Hoppa yfir valmynd

Varnir gegn gróðureldum

Gróðureldar geta breiðst hratt út, t.a.m. í þurrum gróðri og miklum vindi og eru dæmi um mikið tjón sem hefur hlotist af gróðureldum. Oft er lítið sem hinn mannlegi máttur getur gert til að bregðast við gróðureldi hafi hann á annað borð kviknað.

Almennt gildir sú regla að óheimilt er að kveikja eld utandyra þar sem þeir geta valdið almannahættu eða verið skaðlegir umhverfi, gróðri, dýralífi eða mannvirkjum. Þá er í lögum hvatt til gætilegrar meðferðar búnaðar sem valdið getur íkveikju utandyra, s.s. grilla, ljósa, útiarna, kerta og hitagjafa og er öllum sem ferðast um landið skylt að sýna ítrustu varkárni í meðferð elds.

Brennur eru leyfisskyldar og veitir sýslumaður heimildar til brennu að fengnu samþykki slökkviliðsstjóra og starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Gæta skal ýtrustu varkárni þegar bálkestir eru hlaðnir og við brennur og varðelda, m.a. um staðsetningu og efni sem notað er. Þá er ekki heimilt að brenna úrgang undir berum himni.

Sinubrennur hafa verið aðferð sem menn hafa beitt að vorlagi til að létta komandi gróðri leið og gera beit notadrýgri. Með breytingum á veðráttu og búskaparháttum hefur hætta vegna sinubrenna aukist síðustu ár og geta þær haft alvarlegar afleiðingar fyrir náttúru og heilsu manna fyrir utan fjárhagstjón.  Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir því að tryggja almannahagsmuni með tilliti til  gróðurelda, m.a. með lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum en meginmarkmið þeirra er að vernda umhverfið, eignir, öryggi og heilsu fólks með því að koma í veg fyrir mengun af sinubrennu, öðrum gróðureldum og meðferð elds á víðavangi. 

Sjá einnig:

Áhugavert

Árið 2006 komu upp miklir sinueldar á Mýrum sem geisuðu með hléum í þrjá sólarhringa. Eldarnir fóru yfir 72 km2 landsvæði og eru mestu sinueldar sem þekktir eru í Íslandssögunni. Ári síðar fjallaði Náttúrufræðistofnun Íslands um eldana á vef sínum

Síðast uppfært: 18.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum