Hoppa yfir valmynd

Náðun

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. málsl. 29. gr., kemur fram að forseti Íslands náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 skal dómsmálaráðherra skipa þriggja manna nefnd, náðunarnefnd, til þriggja ára í senn. Allar náðunarbeiðnir skulu sendar til nefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal nefndin láta ráðherra í té rökstudda tillögu um afgreiðslu á náðunarbeiðnum.

Hverjir geta fengið náðun?

Aðeins er hægt að sækja um náðun á fésektum og fangelsisrefsingu. Ekki er hægt að sækja um náðun á svokölluðum refsikenndum viðurlögum. Refsikennd viðurlög eru t.d. svipting ökuréttinda, svipting starfs eða svipting leyfis. Ekki er hægt að sækja um náðun eftir að einstaklingur hefur afplánað fangelsisrefsingu eða greitt sekt.

Ef einstaklingur, sem hefur t.d. verið dæmdur til að greiða sekt og jafnframt verið sviptur ökuréttindum, sækir um náðun og fallist er á að náða viðkomandi nær náðunin aðeins til sektarinnar. Hann verður áfram sviptur ökuréttindum þrátt fyrir náðunina. Um endurveitingu ökuréttinda gilda reglur umferðarlaga. Sjá umfjöllun um endurveitingu ökuréttinda hér að neðan.

Beiðni um náðun

Í beiðninni þurfa að koma fram helstu upplýsingar, svo sem nafn, kennitala, heimilisfang eða annar staður þar sem hægt er að hafa samband við umsækjanda. Þá þarf að koma fram um hvaða refsingu sótt er um náðun á. Í beiðninni þarf að geta þess hvers vegna sótt er um náðun og æskilegt er að láta fylgja nauðsynleg gögn t.d. læknisvottorð ef sótt er um náðun á grundvelli heilsufars. Hver sem þekkir til náðarbeiðanda, vegna starfs síns eða ættartengsla, getur sótt um náðun fyrir náðunarbeiðanda.

Beiðni um náðun skal vera skrifleg og send til dómsmálaráðuneytisins:

Dómsmálaráðuneytið,
b.t. náðunarnefndar,
Borgartúni 26,
105 Reykjavík.

Einnig er heimilt að senda beiðni um náðun rafrænt á netfangið [email protected] eða í gegnum Signet Transfer.

Ferli náðunarbeiðna

Þegar náðunarbeiðni berst ráðuneytinu er Fangelsismálastofnun ríkisins eða innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar tilkynnt um hana og óskað eftir gögnum. Viðkomandi stofnun eru veittar tvær til þrjár vikur til að skila gögnum. Náðunarnefnd er heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglu og upplýsinga frá heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum til staðfestingar á fyrirliggjandi vottorðum sem og að afla nýrra gagna um heilsufar. Náðunarbeiðnin er síðan send náðunarnefnd sem leggur tillögu fyrir innanríkisráðherra um afgreiðslu málsins. Nefndin fundar að jafnaði einu sinni í mánuði og er málsmeðferð fyrir nefndinni skrifleg. Ef fallist er á náðunarbeiðni er gerð tillaga til forseta Íslands. Ef ekki er fallist á náðunarbeiðni sendir ráðuneytið bréf þar sem synjunin er tilkynnt.

Frestar náðunarbeiðni fullnustu refsinga?

Í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga kemur fram að óski dómþoli eftir náðun á refsingu þá skuli fresta fullnustu hennar ef hún er ekki þegar hafin þar til slík beiðni er afgreidd enda hafi beiðnin komið fram eigi síðar en hálfum mánuði áður en afplánun skuli hefjast. Beiðni um náðun frestar ekki fullnustu sé dómþoli þegar í afplánun. Þá kemur fram í 3. mgr. sömu greinar að ekki skuli fresta fullnustu vegna ítrekaðrar beiðni um náðun nema í nýju beiðninni komi fram veigamiklar upplýsingar sem ekki var unnt að koma á framfæri áður og sérstakar ástæður mæli með að afplánun verði frestað.

Áhrif náðunar

Náðun er ávallt skilorðsbundin til nokkurra ára. Haldi maður sem hefur verið náðaður almennt skilorð út reynslutímann fellur refsingin niður. Algengt er að skilorðstíminn sé tvö til þrjú ár. Náðunin er skráð á sakavottorð viðkomandi.

Ökuleyfissvipting og endurveiting ökuréttinda

Um endurveitingu ökuréttinda gilda reglur umferðarlaga nr. 50/1987. Ökuleyfissvipting fellur undir refsikennd viðurlög en ekki er hægt að sækja um náðun á refsikenndum viðurlögum, aðeins eiginlegum refsingum, sem eru fésektir og fangelsi. Í 1. mgr. 106. gr. umferðarlaganna kemur fram að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár geti lögreglustjóri, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár.

 

Sjá einnig:

Beiðni um náðun

Beiðni til náðunarnefndar skal vera skrifleg og send til dómsmálaráðuneytisins:

Dómsmálaráðuneytið,
b.t. náðunarnefndar,
Sölvhólsgötu 7,
101 Reykjavík.
Síðast uppfært: 24.3.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum