að leggja eitthvað á okkur til þess að viðhalda því samfélagi, þeirri menningarlegu heild sem að íslenska þjóðin er og allt þetta þurfum við að hafa í huga í þessum stóru og flóknu málum.

ÆK: En hvernig gengur þér, Halldór, að fá eiginlega frið til þess að hugsa, til þess að skoða þau gildi sem að baki málunum liggja ... sko, það er stundum sagt að stjórnmálamenn séu undir svo mikilli pressu hagsmunaaðila að þeir lendi oft í því að vera bara með debet- og kreditreikninginn á , ja, eiginlega á þrýstihópunum í kringum sig?

HÁ: Ég upplifi það ekki þannig. Ég, ég meina, jú jú, það tala við mann ýmsir menn og með ólíka hagsmuni og það er eins og gengur í lífinu en ég hef aldrei upplifað það sem einhvern þrýsting sem ég er undir og geti ekkert annað. Það sem við þurfum að gera sem erum í stjórnmálum það er að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Ja, við skulum við taka sem dæmi að nú stöndum við frammi fyrir því að taka einhverjar ákvarðanir á næstu mánuðum í sambandi við sjávarútvegsmál. Við hljótum að hafa það að leiðarljósi að viðkomandi atvinnugrein að hún gangi, að hún fari ekki öll á hausinn það getur ekki verið markmiðið þó að mönnum finnist ýmislegt megi vera öðruvísi þar eins og annars staðar þá verðum við að hafa það að leiðarljósi að okkar helsta grundvallaratvinnugrein, sem er sjávarútvegurinn, hún geti gengið, hún geti keppt á alþjóðlegum mörkuðum og hún geti staðið undir þeim góðu lífskjörum sem við búum við, við megum ekki þrengja svo að henni að hún fari öll sömul yfir um með þeim afleiðingum sem það hefur fyrir aðrar stofnanir samfélagsins. Ég upplifi þetta ekki sem einhvern þrýsting. Ég upplifi það þannig að ég þurfi sem stjórnmálamaður að reyna að gera mér grein fyrir afleiðingum. Nú, það er ekki á allt kosið í þeim efnum, það eru alltaf kostir og gallar en við getum ekki komið og sagt: af tvennu illu vel ég hvorugt. Það er náttúrulega afskaplega þægilegt að hafa þá hugsun í stjórnmálum og mér finnst stundum að sumir stjórnmálamenn hafi þá hugsun en það verða nú litlar framfarir á þeim grundvelli.

ÆK: En nú eru stjórnmálamenn gjarnan sakaðir um það að þeirra tímaskyn sé mjög, sko, sérstakt því þeir hafi fjögurra ára ... þeir hafi einhvers konar innbyggt fjögurra ára dagatal þ.e.a.s. kjörtímabilið og þeim gangi oft illa að horfa fram í tímann ... kannski gengur þeim þetta ekkert illa en þeir lenda í því að láta fjögurra ára hagsmunina ráða of miklu.

HÁ: Mér gengur ekkert illa að horfa fram í tímann og ég er ekkert að hugsa um fjögurra ára hagsmuni alla tíð og kannski geri ég það ekki nægjanlega mikið. Ég vil taka eitt dæmi. Ég hef reynt að beita mér fyrir víðtækari umræðu um Evrópu og menn eru mjög gagnrýnir í mínum flokki á Evrópusambandið og telja að það sé ekki rétt af mér að vera að reyna að efna til svona víðtækra umræðu um framtíð Íslands í Evrópu. Ég tel það hins vegar skyldu mína og tel það nauðsynlegt að það eigi sér stað ekki síst í mínum flokki, Framsóknarflokknum. Við getum ekki bara setið og ákveðið að við viljum bara tala um það sem er þægilegt og er svona, ja, gott að sitja svona yfir kaffibolla og enginn ágreiningur og ekkert mál. Menn takast aldrei á við viðfangsefni framtíðarinnar öðru vísi en það verði einhverjar skiptar skoðanir hvort sem það eru málefni Evrópu eða fiskveiðistjórnunarmálin eða skattamálin eða velferðarmálin og alþjóðamálin almennt. En þegar nánar er að gáð þá hangir þetta allt saman saman í einni heild og alþjóðaáhrifin þau eru orðin svo mikil, Ísland er komið inn í miðju alþjóðamálanna, miðju alheimsins með þeim miklu tæknibreytingum sem hafa orðið þá hlýtur náttúrulega hver maður að sjá að áhrifin af því eru gífurleg og kalla á nýja hugsun, kalla á nýja sýn og ég tel að þar með séum við að hugsa til lengri framtíðar.

ÆK: ... og þú ert ekki á því að láta, þ.e.a.s. forsætisráðherra í ríkisstjórninni sem þú situr í ráða dagskránni um það hvað menn hugsa eins og reyndar hefur stundum verið vísað í sambandi við Evrópumálin.

HÁ: Nei, hann hefur nú ekki gert neina tilraun til þess gagnvart mér, ég meina, við höfum haft skiptar skoðanir á því hvernig eigi að fara í það mál og það er bara eðlilegt, ég ætlast ekki til þess að allir hafi sömu skoðun og ég á þeim málum en ég er formaður míns stjórnmálaflokks, ég er utanríkisráðherra og mér ber skylda til þess að koma því á framfæri sem ég sé og ég verð áskynja, hvernig ég met framtíðarhagsmuni Íslands og það er það sem ég er að gera. Ég er ekki að gera það af neinum öðrum ástæðum en þeim að ég tel að þetta mál skipti framtíð Íslands miklu máli og Íslendinga og það eigi að ræða af hreinskilni og einlægni og fara ofan í allt sem að varði framtíðarhagsmuni Íslands. Og ég vona það að þessi umræða eigi enn eftir að eflast en því verður ekkert á móti mælt að hluti af því að fá hana í gang er að það eru ekki nægjanlega margir að rannsaka þessi mál. Það vantar fleiri til að rannsaka málin. Aðstaða íslenskra fjölmiðla er ekkert góð til þess. Það eru miklar kröfur á íslenska fjölmiðlamenn að þeir eigi að skila svo og svo miklu á hverjum degi og þeir hafa ekki mikinn tíma til þess að setja sig inn í þessi mál og fara ofan í þau á gagnrýninn hátt og spyrja réttu spurninganna og fylgja spurningun eftir. Stjórnmálamenn komast að mínu mati alltof mikið upp með það að svara með mjög yfirborðskenndum hætti.
ÆK: Nú er það þannig að t.d. stofnun eins og Ríkisútvarpið hefur haft lausráðinn fréttamann í Brussel árum saman og þess vegna hafa hlustendur Ríkisútvarpsins reyndar getað fylgst með atburðum á vettvangi Evrópusamstarfsins frá degi til dags ...

HÁ: ... nú er hann ekki lengur þar ...

ÆK: ... nú er hann ekki lengur þar og annað hitt að hann hefur ekki getað annað því að rannsaka málin, að stúdera málin, það sem á bak við liggur.

HÁ: Nei, en samt hefur hann nú gert það að nokkru leyti, sko, ég meina það að fylgjast með en þá hafa menn komið og sagt, ja, þessi maður er bara að ganga erinda ákveðinna sjónarmiða
ég hef heyrt það vegna þess að hann hefur verið að setja sig inn í þau. Ég tel að hann hafi verið að því en hann hefur haft á því þó meiri þekkingu en margir aðrir sem að kemur með því að vera á viðkomandi stað, fylgjast með umræðunni þar, lesa blöðin á staðnum, lesa allt sem er að gerast, dæma það út frá því en oft á tíðum erum við að gera okkur hugmyndir um að hlutirnir séu allt öðru vísi en þeir eru og það er byggður upp einhver hræðsluáróður sem að gengur út á það að menn eigi nú að passa sig á því að vera ekkert að skoða þetta. Það sé eiginlega bara miklu betra að vera bara í myrkrinu. Þetta er nú svona hálfgerð miðaldahugsun sem að á ekkert við í dag.

ÆK: En hvaða leiðir sérð þú, Halldór, til þess að efla þessa umræðu, þ.e.a.s. efla ... nú eru opinber afskipti, opinber stuðningur ekki beinlínis í tísku um þessar mundir en kæmi það til greina að efla rannsóknarstarf háskólastofnana, fjölmiðla ...?

HÁ: Ég tel að það sé alveg tvímælalaust og auðvitað er náttúrulega mikilvægt að stjórnmálaflokkunum sé gert kleift að fara í gegnum þessi mál. Við t.d. í Framsóknarflokknum settum í gang starf sem var mjög umfangsmikið, við skiluðum mikilli skýrslu um það sem að liggur fyrir og hefur að mínu mati hlotið allt of litla umfjöllun. Ég held að umfjöllun um hana eigi eftir að verða meiri því að ég er þeirrar skoðunar að þarna hafi vreið um tímamótaskjal að ræða í íslenskum stjórnmálum og við höfum sem sagt góða reynslu af því að fara í gegnum slíkt starf. Nú erum við að fara í gegnum sambærilegt starf í sambandi við stjávarútvegsmálin og fiskveiðistjórnunina. Það er ekkert létt, menn hafa skiptar skoðanir en þetta verður til þess að þetta pólitíska starf að það verður dýpra og það kemur þekking inn í það og þeir sem að taka þátt í því þeir þroskast og einhverjir breyta um skoðun og ég held að það sé munaður þekkingarinnar að það að þegar maður er búinn að læra þá kemur eitthvað nýtt inn í kollinn á manni og það getur orðið til þess að maður sjái hlutina með örðum hætti en maður gerði áður.

ÆK: Nú eru stjórnmálamenn í þeirri stöðu, kannski eru það ákveðin forréttindi, að þeir koma að mjög mörgum málum og bara eins og þú, þú komst að fiskveiðistjórnunarmálunum á sínum tíma, við höfum verið að nefna hér umhverfismál og orkumál, byggðaþróun og svo alþjóðlegt samstarf enþað er líka stundum sagt að við séum svo fáir, Íslendingar, að við ráðum ekkert við að vinna faglega að öllum þeim málum sem við þyrftum helst að koma að og þess vegna verði t.d. stjórnmálamenn oft á tíðum að taka sínar ákvarðanir eiginlega og byggja það á sjálfum sér. Þeir hafa ekkert voðalega mikið af sérfræðingum í kringum sig.

HÁ: Nei, þetta er bara einkenni og eðli íslensks samfélags, við erum fá, við erum með litla utanríkisþjónustu, við erum með fámenna fjölmiðla, við erum sem sagt með fámennar stofnanir o.s.frv. o.s.frv. Og við sem erum í stjórnmálum hér á landi við þurfum að ganga í ýmis verk, ég meina, ég er á þessum degi ekki eingöngu að fjalla um utanríkismál, ég verð að fjalla um sjávarútvegsmál í dag og ég verð að fjalla um iðnaðar- og orkumál, ég verð eitthvað að fjalla um ýmis önnur mál, ég verð að gera það sem formaður í stjórnmálaflokki þannig að minn tími fer í það. En mér finnst að þetta gangi vel í íslensku samfélagi og við getum þetta; við getum staðið fyrir okkar á alþjóðavettvangi og það vekur mikla aðdáun hvað við getum og gerum mikið með fáu fólki og menn skilja það ekki almennilega. En það er held ég vegna þess að við erum vön þessu, að skipta okkur og vera í einu í dag og öðru á morgun og þennan klukkutímann og hinn klukkutímann en það er líka eðli Íslendinga að eiga langan vinnudag og ég held að það sé afskaplega erfitt að reka okkar litla samfélag nema að einstaklingarnir leggi og þurfi að leggja hlutfallslega miklu meira á sig en í mörgum öðrum löndum.

ÆK: Nú ertu að fara að opna sendiráð í Japan, það er nýtt sendiráð í Kína, ráðum við við þetta að vera í tengslum við allan heiminn?

HÁ: Ja, það er spurningin, sko, ráðum við við það að vera ekki með það, það er líka hinn hlutinn. Það er náttúrulega ljóst að efnahagslíf heimsins er flókið og helstu iðnríki heims hafa með sér mikið samstarf og þar inni er Kanada, þar inni er Japan, þessi ríki hafa mikil áhrif. Með þeim ákvörðunum sem við höfum nú tekið þá erum við komin með sendiráð í öllum þessum helstu iðnríkjum heims og ég held að það sé ekki hægt að vera hluti af alþjóðavæðingunni, vera þátttakandi í henni með þeim hætti sem við Íslendingar þurfa að vera nema að hafa fulltrúa hjá öllum þessum þjóðum. Það sé nú algjört lágmark, þannig að ég tel að við séum að uppfylla þarna ákveðnar lágmarksskyldur sem við verðum að geta borið sem sjálfstæð þjóð og kostnaðurinn við utanríkisþjónustuna er, ja, hvort hann er einhverjir 3 milljarðar á ári, rúmir 3 milljarðar. Þar inní er þróunarhjálp og margt, margt fleira. Þannig að það er tiltölulega lítið ef við bara miðum við þjóðfélög sem eru með útgjöld til hermála, það þykir nú engin þjóð með þjóð nema að það sé nú kannski a.m.k. 1% af þjóðartekjum til varnar- og öryggismála, jafnvel 2%, nú, 1% af þjóðartekjum er 7 milljarðar. Þannig að við verðum að sinna þessum hlutum með öðrum hætti sem herlausri þjóð sæmir sem ég vona að við verðum alltaf en það þýðir að okkur ber skylda til þess að leggja fátækum þjóðum lið, við verðum að taka þátt í þróunarmálum, við verðum að sýna þeim skilning og við verðum líka að taka þátt í friðargæslu, annars erum við ekki fullgildir aðilar að alþjóðasamfélaginu.

ÆK: Hefur þú orðið var við það í þínu starfi sem utanríkisráðherra að Íslendingar hafi dálítið góða stöðu gagnvart þróunarríkjunum vegna þess að við erum Evrópuþjóð, búum við nútímalegt hagkerfi að mörgu leyti en erum samt í rauninni ekki, hvað á að segja..., við erum engir ... hvorki ofbeldisseggir né hinir ríku eða stóru?

HÁ: Já og nei, já og nei og það fylgir því styrkur að vera lítil þjóð sem er svona kannski jafn háð ýmsu öðru í alþjóðasamfélaginu og þessar stærri þjóðir, við eigum auðveldara með að sýna meiri sveigjanleiga, bregðast fljótt við ef eitthvað kemur upp, við erum þannig gerð en hins vegar höfum við miklu takmarkaðri möguleika til að hjálpa eins og fylgir nú oft slíkum málum. Við skulum taka sem dæmi friðarferlið í Miðausturlöndum. Norðmenn hafa blandað sér inn í það með afgerandi hætti en Norðmenn hafa þurft að leggja feiknarlega mikið inn í það af mannafla, fjármagni o.s.frv. Nú eru Þjóðverjar að koma inn í það með Evrópusambandið að sjálfsögðu í bakgrunni en þetta eru svo stór mál að það er ekki á færi smáþjóðar eins og okkar Íslendinga að veita þar forystu nema að hafa einhvern mjög sterkan bakhjarl. Við getum það á vettvangi Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. Þannig að það eru bæði kostir og gallar og okkur eru ákveðin takmörk sett í þessu. Ég meina, ef að við erum nú kallaðir til af fátækri þjóð í Afríku til að hjálpa til í fiskveiðimálum eða einhverju slíku þá þýðir það ekki bara að tala við menn yfir kaffibolla, það þarf að gera eitthvað raunhæft, það þarf að senda fólk, það þarf að senda fjármagn o.s.frv.
ÆK: Það er kannski sáttasemjara- og að einhverju leyti einhvers lags milligönguhlutverk, eða hvað?

HÁ: Jú, jú, það getum við en það má segja að þeir eru líka ... eiga auðveldara með að miðla málum sem að hafa svona mikið efnahagslegt vald eins og Bandaríkin, Evrópusambandið. Við skulum taka sem dæmi Miðausturlönd núna. Það er enginn sem telur að það sé hægt að koma þar á friði nema að Bandaríkin beiti sér og þá þarf að beita Ísraelsmenn þrýstingi og það eru engir nema Bandaríkin sem að geta beitt Ísraelsmenn þrýstingi í því máli. Ég meina, það er alveg ljóst að Ísraelsmenn eru að ganga alltof langt og þessar árásir og raunverulega hertaka á þessu svæði, gísling þessa fólks, er nokkuð sem getur ekki verið viðvarandi og þetta er komið þannig að öfgaöflin eru orðin ráðandi. Bandaríkjamenn gerðu að mínu mati þau mistök að samþykkja þá áætlun Sharons að það yrði fyrst að komast á algjör friður, þá fyrst væri hægt að fara að ræða saman. Þar með er öfgaöflunum gefinn laus taumur, þ.e.a.s. þeir sem vilja ekki frið, þeir sem vilja ekki semja þeir náttúrulega halda áfram að nota sprengjur og vilja koma því til leiðar að komist ekki á neinar friðarumræður. Þetta ... þessi áætlun getur ekki gengið upp og að mínu mati þurfa Bandaríkjamenn núna að segja hingað og ekki lengra, friðarferlið verður að fara aftur í gang þó að einhver órói sé en það verður að gera þá kröfu að um leið og friðarferlið fer í gang á ný þá stoppi það og bæði Ísraelsmenn og Palistínumenn verða að taka ábyrgð á því og beita sér gegn öfgaöflunum og halda þeim niðri.

ÆK: Halldór Ásgrímsson, það styttist nú í þessu spjalli okkar en ... sko, þingstörf hefjast nú í október að venju og nú er þetta kjörtímabil hálfnað, ekki satt..?

HÁ: Jú, og rúmlega það ...

ÆK: ... rúmlega það ... hvernig líst þér eiginlega á næstu mánuði, hvað svona ... í innlendu pólitíkinni, á þessum innlenda vettvangi, eru þau mál sem ber kannski hæst eru þau viðráðanleg?

HÁ: Þetta er allt viðráðanlegt ef að okkur ber gæfa til að taka rétt á þeim; það eru samdráttareinkenni í þjóðfélaginu, vextir eru hér alltof háir, það er því miður mikið um efnahagslega erfiðleika bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum og ég held að þetta eigi eftir að koma betur fram á næstunni og það geti skapast hér nokkurt atvinnuleysi sem ég hef miklar áhyggjur af. Nú, þá verðum við að vera tilbúin með eitthvað nýtt, það er það sem við höfum verið að undirbúa, það er okkar framtíðarsýn að reyna að skipuleggja hluti. Ég býst við því að ef að kemur hérna upp nokkurt atvinnuleysi að þá muni menn spyrja: hvað hafa þessir stjórnmálamenn verið eiginlega að hugsa, hvar hafa þeir verið. Það er hins vegar alveg ljóst að velgengnin og velmegunin hún slævir hugsunina og menn taka þetta allt saman sem gefið að þetta sé fyrir hendi og það sé bara vitleysa að vera að hugsa um einhverjar virkjanir og iðnfyrirtæki og hvað þessir menn séu eiginlega að hugsa, hvort að við getum ekki bara notið þess að ganga um þessi fallegu fjöll en þetta náttúrulega gengur ekkert upp og ég er alveg viss um það að þegar að menn líta til baka að þá munu menn sjá að þeir sem voru að vinna að þessum málum voru einmitt að hugsa um framtíðina.

ÆK: En ... sko, með þessu, breytingunum sem hafa orðið á samfélaginu, ja, síðan þú byrjaðir í stjórnmálum, þú nefndir að þú hefðir byrjað í stjórnmálum, hvað }74 ...

HÁ: ... já, þá var ég kosinn á þing.

ÆK: ... það er orðinn, sum sé, aldarfjórðungur rúmlega ... sko, er hægt ... getur stjórnmálamaðurinn stjórnað ?? eins og hann gerði þá?

HÁ: Neei, hann getur það ekki sem betur fer kannski, ja, sko, völdin hafa verið að dreifast mikið í okkar samfélagi. Ég tel að það sé af hinu góða og stjórnmálamaðurinn í dag hann vinnur afskaplega opið. Það vita nánast allir hvað við erum að gera, hvað við erum að hugsa, það er ekkert pukur í því, a.m.k. kannast ég ekki við það og maður vinnur algjörlega fyrir opnum tjöldum og það þýðir það að menn eru undir miklu aðhaldi og náttúrulega þá um leið mikilli pressu sem einstaklingar og ég býst við því að við gerum okkur ekki alltaf alveg grein fyrir því hvað við erum undir mikilli pressu og hvað við erum í miklu kastljósi. En það má hins vegar ekki ganga svo langt að völdin séu gjörsamlega tekin af stjórnmálamönnunum vegna þess að þá munu þeir ekki hafa neinu hlutverki að gegna lengur og þá kemur hvað á að koma þá í staðinn. Er það embættismannavald, hvers konar vald er það, er það dómstólarnir...? Ég ætla ekkert að leyna því að ég hef verið afskaplega ósáttur við tvo dóma Hæstaréttar og ég tel að Hæstiréttur hafi gengið þar mjög langt og það má segja að á vissan hátt við okkur stjórnmálamennina: þið hafið ekki vald til þess að gera það sem þið eruð að gera, þið hafið ekki vald til þess að gera það sem við töldum okkur hafa vald til. Nú við verðum að aðlaga okkur að því, við verðum að taka því, við gerum það. Hins vegar hafa þessir dómar Hæstaréttar verið afskaplega óskýrir og ég er þeirrar skoðunar að hæstiréttur landsins verði að vanda sig alveg eins og stjórnmálamennirnir og Hæstiréttur er afskaplega mikilvæg stofnun og ég tel að hæstiréttur landsins hafi í þessum tveimur málum, annars vegar öryrkjamálinu og hins vegar fiskveiðistjórnunarmálinu, sýnt vinnubrögð sem að ég átti ekki von á.

ÆK: En hvort er nú vænlegra fyrir lýðræðið að stjórnmálamennirnir hafi svigrúm, þá verður maður reyndar að treysta því að þeir hafi bæði vit og góðan vilja, eða það að komi fleiri að ákvarðanatökunni með ... hvað eigum við að segja ... fleiri stofnanir þá, fulltrúar eða þ.e.a.s. fulltrúar almennings sem embættismenn ...?

HÁ: ja, sko, fulltrúar almennings ... sko, stjórnmálamennirnir eru fulltrúar almennings...

ÆK: ...jú...

HÁ: ... almenningur hefur ekki kosið embættismenn, almenningur hefur ekki kosið Hæstarétt. Þannig að almenningur hefur ekki áhrif þar á og við getum ekki talað við Hæstarétt, hann er óháður. Við getum hins vegar haft skoðun á því hvort okkur finnst dómur Hæstaréttar vera góður eða slæmur eða hvort hann komi okkur á óvart. Ef eitthvað kemur manni á óvart á maður þá bara að segja: nei, nei, þetta er bara fínt og ég er algjörlega sammála þessu eða á maður alltaf að segja ég neita að tjá mig um það. Ef ég les eitthvað hér frá Skipulagsstjóra og ýmsum öðrum sem ég tel mig hafa einhverja þekkingu á, á ég þá alltaf að segja: ja, ég get nú bara því miður ekki tjáð mig um þetta, þetta er að vísu stærsta pólitíska mál sem að við erum að fást við í landinu um þessar mundir en vegna þess að ég er nú í þessari stöðu þá get ég ekki neitt sagt. Ég meina, það hlýtur náttúrulega hver maður að sjá að svona samfélag gengur ekkert upp og þeir sem að stýra mikilvægum stofnunum, þeir verða náttúrulega að hafa burði til að svara fyrir sig og þola það að það sé við þá talað ...

ÆK: ... en er það ekki nákvæm ...

HÁ: ... og það er hins vegar miklu erfiðara fyrir embættismenn, ja, t.d. eins og Hæstiréttur, hann svarar ekki fyrir sig. Það er bara ein leið til þess að fá hann til þess að segja eitthvað, það er í sínum dómum og við verðum að sjálfsögðu að sætta okkur við þá dóma og ég geri það, ég sætti mig við það, ég beygi mig undir það eins og hver annar þjóðfélagsþegn og stjórnmálamaður en ég ætla, svo lengi sem ég er í pólitík, að hafa leyfi til þess að hafa einhverja skoðun á því eins og öðru.

ÆK: En er það ekki nákvæmlega, sko, er það ekki í rauninni góð staða sem er uppi núna að það eru stofnanir sem að starfa samkvæmt lögum, koma með fagleg álit, eins og t.d. á umhverfismálunum en þú og aðrir sem berið þessa stjórnmálalegu ábyrgð þið eruð ekkert að víla það fyrir ykkur að tjá ykkur, eða ...?

HÁ: Nei, nei, en það skiptir máli að bæði okkar vinnubrögð og þeirra vinnubrögð séu vönduð. Það er náttúrulega það sem skiptir megin máli og að menn séu tilbúnir að virða lýðræðislegar leikreglur en segi eins og stjórnarandstaðan í þessu máli að álit þessarar stofnunar, það eru hin heilögu orð. Það er náttúrulega gjörsamlega fráleitt og stjórnarandstaða sem ætlar sér einhvern tímann að fara í ríkisstjórn, að það er eiginlega með ólíkindum að hún skuli hafa slíkar skoðanir.

ÆK: En er það ekki nákvæmlega, sko, vönduð vinnubrögð þ.e.a.s. þessar stofnanir, embættismennirnir þeir tjá sig í skýrsluformi og öðru þ.u.l. en þið segið ... sko, það veiti ykkur ákveðið aðhald, það er ekki sú tíð lengur að ráðherra geti bara sagt, ja, ég bara ræð ...?

HÁ: Nei, nei ...

ÆK: ...er nokkuð, ... er ekki ákveðið jafnvægi...?

HÁ: Jú, en menn verða nú líka, sko að..., það er svona..., jú, ef menn eru tilbúnir að virða þær reglur en það er..., það er tilhneiging til þess í þjóðfélaginu að gera skoðanir stofnana að einhverju sem eigi að vera síðasta orðið og það er bara eitthvað sem við stjórnmálamenn getum ekkert skrifað undir. Við erum ekki kosnir til þess.
ÆK: Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, þakka þér fyrir spjallið.
HÁ: Þakka þér miklu frekar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum