Hoppa yfir valmynd

Vinnuhópur um upplýsingaóreiðu og COVID-19

Verkáætlun vinnuhóps um upplýsingaóreiðu og COVID-19

Inngangur

Sífellt fleiri treysta á samfélagsmiðla og leitarvélar, á borð við Facebook, Twitter, Instagram, YouTube og Google, til að afla sér frétta og upplýsinga. Með breyttri upplýsingamiðlun og nýrri tækni hefur miðlun rangra og misvísandi upplýsinga, meðal annars af hálfu erlendra ríkja og hópa aukist og orðið að alþjóðlegu vandamáli. Tækni sem býður upp á markmiðaða upplýsingamiðlun í gegnum algóriþma, samfara aukinni skráningu og miðlun persónuupplýsinga á netinu, gerir það mögulegt með auðveldum og kerfisbundnum hætti að dreifa röngum eða misvísandi upplýsingum, sem erfitt er að staðreyna hvaðan koma.

Á alþjóðavísu virðist hafa orðið mikil aukning á dreifingu rangra og misvísandi upplýsinga um COVID-19, einkum á samfélagsmiðlum. Á það við hvort heldur sem um er að ræða upplýsingar sem miðlað er með skipulögðum hætti eða óafvitandi sem geta ógnað heilsu fólks og grafið undan trausti á heilbrigðisyfirvöldum. 

Efnt hefur verið til alþjóðlegs samstarfs til þess að sporna gegn þessari þróun í því augnamiði að tryggja öryggi og lýðheilsu almennings. Hér á landi hafa daglegir upplýsingafundir og vefsvæði almannavarna, landlæknis og sóttvarnalæknis gegnt afar mikilvægu hlutverki við að koma á framfæri áreiðanlegum upplýsingum.

Starf vinnuhóps á vegum þjóðaröryggisráðs tekur mið af alþjóðlegu samstarfi um upplýsingar og COVID-19, þar með talið Norðurlandanna, og mun hópurinn hafa hliðsjón af vinnu annarra ríkja í störfum sínum og við mótun tillagna.

Hlutverk vinnuhóps

Hlutverk vinnuhópsins er að kortleggja hugsanlegar birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu um COVID-19 hér á landi. Jafnframt er hlutverk vinnuhópsins að gera tillögur að aðgerðum til þess að auðvelda aðgengi að traustum heimildum og upplýsingum með hliðsjón af sambærilegum aðgerðum í nágrannaríkjum.

Markmið

Að stuðla að lýðheilsu og heilbrigðisöryggi með því að kanna umfang skipulagðrar útbreiðslu rangra eða misvísandi upplýsinga um COVID-19 á Íslandi, koma á framfæri fræðsluefni um mikilvægi áreiðanlegra upplýsinga um COVID-19 og greiða fyrir því að fjölmiðlar og almenningur geti með aðgengilegum hætti kannað áreiðanleika slíkra upplýsinga.

Í vinnu hópsins er tekið mið af skilgreiningu á hugtakinu upplýsingaóreiða sem stuðst er við í alþjóðlegu samstarfi, meðal annars á vettvangi UNESCO. Upplýsingaóreiða tekur þannig annars vegar til þess þegar röngum upplýsingum er deilt óviljandi (e. misinformation) og hins vegar til þess þegar röngum upplýsingum er deilt af ásetningi (e. disinformation).

Í vinnu hópsins verður horft til eftirfarandi þátta:

  1. Kanna á dreifingu upplýsinga um COVID-19. Gerð verði könnun til þess að fá mynd af því hvernig almenningur nálgast upplýsingar um COVID-19 og hvort og þá hvernig rangar upplýsingar um veiruna og sjúkdóminn hafi borist almenningi, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. Könnunin taki mið af sambærilegum könnunum sem gerðar hafa verið meðal annars á Norðurlöndunum og í Bretlandi þannig að niðurstöðurnar verði samanburðarhæfar.
  2. Stuðla að vitundarvakningu og að efla almenna aðgát gagnvart upplýsingum og miðlun upplýsinga um COVID-19.
  3. Fjölmiðlum og almenningi verði gert kleift að kanna með auðveldum hætti áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þeim berast um COVID-19, til dæmis með því að koma á samstarfi við ritnefnd COVID-19 verkefnis Vísindavefs Háskóla Íslands.
  4. Íslensk stjórnvöld fylgist með og taki þátt í alþjóðlegu samstarfi er varðar upplýsingar um COVID-19, þar með talið á vegum Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, EES-ríkja og á vettvangi norræns samstarfs.
Síðast uppfært: 24.10.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum