Hoppa yfir valmynd

Spurningar og svör um þriðja orkupakka ESB

Uppfært 1. apríl 2019

Í tilefni af framlagningu þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, uppfært spurningar og svör sem lúta að þriðja orkupakkanum. Jafnframt er vísað í greinar og kynningar sem þykja upplýsandi um þriðja orkupakkann. Spurningarnar voru fyrst settar á vefinn í nóvember 2018 (sjá svör nóvember 2018) og uppfærðar í apríl 2019.

  • Öll EFTA-ríkin þrjú tóku ákvörðun um upptöku þriðja orkupakkans með stjórnskipulegum fyrirvara. Bæði Noregur og Liechtenstein hafa þegar aflétt stjórnskipulegum fyrirvara af sinni hálfu en ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekur ekki gildi fyrr en öll EFTA-ríkin innan EES hafa aflétt fyrirvaranum.
  • Með tillögu til þingsályktunar er óskað heimildar Alþingis að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, en þó með lagalegum fyrirvara um endurskoðun á ákvæðum íslensku reglugerðarinnar áður en komi til álita að reisa grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB.
  • Með tillögunni heimilar Alþingi ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðunina fyrir Íslands hönd og fella inn í EES samninginn gerðir þær sem saman mynda þriðja orkupakkann. Þegar þingsályktun þess efnis hefur verið samþykkt, geta íslensk stjórnvöld aflétt stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
  • Þriðji orkupakkinn er framhald á markaðsvæðingu framleiðslu og sölu á raforku, sem var innleidd hér á landi með fyrsta og öðrum orkupakkanum í gegnum raforkulög árin 2003 og 2008.
  • Vegna þeirra breytinga ríkir nú frjáls samkeppni í framleiðslu og sölu á rafmagni og neytendur geta valið af hverjum þeir kaupa rafmagn.
  • Þriðji orkupakkinn, eins og hinir tveir fyrri, felur í sér ákvæði um rétt neytenda og neytendavernd, aðgang að flutnings- og dreifikerfum rafmagns, gagnsæi á markaði, aðskilnað samkeppnisrekstrar (framleiðslu og sölu) frá sérleyfisrekstri (flutningi og dreifingu) og fleira í þá veru.
  • Gildistöku ákvæða sem varða tengingu (e. cross-border) við sameiginlegan orkumarkað ESB er í reynd frestað.
  • Þau koma ekki til framkvæmda fyrr en og ef
    a) Alþingi ákveður að leggja raforkusæstreng og
    b) lagagrundvöllur þessara ákvæða hefur verið endurskoðaður, þ.m.t. stjórnskipulegt gildi.
  • Það er algjörlega á valdi íslenska ríkisins að taka ákvörðun um hvort raforkusæstrengur verður lagður.
  • Einungis Alþingi getur tekið slíka ákvörðun.
  • Aðgreina skal flutningskerfi (Landsnet) frá öðrum rekstri á orkumarkaði (eigendaaðskilnaður) en Íslandi var veitt undanþága frá þessu ákvæði. Það þýðir að við ráðum því sjálf hvernig eignarhaldi Landsnets er skipað.
  • Ítarlegri ákvæði eru um sjálfstæði raforkueftirlitsins. Tryggja skal að eftirlitsaðili (raforkueftirlit Orkustofnunar) sé bæði sjálfstæður gagnvart aðilum á markaði og stjórnvöldum. Eftirlitsaðilinn fær nýjar heimildir til að áminna og sekta fyrirtæki fyrir brot á reglunum og aukið hlutverk varðandi neytendavernd og eftirlit með smásölu- og heildsölumarkaði. Þetta styrkir markmið laganna um virka samkeppni.
  • Sett er á stofn Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) sem ætlað er að aðstoða lögbundna eftirlitsaðila í störfum sínum og eftir atvikum samhæfa aðgerðir þeirra. Orkustofnun er eftirlitsaðili á Íslandi og mun taka þátt í störfum ACER fyrir hönd Íslands og tók á sínum tíma þátt í störfum forvera þessarar stofnunar.
  • EFTA-ríkin munu veita Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þær afmörkuðu valdheimildir sem ACER hefur á orkumarkaði ESB, sem felast í því að í afmörkuðum tilvikum getur stofnunin tekið ákvörðun í málum milli landsbundinna eftirlits­yfir­valda sem varða reglusetningu og kunna að innihalda skilyrði og skilmála fyrir aðgangi og rekstraröryggi er varða grunnvirki yfir landamæri.
  • Neytendavernd er áfram sterk og styrkist; til að mynda er kveðið á um aukinn rétt neytenda til upplýsinga og rétt þeirra til að skipta um orkusala.
  • Hér á landi hefur þetta mál verið undirbúið vandlega og m.a. verið til umfjöllunar í nefndum þingsins á grundvelli reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Samráðsferli við nefndirnar hófst fljótlega eftir að þriðji orkupakkinn var samþykktur á vettvangi ESB árið 2009.
  • Vitaskuld vekur þetta mál ýmis mikilvæg grundvallarsjónarmið sem þarf að fara vandlega yfir. En að sama skapi er mikilvægt að meta þetta mál út frá heildarhagsmunum Íslands í EES-samstarfinu.
  • Ráðherrarnir hafa tekið þá gagnrýni sem fram hefur komið á innleiðingu þriðja orkupakkans mjög alvarlega. Það hafa verið uppi skiptar skoðanir meðal fræðimanna um málið og var því talið að gaumgæfa ætti öll sjónarmið vandlega.
  • Af þeim sökum frestaði utanríkisráðherra framlagningu þingsályktunartillögu þar til málið hafði verið rannsakað ofan í kjölinn.
  • Við undirbúninginn var leitað til okkar helstu sérfræðinga, einnig til þeirra sem hafa gagnrýnt upptöku þriðja orkupakkans hvað mest.
  • Efnislega fékk Ísland, í ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 93/2017 frá maí 2017, eftirfarandi undanþágur vegna þriðja orkupakkans og byggðu þær á þeim undanþágum sem Ísland sóttist eftir og fékk við innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans:
  • 1) Ísland fékk undanþágu frá nýmæli þriðju raforkutilskipunarinnar um fullan eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja (Landsnets) frá öðrum fyrirtækjum á raforkumarkaði (framleiðslu- og sölufyrirtækjum og dreifiveitum).
  • 2) Ef Ísland getur sýnt fram á að vandkvæði séu til staðar fyrir rekstur raforkukerfa er heimilt að sækja um undanþágur frá lykilgreinum VI. og VIII. kafla þriðju raforkutilskipunarinnar til ESA, að því er varðar aðskilnað dreififyrirtækja, aðgengi að flutnings- og dreifikerfum og markaðsopnun og gagnkvæmni. Þetta eru sambærilegar heimildir og Ísland hefur undir öðrum orkupakkanum sem „lítið og einangrað raforkukerfi“. Ísland hefur ekki nýtt þær heimildir sem Ísland fékk undir öðrum orkupakkanum.
  • 3) Ísland er undanþegið öllum ESB-gerðum um jarðgas.
  • 4) Í ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar frá 2017 var samið um tveggja stoða aðlögun varðandi valdheimildir Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) í tengslum við ágreining eftirlitsaðila um orkuflutning yfir landamæri, með þeim hætti að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mun fara með þær valdheimildir gagnvart EFTA-ríkjunum innan EES.
  • Þriðji orkupakkinn var samþykktur innan Evrópusambandsins árið 2009. Samningaviðræður EFTA-ríkjanna innan EES og ESB um upptöku orkupakkans í EES-samninginn, undanþágur og aðlögun, tóku nokkur ár. Nefndir Alþingis voru upplýstar um efni málsins með minnisblöðum frá og með árinu 2010 en formleg umfjöllun Alþingis hófst árið 2013. Þrjár þingnefndir fjölluðu um málið. Á grundvelli þess var ákveðið í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017 að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, með stjórnskipulegum fyrirvara frá öllum þremur EFTA-ríkjunum innan EES, þ.e. Íslandi, Liechtenstein og Noregi.
  • Alþingi þarf svo að gefa ríkisstjórninni heimild með þingsályktun til að staðfesta þá ákvörðun og síðan í kjölfarið að samþykkja þær lagabreytingar sem leiða af málinu vegna innleiðingar í landsrétt.
  • Það er sá kafli í þessu margra ára ferli sem núna stendur fyrir dyrum.
  • Því hefur verið haldið fram opinberlega að „afdrifaríkasta breytingin“ sem þriðji orkupakkinn hafi í för með sér sé sú, að orkugeirinn verði felldur undir fjórfrelsi EES-samningsins.
  • Hið rétta er að grunnreglur EES um fjórfrelsið gilda nú þegar um raforkumarkaðinn. Samkeppnislög og ríkisstyrkjareglur EES gilda líka nú þegar um hann. Þessar reglur hafa haft nokkur áhrif á íslensk raforkumálefni og leitt til aukinnar samkeppni og styrkt stöðu almennra neytenda. Einnig má nefna að Eftirlitsstofnun EFTA þarf að staðfesta að orkusölusamningar opinberra fyrirtækja til stóriðju feli ekki í sér ólögmæta ríkisstyrki.
  • Samkvæmt EES-samningnum er „orka“ skilgreind sem „vara.“ Því eiga við reglur um frjálsa vöruflutninga sem eru hluti af fjórfrelsinu á EES-svæðinu. Ísland hefur þegar innleitt alla viðeigandi orkulöggjöf ESB með tilliti til fjórfrelsisins. Reglur um viðskipti með orku hafa verið hluti EES-samningsins frá gildistöku hans árið 1994 og það er ekkert nýtt í því.
  • Þótt Ísland sé ekki tengt innri orkumarkaði ESB með beinum tengingum, s.s. með sæstreng eða línum, eru samt sem áður góðar og gildar ástæður fyrir því að löggjöf um orkumál sé tekin upp í EES-samninginn og gildi á EES-svæðinu.
  • Löggjöfin lýtur einkum að neytendasjónarmiðum, umhverfisvernd, hagkvæmni í rekstri orkufyrirtækja, fyrirtækjaaðskilnaði sérleyfis- og samkeppnisþátta, jöfnu aðgengi og markaðsbúskap í raforku- og jarðgasviðskiptum. Þá fellur einnig undir orkumál, eldsneyti, hiti, raftæki, orkumerkingar o.fl. Má færa rök fyrir því að almenningur á Íslandi hafi þegar haft mikinn ávinning af innleiðingu fyrri orkupakkanna tveggja vegna samkeppnissjónarmiða.
  • Ísland hefur umtalsverða útflutningshagsmuni á þessu sviði. Á Íslandi er t.d. framleitt eldsneyti sem flutt er m.a. til Hollands og íslensk iðnfyrirtæki framleiða raftæki og selja á markaði í Evrópu á grundvelli laga um orkumerkingar og visthönnun vöru (sem fellur undir orku viðauka EES samningsins). Einnig er hér um hagsmuni að ræða út frá nýsköpun og frumkvöðlastarfi á sviði íslenskra grænna orkulausna, og mögulegum útflutningi þeirra á markað í Evrópu.
  • Vegna sérstöðu Íslands sem einangraðs kerfis, hefur stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans þó hvorki gildi né raunhæfa þýðingu hérlendis. Af þeim sökum verður innleiðing þriðja orkupakkans hérlendis byggð á grundvallarforsendu um þessa sérstöðu Íslands.
  • Sú sérstaða hefur sömuleiðis verið staðfest með sameiginlegri fréttatilkynningu utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdarstjórn ESB.
  • Með breytingu á raforkulögum árið 2015 voru lögfest ákvæði um kerfisáætlun Landsnets. Var þar m.a. höfð hliðsjón af sambærilegum reglum úr þriðju raforkutilskipuninni, sem er hluti af þriðja orkupakkanum. Kerfisáætlunin er áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins og með lagabreytingunni voru gerðar ríkari kröfur um samráð og undirbúning við gerð hennar.
  • Umdeildasti þáttur málsins er líklega aðkoma Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER, að því er varðar að skera úr um deilumál milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda er varða grunnvirki sem ná yfir landamæri. Að því er varðar eftirlitsyfirvöld í EFTA-ríkjunum innan EES, Ísland, Noreg og Liechtenstein, ákváðu samningsaðilar, í samræmi við tveggja stoða kerfið, að fela þær valdheimildir til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í stað ACER.
  • Málið var umdeilt í Noregi og gerðu norsku þingflokkarnir sérstaka fyrirvara í sameiginlegri yfirlýsingu þegar málið var samþykkt í þinginu.
  • Fræðimenn á Íslandi greinir á um hvort í þessu felist framsal á valdi sem ekki samræmist stjórnarskrá. Það hefur verið verkefni utanríkisráðuneytisins að vega og meta þessi sjónarmið og komast að niðurstöðu.
  • Valdheimildir ACER og ESA samkvæmt ákvæðum þriðja orkupakkans um tengingar yfir landamæri munu ekki koma til framkvæmda gagnvart Íslandi vegna lagalegs fyrirvara í þingsályktunartillögunni.
  • Fyrirvarinn er sá að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð, nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.
  • Fyrirvarinn útilokar stjórnskipunarvanda við upptöku og innleiðingu þriðja orkupakkann í landsrétt.
  • Nei. Upptaka þriðja orkupakkans í EES-samninginn fyrir EFTA-ríkin er aðlöguð í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Meðal aðildarríkja ESB hefur samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (e. ACER) hlutverki að gegna gagnvart eftirlitsyfirvöldum. Að því er varðar eftirlitsyfirvöld í EFTA-ríkjunum innan EES, Ísland, Noreg og Liechtenstein, ákváðu samningsaðilar að fela þær valdheimildir til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í stað ACER.
  • Valdheimildir ACER og ESA samkvæmt ákvæðum þriðja orkupakkans um tengingar yfir landamæri munu þó ekki koma til framkvæmda gagnvart Íslandi vegna lagalegs fyrirvara í þingsályktunartillögunni.
  • Já, upptaka þriðja orkupakkans í EES-samninginn felur í sér afmarkað valdaframsal um atriði sem varða grunnvirki yfir landamæri (s.s. sæstreng), þar sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) eru veittar afmarkaðar valdheimildir gagnvart EFTA-ríkjunum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, s.s. varðandi úrlausn deilumála og tæknileg málefni. Þetta takmarkaða framsal til ESA er útfært í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins, með sambærilegum hætti og ýmis fyrri mál.
  • Þau ákvæði þriðja orkupakkans sem hafa verið andlag umræðu um valdframsal hafa hins vegar enga þýðingu hér á landi, þar sem engin tenging er til staðar við innri raforkumarkaðinn.
  • Þetta er áréttað með lagalegum fyrirvara í þingsályktunartillögunni og í sameiginlegri tilkynningu utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB.
  • Ekkert ákvörðunarvald gagnvart EFTA-ríkjunum verður flutt til stofnunar ESB, þ.e. ACER. Ákvörðunarvaldið verður hjá ESA, í samræmi við tveggja stoða kerfið. ESA ber að byggja ákvörðun sína á drögum frá ACER. Komi til ágreinings á milli ESA og ACER skal vísa honum til úrlausnar í sameiginlegu EES-nefndinni. Allt þetta kemur fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu þriðja orkupakkans.
  • Með íslenskri leið við innleiðingu þriðja orkupakkans koma ákvæði þriðja orkupakkans um ákvörðunarvald ESA um millilandatengingar (grunnvirki yfir landamæri) þó ekki til framkvæmda þar sem Ísland er einangrað kerfi og ekki tengt orkumarkaði ESB.
  • Niðurstaða flestra sérfræðinga sem leitað var til er sú að innleiðing ákvæða þriðja orkupakkans í íslenskan rétt sé í samræmi við stjórnarskrá.
  • Bæði utanríkisráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leituðu til okkar helstu sérfræðinga við undirbúninginn, einnig þeirra sem hafa gagnrýnt upptöku þriðja orkupakkans hvað mest.
  • Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, vann lögfræðilega álitsgerð um málið að beiðni utanríkisráðuneytisins. Niðurstaða Skúla var sú að framsal valdheimilda með innleiðingu ákvæða þriðja orkupakkans, eins og framkvæmdin hefði verið löguð að EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, myndi samræmast íslenskum stjórnlögum.
  • Dr. jur. Davíð Þór Björgvinsson, útbjó minnisblað um málið að beiðni utanríkisráðuneytisins. Niðurstaða hans er sú að að svo miklu leyti sem vafi kunni að hafa verið um hvort framsal valdheimilda hafi verið í ósamræmi við íslensku stjórnarskrána, hafi þeim hindrunum verið rutt úr vegi með aðlögun að tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
  • Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, lögfræðingur, unnu álitsgerð um málið að beiðni utanríkisráðuneytisins. Þeir telja að ekki séu forsendur til að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans nema það sé tryggt að innleiðingin fari þannig fram að hún samræmist stjórnarskránni. Í því skyni leggja þeir til mögulega lausn sem gæti falist í því að innleiða orkupakkann með lagalegum fyrirvara eins og þeim sem lagður er til í þessari þingsályktunartillögu.
  • Stjórnvöld hafa tekið þá gagnrýni sem fram hefur komið á innleiðingu þriðja orkupakkans mjög alvarlega. Það hafa verið uppi skiptar skoðanir meðal fræðimanna um málið og var því talið að gaumgæfa þyrfti öll sjónarmið vandlega.
  • Af þeim sökum frestaði utanríkisráðherra framlagningu tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um þriðja orkupakkann þar til málið hafði verið rannsakað ofan í kjölinn.
  • Með hliðsjón af ítarlegri undirbúnings- og rannsóknarvinnu sem hefur farið fram, er með tillögu til þingsályktunar lagt til að heimild Alþingis fyrir afléttingu verði veitt á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB.
  • Þriðji orkupakkinn verður því ekki innleiddur í íslenskan rétt nema á þeirri forsendu að Ísland er ekki tengt raforkumarkaði ESB. Með þessum hætti reynir ekki á hin umdeildu valdframsalsákvæði þriðja orkupakkans.
  • Grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða sömuleiðis ekki reist eða áætluð, nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli umræddrar (EB) reglugerðar þriðja orkupakkans og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.
  • Ef slík endurskoðun fer fram, tæki Alþingi enn frekar og sérstaklega til skoðunar hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.
  • Hinn lagalegi fyrirvari er settur fram á grundvelli varúðarsjónarmiða sem taka tillit til sjónarmiða þeirra sem hafa haft uppi mestar efasemdir um upptöku þriðja orkupakkans.
  • Íslenska leiðin útilokar stjórnskipulega óvissuþætti.
  • Ímars 2019 áttu utanríkisráðherra og framkvæmdastjóri orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB viðræður vegna málsins.
  • Í kjölfarið var gefin út sameiginleg fréttatilkynning þar sem staðfestur var sameiginlegur skilningur þeirra á þeirri sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart sameiginlegum orkumarkaði.
  • Í tilkynningunni kemur fram að vegna sérstöðu Íslands sem einangraðs kerfis, hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans hvorki gildi né raunhæfa þýðingu hérlendis.
  • Þetta á m.a. við um ákvæðin um Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) og ESA.
  • Í sameiginlegu tilkynningunni kemur jafnframt fram að gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafi engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og ákvörðunarvald yfir nýtingu og stjórnun þeirra.
  • Tilkynningin sem slík hefur ekki bein réttaráhrif eða lagalegt gildi.
  • Hún styður hins vegar við þá aðferð sem Ísland mun beita við innleiðinguna þar sem hún staðfestir sameiginlegan skilning framkvæmdastjórnar ESB og bindur hendur hennar pólitískt gagnvart grundvallarforsendu Íslands.
  • Sérstaða Íslands og grundvallarforsendan verður jafnframt áréttuð með bókun í sameiginlegu EES-nefndinni. Þar verður vísað í þennan sameiginlega skilning Íslands og ESB.
  • Það er ekkert sem skuldbindur Íslendinga til að leggja sæstreng til meginlands Evrópu, eða að taka á móti sæstreng frá Evrópu, og slík skuldbinding felst ekki í þriðja orkupakkanum. Það er alfarið okkar ákvörðun hvort það verði gert og engin slík ákvörðun hefur verið tekin.
  • Með samþykki Alþingis á tillögu til þingsályktunar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn, verður samþykki Alþingis auk þess gert að skilyrði fyrir áætlun slíkra grunnvirkja. Áður en til þess kæmi þyrfti Alþingi jafnframt að endurskoða lagagrundvöll þriðja orkupakkans og kæmu ákvæði þriðja orkupakkans varðandi tengingu yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en eftir þá endurskoðun.
  • Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunaráðherra mun leggja fram frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og þingsályktun um breytingu á þingsályktun nr. 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, þar sem kveðið verður á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfi landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Og að það samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar.
  • Er þetta lagt til í því skyni að taka af öll tvímæli um að slík ákvörðun verður ávallt háð samþykki Alþingis og hún er ávallt alfarið á forræði íslenskra stjórnvalda.
  • Innleiðing þriðja orkupakkans leggur engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili veitir leyfi fyrir slíkum streng.
  • Í greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, hrl., kemur fram að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér grundvallarfrávik frá þeirri stefnumörkun sem fólst í innleiðingu fyrsta og annars orkupakka ESB. Þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á íslensk stjórnvöld um að tengjast innri raforkumarkaði ESB og megi þar m.a. líta til 2. mgr. 194. gr. Sáttmálans um starfshætti ESB. Kemst Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður, að sömu niðurstöðu í minnisblaði sínu.
  • Í álitsgerð Skúla Magnússonar er einnig áréttað að innleiðing þeirra gerða sem hér um ræðir myndi ekki fela í sér neins konar skyldu íslenska ríkisins til þess að koma á, eða leyfa, samtengingu íslensks raforkumarkaðs við önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins. Það er því ávallt á forræði íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort og hvaða stjórnvald veiti leyfi fyrir lagningu sæstrengs.
  • Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda, í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans, er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda („Any decision on new interconnectors must remain a sovereign decision that is made by the Norwegian authorities.“) Hið sama gildir um Ísland. Því er óhugsandi að sæstrengur yrði lagður hingað gegn vilja Íslendinga.
  • Kemur þetta skýrt fram í áðurnefndri sameiginlegri fréttatilkynningu utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB: „Decisions on electricity interconnectors between Iceland and the EU‘s internal electricity market lie entirely within the competence of Icelandic authorities“.
  • Til að taka af öll tvímæli hvað þetta varðar mun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, og tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, þar sem skýrt kemur fram að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfi landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Og að slíkt samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geti farið inn á kerfisáætlun Landsnets. Er þetta í samræmi við framangreindar yfirlýsingar og tekur af allan vafa að raforkusæstrengur verður aldrei lagður til landsins gegn vilja stjórnvalda og að ákvörðun um hann verður ávallt á forræði og forsendum íslenskra stjórnvalda.
  • Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á, að hvað forsendur ákvörðunar varðandi sæstreng varðar, þá skiptir máli að Ísland heldur skipulagsvaldi á landi sínu og hefur á þeim forsendum ákvörðunarvald um hvernig það skuli nýtt. Komi til þess að ákvörðun um sæstreng verði á einhverjum tímapunkti tekin er jafnframt ljóst að gera þarf ýmsar breytingar á lögum varðandi leyfisveitingar fyrir slíkri framkvæmd, sem og varðandi atriði er lúta að rekstri og eignarhaldi á slíkri framkvæmd og mannvirkjum hennar. Þörf er á fjölda leyfa innlendra stofnana fyrir slíkri framkvæmd og myndi þurfa að fara mjög ítarlega í gegnum þá þætti málsins á vettvangi Alþingis.
  • Á sameiginlegum þingflokksfundi stjórnarflokkanna 20. mars 2019 var ákveðið að draga umsókn um sæstrengsverkefnið IceLink inn á fjórða PCI listann („Project of Common Interest“) til baka.
  • Þó er rétt að árétta að Ice-Link sæstrengsverkefnið fór ekki á verkefnalistann að frumkvæði ESB. Það voru Landsnet og Landsvirkjun sem sóttu um að verkefnið færi á listann, með samþykki stjórnvalda í upphafi árs 2015 án þess að í því samþykki fælist afstaða til verkefnisins. Hefur Landsnet sent inn tilkynningu um að umsóknin sé dregin til baka.
  • Í yfirlýsingu Noregs, samhliða þinglegri meðferð 3ja orkupakkans, segir: „Statnett must own and operate all future electricity interconnectors. This is to be included in the Energy Act.“
  • Þetta er í samræmi við aðkomu norska fyrirtækisins Statnett af þeim sæstrengjum sem eru til staðar eða áformaðir í Noregi. Einkaaðili getur ekki lagt streng til Noregs án Statnett og Statnett er 100% í eigu norska ríkisins.
  • Þess má geta að á Íslandi er hafin vinna sem miðar að því að Landsnet verði 100% í eigu ríkisins. Sú vinna hefur þó ekkert með þriðja orkupakkann að gera heldur er á íslenskum forsendum og er í framhaldi af fyrri vinnu frá síðustu árum sem miðar að sama marki.
  • Nei, Ísland hefur áfram fullt forræði yfir orkuauðlindinni.
  • Þriðji orkupakkinn varðar ekki eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi, né hvort þær eru nýttar og í hvaða tilgangi. Í minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar, lögmanns, kemur fram að þriðji orkupakkinn haggi í engu forræði íslenska ríkisins á náttúruauðlindum og er þar vísað bæði til 125. gr. EES samningsins og 2. mgr. 194. gr. Sáttmálans um starfshætti ESB.
  • Kemur þetta skýrt fram í sameiginlegri fréttatilkynningu utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB: „The applicable provisions of the EU third energy package in no way affect the Government of Iceland‘s full sovereign control over Iceland‘s energy resources and the authority on how they shall be utilized and managed.“
  • Grunnreglur EES-samningsins um fjórfrelsið, ríkisstyrki og samkeppnismál hafa um árabil gilt um íslenska raforkumarkaðinn. Íslenski orkumarkaðurinn var markaðsvæddur með setningu raforkulaga árið 2003 sem innleiddu fyrsta orkupakka ESB. Þetta hefur haft margvísleg áhrif á íslensk orkumálefni án þess að því hafi verið haldið fram að við höfum afsalað okkur forræði yfir auðlindinni.
  • EES-samningurinn hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.Þetta kemur skýrt fram í 125. gr. samningsins. Af því leiðir af EES-samningurinn haggar ekki forræði íslenska ríkisins á náttúruauðlindum í þeim skilningi að Ísland hefur heimild til þess að ákveða hvort náttúruauðlindir skuli vera í eigu ríkisins eður ei.
  • Þannig mun t.d. enginn erlendur aðili geta fyrirskipað hvort lagður skuli sæstrengur til og frá Íslandi eður ei, eða hvernig eigi að fara með eignarhald á orku almennt á Íslandi. Það er og verður áfram ákvörðun íslenskra stjórnvalda.
  • Raforkuverð (söluhlutinn) lækkaði þegar ákvæði raforkulaga frá 2003 um samkeppni og frjálst val neytenda tóku að fullu gildi. Neytendur geta í dag valið sér orkusala. Fyrirtæki gera það í töluverðum mæli en einstaklingar hafa síður nýtt sér þennan möguleika en það hefur aukist undanfarin ár.
  • Ný fyrirtæki á söluhluta raforkumarkaðar hafa verið að líta dagsins ljós (tvö á árinu 2018) sem gera má ráð fyrir að muni stuðla að enn virkari samkeppni. Samkeppni hefur aldrei verið eins mikil og nú, en sjöfalt fleiri neytendur skiptu um raforkusala árið 2018 miðað við 2017.[1]
  • Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu árið 2011, að telja yrði að sá aðskilnaður sérleyfis- og samkeppnisrekstrar sem þá hafði átt sér stað vegna annars orkupakkans hefði „leitt til þjóðhagslega hagkvæmara raforkukerfis“.[2]


[2] Skýrsla Hagfræðistofnunar H.Í. 2011

  • Þær áhyggjur byggja á fullyrðingum um að þriðji orkupakkinn muni án nokkurs vafa leiða til sæstrengs, en það á ekki við rök að styðjast, þar sem ákvörðun um sæstreng verður í höndum íslenskra stjórnvalda, samanber framangreint.
  • Þriðji orkupakkinn mun, einn og sér, ekki leiða til hærra raforkuverðs á Íslandi, hvorki til garðyrkjubænda né annarra aðila.
  • Í skýrslum verkefnisstjórnar sæstrengs frá júlí 2016 er farið ítarlega yfir mögulega kosti og galla við lagningu sæstrengs, meðal annars áhrif á raforkuverð og mögulegar mótvægisaðgerðir.
  • Nei, þriðji orkupakkinn hefur enga þýðingu gagnvart einkavæðingu eða uppskiptingu Landsvirkjunar. Engin nýmæli eru í þriðja orkupakkanum sem geta stuðlað að slíku. Íslensk samkeppnislög gilda um fyrirtækið og starfar það á samkeppnismarkaði.
  • Nei, raforkueftirlit verður eftir sem áður í höndum Orkustofnunar. Gert er ráð fyrir að Orkustofnun verði óháð bæði markaðsaðilum og stjórnvöldum í eftirlitshlutverki sínu. Það felur ekki í sér frávik eða eðlisbreytingu frá því sem gildir um aðrar sjálfstæðar eftirlitsstofnanir á Íslandi sem á undanförnum árum hefur verið fengið aukið sjálfstæði, sbr. t.d. Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið.
  • Stofnun orkukauphallar hefur nú þegar verið til skoðunar. Það er val okkar Íslendinga sjálfra og þriðji orkupakkinn felur ekki í sér neinar skyldur um slíkt.
  • Þessi fullyrðing hefur verið rökstudd með því að með þriðja orkupakkanum séu innleidd markaðslögmál sem muni auka líkur á skorti og þannig hækka verð. Íslenski orkumarkaðurinn var markaðsvæddur með raforkulögum 2003. Áhrif þess hafa frekar verið til lækkunar á verði en hækkunar. Þriðji orkupakkinn er framhald af þeirri þróun, þ.e. hann styrkir markaðsvæðingu, samkeppni og jafnræði aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði en ekki hærra.
  • Þriðji orkupakkinn kemur einnig inn á mikilvægi þess að koma í veg fyrir orkuskort og inniheldur heimildir til að grípa til ráðstafana til að tryggja öruggt framboð á raforku fyrir almenning. Á vegum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er að störfum starfshópur sem vinnur að tillögum um hvernig best sé að tryggja orkuöryggi fyrir almenning.
  • Nei. Grunnreglur EES um fjórfrelsið gilda nú þegar um orkumarkaðinn. Þriðji orkupakkinn breytir engu um möguleika erlendra aðila til að eignast hlut í orkufyrirtækjum á Íslandi eða fá tímabundið leyfi til að nýta auðlindir í opinberri eigu. Erlendir aðilar hafa þann möguleika nú þegar á grundvelli grunnreglna EES-samningsins. Hins vegar ber að hafa í huga að samkvæmt gildandi lögum frá 2008 er ríki og sveitarfélögum, og félögum sem eru að fullu í þeirra eigu, óheimilt að selja frá sér orkuauðlindir. Þriðji orkupakkinn hefur engin áhrif á gildi þeirra laga né annarra laga sem lúta að nýtingu orkuauðlinda og eignarhaldi þeirra, samanber framangreint.
  • Við afgreiðslu þriðja orkupakkans í norska þinginu, á síðasta ári, var samþykkt yfirlýsing þar sem gerðir voru fyrirvarar í átta liðum varðandi gildi þriðja orkupakkans í Noregi. Meðal annars að því er snýr að óskoruðum sjálfsákvörðunarrétti Noregs gagnvart nýjum sæstrengjum og nýtingu orkuauðlinda í Noregi.
  • Í umræðu á Íslandi að undanförnu hefur því verið haldið fram að komið hafi í ljós að þessir fyrirvarar sem Noregur setti hafi ekki haldið.
  • Samkvæmt upplýsingum frá norska orkumálaráðuneytinu eru fyrirvararnir í fullu gildi.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum