Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. maí 2021 Matvælaráðuneytið

Málefni afurðastöðva í kjötiðnaði

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. september 2020 sem birt var í tengslum við mat á forsendum fyrir áframhaldandi gildi Lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins, er kveðið á um skoðun á leiðum til að auka hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu. Í framhaldi sendu formenn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Bændasamtaka Íslands formönnum ríkisstjórnarflokkanna erindi þar sem óskað var eftir því, með vísan til óviðunandi stöðu bænda og afurðastöðva, að leitað yrði leiða til að auka möguleika til samruna, aukins samstarfs og verkaskiptingar í kjötafurðavinnslu.

 

Þann 17. febrúar 2021 kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tímasetta aðgerðaáætlun til eflingar íslensks landbúnaðar , sem ætlað er að styrkja stoðir íslensks landbúnaðar í ljósi þeirra beinu og óbeinu áhrifa sem COVID-19 hefur haft á greinina. Tilgangur aðgerðanna er að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar. Í 8. lið aðgerðaráætlunarinnar, sem hefur yfirsögnina „Aukin hagkvæmni og hagræðing“, segir: Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við Lífskjarasamninginn verður hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðsla tekin til sérstakrar skoðunar, m.a. til að stuðla að bættri nýtingu verðmæta og aukinni hagræðingu innan landbúnaðarframleiðslunnar, til hagsbóta fyrir bændur og neytendur.

 

Þessi málefni hafa síðan verið til umfjöllunar innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í samráði við fulltrúa forsætis-, fjármála- og efnahags- og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytanna auk þess að þau hafa verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Ráðuneytin hafa aflað gagna, leitað sjónarmiða hagsmunaaðila og fengið á sinn fund sérfræðinga um málefni afurðastöðva og samkeppnisrétt. Þá hefur verið aflað sérstakrar skýrslu, frá Deloitte, um möguleika til hagræðingar í slátrun og kjötvinnslu, sem er meðfylgjandi- sjá hér.

 

Samstarfi ráðuneytanna um þetta mál er nú lokið. Ríkisstjórnin hefur lagt fyrir um að áfram verði unnið með málið innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þá eru hér kynnt drög að tveimur lagafrumvörpum, sem samin voru í ráðuneytinu við meðferð þessa máls.

 

  • Drög að frumvarpi um framleiðendafélög. Með frumvarpinu er leitast við að rýmka möguleika bænda, þ.e. frumframleiðenda búvöru, til þess að auka samstarf sín á milli í því skyni að starfa að sameiginlegum hagsmunamálum, þar með talið sölu, vinnslu og markaðssetningu á afurðum sínum. Horft er til þess að bændur og félög þeirra gætu með ákvæðum frumvarpsins notið líkra heimilda á markaði að þessu leyti og þekkist í samanburðarlöndum. Frumvarpið svarar þannig að nokkru leyti ákalli um að jöfnuð verði aðstaða bænda hér á landi við bændur í Evrópu um samstarfsheimildir. Sjá hér.

 

  • Drög að frumvarpi um samstarf afurðastöðva við útflutninga á kindakjöti. Með frumvarpinu er lagt til að afurðastöðum í kjötiðnaði verði heimilt að eiga með sér samstarf um útflutning á kindakjöti sem er umfram áætlaða neyslu á innanlandsmarkaði. Með þessu er stefnt að auknu jafnvægi á innanlandsmarkaði, sem gæti ýtt undir hækkun afurðaverðs, en verð á lambakjöti til framleiðanda er nú það lægsta í Evrópu, sem er til þess fallið að valda hruni í sauðfjárrækt. Sjá hér

Hér með er upplýst um þessa vinnu og um leið óskað eftir athugasemdum hagsmunaaðila og almennings af þessu tilefni, sem æskilegt væri að mundu þá berast fyrir 17. maí nk. á netfangið [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum