Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. október 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða ráðherra á námstefnu um samninga í alþjóðlegum viðskiptum

    Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, 17. október 2001
    ,,Námstefna um samninga í alþjóðlegum viðskiptum"

    Utanríkisráðuneytið og
    Útflutningsráð Íslands


    Kæru fundargestir,

    Því er stundum haldið fram að viðskipti, sérstaklega milliríkjaviðskipti, snúist um heppni. Það að vera réttur maður á réttum stað og á réttum tíma.
    Sumir eru þeirrar skoðunar að vandlegur undirbúningur og þekking á ákveðnum grundvallarlögmálum sé það sem máli skiptir.

    Ég tel í þessu sambandi að draga megi nokkurn lærdóm af sögu um presta, sem báðir fengu greitt fyrir vinnu úr söfnunarbauk kirkjunnar. Aðferðirnar sem þeir notuðu voru þó mismunandi. Annar lýsti því yfir að hann teiknaði lítinn hring á kirkjugólfið hellti úr bauknum yfir hringinn og léti síðan guð um að sjá til þess að það sem honum bæri félli fyrir utan hringinn. Fátæk sóknarbörn fengju hins vegar það sem félli innan hringsins. Hinn presturinn taldi samstarfsmann sinn gefa guði lítið svigrúm. Hann hefði annan hátt á og tæki söfnunarbaukinn og henti fénu upp til himna og bæði guð að taka það sem hann vildi, en það sem félli til jarðar væri hans. Sá síðarnefndi þekkti til þyngdarlögmálsins er var grundvallarlögmál þessara viðskipta.

    Kæru gestir,
    Fáar þjóðir eru eins háðar utanríkisviðskiptum og við Íslendingar. Áfram eru sjávarafurðir okkar helsta útflutningsafurð en á undanförnum árum hefur fjölbreytni aukist verulega. Í vaxandi mæli færum við okkur inn á ný svið viðskipta. Nefna má ný tækifæri svo sem á sviði, hátækni, líftækni, þjónustuviðskipti og hugverkaréttindi. Viðsemjendur okkar eru fleiri og viðskiptasvæðið er flóknara og mun víðfeðmara. Segja má að íslenskir útflytjendur hafi að nýju farið í víking og leitað nýrra markaða. Svipuð sjónarmið eiga að sjálfsögðu einnig við, að því er varðar innflutning. Atvinnulífið leitar í vaxandi mæli útfyrir hefðbundin innkaupasvæði í leit að betri kjörum og meiri fjölbreytni.

    Utanríkisráðuneytið hefur reynt að laga sig að þessari þróun. Stofnuð hefur verið sérstök utanríkisviðskiptaþjónusta til að tryggja útrás íslensks atvinnulífs. Utanríkisráðuneytið hefur á að skipa sérfróðu fólki í íslenskum sendiráðum sem hefur þjónustu við íslenskt atvinnulíf sem sitt forgangsverkefni. Auk þess eru um 240 kjörræðismenn í yfir 70 löndum reiðubúnir til þess að veita aðstoð eftir því sem þörf krefur.

    Utanríkisráðuneytið lítur í vaxandi mæli á sig sem þjón atvinnulífsins og útvörð íslenskra hagsmuna á erlendri grundu. En slík hagsmunagæsla nægir ekki til að tryggja viðskiptin. Öryggi viðskipta er fyrst og fremst í höndum viðskiptaaðila sjálfra og þar skipta traustir samningar grundvallarmáli.

    Í þessum efnum hefur Alþjóðaviðskiptaráðið í París unnið ómetanlegt starf og er vissulega gott dæmi um velheppnaða alþjóðasamvinnu einkaaðila. Alþjóðaverslunarreglur og samningsstaðlar Alþjóðaviðskiptaráðsins eru notaðar í viðskiptum um alla veröld og má lýsa þeim sem líflínu alþjóðaviðskipta og verslunar. Í þessu sambandi er rétt að árétta að framlag Alþjóðaverslunarráðsins á Íslandi til traustra viðskipta verður seint fullmetið.

    Gerð viðskiptasamninga felur í sér vissa áhættu, en góður undirbúningur að gerð traustra samninga getur dregið verulega úr þeirri áhættu sem og komið í veg fyrir alvarleg áföll.

    Markmið þessarar námstefnu er að kynna gerð og mikilvægi alþjóðlegra viðskiptasamninga. Tilefnið er útgáfa bókar, sem notið hefur stuðnings utanríkisráðuneytisins og útflutningsráðs, eftir Hafliða K. Lárusson, sem er lögfræðingur sem dvalið hefur erlendis við nám og störf undanfarin ár og þekkir vel til allra innviða þessara samninga eins og efni bókarinnar ber vott um. Ég er viss um að bók þessi verði mikilvægt framlag til þeirra sem standa í gerð alþjóðlegra viðskiptasamninga á Íslandi.

    Góðir fundargestir, ég þakka fyrir áheyrn og vil biðja Jónas A. Aðalsteinsson hrl. um að taka við fundarstjórn þessa fundar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum