Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2015 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin fjallaði um einfaldara regluverk og málþing OECD um efnið í vikunni

Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum í dag stöðu mála varðandi einföldun regluverks. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu er einfaldara regluverk fyrir atvinnulífið eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar, sbr. aðgerðaáætlun sem samþykkt var á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar. Þess má geta að á málþingi sem forsætisráðuneytið heldur í samstarfi við OECD fimmtudaginn 18. júní nk. verður rætt um hvernig tryggja megi árangur af slíkri viðleitni til lengri tíma. 

Meðal þess sem helst hefur áunnist er að athygli ríkisstjórnarinnar er kerfisbundið vakin á því ef stjórnarfrumvörp hafa að geyma íþyngjandi ákvæði fyrir atvinnulífið. Þetta er gert með umsögn skrifstofu löggjafarmála um stjórnarfrumvörp sem lögð er fram í ríkisstjórn samhliða frumvarpi. Þá hefur sérstakt átak verið gert varðandi einföldun regluverks á tilteknum málefnasviðum, t.d. ferðaþjónusta, sbr. frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á yfirstandandi þingi,  fiskeldismál, orkumál og byggingarreglugerð, þar sem einföldunarvinna er farin af stað. Þá er Þjóðskrá Íslands komin vel á veg með að hanna eina rafræn gátt fyrir samskipti fyrirtækja við opinbera aðila varðandi til dæmis leyfisveitingar og tilkynningar. 

Ríkisstjórnin ákvað að á næstu sex mánuðum yrðu helstu áherslur á þessu sviði eftirfarandi: Tekin verður saman skýrsla um þróun reglubyrði atvinnulífsins 2013-2015. Reglur um starfshætti ríkisstjórnar verða endurskoðaðar þannig að frumvörp og reglugerðir sem hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið komi til umsagnar ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur. Sett verður á fót samstarfsnefnd um starfshætti eftirlitsstofnana með fulltrúum atvinnulífsins í samræmi við nýgerða kjarasamninga. Nefndin mun hafa það hlutverk að semja tillögur til breytinga á löggjöf sem miði að sameiningu eftirlitsstofnana, endurskoðun leyfisveitinga og eftirlits með atvinnurekstri. Sett verður upp ein samráðsgátt fyrir ráðuneyti og opinbera aðila þar sem kynnt verða stefnumarkandi skjöl, drög að frumvörpum og reglugerðum og kallað eftir ábendingum um einföldun regluverks. Þá verður settur á laggirnar fastur samráðsvettvangur ráðuneyta um einföldun regluverks og önnur löggjafarmálefni.

Sjá einnig ítarlegra yfirlit yfir stöðu mála.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum