Hoppa yfir valmynd

Almannavarnir

Almannavarnir og öryggismálaráð

Á grundvelli laga um almannavarnir hefur verið sett fram stefna ríkisins í almannavarna- og öryggismálum sem miðar að því að íslenskt samfélag sé öruggt. Almannavarna- og öryggismálaráð setur fram stefnuna til þriggja ára í senn. Í ráðinu sitja ráðherrar, forstjórar stofnana og fulltrúar annarra aðila sem gegna lykilhlutverki við rekstur ýmissa mikilvægra innviða samfélagsins og verndun þeirra. Stefna almannavarna- og öryggismálaráðs er einn af þremur meginþáttum þjóðaröryggisstefnu ásamt virkri utanríkisstefnu á sviði varnar- og öryggismála og grannríkjasamstarf á því sviði. Á grundvelli EES-samningsins tekur Ísland þátt í evrópsku samstarfi á sviði almannavarna og norrænu samstarfi á grundvelli á Haga-yfirlýsingarinnar.  

Ríkislögreglustjóri fer með málefni almannavarna í umboði ráðherra og lögreglustjórar, auk Landhelgisgæslunnar, sveitarfélaga og björgunarsveita, gegna lykilhlutverki í almannavörnum í héraði.

Heildarendurskoðun almannavarnalaga og greining á almannavarnakerfi Íslands

Í samræmi við stefnu stjórnvalda í almanna- og öryggismálum frá 2021 er nú unnið að heildarendurskoðun íslensku almannavarnalaganna. Markmiðið er að efla almannavarnakerfið okkar, styrkja það sem vel gengur og bæta það sem betur má fara. Næsta skref í vinnunni er heildstæð greining á íslenska almannavarnakerfinu. Dómsmálaráðuneytið hefur falið ARCUR ráðgjöfum að leiða vinnuna og munu þeir eiga í miklu og breiðu samstarfi við alla helstu hagaðila.

Tímalína verkefnisins

September 2023    Undirbúningur og spurningakönnun send af stað

Október 2023          Samtal við lögreglustjóra, stjórnvöld, almannavarnanefndir og helstu viðbragðsaðila

Nóvember 2023      Úrvinnsla úr fundum og samtölum. Viðtöl við aðra hagsmunaaðila undirbúin

Desember 2023      Skýrsluvinna, tillögugerð og frágangur

Janúar 2024             Vinna við frumvarp til breytinga á almannavarnalögum hefst í dómsmálaráðuneytinu

Fundir með viðbragðsaðilum um allt land

ARCUR og  fulltrúar dómsmálaráðuneytis og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra munu heimsækja lögreglustjóra, viðbragðsaðila og viðeigandi stjórnvöld í hverjum landshluta og eiga með þeim uppbyggilega fundi. Leitast verður eftir því að ná góðu og djúpu samtali um skipulag, ábyrgð og hlutverk lykilaðila. Með því fáist sameiginleg sýn á hvernig almannavarnkerfið á Íslandi verði best skipulagt þannig að það verði sem best í stakk búið til að takast á við hvers konar vá.

Könnun sem mikilvægt er að allir viðtakendur svari

Könnun hefur verið send á hagaðila með tölvupósti. Mikilvægt er að viðeigandi aðilar nýti þetta tækifæri til þess að koma á framfæri sínum sjónarmiðum. Þetta verður best gert með því að svara könnunni hratt og örugglega þar sem niðurstöður hennar liggja til grundvallar áframhaldandi vinnu. Svör við könnuninni verða að berist eigi síðar en á lokadegi sem er 9. október nk. 

Stýrihópur um heildarendurskoðun almannavarnalaga

Stýrihópur skipaður fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórafélags Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur yfirumsjón með verkefninu og verður ARCUR innan handar með úrvinnslu. Stefnt er að því að þessu umfangsmikla verkefni verði lokið fyrir árslok 2023 og hefst þá vinna við lagafrumvarp í dómsmálaráðuneytinu.

Stýrihópurinn

  • Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu
  • Brynhildur Þorgeirsdóttir, staðgengill skrifstofustjóra á fjármála- og rekstrarskrifstofu í dómsmálaráðuneytinu
  • Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu
  • Aldís Hafsteinsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Jón Björn Hákonarson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra
  • Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
  • Páley Borgþórsdóttir, fulltrúi Lögreglustjórafélags Íslands
  • Með stýrihópnum vinnur Kristrún Friðriksdóttir, ritari ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu

Verkefnisstjórar og ráðgjafar verkefnisins

Ef óskað er frekari upplýsinga um verkefnið er unnt að hafa samband við neðangreinda ráðgjafa hjá ARCUR ráðgjöfum.

Þröstur Sigurðsson    [email protected]   S. 772 7997

Halldór Þorkelsson     [email protected]      S. 840 1220

Viðbragðskerfi almannavarna

Skipulag almannavarna byggist á grunnreglum sem ætlað er að tryggja að þegar hættu ber að höndum sé stjórn og ábyrgð með sem líkustum hætti og þegar ástand er eðlilegt og að jafnaði í höndum staðbundinna stjórnvalda. Með því fæst styrkur og sveigjanleiki, hvort sem um er að ræða dagleg störf við neyðar- og öryggisþjónustu eða viðbrögð í almannavarnaástandi.

Vernd mikilvægra innviða

Almannavarnakerfinu er m.a. ætlað að tryggja áfallaþol mikilvægra innviða samfélagsins, þannig að sem minnst röskun verði á viðkomandi þjónustu komi til áfalla. 

Til mikilvægra samfélagslegra innviða teljast mannvirki eða kerfi, eða hlutar þess, sem er þannig háttað, að eyðing þeirra, skemmdir eða skert starfsemi mundi stefna í hættu nauðsynlegri samfélagslegri starfsemi, heilbrigði, öryggi, umhverfi og efnahagslegri eða félagslegri velferð borgaranna. Slíkir mikilvægir samfélagslegir innviðir eru m.a. rafveitur, hitaveitur, vatnsveitur og aðrir orkugjafar, heilbrigðisþjónusta, samgöngur, fjarskipti, neyðarþjónusta, fjármálastarfsemi, stjórnsýsla, fæðuöryggi og fæðuframboð.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 2.4.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum