Dagur íslenskrar tungu
Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.
Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur. Hinn 16. nóvember skal draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, sbr. 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 . Einnig fer vel á því að aðrir dragi íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.
Dagur íslenskrar tungu 2020
Degi íslenskrar tungu verður fagnað með fjölbreyttum hætti um land þann 16. nóvember. Hátíðarhöld og verðlaunaafhending Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar verða þó með óhefðbundnum hætti þetta árið vegna sóttvarnaráðstafana.
Hátíðardagskrá ráðuneytisins verður miðlað með streymi en þau munu fara fram í Hörpu kl. 16. Þar mun Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytja ávarp og tilkynna um verðlauna- og viðurkenningarhafa Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar árið 2020.
Landsmenn eru hvattir til þess að fagna deginum með sínum hætti og vitað er að fjölmargir skólar munu til dæmis nota tækifærið og hafa íslenskt mál í öndvegi nk. mánudag líkt og hefð er fyrir.
Aðrir viðburðir á deginum
- Hannesarholt gefur út upptöku af lagi Valgeirs Guðjónssonar
við ljóð Hannesar Hafstein, Hraun í Öxnadal. Lagið var frumflutt á 7 ára
afmæli Hannesarholts í febrúar síðastliðinn. Áður hefur Hannesarholt fengið samin þrjú lög við ljóð Hannesar Hafstein
og í ár gerði stofnunin enn betur og efndi til lagakeppni og fékk send inn yfir
200 lög við rúmlega 50 ljóð Hannesar. Þar fundu lagahöfundar á öllum aldri
innblástur í meira en aldargömlum ljóðum sem leika á alla tóna
tilfinningaskalans.
- „Viltu tala íslensku við mig?“ er samstillt átak Íslenskuþorpsins, grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi í íslensku sem öðru máli. Skólarnir halda daginn hátíðlegan með því að vekja athygli á mikilvægi samskipta á íslensku sérstaklega fyrir þá sem eru að læra íslensku. Í myndbandi til stuðnings átakinu hvetja nemendur og þjóðþekktir einstaklingar til samskipta á íslensku með slagorðinu „Viltu tala íslensku við mig?“
- Á vegum Bókasafns Reykjanesbæjar verða ljóð Jónasar Hallgrímssonar til sýnis og aflestrar á vel völdum gönguleiðum í bænum. Ljóðin munu hanga uppi í viku frá 16. nóvember til 23. nóvember.
- Dagur íslenskrar tungu 2019
- Dagur íslenskrar tungu 2018
- Dagur íslenskrar tungu 2017
- Dagur íslenskrar tungu 2016
- Dagur íslenskrar tungu 2015
- Dagur íslenskrar tungu 2014
- Dagur íslenskrar tungu 2013
- Dagur íslenskrar tungu 2012
- Dagur íslenskrar tungu 2011
- Dagur íslenskrar tungu 2010
- Dagur íslenskrar tungu 2009
- Dagur íslenskrar tungu 2008
- Dagur íslenskrar tungu 2007
- Dagur íslenskrar tungu 2006
Sjá einnig:
Vefir um Jónas Hallgrímsson
Áhugavert
Menningarmál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.