Hoppa yfir valmynd

Almannavarnir

Á grundvelli laga um almannavarnir hefur verið sett fram stefna ríkisins í almannavarna- og öryggismálum sem miðar að því að íslenskt samfélag sé öruggt. Almannavarna- og öryggismálaráð setur fram stefnuna til þriggja ára í senn. Í ráðinu sitja ráðherrar, forstjórar stofnana og fulltrúar annarra aðila sem gegna lykilhlutverki við rekstur ýmissa mikilvægra innviða samfélagsins og verndun þeirra.

Stefna almannavarna- og öryggismálaráðs er einn af þremur meginþáttum þjóðaröryggisstefnu ásamt virkri utanríkisstefnu á sviði varnar- og öryggismála og grannríkjasamstarf á því sviði. Á grundvelli EES-samningsins tekur Ísland þátt í evrópsku samstarfi á sviði almannavarna og norrænu samstarfi á grundvelli á Haga-yfirlýsingarinnar.  

Ríkislögreglustjóri fer með málefni almannavarna í umboði ráðherra og lögreglustjórar, auk Landhelgisgæslunnar, sveitarfélaga og björgunarsveita, gegna lykilhlutverki í almannavörnum í héraði.

Viðbragðskerfi almannavarna

Skipulag almannavarna byggist á grunnreglum sem ætlað er að tryggja að þegar hættu ber að höndum sé stjórn og ábyrgð með sem líkustum hætti og þegar ástand er eðlilegt og að jafnaði í höndum staðbundinna stjórnvalda. Með því fæst styrkur og sveigjanleiki, hvort sem um er að ræða dagleg störf við neyðar- og öryggisþjónustu eða viðbrögð í almannavarnaástandi.

Vernd mikilvægra innviða

Almannavarnakerfinu er m.a. ætlað að tryggja áfallaþol mikilvægra innviða samfélagsins, þannig að sem minnst röskun verði á viðkomandi þjónustu komi til áfalla. 

Til mikilvægra samfélagslegra innviða teljast mannvirki eða kerfi, eða hlutar þess, sem er þannig háttað, að eyðing þeirra, skemmdir eða skert starfsemi mundi stefna í hættu nauðsynlegri samfélagslegri starfsemi, heilbrigði, öryggi, umhverfi og efnahagslegri eða félagslegri velferð borgaranna. Slíkir mikilvægir samfélagslegir innviðir eru m.a. rafveitur, hitaveitur, vatnsveitur og aðrir orkugjafar, heilbrigðisþjónusta, samgöngur, fjarskipti, neyðarþjónusta, fjármálastarfsemi, stjórnsýsla, fæðuöryggi og fæðuframboð.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 2.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira