Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um alþjóðlega samvinnu, Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Norræna húsinu, 24. apríl 2019

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra

Ágætu fundargestir,

Mér er ánægja að bjóða ykkur velkomin í Norræna húsið í dag. Utanríkisþjónustan hefur einsett sér að örva þjóðfélagsumræðu um utanríkismál og alþjóðasamvinnu og er samstarf utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar liður í þeirri vinnu.

Ég tel að alþjóðasamvinna standi raunverulega á krossgötum og þess sjást merki jafnt í norrænum og íslenskum stjórnmálum sem víðar í Evrópu og Norður-Ameríku. Það er mikilvægt að við hlúum að þeirri samvinnu sem okkur hefur reynst vel, beitum okkur fyrir umbótum þar sem þeirra er þörf og verðum áfram talsmenn þeirra gilda sem íslenskt samfélag byggir á.

Í ár virðast allir vegir liggja til Reykjavíkur. Reglubundna formennsku Íslands í norrænu samstarfi og Norðurskautsráðinu ber upp á þessu ári auk þess sem við tökum við sæti Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn Alþjóðabankans. Af þessu sést glöggt hversu veigamikil norræn samvinna er í okkar störfum. Norðurlöndin vinna saman í öllum þessum ráðum og stofnunum sem endurspeglast í yfirskrift norrænu formennskunnar: „Gagnvegir góðir“.

Við það bætist að í fyrrasumar fékk Ísland víðtækan stuðning til að gegna veigameira hlutverki í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Framganga Íslands í ráðinu hefur vakið athygli á heimsvísu og sýnir svo ekki verður um villst að lítil ríki geta haft áhrif. Það hefur komið mér þægilega á óvart hversu vel framlag okkar á alþjóðavísu er metið. Til okkar er horft þegar fjallað er um mannréttindi um allan heim, ekki síst þegar kemur að jafnrétti kynjanna.

Það gildir um Norðurlöndin öll. Sameiginleg norræn gildi og menning varða veginn í norrænni samvinnu og þau eru samofin ímynd okkar og störfum á alþjóðavettvangi. Við höfum byggt upp samfélög þar sem einstaklingar njóta mannréttinda í ríkum mæli án tillits til kyns eða annarra þátta.

Í samstarfi utanríkisráðherranna sem ég leiði í ár taldi ég brýnt að leggja áherslu á samskipti Norðurlandanna við Kína og mögulegt samstarf á sviði utanríkisviðskipta. Þá verður gerð úttekt á framkvæmd tillagna Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um aukið samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum og það skoðað hvort óska eigi eftir tillögum um frekara samstarf til næstu tíu ára.
Góðir gestir,

Aldarafmæli fullveldisins á síðasta ári varð okkur öllum tilefni til að líta yfir farinn veg og hugleiða þær miklu framfarir sem hafa orðið á þessum tíma. Þær hefðu aldrei getað orðið án virkrar þátttöku í alþjóðasamstarfi, ekki síst í líflegum utanríkisviðskiptum.

Ísland hefur alla tíð lagt sitt af mörkum til þeirrar almennu ríkjasamvinnu sem varð að veruleika í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar og þannig höfum við kosið að tilheyra hópi lýðræðisríkja Evrópu, Norður-Ameríku og annarra vestrænna ríkja. Sú samvinna virðist æ mikilvægari þegar hún er sett í samhengi við strauma og stefnur víðs vegar um heim.

Ég þreytist ekki á að minna á hversu mikilvæg alþjóðalög og virkt alþjóðlegt samstarf eru smáum herlausum ríkjum eins og Íslandi. Með störfum okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana stöndum við vörð um þjóðarétt sem er grundvallarforsenda í samskiptum ríkja og samstaða vestrænna ríkja er þar sannarlega mikilvæg. Kjarninn í alþjóðlegu samstarfi Íslands á sviði öryggis- og varnarmála er svo aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, sem nýverið fagnaði 70 ára afmæli.

Það er kannski mergur málsins. Við þurfum ekki að velja hvort við tökum virkan þátt í störfum alþjóðastofnana eða vinnum náið með stærri ríkjum. Síður en svo.
Náin samvinna við Bandaríkin, sem og Bretland og Þýskaland, innan og utan alþjóðastofnana hefur reynst okkur afar vel. Árangursríkar samningaviðræður við bresk stjórnvöld í tengslum við Brexit, fyrirhugað viðskiptasamráð og náið varnarsamstarf milli Bandaríkjanna og Íslands, auk tíðra funda með ráðherrum Bretlands og Bandaríkjanna, gefa eru skýrt merki um að svo megi verða áfram.

Alþjóðlegt samstarf er einnig lykillinn að sjálfbærni og friðsæld á norðurslóðum. Ísland hefur lengi talað gegn frekari hervæðingu á norðurskautinu og vaxandi hernaðarumsvif Rússa á svæðinu vekja því nokkurn ugg. Þrátt fyrir núning í samskiptum vesturvelda við Rússa hefur tekist að byggja upp mikilvægan samstarfsvettvang Norðurskautsráðsins.

Aðildarríkin vinna saman að því að takast á við þær fjölmörgu áskoranir sem felast í hröðum breytingum á svæðinu vegna hlýnunar jarðar. Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi mun íslenska formennskan í Norðurskautsráðinu meðal annars beina kastljósinu að málefnum hafsins, loftslagsmálum og endurnýjanlegri orku, auk stuðnings við samfélög á norðurslóðum.

Þá má ekki gleyma því að utanríkisviðskipti byggja einnig á alþjóðlegu samstarfi og regluverki. Mikið er rætt um að þessi öld verði öld Asíu enda eykst hagsæld þar hratt og íbúum fjölgar. Ég hef leitast við að funda með kollegum mínum í stærstu ríkjum Asíu í þeim tilgangi að liðka fyrir viðskiptum. Þannig hefur okkur meðal annars tekist að koma á samkomulagi sem greiðir fyrir beinum flugsamgöngum milli Íslands og Japans og öðru samkomulagi um tímabundin atvinnuréttindi ungs fólks í Japan og á Ísland, auk annars samkomulags sem greiðir fyrir útflutningi íslenskrar landbúnaðarvöru til Kína. Utanríkisþjónustan er í dag með sendiráð í þessum tveimur löndum, auk Indlands. Þar vinnur starfsfólk okkar að því að aðstoða íslensk fyrirtæki við að opna á ný tækifæri á þessum fjarlægu mörkuðum, auk þess að kynna íslenska menningu og samfélag fyrir heimafólki.

Á vettvangi EFTA hefur svo tekist að semja um fríverslun við fjörutíu ríki víðsvegar um heim, nú síðast við Indónesíu. Við tökum einnig þátt í rekstri norrænna nýsköpunarsetra í bæði Hong-Kong og Singapore sem opna leiðir fyrir íslensk fyrirtæki á þessa markaði. Við merkjum aukinn áhuga ríkja eins og Singapore á Íslandi, en þar spilar staða okkar innan norðurslóða stórt hlutverk.

Góðir gestir,

Það er vel við hæfi að unga fólkið hefji leikinn hér í dag. Eins og ég sagði í upphafi, þá stöndum við á krossgötum. Framtíðin er unga fólksins og þau hafa tækifæri til að hafa áhrif á hvernig sú framtíð verður. Ætlum við að aðlaga lífsstílinn til að koma í veg fyrir að verstu spár um loftslagsbreytingar rætist? Ætlum við að standa vörð um alþjóðlega samvinnu sem hefur vísað veginn til velsældar allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar? Eða ætlum við jafnvel að hverfa frá samstarfi sem hefur þjónað hagsmunum Íslands undanfarinn aldarfjórðung?

Ég hef áður rætt um EES-kynslóðina, unga fólkið sem man ekki eftir sér öðruvísi en innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar eru reglurnar neytandanum í vil, íslensk fyrirtæki keppa jafnfætis evrópskum á einum stærsta neytendamarkaði í heimi og íslensk ungmenni geta farið til náms og starfa innan svæðisins og notið þar sömu réttinda og innfæddir.

Ég er þess fullviss að unga fólkið er jafnsannfært og ég um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu. Nú þegar angar erlendrar einangrunarstefnu teygja anga sína inn í íslensk stjórnmál er nauðsynlegt að slá skjaldborg um þá samvinnu.

Breiðfylking íslenskra stjórnmálamanna, fjölmiðlafólks, háskólafólks og almennings, hefur að undanförnu sýnt samstöðu og ljáð alþjóðlegri samvinnu rödd og andlit. Í áherslum okkar er blæbrigðamunur, og stundum rúmlega það, en mér virðist meirihluti þings og þjóðar ætla að standa saman gegn öflum sem vilja grafa undan EES-samningnum á því sem eru í besta falli illa ígrundaðar forsendur – ef ekki af hreinum ásetningi.

Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa hugfast að samningurinn hefur skilað almenningi og fyrirtækjum gríðarlegum ávinningi án þess að Ísland hafi þurft að fórna sínum hagsmunum svo nokkru nemi. Íslenska sjávarútvegsstefnan, ein aðalundirstaða hagsældar okkar, stendur sem fyrr óhögguð og á forsendum Íslands. Að sama skapi tekur landbúnaðarstefna okkar mið af íslenskum aðstæðum. Við erum ekki hluti af tollabandalagi sambandsins og getum stundað frjáls viðskipti og gert fríverslunarsamninga við þá sem okkur sýnist.

Alþjóðleg samvinna og virk hagsmunagæsla er undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis geti áfram orðið með því sem best sem gerist í heiminum. Þar er samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins lykilþáttur, sem og vestræn samvinna í þágu öryggis. Síðast en ekki síst felur þátttaka í alþjóðlegri samvinnu í sér viðurkenningu erlendra ríkja á því að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki. Undir minni forystu verður áfram gefið í en ekki dregið úr, þegar kemur að alþjóðlegri samvinnu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira