Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. september 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp ráðherra á kynningu um Íslensku friðargæsluna

    Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, á kynningu um Íslensku friðargæsluna, mánudaginn 10. september

    Fjölþjóðleg friðargæsla hefur tekið stórstígum breytingum allt frá því að Sameinuðu þjóðirnar efndu til fyrstu friðargæsluaðgerðarinnar í Palestínu árið 1948. Fram til loka kalda stríðsins snerist friðargæsla að mestu leyti um útsendingu herliðs til átakasvæða, og starfaði það lið undir fána Sþ. Hinir svokölluðu "Bláhjálmar" höfðu það hlutverk að gæta landamæra og hafa eftirlit með vopnahléi. Hugmyndafræðin fólst í að tryggja frið með viðveru og skapa þannig skilyrði fyrir friðarsamninga. Það tókst stundum vel, en stundum miður eins og sagan sýnir.

    Frá lokum Kalda stríðsins hefur friðargæsluhugtakið hins vegar þróast hratt, bæði með tilliti til umfangs og innihalds friðargæsluaðgerða. Auk Sameinuðu þjóðanna starfa nú Atlantshafsbandalagið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu á þessu mikilvæga sviði alþjóðastjórnmála. Evrópusambandið hyggst einnig láta til sín taka í friðargæslu í framtíðinni. Þátttökuríkjum í friðargæslu hefur fjölgað ört og þjóðir sem áður stóðu andspænis hver annarri, sitt hvoru megin járntjaldsins, starfa nú hlið við hlið að uppbyggingu friðar.

    Stærsta breytingin sem orðið hefur á friðargæslu á síðast áratug er hins vegar sú, að friðargæsla beinist ekki eingöngu að því að friður haldist á átakasvæðum. Friðargæsluaðgerðir felast nú í auknum mæli í aðgerðum annars vegar til að koma í veg fyrir að átök brjótist út og hins vegar til að koma á varanlegum friði. Slík friðaruppbygging felst m.a. í eflingu lýðræðislegra stofnana og uppbyggingu efnahagslífs á átakasvæðum. Í sumum tilfellum hefur alþjóðasamfélagið þurft að taka við stjórn heilla samfélaga og byggja upp innviði þess frá grunni. Auk þessa umfangsmikla uppbyggingarstarfs er friðargæslusveitum í auknum mæli falin víðtæk mannúðarstörf á borð við aðstoð við flóttafólk, dreifingu matvæla og hreinsun jarðsprengjusvæða. Verkefnin eru því ærin og fjölbreytt.

    Önnur meginbreyting sem orðið hefur á eðli friðargæsluaðgerða er hin nána samvinna herliðs og borgaralegra sérfræðinga. Reynsla alþjóðasamfélagsins hefur leitt í ljós að samstarf hermanna og borgara er forsenda þess að hægt sé að takast á við fyrirliggjandi verkefni. Gott dæmi um slíkt er núverandi samstarf Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópusambandsins í Kosóvó. Þar starfa náið saman borgaralegir starfsmenn og hersveitir eftir fyrirfram ákveðinni verkaskiptingu. Atlantshafsbandalagið hefur aðlagað sig að þessum breytta veruleika og í friðaraðgerðum NATO starfar nú fjöldi borgaralega sérfræðinga með og í hersveitum aðildarríkja bandalagsins.

    Þessi þróun felur í sér að ríki á borð við Ísland, sem ekki hafa á herliði að skipa og áttu því erfitt með að taka þátt í hefðbundinni friðargæslu, geta nú tekið þátt í alþjóðlegum öryggismálum með beinni hætti en hingað til með því að leggja til borgaralegra sérfræðinga. Með þátttöku í friðargæsluaðgerðum hefur Ísland því tækifæri á að axla ábyrgð í alþjóðasamfélaginu og vera fullgildur þátttakandi til jafns við aðrar þjóðir. Þetta tækifæri hafa íslensk stjórnvöld einsett sér að nýta og veita þannig framlag til friðar, bæði í orði og á borði.

    Allt frá árinu 1994 hafa um 60 íslenskir starfsmenn verið sendir til friðargæslu, fyrst til Bosníu, síðar til Kosóvó, og nú seinast til Makedóníu. Í upphafi var einkum um að ræða hjúkrunarfólk, lækna og lögreglumenn, en á síðustu árum hafa íslenskir friðargæsluliðar einnig komið úr hópi ýmissa annarra stétta. Íslenskir verkfræðingar hjá NATO hafa starfað að efnahagslegri uppbyggingu, lögfræðingar hjá ÖSE að styrkingu lýðræðislegra stofnana og lögreglumenn hjá Sameinuðu þjóðunum að þjálfun og rannsóknum, svo þrjú dæmi séu nefnd. Á þessu ári hafa rúmlega 15 Íslendingar starfað á Balkanskaga á vegum utanríkisráðuneytisins.

    Reynslan af íslensku friðargæslustarfi hefur verið góð. Störf okkar fólks, bæði þeirra sem eru á vegum utanríkisráðuneytisins og þeirra sem starfa beint hjá alþjóðastofnunum, hafa fært okkur heim sanninn um að Íslendingar hafa margt fram að færa og að íslenskir starfsmenn búa yfir styrkleikum sem nýtast vel. Friðargæsluframlag Íslands styrkir einnig stöðu landsins innan alþjóðasamfélagsins, s.s. á vettvangi NATO, Sameinuðu þjóðanna og ÖSE.

    Af þessum ástæðum sem ég hef rakið hér að framan hefur ríkisstjórnin ákveðið að efla enn frekar þátttöku Íslands í friðargæslu. Markmiðið er að byggja upp getu til fjölga íslenskum friðargæsluliðum í allt að 25 árið 2003 með því að setja á laggirnar skrá yfir allt að 100 einstaklinga sem gefa kost á sér til starfa með skömmum fyrirvara. Með aukinni þátttöku og reynslu er miðað við að íslenskum friðargæsluliðum geti fjölgað í allt að 50 manns í framhaldi af því. Efling friðargæslustarfsins mun fara fram hjá Atlantshafsbandalaginu, Sameinuðu þjóðunum og ÖSE. Þá hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að geta sent allt að 25 manns til friðargæslustarfa með hinu fyrirhugaða 60 þúsund manna hraðliði Evrópusambandsins.


    Góðir gestir,
    Íslenska friðargæslan sem í dag verður hleypt af stokkunum markar ákveðin tímamót í íslenskum utanríkismálum. Hún er annars vegar formfesting á árangursríku friðargæslustarfi íslenskra stjórnvalda fram til þessa og hins vegar mikilvægur þáttur í því að bregðast við þeirri þróun á alþjóðavettvangi sem ég rakti áðan í máli mínu. Það er von mín að íslensk starfsfólk sem hefur áhuga, þekkingu og reynslu sem komið getur að notum í friðargæslu muni gefa kost á sér til starfa og þannig verða hluti af framtíðaráformum Íslands í friðargæslu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum