Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. júní 2002 Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Hátíðarræða utanríkisráðherra Hrafnseyri við Arnarfjörð

Hrafnseyri, 17. júní 2002

HÁTÍÐARRÆÐA UTANRÍKISRÁÐHERRA
HRAFNSEYRI VIÐ ARNARFJÖRÐ, 17. JÚNÍ 2002


Góðir tilheyrendur, samlandar mínir. Gleðilega þjóðhátíð.

Það er mér og eiginkonu minni í senn mikill heiður og ánægja að vera boðið hér að Hrafnseyri við Arnarfjörð sjálfum fæðingarstað Jóns Sigurðssonar í tilefni þjóðhátíðardags Íslendinga. Ég skynja sterkt hversu sagan er hér samofin öllu og hve djúpa virðingu Arnfirðingar, eins og við Íslendingar allir, bera fyrir arfleifðinni og Jóni Sigurðssyni.

Fyrir eitt hundrað og fimmtíu árum, eða svo, var ætlunin að uppræta með formlegum hætti síðustu leifar íslensks sjálfstæðis og gera Ísland að héraði í hinu danska ríki. Þá var uppi sá maður, sem við kennum þjóðhátíð okkar við og minnumst jafnan á þessum degi, en Jón Sigurðsson, óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur, var fæddur hér á Hrafnseyri við Arnarfjörð, hinn 17. júní árið 1811.

Jón Sigurðsson átti mestan þátt í því að Alþingi var endurreist, Latínuskólinn endurbættur, Prestaskólinn stofnsettur, verslunarfrelsi gefið, læknaskipan endurbætt og þjóðréttindi efld, enda menntun grundvöllur sjálfstæðis. Hann átti stóran þátt í því sjálfstæði sem vannst með stjórnarskránni 1874. Hann studdi ótrauður í ræðu og riti allt sem til framfara horfði og ekki síst það sem varðaði réttindi og virðingu þjóðarinnar.

Hann kunni flestum fremur að meta það sem í raun einkennir þjóðleg gildi okkar Íslendinga, en vildi ekki ríghalda í það sem var orðið úrelt og lét ekkert aftra sér frá því að kynna sér þróun annars staðar og nýjungar.

Jón Sigurðsson var þannig mikill Íslendingur, en um leið sannur heimsmaður. Þröngsýni var honum andstyggð, en víðsýnin í blóð borin. Hið óþekkta var honum áskorun og fróðleiksþorstinn óslökkvandi. Þessi þrá, þessi eðlislæga fróðleiksfýsn Jóns Sigurðssonar var mikil gæfa íslenskri þjóð, sem við njótum enn í dag.

Við lifum á tímum mikilla breytinga. Ekki aðeins Íslendingar, heldur jarðarbúar allir. Gríðarleg framþróun síðustu aldar hefur svo sannarlega fleytt okkur fram, en við verðum þó ávallt að halda vöku okkar, því kyrrstaða er afturför. Við megum aldrei taka það sem við höfum öðlast sem sjálfsagðan hlut. Framfarir eru svo miklar og lífskjörin hafa batnað svo skjótt, að alltof víða gleymist sú mikla vinna sem að baki liggur. Frelsi í nýtingu auðlinda, óheft samkeppni á peningamarkaði eða í viðskiptum hefur ekki sömu merkingu og það frelsi sem Jón Sigurðsson þráði svo heitt og barðist fyrir. Ótakmarkað frelsi á öllum sviðum tryggir ekki endilega lýðræði og frið. Sérhvert samfélag þarf á stöðugum og sanngjörnum leikreglum og skipulagi að halda, til þess að tækifærin deilist sem jafnast meðal þegnanna og jafnræði ríki sem víðast. Þá fær hver einstaklingur að njóta sín á eigin forsendum, en um leið er þess gætt að þeir sem standa höllum fæti, njóti einnig tækifæra til að þroskast í lífi og starfi. Í lífinu vinnast sigrar á hverjum einasta degi, jafnt stórir sem smáir.

Við Íslendingar höfðum mikið fyrir þeim réttindum sem tryggð eru í stjórnarskránni. Það merka skjal veitir okkur mikil réttindi, en um leið ríkar skyldur. Við megum aldrei gleyma ábyrgðinni sem okkur hefur verið falin og meðhöndla réttindi stjórnarskrárinnar af léttúð. Það er okkur bæði hollt og nauðsynlegt að skipa okkur í lýðræðislegar fylkingar. Það er hins vegar lýðræðinu ekki endilega til framdráttar að beina kröftunum í of margar áttir. Ósamkomulag verður ekki leyst með enn frekari ósamlyndi, ekki heldur með því að skipa mönnum í sífellt fleiri og fleiri flokka. Slík sundrung leysir engan vanda, en samvinnan hefur getið af sér marga sigra – skynsamlegar lausnir. Með störfum í félagsmálum, hvort sem er í stjórnmálum eða annars staðar, kynnumst við hvert öðru og lærum að vinna saman. Þessi samvinna getur eytt óþarfa tortryggni og misskilningi sem oft vill brenna við, þegar kynnin eru lítil. Allur þroski er í eðli sínu hægfara þróun og ekki tjáir að missa móðinn þótt ekki gangi í fyrstu tilraun. Félagsstarf krefst einmitt þrautseigju og þolinmæði. Það er því í senn þroskandi og mikilvægur vísdómur fyrir lífið.

Jón Sigurðsson vissi þetta og var öðrum fremri í að sætta ólík sjónarmið. Samt gerðist það stundum að honum varð sundurorða við þjóð sína og helstu vini. Í fjárkláðamálinu var hann jafnvel sakaður um landráð, enda þótt sú óvild hafi að mestu leyti byggst á vanþekkingu. Skynsemin var Jóni í blóð borin og þess vegna bar hann gæfu til að eflast við hverja raun. Og verða reynslunni ríkari.

Arnarfjörðurinn blasir við okkur hér og þeir eru svo sannarlega stórbrotnir, firðirnir hér fyrir vestan. Hér handan fjallanna í Dýrafirði gerðist það á sjötta áratug 19. aldar að Fransmenn föluðust eftir aðstöðu til að reisa fiskverkunarstöð og bæta skilyrði til útgerðar. Þá, eins og nú, var erlend fjárfesting í sjávarútvegi mikið hitamál og þótt Frakkar hefðu uppi mörg orð um ágæti Dýrafjarðar í þessum efnum, höfðu margir Íslendingar af þessari beiðni þungar áhyggjur. Í bænaskrám til Alþingis kom m.a. fram að þjóðerni Íslendinga gæti verið hætta búin og mætir menn skrifuðu í blaðagreinum að franska fiskihöfnin gæti á einum degi breyst í herbækistöð. Fræðimenn hafa bent á að Jón Sigurðsson hafi lítið beitt sér opinberlega í málinu, vegna þess hversu viðkvæmt það var og af því hann vildi ekki styggja stuðningsmenn sína. Sjálfur hafi hann þó verið fylgjandi hugmyndinni, enda fús að grípa þau tækifæri sem gáfust til að opna Ísland fyrir erlendum viðskiptum og fjárfestingu. Auk þess hafi hann lagt mikla áherslu á að Íslendingar lærðu af öðrum þjóðum en einangruðust ekki.

Þessi vísdómur Jóns Sigurðssonar á jafn vel við í dag og hann átti við á öndverðri nítjándu öld. Enn finnast þeir, sem kjósa einangrun og hræðast hið óþekkta. Sem betur fer, eru þær raddir á undanhaldi samfara breyttri heimsmynd, enda kallar alþjóðavæðingin ekki aðeins á snör viðbrögð við breyttum aðstæðum, heldur og á breytt hugarfar á tímum þegar landamæri verða sífellt ósýnilegri og ungt fólk telur jafn sjálfsagt að nema og starfa á Ísafirði og New York, í Reykjavík og Brussel.

Oft gerist það að upp spretta deilumál sem skipa fólki í andstæðar fylkingar. Stundum eru þær tvær og jafnstórar, stundum smáar en margar. Þetta er eðlilegt í erfiðum málum, því auðveldast er að flýja af hólmi hafi maður orðið undir um sinn. Með því að segja skilið við félagsskapinn eru úrlausnarefnin í raun skilin eftir í lausu lofti. Slíkt getur þannig orðið til þess að sífellt er stofnað til einangraðri sjónarmiða og í raun minni lýðræðislegri umræðu. Þeir sem þannig kljúfa sig út – oft í stundarbræði og sárum vonbrigðum – eru þannig oft á tíðum að draga eigin hag og hugðarefni fram yfir hagsmuni heildarinnar í nafni sjálfstæðis, frelsis og baráttu gegn flokksræði eða öðrum álíka hugtökum. Slíkur málflutningur á sér ekki alltaf jafn sannar rætur og trúverðugar og virðist við fyrstu sýn.

Ég hef á undanförnum vikum og mánuðum talið það skyldu mína að standa fyrir opinni umræðu um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, til að mynda gagnvart Evrópusambandinu. Almennt hefur þjóðin tekið þessari umræðu vel og því ber að fagna, enda fagleg umræða undirstaða skynsamlegrar niðurstöðu. Þær raddir heyrast, sem telja að umræðan ein og sér um Evrópusambandið sé ótímabær eða jafnvel með öllu óþörf, þar eð Ísland muni aldrei í fyrirsjáanlegri framtíð verða þar aðili.
Við erum Norðurlandaþjóð, við erum Evrópuþjóð. Örlög okkar og framtíð tengjast með órofa hætti okkar bræðra- og vinaþjóðum. Við deilum með þeim ákvörðunum, þeirra fullveldi og sjálfstæði hefur áhrif okkar fullveldi og sjálfstæði. Samvinnan við þessar þjóðir er grundvöllurinn að þátttöku okkar í alþjóðavæðingunni sem snertir alla heimsbyggðina. Þegar menn deila kjörum með öðrum, jafnvel fullveldi, verða hinir sömu að eiga fulla aðild að sameiginlegum ákvörðunum er varða framtíðarhag.
Það er að mínu mati óábyrgt að útiloka að sá tími geti runnið upp að Íslendingar telji hagsmunum sínum betur borgið innan sambandsins en utan. Við hér á Hrafnseyri í dag erum ekki betur í stakk búin til að sjá fyrir um framtíðina, en þeir sem á undan okkur fóru. Eða hver sá fyrir sér þá stórkostlegu þróun sem orðið hefur t.d. með falli kommúnismans og hruni járntjaldsins í Evrópu á tveimur síðustu áratugum?

Enn þann dag í dag er okkur nauðsynlegt að rifja upp sögu og störf Jóns Sigurðssonar. Ýmsar hættur steðja að okkur. Við höfum framkvæmt af myndarskap, stofnað til skulda og hugsum hátt. Vissulega framleiðum við mikið, en um leið erum við háð erlendum mörkuðum. Til þess að geta leyft okkur þann innflutning og munað sem við höfum tamið okkur á umliðnum árum, er ekki aðeins nóg að fiskveiði sé góð og útgerðin öflug, þótt vissulega vegi það þungt. Salan á erlendum mörkuðum verður að ganga vel ef standa á undir starfsemi og kröfum þjóðfélagsins. Kröfur til samfélagsins verða sífellt háværari og þær fara vaxandi. Á sama tíma gerum við á margan hátt minni kröfur til okkar sjálfra en fyrri kynslóðir. Þetta er svo sannarlega umhugsunarefni og getur orðið ógnun við frelsi okkar og lýðræði. Um leið skulum við aldrei láta glepjast af mistúlkun á þessum hugtökum. Okkur ber miklu fremur að skerpa eigin skilning á þessum orðum og greypa í hugann fyrir framtíðina. Ef orð og athafnir Jóns Sigurðssonar lifa í hugum hvers og eins er ekkert að óttast.

Mér hefur orðið tíðrætt um Jón Sigurðsson, enda ástæða til. Það er þó ástæða til að minna á að sjálfstæðisbaráttunni lauk ekki með starfi Jóns Sigurðssonar. Aðrir tóku við kyndlinum og hófu hátt á loft. Í kjölfarið hafa margir sigrar unnist. Fullveldið, lýðveldisstofnunin og landhelgisbaráttan ber hæst í því efni. Þótt við tölum þannig um sigra er ekkert til sem heitir fullnaðarsigur. Að viðhalda sjálfstæði þjóðar, svo ekki sé talað um smáþjóðar, er mikið starf – þrotlaus barátta – sem aldrei tekur enda. Ávextir þess starfs eru miklir, en þeir verða aldrei til án fórna. Við verðum hvert og eitt að starfa með því hugarfari. Ólíkir hagsmunir verða ekki sættir með stöðugum átökum um skiptingu þjóðartekna, heldur verðum við öll að standa saman um stöðugleikann. Ég tel að verkalýðshreyfingin, ekki síst Alþýðusambands Íslands, hafi sýnt og sannað að undanförnu, hversu öflug fjöldahreyfing fær áorkað þegar kraftar manna eru sameinaðir í stað þess að menn gangi sundraðir til verks.

En sjálfstæðið sem hugtak má aldrei verða til þess að myndaðir séu um það ímyndaðir pólar, t.d. landsölumanna annars vegar og sjálfstæðissinna hins vegar. Heimsmyndin er ekki svo einföld, hvorki hér á landi né annars staðar og landsmenn allir vilja landi sínu og þjóð vel. Sumir hafa hins vegar séð sér hag í að tengja andstöðu sína við erlent samstarf, t.d. innan Atlantshafsbandalagsins eða Evrópusambandsins, við sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Slík einföldun er vitaskuld fjarri lagi og þeir sem telja mikilvægt að Ísland og Íslendingar fari vel með hlutverk sitt og stöðu í samfélagi þjóðanna eru að sjálfsögðu ekki með því að draga úr sjálfstæði þjóðarinnar, né vinna gegn hagsmunum hennar. Þvert á móti má færa fyrir gild rök, að Ísland eigi allt sitt undir viðskiptum við önnur lönd og varði því þróun og hlutverk alþjóðastofnana afar miklu. Í heimi alþjóðaviðskipta er fyrir löngu orðið ljóst að gilda þurfi samræmdar leikreglur svo jöfn staða allra sé tryggð. Smærri ríki, eins og Ísland, hafa ekki hvað síst mikla hagsmuni af slíku samstarfi og leikreglum sem tryggja ákveðna vernd gagnvart ofurvaldi risastórra hagkerfa sem geta síður tekið mið af eigin hagsmunum og verða í auknum mæli að miða áætlanir sínar við hagsmuni fleiri ríkja – á hnattræna vísu.

Ég hlýt að vara við alhæfingum í svo mikilvægri umræðu. Menn verða ekki sjálfkrafa landsölumenn við það að vilja ræða samstarf Íslands og annarra þjóða, fremur en að þeir einir teljist sjálfstæðissinnar sem hafna öllu samstarfi og kjósa einangrun og tómhyggju. Palladómar af því tagi eru hrein ögrun við þær hetjur fortíðarinnar, þar á meðal Jón Sigurðsson, sem lögðu allt undir í baráttu sinni fyrir raunverulegu sjálfstæði þjóðarinnar og áttu þátt í stærstu sigrum okkar sem fullveðja þjóðar.

Í því sambandi er ekki úr vegi, að rifja upp orð Jóns forseta sjálfs um þessi mál, en hann skrifaði margar ádeiluritgerðir um verslunarhætti hér á landi og einokunartilburði danskra kaupmanna. Jón rannsakaði verslunarsögu Íslands rækilega, m.a. í dönskum skjalasöfnum, og benti ítrekað á að verslunarfrelsi væri undirstaða þjóðfrelsis. Jón reit eitt sinn í bréfi:

"Þú heldur að einhver sveigi okkur. Látum þá alla sveigja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti. Frelsið er ekki í því að lifa einn sér, og eiga ekki viðskipti við neinn. Frelsið kemur að vísu mest frá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis."

Svo mörg voru þau orð, en þau lýsa vel þeirri hugmyndafræði sem jafnan knúði áfram þjóðfrelsishetjuna Jón Sigurðsson héðan frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Ágætu samkomugestir.

Í dag lyftum við huganum hærra, gleymum amstri hversdagsins, minnumst fortíðar en leitum um leið leiða til betri og öruggari framtíðar. Hrafnseyri við Arnarfjörð mun um ókomna tíð verða órofa tengd sögu íslenskrar þjóðar. Ykkur sem hér búið eða í nærsveitum, þökkum við innilega fyrir að varðveita svo stóran og merkan reit í sögu okkar og menningu. Saman höfum við ástæðu til að fagna því sem áunnist hefur. Ég veit að við erum öll sammála um að verja það og vernda sem við eigum. En okkur ber einnig að hugsa í anda brautryðjenda fyrri tíma og sækja fram á veg, jafnt inn á við sem í samstarfi þjóða á alþjóðavettvangi.

Í þessu landi býr lítil en stórhuga þjóð sem hefur staðið saman og verður að standa saman. Við megum ekki láta flokkadrætti verða til þess að heimóttarskapurinn verði yfirsterkari metnaðarfullri framtíðarsýn stórhuga þjóðar, en við eigum heldur ekki að rasa um ráð fram. Allra helst eigum við, hér eftir sem hingað til, að fylgja eigin sannfæringu og leita svara við öllum okkar spurningum. Þá mun okkur vel farnast.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða okkur að vera gestir ykkar hér í dag og óska sérhverju ykkar, íslenskri þjóð og byggðarlögunum hér fyrir vestan, bjartrar framtíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum