Hoppa yfir valmynd
Lokið

Framvinda verkefnisins

Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 6. júní 2019. Heilbrigðisráðherra í samvinnu við stjórnendur heilbrigðisstofnana efndi til opinna kynningarfunda í öllum heilbrigðisumdæmum landsins þar sem stefnan var kynnt og rætt um hvernig best megi standa að innleiðingu hennar. Heilbrigðisstefnan var gefin út á skýrsluformi og er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins. Heilbrigðisráðherra leggur árlega fyrir Alþingi fimm ára aðgerðaáætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu og var það gert í þriðja sinn í júní 2021.

Frá því að heilbrigðisstefnan var samþykkt hefur fjölmörgum stefnumarkmiðum hennar verið náð, líkt og ítarlega er fjallað um 8. kafla fyrrnefndrar aðgerðaáætlunar.

Meðal markmiða heilbrigðisstefnunnar er að skapa heildrænt kerfi sem ætlað er að tryggja samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni og gæta að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í heilbrigðisstefnu er einnig kveðið á um að löggjöf um heilbrigðisþjónustu skuli vera skýr og kveða afdráttarlaust á um hlutverk heilbrigðisstofnana og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu og hvernig samskiptum þeirra skuli háttað. Í samræmi við þetta lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020. Með lagabreytingunni hefur heilbrigðisþjónusta verið skilgreind þannig að henni er skipt í þrjú stig, þ.e. fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Auk þess er í lögunum kveðið skýrar á um  hlutverk og ábyrgðarsvið heilbrigðisstofnana og einnig að á öllum heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur skuli starfa sameiginleg fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks á viðkomandi stofnun. Í framhaldi af nýjum heilbrigðislögum var sett ný reglugerð sem skilgreinir hlutverk þjónustuveitenda í heilbrigðiskerfinu. Þar eru m.a. hlutverk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri skilgreind með tilliti til þarfa landsbyggðarinnar fyrir sérgreinaþjónustu. Markmiðið er að jafna aðgengi landsmanna að þjónustunni og að hún sé veitt í eins miklum mæli í heimabyggð og mögulegt er.

Í júní 2020 samþykkti Alþingi frumvarp heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um sjúkratryggingar. Lagabreytingarnar eru liður í framkvæmd heilbrigðisstefnu. Meðal annars voru gerðar breytingar á stjórn Sjúkratrygginga Íslands og eftirlitsheimildir hennar með starfsemi samningsaðila og veitendum heilbrigðisþjónustu auknar, með áherslu á aukið öryggi og skilvirkni.

Í samræmi við heilbrigðisstefnu hefur heilbrigðisráðherra efnt til heilbrigðisþings ár hvert. Mótun heilbrigðisstefnu var viðfangsefni heilbrigðisþings 2018. Árið 2019 var fjallað um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu og var afrakstur þess tillaga til þingsályktunar þar að lútandi sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020. Heilbrigðisþing 2020 var helgað umfjöllun um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu og í framhaldi af því skipaði heilbrigðisráðherra sérstakt landsráð sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á breiðum grundvelli um þessi mál. Heilbrigðisþing 2021 verður helgað umfjöllun um heilbrigðisþjónustu við aldraða og stefnumótun á því sviði og verður það haldið 20. ágúst næstkomandi.

Vinnu við framkvæmd heilbrigðisstefnu til ársins 2030 verður haldið markvisst áfram á grundvelli fimm ára aðgerðaáætlana sem uppfærðar eru ár hvert, líkt og gert hefur verið frá því að stefnan var samþykkt.

Ábyrgð

Heilbrigðisráðuneytið

Kafli

Sterkt samfélag

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum