Hoppa yfir valmynd

Hlutverk þjóðaröryggisráðs

Þjóðaröryggisráð starfar samkvæmt lögum nr. 98/2016 um þjóðaröryggisráð sem voru samþykkt á Alþingi 1. september 2016.

Meginverkefni þjóðaröryggisráðs er að hafa eftirlit með að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis nr. 26/145  og að vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál.

Að hafa eftirlit með að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í smræmi við ályktun Alþingis.

Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með að framkvæmd þjóðaröryggistefnunnar sé í samræmi við ályktun Alþingis. Ábyrgð á stjórnsýsluframkvæmd á einstökum málefnasviðum er varða þjóðaröryggi er hjá viðkomandi ráðuneyti samkvæmt forsetaúrskurði hverju sinni.

Þjóðaröryggisráð kallar eftir greinargerðum einstakra ráðuneyta um hvernig ráðuneyti og stofnanir á þeirra málefnasviðum hafi unnið að framkvæmd einstakra áhersluþátta þjóðaröryggisstefnunnar.  Greinargerðir ráðuneyta eru ræddar í þjóðaröryggisráði. 

Að lokinni umfjöllun í þjóðaröryggisráði er Alþingi gerð grein fyrir hvernig þjóðaröryggisstefnan er framkvæmd  ásamt því að utanríkismálanefnd er upplýst um um þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar hverju sinni.

Að vera samráðs- og samhæfingarvettvangur um þjóðaröryggismál.

Þjóðaröryggisráð er vettvangur reglubundins samráðs og samhæfingar um þjóðaröryggi. Forsætisráðherra boðar þjóðaröryggisráð reglulega til funda.

Þjóðaröryggisráð fundar sérstaklega ef þeir atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi.

Hlutverk ráðsins við slíkar aðstæður er að hafa yfirsýn yfir hvers konar neyðarástand og stuðla að framgangi samhæfðra ráðstafana til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.

Umsýsla vegna starfa þjóðaröryggisráðs er í höndum ritara þjóðaröryggisráðs. Ritari skal leitast við að tryggja að mál séu vel undirbúin sem borin eru upp í þjóðaröryggisráði og að viðeigandi samráð milli aðila sé viðhaft. Nýtur ritari þjóðaröryggisráðs aðstoðar tengiliðahóps, sem skipaður er fulltrúum tilnefndum af ráðuneytum, stofnunum og opinberum hlutafélögum. Hlutverk fulltrúa í tengiliðahópi  er að greiða fyrir upplýsingagjöf og skýrslugjöf til þjóðaröryggisráðs í samræmi við ákvæði 8. gr. laga um þjóðaröryggisráð, að vera til samráðs og ráðgjafar eftir þörfum vegna undirbúnings funda þjóðaröryggisráðs og við mótun verkefna þjóðaröryggisráðs.

Að leggja mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum.

Þjóðaröryggisráð leggur mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum og fjallar um önnur málefni er varða þjóðaröryggi. Miðað er við að fyrir liggi á hverjum tíma áreiðanlegt og hlutlægt mat á ástandi og horfum í öryggis og varnarmálum, sem stjórnvöld geta lagt til grundvallar við stefnumótun og áætlanagerð.

Að beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla.

Þjóðaröryggisráði er ætlað að beita sér fyrir því að efla fræðslu og upplýsingagjöf ásamt opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla. 

Í þeim tilgangi að stuðla að hlutlægri og málefnalegri umfjöllun um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjafar um þjóðaröryggismál er í samvinnu við Hagstofu Íslands unnið að mótun áhættuvísa, þjóðaröryggisvísa, um þróun þeirra þátta sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.

Að eiga samráð við Alþingi og almannavarnaráð.

Í lögum um þjóðaröryggisráð er fjallað um samráð við Alþingi og skýrslugjöf til Alþingis, sem og tillögubreytingar vegna þjóðaröryggisstefnunnar. Slíkt tryggir gagnsæi og samráð milli aðila á þessu sviði og styrkir aðkomu Alþingis að þjóðaröryggismálum.

Í þessu skyni kveða lögin á um að þjóðaröryggisráð geri Alþingi árlega grein fyrir verkefnum sínum og því hvernig þjóðaröryggisstefnunni sé framfylgt. Þá er ennfremur kveðið á um að ráðið skuli upplýsa utanríkismálanefnd um þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar hverju sinni. Engin viðmið eru sett um það hversu oft slíkt skuli gert, enda fer það eftir aðstæðum hverju sinni hvort og þá hversu oft ráðið sér ástæðu til að upplýsa nefndina.

Þá er kveðið á um það í lögum um þjóðaröryggisráð að ráðið skuli eiga samráð við Almannavarnaráð um málefni eða atburði sem kunna að snerta verksvið almannavarnaráðs samkvæmt lögum um almannavarnir, nr. 82/2008. Eina hlutverk almannavarnaráðs samkvæmt þeim lögum er að móta stefnu í almannavarnamálum.

Að stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar.

Þjóðaröryggisráði er ætlað að standa að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Miðað er við að þar sé um að ræða heildarendurskoðun stefnunnar, en ráðið getur þess á milli lagt til við Alþingi breytingar á stefnunni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum