Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. apríl 2004 UTN Forsíðuræður

Erindi utanríkisráðherra á fundi samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda



Ágætu gestir.


Ég vil byrja á því að bjóða ykkur velkomin hingað á Rauðarárstíginn til annars fundar samráðsnefndar atvinnulífsins og stjórnvalda um utanríkisviðskipti. Í upphafi er rétt að halda því til haga að samráðsnefndin hittist fjórum sinnum á ári og er hún skipuð fulltrúum atvinnulífsins og stjórnsýslunnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 1999 var kveðið á um að samræma ætti starfsemi þeirra opinberu aðila sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf í þeim tilgangi að bæta þjónustu og auka skilvirkni þeirra. Þessari nefnd er ætlað að skiptast á skoðunum um verkefni og áherslur í útflutningsmálum með það fyrir augum að stilla saman strengi og nýta sem best það opinbera fjármagn sem fer til kynningar og markaðssetningar á Íslandi og íslenskum aðilum á erlendri grundu.

Í byrjun árs 2003 gengu í gildi ný lög um útflutningsaðstoð og þá um vorið var undirritaður samstarfssamningur á milli Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs. Með þessum tveimur gerningum var rekstrargrundvöllur Útflutningsráðs tryggður til fimm ára, samstarf við atvinnulífið og hagsmunaaðila sem að útflutningsmálum koma var aukið og lagður var grunnur að nánara samstarfi Útflutningsráðs og VUR. Verkaskipting VUR og Útflutningsráðs er nú skýrari en áður, komið hefur verið í veg fyrir tvíverknað, eftir því sem kostur er, og reynt hefur verið að koma á auknu samstarfi íslenskra aðila sem vinna á hliðstæðum starfsvettvangi við að kynna Ísland eða íslenskar vörur og þjónustu á erlendri grundu. Þá hefur þjónusta VUR í sendiráðum erlendis og tengslanet Útflutningsráðs verið tengt saman og sameiginleg markaðsaðstoð á erlendri grundu aukin.

Stundum heyrist talað um óframkvæmanlega samninga og dauða lagabókstafi. Eitt er að skrifa lög og samninga og tala um á tyllidögum, annað er að framkvæma og fara eftir. Ekki er úr vegi að skoða stöðuna og athuga hverjar hafa orðið efndir á framangreindum fyrirheitum.

a) Viðtalstímar sendiherra færðir
Síðastliðið haust voru viðtalstímar sendiráðanna færðir úr utanríkisráðuneytinu niður í húsakynni Útflutningsráðs. Þá var kynning á viðtalstímunum betrumbætt og henni breytt. Skemmst er frá því að segja að þeir eru mun betur sóttir en áður og auk þess skapast betri tengsl milli starfsfólks Útflutningsráðs, sem stendur í markaðssókn á erlendri grundu, og sendiherranna.

b) Aðgangur að viðskiptafulltrúum VUR seldur í Útflutningsráði
Nú eru tímar viðskiptafulltrúa seldir í Útflutningsráði. Viðskiptafulltrúarnir koma heim með reglulegra millibili en áður. Vel á annað hundrað einstaklingar og fyrirtæki hafa heimsótt fimm viðskiptafulltrúa á undanförnum mánuðum. Þetta ásamt markvissri kynningu hefur aukið sölu á tímum þeirra til muna. Með þessu fyrirkomulagi er búið að tengja þjónustu viðskiptafulltrúanna þeirri þjónustu sem í boði er hjá Útflutningsráði. Ný þjónustukeðja með skýrari verkaskiptingu en áður verður kynnt á allra næstu dögum.

c) Verkefnasamningar við sendiráð
Eins og kom fram á síðasta fundi hafa verið gerðir verkefnasamningar við allar sendiskrifstofur. Nokkur reynsla er nú komin á þetta fyrirkomulag og er hún góð. Í fjölritinu sem dreift hefur verið til ykkar sjáið þið dæmi um verkefnaáætlun, árskýrslu og árangursmat sendiráða, en nú er starf allra okkar sendiskrifstofa að viðskiptamálum árangursmetið. Eins höfum við hannað verkbókhald þar sem hver og einn starfsmaður skráir þá tíma sem hann ver til viðskiptamála. Í því er hægt að fylgjast nákvæmlega með stöðu allra viðskiptamála í öllum okkar sendiskrifstofum á einum stað.

d) Afgreiðsla fyrirspurna
Utanríkisþjónustan fær fjöldann allan af fyrirspurnum á degi hverjum. Reynt er að svara fyrirspurnum innan tveggja daga og einfaldari fyrirspurnum fyrr. Samkvæmt verkefnasamningunum ber sendiskrifstofum okkar að skrá hverja fyrirspurn og afgreiðslu hennar með tilteknum hætti. Þannig myndast smám saman þekkingarbrunnur sem auðveldar afgreiðslur og gerir þær skilvirkari. Málaskrárkerfi okkar gerir þetta kleift. Þið sjáið einnig dæmi um þetta í fjölritinu, sem ég minntist á áðan.

e) Uppbygging viðskiptafullrúanets
Í samvinnu við Útflutningsráð, fyrirtæki og hagsmunaaðila er stefnan að fjölga viðskiptafulltrúum á næstum misserum. Í samvinnu við Útflutningsráð og Dansk-íslenska verslunarráðið mun viðskiptafræðingurinn, Már Másson, hefja störf á næstu vikum í Kaupmannahöfn. Í haust mun síðan taka til starfa viðskiptafulltrúi í Varsjá með svipuðum formerkjum, þ.e. kostaður af VUR, Útflutningsráði og íslenskum fyrirtæki/fyrirtækjum. Þetta fyrirkomulag verður til reynslu til 12 mánaða og endurmetið að þeim tíma liðnum. Yfirbygging verður engin, kostnaður í lágmarki og auðvelt að pakka saman, reynist ekki vera spurn eftir þjónustu viðskiptafulltrúanna. Gefist þetta fyrirkomulag vel munum við hugleiða útvíkkun fyrirkomulagsins til fleiri umsóknarríkja að ESB, s.s. Eystrasaltsríkjanna, Ungverjalands og Tékklands svo dæmi séu tekin.

e) Ný heimasíða
Ein af meginhugmyndunum að baki samstarfssamningnum er sú að VUR og Útflutningsráð myndi eina heild út á við gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum sem til þeirra leita. Hér á eftir mun ný heimasíða VUR verða kynnt. Við hönnun heimasíðunnar var stuðst við hönnun og útlit heimasíðu Útflutningsráðs. Upplýsingar eru að miklu leyti samnýttar með Útflutningsráði og þeir sem leita inn á heimasíðurnar eiga ekki að velkjast í vafa um að VUR og Útflutningsráð tilheyra “sömu fjölskyldunni”.

Á síðasta fundi skaut þeirri hugmynd upp að það væri æskilegt að fyrirtæki gætu á auðveldari hátt nálgast utanríkisráðuneytið með vandamál eða ábendingar varðandi útflutningsmál. Nú hefur verið sett upp svokölluð kvörtunarsíða inni á heimasíðu VUR.

Reynslan hefur sýnt okkur að fyrirtæki eru stundum feimin við að nálgast stjórnvöld ef upp koma erfiðleikar í milliríkjaviðskiptum og eins virðast þau oft á tíðum sætta sig við ólögmætar viðskiptahindranir, taka á sig aukakostnað og fara að líta á hindranirnar sem eðlilegan kostnað við útflutning. Kvörtunarsíðunni er ætlað að stytta vegalengdina á milli stjórnvalda og fyrirtækja og gera samskiptin óformlegri og enn auðveldari en nú.

f) Útflutningsdagatal
Á síðasta fundi samráðsnefndarinnar var ákveðið að kynna sérstakt útflutningsdagatal. Dagatalið er að hluta sameiginlegt verkefni Útflutningsráðs og Viðskiptaþjónustunnar þar sem helstu viðburðir varðandi viðskipta- og menningarmál eru tíundaðir. Útflutningsráð heldur úti svipuðu dagatali á heimasíðu sinni þar sem vakin er athygli á ráðstefnum, viðskiptasendinefndum og fleiri atburðum. Dagatölin eru samnýtt að hluta en dagatal utanríkisþjónustunnar snýr þó aðallega að þeim þætti útflutningsaðstoðar sem snertir stjórnvöld beint. Í því verður vakin athygli á mikilvægum alþjóðasamningafundum Íslendinga, t.d. á sviði fríverslunar og tvísköttunarmála, heimsóknum ráðamanna til erlendra ríkja og afhendingum trúnaðarbréfa sendiherra sem, að mínu mati, er hægt að nýta í ríkari mæli í þágu atvinnulífs. Menningartengdir atburðir á erlendri grundu sem koma inn á borð sendiráðanna eru líka inni í dagatalinu.

Nú ætla ég að gefa boltann yfir til Maríu Mjallar Jónsdóttur sem mun sýna okkur heimasíðuna, kvörtunarsíðuna og útflutningsdagatalið [María Mjöll kynnir síðuna]



Nú hef ég stiklað á stóru á því sem við höfum gert til þess að uppfylla þær skyldur sem nýju lögin og samstarfssamningurinn við Útflutningsráð hefur lagt okkur á herðar. Jafnframt höfum við innleitt ný og agaðri vinnubrögð í utanríkisþjónustuna og tekið markviss skref til þess að nálgast atvinnulífið með opnari og ákveðnari hætti en fyrr. Ekki má gleyma því að Útflutningsráð hefur tekið virkan þátt í þessum breytingum með okkur, bæði fjárhagslega, með skipulagsbreytingum og fleiru.

Fyrir nokkrum dögum var undirritað ferðamálasamkomulag við Kínverja. Gjörbreytir samkomulagið möguleikum íslenskra fyrirtækja til þess að laða Kínverja til landsins og skapar í raun forsendur til þess. Talið er að um 20 milljónir Kínverja ferðist til útlanda í ár en fleiri Kínverjar ferðast til annarra landa en Japanir. Talið er að 100 milljónir Kínverja muni sækja erlend ríki heim árið 2020. Þeir eyða um 200 þúsund íslenskum krónum í hverri ferð þannig að ljóst er að eftir miklu er að slægjast fyrir Íslendinga.

Utanríkisþjónustan hefur með nýlegum loftferðasamningi við Kína og fyrrgreindu ferðamálasamkomulagi lagt grunninn að auknum viðskiptum á milli Íslands og Kína á þessu sviði. Sendiráð okkar í Kína er skipað hæfileikaríku fólki sem hefur bæði getu og vilja til þess að koma að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland. Utanríkisþjónustan getur í samstarfi við fyrirtæki í ferðamálum, hagsmunasamtök og Ferðamálaráð unnið að þessu markmið. Slíkt hefur gefist vel í Bandaríkjunum undir merkjum Iceland Naturally.

Utanríkisþjónustan og Útflutningsráð hafa gengið á undan með góðu fordæmi og sýnt fram á að aukið samstarf styrkir þær stofnanir sem koma að útflutningsaðstoð og leiðir til betri nýtingar fjármuna og mannafla.


Góðir fundargestir,

Ég hef nú verið utanríkisráðherra í níu ár og hef á þeim tíma markvisst reynt að styrkja utanríkisþjónustuna í þágu atvinnulífsins. Það er mín skoðun að ráðuneytið og sendiráðin hafi aldrei verið betur í stakk búin til þess að þjónusta atvinnulífið en einmitt nú og er ég afar stoltur af því starfi sem mitt fólk hefur unnið á þessu sviði.

Sem lítil þjóð sem háð er milliríkjaviðskiptum höfum við ekki efni á öðru en að vinna þétt saman að því að skapa sem bestar markaðsaðstæður fyrir okkar fyrirtæki. Það er ekki nokkrum vafa undirorpið sá árangur næst einungis með samstilltu átaki og náinni samvinnu stjórnvalda, stoðstofnana og atvinnulífs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum