Hoppa yfir valmynd

Þjóðaröryggi

Þjóðaröryggisstefna

Markmið þjóðaröryggisstefnu er að tryggja sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, varnir landsins og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins. Þjóðaröryggisstefnan felur í sér 12 áherslur sem allar hafa jafnt vægi.

Þjóðaröryggisstefna

Þjóðaröryggisráð

Þjóðaröryggisráð starfar samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð sem voru samþykkt á Alþingi 2016. Meginverkefni þjóðaröryggisráðs er að hafa eftirlit með að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og að vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál.
Nánar um ráðið

Þjóðaröryggisstefna felur í sér 12 áherslur sem allar hafa jafnt vægi

Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi. Lögð verði áhersla á mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til og að stjórnvöld taki virkan þátt í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu hvert á sínu sviði. 

 Að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á hafsvæðinu umhverfis landið og á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.

 

 

Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja. 

Að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir. 


Að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf sem lýtur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði. 

Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. 

Að stuðlað verði að vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins gagnvart hvers kyns ógnum. Lögð verði áhersla á að tryggja skilvirkan og samhæfðan viðbúnað og viðbrögð til þess að takast á við afleiðingar hvers kyns ógna við líf og heilsu fólks, umhverfi, eignir og innviði. Tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum. 

Að sporna við röskun á lífsskilyrðum og búsetu vegna loftslagsbreytinga, m.a. með samdrætti í kolefnislosun, orkuskiptum, grænni fjárfestingu og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að bregðast við loftslagsbreytingum. 

 Að efla stafrænt fullveldi og auka net- og upplýsingaöryggi á öllum sviðum samfélagsins með samhæfðum aðgerðum, áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og með samstarfi við önnur ríki. 

Að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við stjórnskipun, stjórnkerfi og fjarskipti, þar á meðal fjarskiptatengingar við útlönd, orkuöryggi og fjármála- og efnahagsöryggi.

Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. 

Að þjóðaröryggisráð, er starfi á grundvelli sérstakra laga, meti ástand og horfur í þjóðaröryggismálum með reglulegum hætti, hafi eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni og standi fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. 
Síðast uppfært: 23.11.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum