Hoppa yfir valmynd
12. október 2017

620. mál – Samningar Íslands sem EES-ríkis

146. löggjafarþing
Þingskjal 1015 - mál 620

 

Svar

utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Alberti Guðmundssyni
um samninga Íslands sem EES-ríkis

 Svar við fyrirspurn til utanríkisráðherra um samninga Íslands sem EES-ríkis
þingskjal 1015 – 620. mál


1. Hvaða samninga undirgengst Ísland sem EES-ríki?
Aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) gangast undir sjálfan EES-samninginn. Þá mælir 108. gr. EES-samningsins fyrir um að EFTA-ríkin skulu koma á fót sjálfstæðri eftirlitsstofnun og dómsstól. Við undirritun EES-samningsins hinn 2. maí 1992 undirrituðu EFTA-ríkin því einnig samning sín á milli um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Enn fremur undirrituðu EFTA-ríkin við sama tækifæri samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna. Þá hafa þrisvar sinnum verið gerðir samningar um stækkun EES (vegna aðildar Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháens, Möltu, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands, Rúmeníu og Búlgaríu og að lokum Króatíu að EES). Einnig hafa EFTA-ríkin og Evrópusambandið gert samninga um fjármagnskerfi EES, öðru nafni Uppbyggingarsjóð EES, en sá síðasti tekur til tímabilsins 2014-2021.

Markmið EES-samningsins er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði, sbr. 1. gr. samningsins. EES-samningurinn gerir EFTA-ríkjunum kleift að taka þátt í innri markaði Evrópusambandsins og í samningnum felst því að EFTA-ríkin innan EES gangast undir regluverk innri markaðsins. Innri markaðurinn byggir á hinu svonefnda fjórþætta frelsi (frjálsum vöruviðskiptum, frjálsum þjónustuviðskiptum og staðfesturétti, frjálsum fjármagnshreyfingum og frjálsri för launþega). EES-samningurinn tekur þar af leiðandi til framangreinda sviða en enn fremur tekur samningurinn til sviða sem tengjast framkvæmd innri markaðarins órjúfanlegum böndum, en þar falla undir samkeppnisreglur, reglur um ríkisaðstoð og opinber innkaup en einnig önnur svið á borð við rannsóknir og þróun, umhverfismál og menntunar- og félagsmála, sbr. e og f. lið 1. gr. EES-samningsins.


2. Hvaða samninga undirgangast ESB-ríki umfram það sem af EES-samningnum leiðir?
Evrópusambandið byggir í dag á tveimur stofnsáttmálum þess, annars vegar sáttmálanum um Evrópusambandið (e. Treaty on European Union) og hins vegar sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins (e. Treaty on the Functioning of the European Union). Báðir þessir sáttmálar voru undirritaðir í Lissabon hinn 13. desember 2007 og gengu í gildi hinn 1. desember 2009. Framangreindir sáttmálar fela í sér breytingar á eldri stofnsáttmálum Evrópusambandsins og fyrirrennara þeirra, þ.m.t. Maastricht-sáttmálanum frá 1992 en með honum var Evrópusambandinu komið á fót og Rómar-sáttmálanum frá 1957 sem var stofnsáttmáli Efnahagsbandalags Evrópu, síðar Evrópubandalagsins. Þessir tveir stofnsáttmálar Evrópusambandsins fela í sér hryggjarstykkið í þeim samningnum sem ESB-ríkin þurfa að undirgangast.

Þær skuldbindingar sem framangreindir stofnsáttmálar Evrópusamandsins leggja á herðar aðildarríkja sambandsins eru í grundvallaratriðum ólíkar þeim skuldbindingum sem af EES-samningnum leiðir. Í fyrsta lagi ganga markmið stofnsáttmálanna mun lengra en markmið EES-samningsins. Eins og áður var rakið er meginmarkið EES-samningsins að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði. Markmið Evrópusambandsins gengur hins vegar mun lengra. Samkvæmt 1. gr. Lissabon-sáttmálans markar hann „nýjan áfanga í ferli sem miðar að því að skapa nánari einingu meðal þjóða Evrópu“ (e. „a new stage in the process of creating an ever closer union among the peoples of Europe“) og er markmið Evrópusambandsins að stuðla að efnahagslegum og pólitískum samruna aðildarríkja þess.

Í öðru lagi er stofnanauppbygging Evrópusambandsins gjörólík fyrirkomulagi við ákvörðunartöku innan EES-samstarfsins. Af hálfu EFTA-ríkjanna er ákvarðanataka um breytingar á viðaukum eða bókunum við samninginn (þ.e.a.s. ákvarðanir um að fella nýja ESB-löggjöf undir samninginn) í höndum fulltrúa stjórnvalda EFTA-ríkjanna í krafti setu þeirra í sameiginlegu EES-nefndinni. Vald til að samþykkja nýja ESB-löggjöf er hins vegar í höndum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (sem hefur ein rétt til að leggja fram tillögur að nýrri ESB-löggjöf), Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins. Fulltrúar stjórnvalda ESB-ríkjanna hafa aðeins beina aðkomu að síðastnefndu stofnuninni. Þá krefst stór hluti þeirra ákvarðana sem á annað borð þarf að bera undir ráð Evrópusambandsins ekki samhljóða samþykkis aðildarríkjanna á meðan samhljóða samþykkis er krafist fyrir allar ákvarðanir innan EES-samstarfsins.

Í þriðja lagi tekur Evrópusambandið til mun fleiri sviða en EES-samningurinn tekur til. Þannig felur Evrópusambandið í sér tollabandalag og samræmda ytri tolla á sameiginlegum landamærum ESB-ríkjanna, sameiginlega utanríkisviðskiptastefnu, sameiginlega landbúnaðarstefnu, sjávarútvegsstefnu, samstarf á sviði innanríkis- og dómsmála, sameiginlega stefnu í utanríkis- og varnarmálum, auk efnahags- og gjaldmiðilssambands.

Til þess að bera saman efnislegt gildissvið EES-samningsins við það samstarf sem ESB-ríkin gangast undir með aðild sinni að Evrópusambandinu má skoða tilhögun skipulags aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Aðildarviðræðunum var skipt upp í 35 samningskafla. Af þessum 35 köflum leit Evrópusambandið svo á að Ísland hefði þegar innleitt að fullu um þriðjung þeirra (12 kafla) í krafti aðildar sinnar að EES-samningnum. Annar þriðjungur (11 kaflar) hefði að verulegum hluta verið innleiddur af sömu ástæðum en um þriðjungur þeirra (12 kaflar) féllu alfarið utan EES-samstarfsins. Þessi skipting sýnir að þriðjungur af þeim efnissviðum sem ESB-ríki þurfa að gangast undir telst falla að fullu leyti undir EES-samninginn. Af þeim efnissviðum sem falla alfarið utan við EES-samninginn eru m.a. málaflokkar á borð við sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, utanríkisviðskipti (þ.m.t. gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki) og dóms- og innanríkismál.

Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá hvernig svokölluðum köflum aðildarviðræðanna var skipt eftir því hvort þeir voru taldir falla undir EES-samninginn að fullu eða hluta eða falla algjörlega utan EES.

Þessari fyrirspurn var því miður ekki svarað fyrir lok 146. löggjafarþings og er svarið því ekki að finna á vef Alþingis. Utanríkisráðherra vill engu að síður svara fyrirspurninni og hún því hér með birt á vef ráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum