Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. ágúst 2016 Forsætisráðuneytið

Frumvarp um breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi til umsagnar

Á fyrsta ári
Á fyrsta ári

Félags- og húsnæðismálaráðherra leggur hér með fram til umsagnar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem áformað er að leggja fyrir komandi þing. Umsagnarfrestur rennur út 23. ágúst næstkomandi.

Efni frumvarpsins byggist á tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði í lok árs 2014 til að móta framtíðarstefnu stjórnvalda í fæðingarorlofsmálum. Helstu markmið þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu eru að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína, jafnframt því að gera foreldrum betur kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í þessu skyni er áhersla lögð á að raska sem minnst tekjum heimila þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingaroflofi til að annast börn sín. 

Helstu breytingar samkvæmt frumvarpsdrögunum eru eftirfarandi:

300.000 kr. óskertar viðmiðunartekjur

Samkvæmt gildandi lögum fær foreldri fæðingarorlofsgreiðslur sem nema 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili, en þó aldrei hærri fjárhæð en 370.000 kr. á mánuði. Samkvæmt áformuðum breytingum munu foreldrar fá fyrstu 300.000 kr. af viðmiðunartekjum óskertar og 80% af þeim viðmiðunartekjum sem eru umfram 300.000 kr. á mánuði.

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka um 62%

Miðað er við að hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi hækki úr 370.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. á mánuði. 

Fæðingarorlofið verður lengt í áföngum

Kveðið er á um að samanlagt fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði verði lengt úr níu mánuðum í tólf. Gert er ráð fyrir að lengingin taki gildi í áföngum á árunum 2019, 2020 og 2021. Þegar lengingin er að fullu komin til framkvæmda er miðað við að hvort foreldri um sig geti átt rétt til fimm mánaða fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks en að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir.

Umsagnarfrestur: Óskað er eftir að umsagnir og athugasemdir berist velferðarráðuneytinu á netfangið: [email protected] í síðasta lagi 23. ágúst 2016.

Umsagnaraðilum til hægðarauka fylgir hér auk frumvarpsins skjal þar sem áformaðar breytingar hafa verið færðar inn í gildandi lög.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira