Hoppa yfir valmynd

Vopn, sprengiefni og skoteldar

Ákvæði vopnalaga gilda um skotvopn, skotfæri, sprengiefni, skotelda, önnur vopn, svo sem hnúajárn, örvaboga, högg-, stungu- eða eggvopn, rafmagnsvopn, gasvopn og táragasefni og um öll tæki sem telja má til vopna. Þá gilda lögin um sprengiefni og skotelda.

Vopn

Samkvæmt vopnalögum er með vopni átt við hvert það tæki eða efni sem unnt er að beita til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega, enda sé m.t.t. aðstæðna ástæða til að ætla að fyrirhugað sé að nota tækið eða efnið í slíkum tilgangi. Hvað vopn snertir eru ákvæði um skotvopn einna fyrirferðamestu í vopnalögunum. Þar er að finna ákvæði er varða framleiðslu, innflutning, útflutning og verslun skotvopna, meðferð þeirra og skilyrði til að fara með skotvopn. Þannig þurfa leyfishafar að hafa náð 20 ára aldri, mega ekki hafa verið sviptir sjálfræði, ekki hafa gerst brotlegir við tiltekin lög, hafa nægilega kunnáttu til að fara með skotvopn, vera andlega heilbrigðir og að öðru leyti hæfir til þess að fara með skotvopn. Þrátt fyrir að skotvopn séu fyrirferðarmestu vopnin í vopnalögunum þá gilda lögin einnig um önnur vopn s.s. bitvopn, sverð, boga o.fl.

Þess ber að geta að reglur Evrópusambandsins um skotvopn voru ekki tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og því eru íslensk stjórnvöld ekki eins bundin af Evrópureglum er varðar skotvopn. Hins vegar eru reglur Evrópusambandsins um skotvopn nátengdar Schengen og þar sem Ísland er aðili að Schengen þarf Ísland að taka mið að Evrópureglum á þeim grundvelli.

Sprengiefni

Ólíkt reglum um skotvopn þá voru reglur um sprengiefni teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma og því eru reglur og tilskipanir Evrópusambandsins um sprengiefni reglulega teknar upp í íslenskan rétt. Sama gildir um skotelda.

Með sprengiefni er í lögum þessum átt við fast eða fljótandi efni eða efnablöndu sem hefur þann eiginleika að geta sprungið við högg, þrýsting eða hita, svo og kveikiefni, svo sem hvellhettur og kveikiþræði.

Skoteldar og flugeldavörur

Með skoteldum og flugeldavörum er átt við hvers kyns hluti sem innihalda efni eða efnablöndu sem getur sprungið og ætlað er, með íkveikju eða á annan hátt, að gefa frá sér hita, ljós, hljóð, lofttegund eða reyk með útvermum og sjálfbærum efnaferlum. 

Meðferð og sala skotelda

Mikilvægt er að hafa í huga að skoteldar eru hættuleg vara sem ber að nota með ýtrustu varúð. Mikilvægt er að lesa vandlega leiðbeiningar sem fylgja þeim og tryggja að þeir séu geymdir á öruggum stað. Öryggisins vegna er brýnt að nota öryggisgleraugu og hanska við notkun þeirra. Þá er mikilvægt að verða sér út um skothólk til þess að skorða af flugelda (rakettur). Þegar um skotkökur eða blys er að ræða er nauðsynlegt að velja opið svæði með sléttu og stöðugu undirlagi.

Sala og almenn notkun

Aðeins er heimilt að setja á markað hér á landi skotelda sem hlotið hafa gerðarviðurkenningu og bera CE-samræmismerki og framleiddir eru samkvæmt viðeigandi stöðlum. Heimilt er að selja skotelda í flokki 1, 2 og 3 til almennra notenda. Skotelda í flokki 4 er aðeins heimilt að selja þeim sem sýnt geta fram á með fullnægjandi hætti að þeir hafi sérfræðiþekkingu á skoteldum, enda hafi viðkomandi ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingafélagi vegna mögu­legra slysa á fólki og tjóns af völdum skotelda. Smásala á skoteldum í flokki 1 er heimil allt árið en smásala skotelda í flokki 2 og 3 til notenda er aðeins heimil á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. Heimilt er að markaðssetja skotelda á netinu með rafrænum hætti á tímabilinu frá 20. desember til 6. janúar, enda sé varan afhent á viðurkenndum sölustað skv. 3. mgr. á tímabilinu 28. desember til 6. janúar. Almenn notkun á skoteldum er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum nema á skoteldum í flokki 1 sem nota má allt árið.

Aldursmörk

Skoteldar skulu ekki seldir einstaklingum undir eftirfarandi aldurstakmörkunum:
i. Skoteldar í flokki 1, 12 ára.
ii. Skoteldar í flokki 2, 16 ára.
iii. Skoteldar í flokki 3, 18 ára.
Öll meðferð barna yngri en 18 ára á skoteldum skal vera undir eftirliti fullorðinna.

Hvar má nota skotelda?

Við brennu og í næsta nágrenni við hana er öll meðferð skotelda sem hætta stafar af vegna ferils þeirra eftir tendrun bönnuð. Notkun skotelda er bönnuð við staði þar sem þeim er pakkað, þeir seldir eða geymdir og í nálægð við aðra staði þar sem eldfim efni eru. Þá má ekki nota skotelda innan 100 metra frá mannvirkjum sem gerð eru úr sérstaklega eldfimum efnum, stöðum þar sem eldfim efni eru geymd, timburgeymslum, geymslum með brennanlegar umbúðir og þess háttar og geymslustöðum fyrir eldfima vökva og gaskúta. Sjá nánar í 11. gr. reglugerðar um skotelda.

Skoteldasýningar

Lögreglustjórum er heimilt að veita sérstök leyfi til skoteldasýninga til sveitarfélaga eða skráðra félagasamtaka, enda er skoteldasýning liður í opinberum hátíðarhöldum. Útgáfa leyfis til sýningar er bundin því skilyrði að ákveðinn aðili hafi umsjón með sýningunni og að sérstakur skotstjóri annist framkvæmd hennar. Fyrir slíkri sýningu þarf einnig leyfi frá heilbrigðisnefnd viðkomandi umdæmis. Um skoteldasýningar gilda ýmsar öryggisreglur sem ætlað er að tryggja öryggi áhorfenda og þeirra er standa að sýningunni. Að lokinni sýningu skal fjarlægja notaða skotelda með varúð.

Hvaða skoteldar eru ætlaðir til sölu til almennings?

Í reglugerð um skotelda er byggt á ákveðinni flokkun er miðast við hættueiginleika hvers skotelds fyrir sig og eru flokkarnir fjórir þar sem flokkur 1 eru hættuminnstu skoteldarnir og flokkur 4 þeir hættumestu og óheimilt að selja almenningi. Skoteldar skuli frá og með 15. janúar 2017 vera CE-merktir og uppfylla öryggiskröfur sem kveðið er á um í Evrópureglum.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum