Hoppa yfir valmynd

Stjórnarskrárendurskoðun 2018-2025

Allir flokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi vinna nú saman að því að endurskoða stjórnarskrána. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Að tillögu forsætisráðherra er gert ráð fyrir að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili og vinnunni verði áfangaskipt.

Formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi funda að minnsta kosti ársfjórðungslega til að leggja stærstu línur um framgang verkefnis. Forsætisráðherra boðar fundina og stýrir þeim.

Höfð er hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum, sbr. t.d. þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda 2005-2007 og 2013-2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram. Miðað er við eftirfarandi skiptingu málefna á næstu tvö kjörtímabil:

  1. Á tímabilinu 2018-2021 verða tekin fyrir eftirfarandi viðfangsefni: Þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, II. kafli stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni verði breytt.
  2. Á tímabilinu 2021-2025 verða tekin fyrir: Kaflar stjórnarskrár um Alþingi, m.a. um fjárstjórnarvald þess, Alþingiskosningar og dómstóla, þ.e. III. IV. og V. kafli, ákvæði um þjóðkirkjuna, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, og inngangsákvæði, þ.e. I. VI. og VII. kafli og önnur efni sem ekki hafa þegar verið nefnd.

Verklagið er þannig að þegar tillögur eru orðnar nægilega mótaðar á vettvangi formanna verða þær birtar til samráðs. Reglulegt samráð verður haft við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Allt kapp verður lagt á að starfið verði gagnsætt og haft verði víðtækt samráð við almenning. Leitað verður leiða til að virkja almenning til þátttöku, meðal annars með rökræðukönnunum. 

Leitast verður við að ná sem breiðastri samstöðu um tillögur áður en gengið verður frá þeim til framlagningar á Alþingi. Ef samstaða næst ekki girðir það ekki fyrir að þær verði lagðar fram af breiðum meirihluta. Sérfræðingar verða kallaðir til starfa eftir þörfum. Ljóst er að viðfangsefnin hafa fengið mjög mismikla umfjöllun í samfélaginu á undanförnum árum og því ólíkt eftir viðfangsefnum hvaða gögn unnið er með. Sum kalla á mikla vinnu m.a. ráðgjöf sérfræðinga, en önnur eru lengra komin.

Frumvarp/frumvörp verður svo lagt fram á Alþingi á síðasta haustþingi kjörtímabils.

Verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar er Unnur Brá Konráðsdóttur.

Almenningssamráð

Stjórnarskrárendurskoðun 2018

Síðast uppfært: 6.1.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum