Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný skýrsla um fyrirkomulag úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur skilað skýrslunni Úttekt á fyrirkomulagi úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka- Hvaða hópar leita aðstoðar?, sem unnin var fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina. Höfundar skýrslunnar eru Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir. Úttektin fólst í því að aflað var gagna með spurningakönnun og viðtölum við hjálparsamtök, notendur og félagsráðgjafa og var meðal annars kannað hvers konar aðstoð hjálparsamtök á Íslandi veita,  kortlagt hvaða hópar leita til hjálparsamtaka eftir aðstoð ásamt því að kanna viðhorf til aðstoðarinnar og hvað megi bæta.

Stærsti hópurinn sem leitar aðstoðar er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, atvinnuleysisbótum eða örorkubótum. Einnig leita ellilífeyrisþegar og láglaunafólk til samtakanna, þó minna sé um það.

Fólk almennt ánægt með hjálparsamtökin en ýmislegt má bæta

Hjálparsamtök bjóða margþætta aðstoð til fátæks fólks. Könnun meðal þeirra sem nýta sér aðstoðina leiddi í ljós að fólk er almennt ánægt með þjónustuna en þó er ýmislegt sem má bæta. Í ljós kom að stór hluti þeirra sem hafði sótt aðstoð hjá tveimur hjálparsamtökum hafði lent í því að bíða í biðröð utandyra. Þegar spurt var hvort fólk vildi heldur fá úthlutað mat eða inneignarkorti kom í ljós að inneignarkort hugnaðist flestum betur þar sem nærri tveir af hverjum þremur vildu heldur inneignarkort í matvöruverslanir en að fá úthlutað mat.

Bæta þarf úrræði ríkis og sveitarfélaga

Í úttektinni segir að almennt sé þörf á að útvíkka aðgerðir og bæta úrræði sem nýtast fátæku fólki. Sér í lagi þarf að mæta bráðum þörfum hópsins með sérstökum úrræðum á tímum heimsfaraldurs. Viðtölin við félagsráðgjafana veita innsýn í hvaða úrræði þeir telja þarfnist endurskoðunar. Nefndu þeir meðal annars  viðmið fyrir fjárhagsaðstoð og forsendur sérstaks húsnæðisstuðnings þannig að úrræðin mæti þörfum allra sem á þurfa að halda, þar með talið láglaunafólks. Þá telja þeir að endurmeta þurfi og útfæra úrræði fyrir fólk sem bíður örorkumats og styðja betur við fólk af erlendum uppruna. Loks var bent á mikilvægi þess að bjóða upp á varanleg úrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda, t.d. fólk með geðröskun- og vímuefnavanda. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur verið falið að afla gagna og skrifa skýrslu um hvert sé fyrirkomulag aðstoðar hjálparsamtaka annars staðar á Norðurlöndunum. Von er á að þeirri skýrslu verði skilað í mars nk.

Í skýrslunni má finna tölulegar upplýsingar og tilvitnanir sem varpa frekara ljósi á viðfangsefnið. Linkur á skýrsluna.

Frekari upplýsingar um skýrsluna veitir Ásdís Aðalbjörg Arnalds, í netfangi, aaa1 (hjá) hi.is

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum