Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. nóvember 2001 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Skýrsla ráðherra um utanríkismál á Alþingi

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi
29. nóvember 2001
Talað orð gildir


I. Alþjóðastjórnmál og hryðjuverk
II. Alþjóðleg viðskiptamál
III. Endurskoðun EES-samningsins
IV. Stækkun ESB og EES
V. Evran
VI. Fjölþjóðlegir viðskiptasamningar
VII. Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO)
VIII. Fríverslunarsamningar EFTA
IX. Sókn á nýjum mörkuðum
X. Ferðaþjónustan
XI. Sjálfbær þróun
XII. Mikilvægi utanríkisþjónustunnar


Af og til gerast atburðir í veröldinni sem hafa varanleg áhrif á gang sögunnar. Þessir atburðir geta falist í tæknibyltingum, náttúruhamförum eða styrjöldum, og þeir breyta á einni svipstundu sjónarhorni okkar, skilningi og stefnu í stóru og smáu. Árás hryðjuverkamanna sem kostuðu líf þúsunda óbreyttra borgara í New York og Washington þann 11. september sl. er slíkur atburður.

Áhrif hryðjuverkanna á þróun öryggismála og alþjóðastjórnmála, efnahagsmála og alþjóðaviðskipta hafa þegar verið gríðarleg og munu verða langvarandi. Ein helsta afleiðing 11. september er þó að orðin friður og öryggi hafa öðlast dýpri merkingu fyrir okkur Íslendinga því hryðjuverkin beindust gegn stöðum sem eru hluti af okkar heimsmynd og veruleika, og í árásunum féllu meðbræður okkar, samstarfsmenn og jafnvel ástvinir.

Samhengið á milli öryggismála og efnahagslegrar velferðar er sömuleiðis skýrara en nokkru sinni fyrr. Þannig hafa hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin haft verulega neikvæð áhrif á þróun heimsviðskipta, og bitnað harkalega á íslensku atvinnulífi. Sú staðreynd að hryðjuverk í heimsborgum annarrar heimsálfu hafa valdið uppsögnum starfsfólks í fyrirtækjum á Íslandi, segir meira en mörg orð um hve efnahagskerfi ríkja eru samofin, og háð stöðugleika, friði og öryggi.

Hryðjuverkin voru ekki einvörðungu árás á Bandaríkin, þau voru einnig árás á siðmenningu og hagkerfi heimsins. Eðlilegt er því á þessum tímum að líta til stöðu og hagsmuna Íslands í þeirri breyttu heimsmynd sem nú blasir við, sérstaklega á sviði viðskipta- og efnahagsmála.

I. Alþjóðastjórnmál og hryðjuverk
Mörg dæmi eru um að þegar ógn og hætta steðjar að verði samkennd sundrungu yfirsterkari. Sú hefur einnig orðið raunin nú og er það huggun harmi gegn að hryðjuverkin virðast ætla að verða aflvaki þróunar sem gengur þvert á væntingar ofbeldismannanna. Ef vel er á málum haldið geta þessir atburðir leitt til aukins skilnings meðal þjóða. Á allsherjarþingi Sþ fyrr í þessum mánuði kom skýrt fram að heimsbyggðin hefur sameinast gegn ógn hryðjuverkamanna. Ólík ríki um víða veröld með mismunandi trúarbrögð, efnahag og stjórnkerfi, hafa sameinast um það grundvallarmarkmið að uppræta hryðjuverk og efla öryggi. Þessi eindrægni Sþ stafar án efa af auknum skilningi á því að samstaða er það vopn sem sem best bítur á þá ógn er að steðjar.

Samskipti Atlantshafsbandalagsins og Rússlands eru annað dæmi um að baráttan gegn hryðjuverkum virðist hafa skapað grundvöll til lausna á erfiðum deilum. Í þessu sambandi er rétt að minna á hugmyndir um grundvallarbreytingu á öryggissamstarfi NATO og Rússlands sem nú er til umræðu innan bandalagsins.

Í nýlegri heimsókn minni til Rússlands ræddi ég mikilvægi stóraukins samstarfs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands og benti á að samhliða auknu samstarfi í öryggismálum þyrfti Rússland að tengjast Evrópu nánari efnahagslegum böndum. Stækkun NATO og ESB til austurs er mikilvægt framlag til að efla öryggi í álfunni og brýnt er að við horfum öll til Rússlands sem bandalagsríkis og eflum samstarf við Rússland á sem flestum sviðum.

Harðstjórn Talíbana í Afganistan er senn á enda. Ljóst er að þar stendur fyrir dyrum gífurlegt uppbyggingarstarf. Brýnt er að hraða öllum áætlunum um framtíð Afganistan og fagna ég því ferli sem nú er hafið með þátttöku allra þeirra aðila sem koma verða að myndun þjóðstjórnar í Kabúl í samræmi við ályktun öryggisráðsins. Að mínu mati er mikilvægt að lausn finnist á svæðisbundnum ágreiningsmálum sem oft virðast vera rót þess haturs sem öfgamenn byggja tilveru sína á. Langar mig í því samhengi að ítreka nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið beiti auknum kröftum í að leysa deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs en slík lausn þarf m.a. að fela í sér stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu og að Ísrael verði tryggt öryggi innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra. Eftir stendur að engin réttlæting getur nokkurn tíma fundist á voðaverkunum 11. september og draga verður hryðjuverkamennina til ábyrgðar.

II. Alþjóðleg viðskiptamál
Hryðjuverkin í Bandaríkjunum hafa haft margþætt áhrif á efnahagslíf heimsins. Óvissa á gjaldeyris- og hlutabréfamörkuðum, erfiðleikar í flugrekstri og samdráttur í ferðaþjónustu eru augljósustu afleiðingarnar og hefur þeirra þegar orðið harkalega vart hér á landi.
Þetta kallar á samstöðu um grundvallarreglur sem gera efnahagskerfi heimsins betur í stakk búið að standa af sér erfiðleika, með víðtæku neti milliríkjasamninga sem tryggja opna markaði og hindrunarlaus viðskipti. Áföll síðustu mánaða sýna hve miklu skiptir að Ísland njóti hagstæðrar samkeppnisstöðu á erlendum mörkuðum.

Útflutningsviðskipti eru undirstaða hagsældar okkar. Fá ríki byggja á utanríkisviðskiptum í eins ríkum mæli og Ísland. Samkvæmt tölfræðiskýrslu sem skrifstofa EFTA hefur tekið saman er Ísland í 6. sæti ríkja heims þegar þau eru flokkuð eftir mikilvægi útflutningsviðskipta. Á tímum hnattvæðingar er óhjákvæmilegt að íslensk stjórnvöld búi atvinnulífinu a.m.k. sambærileg viðskiptakjör og í nágrannalöndum okkar. Því verður seint of mikil áhersla lögð á mikilvægi starfs utanríkisþjónustunnar í þágu sífellt fjölbreyttari utanríkisverslunar Íslands.

EES-samningurinn mun nú sem fyrr gegna lykilhlutverki þar sem hann tryggir aðgang að mikilvægasta útflutningsmarkaði okkar. Sá markaður mun eflast með stækkun ESB til austurs og við þurfum að gæta vel að hagsmunum okkar. Þá skapast ótvíræð sóknarfæri vegna nýrra samninga á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og vegna nýrra fríverslunarsamninga EFTA.

III. Endurskoðun EES-samningsins
EES-samningurinn er okkar langmikilvægasti viðskiptasamningur. Samningurinn hefur staðið undir efnahagslegum væntingum og verið nauðsynlegur grundvöllur framfara.

Frá gerð EES-samningsins hefur þróunin innan ESB verið hröð, meðan EES-samningurinn hefur staðið í stað. Ég hef því beitt mér fyrir því innan EFTA að EES-samningurinn verði uppfærður. Vísbendingar hafa borist um að ESB kunni nú að vera reiðubúið að ræða takmarkaða tæknilega endurskoðun samningsins. Þau atriði sem ég hef lagt áherslu á í þessu efni er efnisleg aðlögun samningsins, tryggari þátttaka í nefndum og aukin áhrif á störf stofnana ESB. Endurskoðun bókunar 9 sem lýtur að tollfrjálsum viðskiptum með sjávarafurðir er verkefni sem nauðsynlegt er að skoða. Þrjú fyrstu atriðin eru af pólitískum toga og hefur verið gerð grein fyrir þeim við önnur tækifæri.

Með bókun 9 var meginhluti tolla á íslenskar sjávarafurðir afnumdur. Þetta var mikill áfangi á þeim tíma en vissulega voru það vonbrigði að full fríverslun með fisk náðist ekki fram. Enn eru tollar, og sumir mjög háir, á vissum síldarflokkum, unnum laxi, ferskum fiskflökum, humri o.fl. Þrátt fyrir að hlutfall tollfrelsis sé hátt og tiltölulega fáar tegundir beri tolla, er um háa fjárhæð að ræða, sem er hindrun í vegi frjálsra viðskipta, skaðar staðbundna atvinnuhagsmuni og getur torveldað uppbyggingu nýrra atvinnugreina á borð við fiskeldi. Þessir tollar hafa þau áhrif sérstaklega að fullvinnsla vissra afurða er hagkvæmari innan ESB en hér á landi.

IV. Stækkun ESB og EES
Annað atriði sem varðar bókun 9 er stækkun Evrópusambandsins. Vaxandi líkur eru á að allt að 10 ný ríki verði aðildar að ESB árið 2004. Með stækkuninni heyrir skipting álfunnar milli austurs og vesturs sögunni til. ESB breytist úr hópi einsleitra ríkja í stærra bandalag samstarfsþjóða með ólíkan bakgrunn og efnahagslega burði.
Stækkun Evrópusambandsins hefur í för með sér stækkun Evrópska Efnahagssvæðisins, þar sem nýjum aðildarríkjum ESB verður skylt að sækja um aðild að EES. Þetta kallar á sérstakar viðræður og samninga við EFTA ríkin.

EFTA ríkin hafa á liðnum árum gert fríverslunarsamninga við flest þessara nýju aðildarríkja, sem m.a. fela yfirleitt í sér fulla fríverslun með fisk. Við inngöngu ríkjanna í ESB falla þessir samningar úr gildi og reglur bókunar 9 taka við og hafa í för með sér óhagstæðari tollmeðferð. Ísland mun því formlega fara fram á að EES samningurinn verði aðlagaður þessum staðreyndum og að markaðsaðgangur verði ekki verri eftir stækkun ESB. Af viðbrögðum ESB má ráða að þessi róður verður þungur en þar sem hér er um gífurlegt hagsmunamál að ræða verður það sótt af fullum þunga.

Við síðustu stækkun ESB varð niðurstaðan sú að Ísland hlaut tollfrjálsa innflutningskvóta sem miðuðust við viðskiptareynslu. Vandinn við að beita þessari lausn nú, felst í því að Ísland hefur litla markaðshlutdeild á þessu svæði eftir hrun kommúnismans. Ég hef áður lýst áhyggjum mínum yfir því hve markaðsuppbygging okkar hefur verið takmörkuð í þessum löndum á undanförnum árum á meðan Norðmenn hafa lagt í verulegt markaðsátak í Póllandi. Þeir hafa nú um 50% markaðshlutdeild í fiski á pólskum markaði meðan Ísland hefur 1%.

Utanríkisráðuneytið hefur að undanförnu boðið atvinnulífinu til samstarfs um markaðssókn í Póllandi, enda verður Pólland meðal stærstu aðildarríkja ESB. Það er vissulega á ábyrgð stjórnvalda að tryggja að sem hagstæðastir samningar náist við ESB á þessu sviði. En ég tel einnig afar mikilvægt að útflytjendur og framleiðendur horfi til langs tíma, auki sókn sína á þessa markaði og bæti þannig stöðu okkar að þessu leyti.

EFTA ríkin hafa lagt sitt að mörkum til efnahagslegrar uppbyggingar í Evrópu með framlögum í þróunarsjóð fyrir fátækari ríki ESB. Búast má við að ESB óski viðbótarframlags frá EFTA ríkjunum vegna stækkunarinnar. Evrópusambandið hefur lýst því yfir að stækkun eigi ekki að hafa þær afleiðingar að nýir tollmúrar verði reistir í Evrópu. Því tel ég að ESB beri skylda til að horfa á þetta mál í breiðu samhengi. Hafa ber í huga að EFTA ríkin gerðu fríverslunarsamninga sína áður en umsóknarríkin sóttu um aðild að sambandinu. Með þeim samningum var lagður grundvöllur að uppbyggingu viðskipta til lengri tíma litið og því hafa þeir skapað tækifæri sem enn eru að mestu ónýtt. Við höfum óhagstæðan viðskiptajöfnuð við þessi lönd og helstu tækifærin til markaðssóknar þar eru á sviði sjávarútvegs. Það er því mikilvægt að stækkunin útiloki ekki að við fáum nýtt þessi tækifæri. Ég á erfitt með að færa rök fyrir því að Alþingi samþykki aukin framlög í þróunarsjóð vegna stækkunarinnar, ef stækkunin skerðir markaðsaðgang okkar og tækifæri í milliríkjaviðskiptum.

V. Evran
Um næstu áramót verður evran tekin upp sem lögeyrir í flestum ESB löndum. Tíminn einn mun leiða í ljós hvaða áhrif upptaka evrunnar mun hafa annars vegar á efnahagslíf evrulandanna og hins vegar á stöðu Íslands í því samhengi. Ríkisstjórnin hefur þegar sýnt gott frumkvæði til að laga aðstöðu fyrirtækja eins og kostur er með skattkerfisbreytingum sem lagðar hafa verið til. Við verðum hins vegar sífellt að meta stöðu okkar í ljósi þróunar þessara mála, einkum með tilliti til samkeppnisstöðu fyrirtækja og vaxtakjara. Sömuleiðis gæti samkeppnisstaða milli ESB og EFTA raskast frá því sem EES samningurinn tryggði og áhrifin gætu þannig orðið töluverð hér á landi. Ég hef áður sagt að við erum ekki að falla á tíma í þessu efni en tel nauðsynlegt að þessi staða verði vandlega skoðuð af ríkisvaldi, atvinnulífi og öðrum sem hafa hagsmuna að gæta.

VI. Fjölþjóðlegir viðskiptasamningar
Með sama hætti og EES samningurinn tryggir aðgang okkar að Evrópumarkaði, höfum við byggt upp fjölþætt net viðskiptasamninga við önnur ríki til að tryggja hagsmuni okkar á öðrum mörkuðum. Á undanförnum árum hefur hið alþjóðlega viðskiptakerfi orðið flóknara og fjölþættara, en líka opnara og viðkvæmara. Bætt aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendum mörkuðum á grundvelli fjölþjóðlegra samninga skapar nýja möguleika á markaðssókn og vöruþróun og stuðlar að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi. Samhliða höfum við lagt áherslu á gerð tvísköttunarsamninga og tvíhliða fjárfestingasamninga. Tveir þeirra síðarnefndu eru nú á lokastigi, við Rússland og Mexíkó.

VII. Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO)
Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur um langt skeið verið unnið að því að koma á nýrri viðræðulotu um næstu skref í átt til aukins frjálsræðis í alþjóðaviðskiptum. Á ráðherrastefnu stofnunarinnar í Doha náðist samkomulag um að hefja nýja viðræðulotu. Það er sérstakt fagnaðarefni að þessum áfanga hafi verið náð á sama tíma og samdráttarskeið virðist vera að hefjast í hinu alþjóðlega hagkerfi. Erfiðara er að ná samstöðu milli ríkja um skref af þessum toga á samdráttartímum en hins vegar er ávinningurinn af slíkum samningum aldrei meiri en við þær aðstæður.

Smá hagkerfi hafa ríkari hagsmuni af því að samræmdar reglur gildi í alþjóðaviðskiptum, en stærri ríki geta frekar neytt aflsmunar til að tryggja sér markaðsaðgang. Þróunarríki hafa einnig hag af auknu frelsi á þessu sviði, svo fremi að gagnkvæmni ríki í samningunum og þau fái tryggan markaðsaðgang fyrir útflutningsvörur sínar.
Í þessum viðræðum munum við Íslendingar leggja sérstaka áherslu á fríverslun með iðnaðarvörur, þar á meðal sjávarafurðir, og afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi.

Ég hef áður bent á mikilvægi þess fyrir samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs, að ríkisstyrkir verði almennt aflagðir. Þetta hefur verið megin áhersla okkar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar höfum við Íslendingar verið í fylkingarbrjósti ríkja sem lagt hafa til að unnið verði að samkomulagi á vettvangi stofnunarinnar um afnám ríkisstyrkja. Á fundinum í Doha var samþykkt að tekið verði sérstaklega á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi, með það að markmiði að settar verði reglur um beitingu ríkisstyrkja og stuðlað að afnámi þeirra.

Vinna að þessu máli verður meðal forgangsverkefna utanríkisþjónustunnar, þar sem afnám ríkisstyrkja er ekki aðeins mikilvægt fyrir okkar viðskiptahagsmuni, heldur styrkir stöðu okkar í alþjóðlegri umræðu um sjávarútvegsmál og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Afnám ríkisstyrkja er mikilvægur þáttur í að tryggja betri umgengni um lifandi auðlindir hafsins. Ríkisstyrkir í sjávarútvegi stuðla að ofveiðigetu og rányrkju á heimsvísu og eru þröskuldur í vegi þróunarríkja við að byggja framtíð sína á sjálfbærum sjávarútvegi.

Lítill ágreiningur varð um landbúnað í Doha en meginágreiningsefnið var hvort afnema ætti útflutningsbætur. Á Íslandi voru útflutningsbætur afnumdar fyrir rúmum áratug. Misskilnings hefur gætt hér á landi um eðli umræðunnar um viðskipti með landbúnaðarvörur innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í gildi er sérstakur samningur um landbúnaðarviðskipti sem heimilar tilteknar stuðningsaðgerðir við greinina. Ísland hefur stutt það langtímamarkmið að auka samkeppni í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Á hinn bóginn viljum við líkt og margar aðrar þjóðir í heiminum nýta það svigrúm til stuðnings á grundvelli fæðuöryggis- og byggðasjónarmiða, sem gildandi samningar gefa okkur. Þar erum við samstiga frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum sem hafa lagt ríka áherslu á sérstöðu norðlægs landbúnaðar.
Aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru nú orðin 144 eftir aðild Kína og Tævans að stofnuninni. Í aðildarviðræðum við Kína náði Ísland víðtækum tilslökunum í viðskiptum með sjávarafurðir og undirbúningur fyrir samskonar viðræður við Rússa er þegar hafinn.

Með ákvörðuninni í Doha hefur Alþjóðaviðskiptastofnunin sýnt að hún stendur undir því hlutverki sínu að efla og auka milliríkjaviðskipti, þar sem byggt er á réttlátum leikreglum sem tryggja hag allra þátttökuríkja. Við Íslendingar eigum mikið undir því að stofnuninni takist vel til við verkefni sín og mjög mun reyna á samráð við atvinnulífið og samstarf við hin ýmsu ráðuneyti við undirbúning samningaviðræðna á næstu árum.

VIII. Fríverslunarsamningar EFTA
EFTA ríkin hafa á undanförnum árum byggt upp net fríverslunarsamninga við átján ríki vítt og breitt um heiminn. Þessir samningar bæta markaðsmöguleika okkar umfram það sem unnt er að gera á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þetta net verður sífellt þéttriðnara. Nýverið tók gildi samningur við Mexíkó, auk þess sem samningum er lokið við Singapúr og samningar eru á lokastigi við Chíle og Kanada. Allir þessir samningar munu tryggja íslenskum útflytjendum fríverslun m.a. með fisk og skapa því sóknarfæri á nýjum mörkuðum. Sérstakt ánægjuefni er að tekist hafi að ljúka samningi við Singapúr en hann er mikilvægt upphaf sóknar EFTA ríkjanna inn á markaði í Asíu. Í undirbúningi er fríverslunarsamningur við Suður-Afríku en samningaumleitanir eru áður hafnar við nokkur ríki Norður-Afríku.

IX. Sókn á nýjum mörkuðum
Sá grunnur sem lagður hefur verið fyrir íslenska utanríkisverslun með þessum milliríkjasamningum er að sönnu mikilvægur. Ekki er síður mikilvægt að það stoðkerfi sem byggt er upp til aðstoðar fyrirtækjum til markaðssóknar sé öflugt.

Utanríkisþjónustan er í vaxandi mæli útvörður íslensks atvinnulífs á erlendri grundu. Samstaða hefur náðst hér á Alþingi um eflingu utanríkisþjónustunnar á undanförnum árum. Það hefur verið forgangsverkefni utanríkisráðuneytisins að fjölga viðskiptafulltrúum í því skyni að efla viðskipti á erlendum mörkuðum. Það er í fullu samræmi við þróun í öðrum ríkjum og á rætur að rekja til hnattvæðingarinnar sem okkur er tíðrætt um. Íslensk stjórnvöld þurfa að leitast við að veita útflytjendum okkar sambærilega aðstoð og aðrar þjóðir veita.

Í þessu ljósi ber að líta á stofnun sendiráðs í Japan, sem er stærsta viðskiptaríki Íslands í Asíu og næst stærsta hagkerfi í veröldinni. Um það verkefni hefur skapast sérstök pólitísk samstaða hér á Alþingi milli stjórnar og stjórnarandstöðu á undanförnum árum. Það gefur auga leið að sendiráðið gegnir afar mikilvægu viðskiptalegu hlutverki, en einnig í pólitísku og menningarlegu tilliti. Sendiráðinu er ætlað að gegna ríkulegu hlutverki við að greiða leið íslensks útflutnings á Japansmarkað og legg ég í því sambandi megináherslu á ferðaþjónustuna.

Markaðssvæðið í Asíu er nú þegar eitt af þeim mikilvægari í heiminum og mun enn eflast á næstu árum. Má í því sambandi nefna að hagvöxtur í Kína er með því hæsta sem gerist en árið 2000 jók Kína innflutning sinn um 36% og útflutning um 28%. Kína er einfaldlega, ekki síst með aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, markaður framtíðarinnar og þangað sækja nú flestar þjóðir heims. Því er ljóst að sendiráð okkar í Japan og Kína hafa lykilhlutverki að gegna við að aðstoða íslenskt atvinnulíf í þessum heimshluta.

Það er ljóst að utanríkisþjónustan getur haft mikil áhrif á samkeppniskjör sem útflytjendur njóta á erlendum mörkuðum. Því er mikilvægt að tryggja náið samstarf utanríkisþjónustunnar og atvinnulífsins. Það höfum við leitast við að gera og því verður haldið áfram.

X. Ferðaþjónustan
Sú atvinnugrein sem e.t.v. hefur mest að sækja til sendiráða okkar er ferðaþjónustan, sem hefur verið vaxtarbroddur í íslensku efnahagslífi undanfarin ár. Þetta á ekki síst við í Asíu þar sem margt bendir til að vinna megi nýja markaði. Ferðamenn í þessum heimshluta sækja í vaxandi mæli til Evrópu en þeir hafa hins vegar ekki sótt hingað til lands í sama mæli, þrátt fyrir að þeir leggi meira upp úr öryggi áfangastaða sinna en aðrir. Eftir því sem efnahagslegar aðstæður almennings batna í Asíu, eykst mikilvægi öruggra áfangastaða í markaðssókn fyrir ferðaþjónustuna. Alþjóðasamtök ferðamála hafa nýlega gefið út spá þar sem fram kemur að áætlað er að ferðamenn frá Kína verði allt að 100 milljónir árið 2020. Okkur ber að sjá til þess að Ísland verði á landakorti þessara ferðamanna.

Ef spár rætast um neikvæðar afleiðingar hryðjuverkanna á ferðaþjónustuna er það áhyggjuefni fyrir Ísland enda er ferðaþjónustan orðin næst stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar. Þó efast megi um langtímaáhrif hryðjuverkanna á íslenska ferðaþjónustu er ljóst að átak er nauðsynlegt til að kynna Ísland sem öruggan áfangastað með það að markmiði að reyna eftir bestu getu að vernda og byggja upp þann árangur sem við höfum þegar náð á þessu sviði.

XI. Sjálfbær þróun
Ég hef hér að framan lagt megináherslu á tengsl utanríkisviðskipta og velferðar í íslensku samfélagi. Í því sambandi er nauðsynlegt að árétta að viðskiptamál og umhverfismál eru sömuleiðis samofin.

Sjálfbær þróun er lykilþáttur í að stuðla að efnahagslegri- og félagslegri uppbyggingu og stöðugleika um heim allan. Nýverið náðist tímamóta samkomulag í Marrakech sem gerir iðnríkjunum kleift að fullgilda Kyotobókunina. Við Íslendingar áttum okkar þátt í að þessu samkomulagi var náð. Samkomulagið er enn ein staðfestingin á því að heimsbyggðin verður öll að vinna saman að því að leysa hnattræn vandamál.

Kyotobókunin skapar ný tækifæri til að efla tækniþróun og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Þegar bókunin öðlast gildi mun eftirspurn stórlega aukast eftir orkugjöfum sem hafa ekki í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda. Íslendingar eiga mikil tækifæri í orkufrekum iðnaði og við þróun nýrra orkubera. Kyotobókunin veitir aukin tækifæri til að nýta sérþekkingu okkar á notkun endurnýjanlegra orkugjafa, einkum jarðvarma, til fjárfestinga og verkefna í öðrum heimshlutum. Má þar nefna nýlega samninga í Ungverjalandi og Kína, auk þess sem vaxandi samstarf er við Rússa.

Kyotobókunin tryggir efnahagslega hagsmuni Íslands ásamt því að standa undir því grundvallarmarkmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfismál eru ekki afmarkaður málaflokkur heldur hafa þau áhrif á aðra þætti þjóðlífsins þ.á m. efnahagsmál. Umræða um umhverfismál án tillits til efnahagslegra áhrifa umhverfisaðgerða er tilgangslaus. Niðurstaðan í Kyotoferlinu er sigur fyrir umhverfisstefnu okkar en varðveitir jafnframt þann efnahagslega ávinning sem við höfum haft og munum áfram hafa af endurnýtanlegum orkuauðlindum.

XII. Mikilvægi utanríkisþjónustunnar
Ísland hefur vissulega sérstöðu þar sem það býr yfir margvíslegum auðlindum sem allar eiga það sameiginlegt að vera sjálfbærar. Auðlindir okkar þurfum við að vernda og hámarka afrakstur þeirra. Slíkt er ekki aðeins hlutverk einstakra ríkja heldur einnig alþjóðlegra samtaka.

Framvinda alþjóðastjórnmála eftir atburðina 11. september hafa kristallað hversu öryggismál, efnahagsmál, umhverfismál, lýðræði og mannréttindi eru samofin. Markmið utanríkisstefnu Íslands er að tryggja þjóðarhagsmuni á öllum þessum sviðum. Efnahagsleg velferð og styrkur þess frelsis og lýðræðis sem við búum við fer eftir því hvernig til tekst í því efni. Starf utanríkisþjónustunnar gagnast því með beinum hætti landsmönnum öllum, hvort sem í hlut á bóndi, sem á sitt undir starfsskilyrðum landbúnaðar, fiskverkandi, sem byggir á tryggum aðgangi að markaði fyrir framleiðslu sína eða starfsmaður, sem á atvinnu sína undir þjónustu við erlenda ferðamenn.

Innanlands- og utanríkismál hafa sjaldan eða aldrei verið jafn samofin og nú. Samdráttur í efnahagslífinu kallar á aukið starf og meiri þjónustu við atvinnulífið. Utanríkisþjónustan mun leggja þunga áherslu á að sinna þeirri brýnu þörf sem nú blasir við.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum