Hoppa yfir valmynd
08. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland í forystu Evrópuráðsins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

Á morgun tekur Ísland við formennsku í Evrópuráðinu af Írum. Óhætt er að segja að þessi tímamót beri upp á miklum örlagatímum í sögu álfunnar. Þau grundvallargildi sem Evrópuráðið hvílir á – mannréttindi, lýðræði og réttarríkið – eiga undir högg að sækja. Skýrasta birtingarmynd þess er innrás Rússlands í Úkraínu.

Evrópuráðið er elsta alþjóðastofnun Evrópu. Það var stofnað árið 1949 í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar í þeim tilgangi að stuðla að stöðugleika í álfunni. Markmið þess er að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið í 46 aðildarríkjum með um 700 milljónir íbúa. Með brottvísun Rússlands úr stofnuninni í kjölfar innrásarinnar sendi Evrópuráðið skýr skilaboð um að aðildarríkin virði og verndi grundvallargildi ráðsins.

Í gær tilkynntu ríkisstjórnir Írlands og Íslands á fundi í Strassborg að það kæmi í hlut Íslands að efna til leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023, í lok formennskunnar. Í tæplega 75 ára sögu ráðsins hefur aðeins þrívegis verið haldinn leiðtogafundur. Innrásin í Úkraínu verður þar í brennidepli og í samhengi hennar mikilvægi þess að aðildarríkin verji sameiginleg gildi stofnunarinnar. Fundurinn verður umfangsmesti alþjóðlegi fundur sem fram hefur farið á Íslandi.

Komandi vetur verður að mörgu leyti erfiður víða í Evrópu, meðal annars vegna efnahagsþrenginga og hugsanlegs orkuskorts sem hvort tveggja má að miklu leyti rekja til innrásar Rússlands í Úkraínu. Tímasetning leiðtogafundar í Reykjavík að vori er því álitin ákjósanleg til þess að leiðtogar Evrópuþjóða hafi tækifæri til að koma saman í nafni þeirra gilda sem Evrópuráðinu er ætlað að varðveita. 

Áherslur íslensku ríkisstjórnarinnar á jafnrétti kynjanna, málefni barna, umhverfismál, lýðræði og mannréttindi endurspeglast í formennskuáætlun Íslands. En stærsta verkefnið verður að slá skjaldborg um grunngildi Evrópuráðsins, lýðræði og mannréttindi, sem standa frammi fyrir miklum áskorunum í samtímanum, ekki síst vegna stríðsrekstrar í álfunni. Þar mun Ísland axla ábyrgð og taka forystuhlutverk sitt alvarlega á krefjandi tímum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. nóvember 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum